Mál nr. 131/2021 Úrskurður 12. október 2021
Mál nr. 131/2021 Eiginnafn: Hel (kvk.)
Hinn 12. október 2021 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 131/2021, en erindið barst nefndinni 15. september 2021.
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Eiginnafnið Hel tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Heljar. Nafnið brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.
Í málinu reynir á síðastnefnda skilyrðið hér að ofan um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama (3. mgr. 5. gr. laganna). Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að það séu auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi, svo sem nöfn eins og Þrjótur, Hel og Skessa. Í þessu sambandi er ástæða til að benda á það, sem áréttað er í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7099/2020, að
[f]yrirkomulag laga[ um mannanöfn, nr. 45/1996,] er með þeim hætti að samþykki mannanafnanefnd að tiltekið nafn fari á mannanafnaskrá, svo sem vegna beiðni einstaklings um nafnbreytingu, er öllum frjálst að gefa börnum sínum umrætt nafn og fullorðnum að taka það upp. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að heimild til að bera tiltekið eiginnafn sé háð aldri, trúar- eða lífsskoðunum þess sem í hlut á eða að nefndin geti byggt úrskurð sinn á slíkum sjónarmiðum.
Í greinargerð með lögunum er jafnframt bent á að ákvæðið um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé vandmeðfarið þar sem erfitt sé að leggja hlutlægt mat á ama. Enn fremur segir þar að besta tryggingin fyrir því að jafnræðis borgaranna sé gætt við framkvæmd ákvæðisins sé að því sé beitt mjög varlega. Ekki séu rök til að beita ákvæðinu „gegn gælunöfnum eða á grundvelli nafnformsins eins“, heldur sé eðlilegt að „ákvæðinu sé því aðeins beitt að telja megi merkingu nafns neikvæða eða óvirðulega.“
Eins og fram kom hér á undan er nafnið Hel dæmi um nafn sem talið er geta orðið nafnbera til ama í greinargerð með núgilandi lögum um mannanöfn. Samkvæmt Íslenskri orðabók (5. útg. frá 2010) merkir sérnafnið Hel ‘gyðja dauðaríkisins’ í (norrænni) goðafræði og samnafnið hel ‘ríki dauðra, bani, dauði’. Þess vegna er ljóst að nafnið Hel hefur neikvæða og niðrandi merkingu í málvitund almennings og getur orðið nafnbera til ama.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Hel (kvk.) er hafnað.