Mál nr. 28/2008
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 28/2008.
1.
Málsatvik og kæruefni.
Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2008, var kæranda, A, tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils og að honum væri synjað um varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta hjá Atvinnuleysistryggingasjóði meðan hann leitaði að atvinnu í öðru EES-landi. Umboðsmaður kæranda kærði niðurstöðu Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða fyrir hans hönd með bréfi, dags. 12. nóvember 2008. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur sem atvinnuleitandi í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Hann krefst greiðslu bóta frá 15. ágúst 2008 en þann dag skráði hann sig atvinnulausan í Danmörku. Vinnumálastofnun hafnar kröfum kæranda og telur rétt að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að kærandi eigi engan rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta og þar með eigi hann engan rétt til að fá varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta hjá Atvinnuleysistryggingasjóði meðan hann leitar að atvinnu í öðru EES-landi.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í óskráðri sambúð veturinn 2007–2008 og þegar leið á árið 2008 lá fyrir að sambýliskona hans myndi hefja nám í Danmörku haustið 2008. Kærandi starfaði hjá X ehf. frá 28. apríl til 26. júlí 2008 er hann sagði sjálfur upp störfum. Í byrjun ágúst 2008 flutti kærandi ásamt sambýliskonu sinni til Danmerkur en þau skráðu sambúð sína þar þann 25. september 2008. Að sögn kæranda hafði hann leitað nokkrum sinnum til Vinnumálastofnunar áður en hann flutti út en fengið þau svör að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hann dveldi erlendis við atvinnuleit.
Kærandi sótti 1. október 2008 um atvinnuleysisbætur og svokallað E 303 vottorð en í slíku vottorði felst staðfesting Vinnumálastofnunar á bótarétti atvinnuleitanda í íslenska atvinnuleysistryggingakerfinu svo að staða hans sé styrkari í atvinnuleysistryggingakerfum annarra aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 1. og 4. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi viðurkenndi í umsókn sinni að samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar ætti hann ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta eða útgáfu E 303 vottorðs. Hann taldi hins vegar starfsmenn Vinnumálastofnunar hafa brotið á leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart honum með þeim afleiðingum að hann ætti rétt á hvoru tveggja. Þannig hafi hann leitað til Vinnumálastofnunar á R nokkru fyrir brottför sína í ágúst 2008 en þar hafi honum verið sagt að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum meðan hann dveldi úti við atvinnuleit. Honum hafi ekki verið sagt að í 2. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri að finna undantekningu á framangreindri meginreglu, en hefði honum verið sagt það hefði hann skráð sig og sambýliskonu sína í sambúð áður en þau fóru frá Íslandi. Einnig hefði hann sótt um atvinnuleysisbætur áður en hann flutti til Danmerkur og þá átt möguleika á því að halda áfram á bótum.
Með bréfi til kæranda, dags. 27. október 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun þá ákvörðun sína að með hliðsjón af vinnuveitandavottorði frá X ehf. væri réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í sama bréfi Vinnumálastofnunar var kæranda tilkynnt að varðandi umsókn á E 303 vottorði sem fylgt hafi bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 1. október 2008, skuli umsækjandi uppfylla skilyrði VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar til að fá gefið út slíkt vottorð. Vitnað er til b-liðar 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem er tryggður samkvæmt lögunum og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda hafi hann uppfyllt skilyrði laganna á að minnsta kosti fjórum næstliðnum vikum fyrir brottfarardag. Einstaklingur sem sé án bóta við brottför sé því ekki talinn eiga rétt á E 303 vottorði. Enn fremur kom fram í áðurnefndu bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2008, að til að njóta undanþáguheimildar í 2. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um heimild til styttingar á fjöggurra vikna frestinum þurfi einstaklingur að vera skráður maki eða sambúðarmaki. Ekki sé hægt að verða sér úti um rétt með sambúðarskráningu eftir á.
Í kæru umboðsmanns kæranda, sem móttekin var 13. nóvember 2008, kom meðal annars fram að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið ruglingsleg þar sem hún hafi grundvallast á því að hann byggi bæði hérlendis og erlendis. Bent var á að kærandi hafi leitað eftir upplýsingum á skrifstofu Vinnumálastofnunar á R áður en hann flutti út til Danmerkur en að honum hafi verið tjáð að hann ætti engan bótarétt hér á landi þar sem hann var þá ekki orðinn atvinnulaus og hafi þar að auki sjálfur sagt upp störfum. Hann yrði einfaldlega að skrá sig þegar hann kæmi út, sem og hann gerði, en þar átti hann heldur ekki rétt. Umboðsmaður kæranda ítrekaði fyrri skýringar sínar með bréfi sem móttekið var 12. desember 2008 en í því bréfi kom meðal annars fram að kærandi hafi farið við annan mann til Vinnumálastofnunar á R og því væri það ekki bara orð gegn orði að starfsmenn Vinnumálastofnunar hafi brotið á leiðbeiningarskyldu sinni, heldur orð gegn orðum.
Eftir að kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 13. nóvember 2008 leitaði nefndin eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til málsins. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2009, kemur fram að það sé umdeilt hvort leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafi verið gætt í máli þessu en gögnin leiði það ekki í ljós með afgerandi hætti heldur standi orð gegn orði. Ljóst sé að þegar kærandi kom upphaflega á skrifstofu Vinnumálastofnunar hafi aðstæður hans verið með þeim hætti að hann uppfyllti ekki þau skilyrði sem lög setja til töku atvinnuleysisbóta erlendis þar sem hann hafi hvorki verið skráður í sambúð né skráður atvinnulaus.
Í fyrrnefndu bréfi Vinnumálastofnunar kemur einnig fram að kærandi byggi kröfu sína á því að réttur hans til atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 42. laga um atvinnuleysisbætur hafi skapast með skráningu hans í sambúð erlendis og umsóknar um atvinnuleysisbætur þar. Það sé því ljóst að tilgangur kæranda sé að skapa sér rétt eftir á enda sé ekki gert ráð fyrir því nema í ákveðnum undantekningartilfellum að atvinnuleysistryggingasjóður greiði út bætur til handa tryggðum sem dvelja erlendis við atvinnuleit. Þá segir í umræddu bréfi að það þyki ljóst að rétt meðferð Vinnumálastofnunar hefði verið að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 1. október 2008 af þeirri ástæðu að hann var búsettur erlendis og því hafi ekki myndast réttur til töku atvinnuleysisbóta á Íslandi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysisbætur.
2.
Niðurstaða.
Eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanns er að hann sé búsettur hér á landi, sbr. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur á Íslandi eftir að hann hafði flutt búferlum til Danmerkur. Þegar af þeirri ástæðu bar að hafna umsókninni nema knýjandi rök leiddu til annarrar niðurstöðu. Það gerði Vinnumálastofnun ekki og tók ákvörðun eins og kærandi væri búsettur á Íslandi, sbr. reglu 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um 40 daga biðtíma. Þessi afgreiðsla málsins var í andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og ruglingsleg eins og umboðsmaður kæranda benti á.
Sé komist að þeirri niðurstöðu að launamaður uppfylli ekki skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum þá getur hann heldur ekki átt rétt á svokölluðu E 303 vottorði.
Ekki verður séð að Vinnumálastofnun hafi kannað hvort leiðbeiningarskylda hafi verið brotin á kæranda með þeim hætti að hann ætti rétt til atvinnuleysisbóta og útgáfu E 303 vottorðs áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Full ástæða var þó til að rannsaka þetta þar sem umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur byggðist á þessari forsendu. Að þessu leyti er málsmeðferð Vinnumálastofnunar aðfinnsluverð.
Kærandi hefur fullyrt að leiðbeiningarskylda hafi verið á sér brotin. Vinnumálastofnun hefur fyrir úrskurðarnefndinni haldið því fram að fullyrðingar kæranda séu ósannaðar. Jafnframt hefur stofnunin haldið því fram að starfsmaður stofnunarinnar hafi tjáð kæranda að skráð atvinnuleysi væri skilyrði fyrir útgáfu E 303 vottorðs og hann gæti ekki sótt um undanþágu frá b-lið 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á grundvelli 2. mgr. sömu greinar þar sem hann hafi ekki verið í skráðri sambúð þegar hann leitaði til Vinnumálastofnunar.
Ekki hefur verið leitt í ljós hvenær kærandi kom á skrifstofu Vinnumálastofnunar til að afla sér upplýsinga um réttarstöðu sína. Kærandi hætti störfum í lok júlí 2008 og hafði skráð sig hjá atvinnumiðlun í Danmörku um miðjan ágúst sama ár. Til þess að fá atvinnuleysisbætur á Íslandi og fá E 303 vottorð hefði kærandi þurft að uppfylla margvísleg skilyrði. Þegar virt er hversu skammur tími leið frá brotthvarfi hans úr starfi á Íslandi og þar til hann skráði sig í Danmörku verður ekki séð að hann hafi með góðu móti getað uppfyllt öll þau skilyrði sem lög um atvinnuleysistryggingar tiltaka fyrir rétti til atvinnuleysisbóta annars vegar og útgáfu E 303 vottorðs hins vegar. Í ljósi þess hvernig skráningu á atvinnu- og sambúðarmálum kæranda fyrir brottför hans til Danmerkur var háttað var vart ástæða fyrir starfsmenn Vinnumálastofnunar til að veita honum ítarlegar leiðbeiningar um skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta og mögulegs réttar hans til að fá E 303 vottorð útgefið.
Með hliðsjón af framangreindu hefur ekki verið sýnt fram á að leiðbeiningarskylda hafi verið brotin í máli þessu. Því er fallist á kröfur Vinnumálastofnunar í málinu. Í því felst annars vegar að sú ákvörðun stofnunarinnar að samþykkja rétt kæranda til atvinnuleysisbóta að liðnum 40 dögum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og hins vegar er synjun Vinnumálastofnunar um útgáfu E 303 vottorðs til handa kæranda staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að samþykkja rétt kæranda til atvinnuleysisbóta að liðnum 40 dögum frá móttöku umsóknar er felld úr gildi. Kærandi á ekki rétt til atvinnuleysisbóta.
Synjun Vinnumálastofnunar um útgáfu E 303 vottorðs til handa kæranda er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson