Hoppa yfir valmynd

Nr. 406/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 406/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20100030

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. október 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. október 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi í fyrsta sinn þann 8. október 2013. Þann 27. nóvember 2013 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og að honum skyldi vísað frá landinu. Þann 15. apríl 2014 staðfesti innanríkisráðuneytið þá ákvörðun Útlendingastofnunar. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fluttur til Ítalíu þann 5. júní 2014. Þann [...] 2015 höfðaði kærandi mál gegn íslenska ríkinu og Útlendingastofnun og krafðist þess að fyrrnefnd ákvörðun Útlendingastofnunar yrði felld úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] 2016 í máli nr. [...] voru íslenska ríkið og Útlendingastofnun sýknuð af kröfum kæranda.

Kærandi kom aftur til landsins þann 12. maí 2019 og sótti um alþjóðlega vernd að nýju þann sama dag. Með ákvörðun, dags. 11. september 2019, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Ítalíu á grundvelli 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 1. október 2019. Með úrskurði kærunefndar, dags. 16. janúar 2020, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Þann 20. maí 2020 féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans, dags. 9. maí, í ljósi ástandsins sem hafði skapast vegna Covid-19 faraldursins og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til efnislegrar meðferðar.

Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 1. júlí 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. október 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 27. október 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 11. nóvember 2020. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að honum yrði gefinn kostur á að mæta fyrir nefndina og gera grein fyrir máli sínu. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna fjölskyldudeilna, trúarbragða sinna og vegna starfa hans fyrir írakskt öryggisfyrirtæki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. júlí 2020. Þar hafi kærandi greint frá því að hann sé Kúrdi frá [...] í Írak. Kærandi hafi fæðst inn í íslamstrú en hann hafi snúið baki við trúnni. Hann hafi tekið upp kristna trú þegar hann hafi verið í Hollandi en hann líti einnig á sig sem trúleysingja. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hafi fengið hótanir og sé í hættu í heimaríki sökum þess að hann hafi komist yfir leyndarmál í starfi hjá öryggisfyrirtæki.

Kærandi vísar í greinargerð sína til Útlendingastofnunar, dags. 23. júlí 2020, hvað varðar almennar aðstæður í Írak og aðstæður einstaklinga þar í landi sem hafi snúið baki við íslamstrú.

Aðalkrafa kæranda um að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er í fyrsta lagi byggð á því að hann hafi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki á grundvelli trúarbragða, sbr. ákvæði b-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Hann hafi snúið baki við íslamstrú og eigi af þeim sökum hættu á að verða fyrir ofbeldi eða tekinn af lífi. Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar á því að hann eigi ekki á hættu ofsóknir í Kúrdistan vegna framangreinds og vísar því til stuðnings m.a. til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 502/2018 frá 22. nóvember 2018, þar sem trúlausum manni frá Kúrdistan hafi verið veitt alþjóðleg vernd. Kærandi byggir aðalkröfu sína í öðru lagi á því að hann búi yfir leynilegum upplýsingum vegna starfa sinna fyrir írakskt öryggisfyrirtæki. Eigi hann þannig á hættu ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt, þ. á m. um stöðu trúleysingja og kristinna einstaklinga í Kúrdistan.

Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Til að mynda gerir kærandi athugasemd við að stofnunin hafi ekki lagt til grundvallar að hann sé trúlaus eða rökstutt af hverju vikið hafi verið frá því fordæmi sem sett hafi verið í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar. Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun um að hann hafi ekki ekki getað tilgreint nafn fyrirtækisins sem hann hafi starfað fyrir eða hvaða aðilar innan fyrirtækisins hafi staðið í hótunum við hann. Kærandi telji, í ljósi þess að tekið hafi verið viðtal við hann að talsmanni fjarstöddum, að fulltrúa Útlendingastofnunar hefði borið að veita honum frekari stuðning og leiðbeiningar við öflunar upplýsinga og gagna í málinu en gert hafi verið. Frásögn hans af starfsemi fyrirtækisins hafi verið ítarleg og í samræmi við opinberar upplýsingar. Þá hafi hann gefið upp heimilisfang fyrirtækisins. Verði því ekki við hann að sakast að fyrrgreindar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við töku ákvörðunar hjá Útlendingastofnun.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands síns. Lífsskoðanir kæranda fari gegn siðferðislegum viðmiðum samfélagsins í Írak og eigi hann því á hættu að verða fyrir fordómum, mismunun, ofbeldi og útskúfun. Þá telji kærandi að síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi einnig við þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði hann sendur aftur til heimaríkis. Í því sambandi áréttar kærandi að afstaða Flóttamannastofnunar sé að ekki skuli vísa nokkrum Íraka, sem komi frá svæðum undir áhrifum stríðsátaka, undir stjórn ISIS eða teljist óöruggt eftir að hafa losnað undir stjórn samtakanna, aftur til heimaríkis gegn vilja þeirra. Með vísan til landaupplýsinga telji kærandi ljóst að heimahérað hans, [...], sé eitt af þeim svæðum sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi lagst gegn endursendingum til. Kærandi sé flóttamaður og með því að senda kæranda til Íraks yrði brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, en reglan sé lögfest í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu kæranda er sú krafa gerð til þrautavara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, þar sem meira en 18 mánuðir séu liðnir frá því að hann sótti um alþjóðlega vernd. Í umræddu ákvæði komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærandi telji að skilyrðin séu uppfyllt í tilviki hans. Kærandi heldur því jafnframt fram að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um mál hans.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað íröksku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé írakskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, maí 2020);
  • Country Policy and Information Note - Iraq: Religious minorities (UK Home Office, október 2019);
  • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 17. ágúst 2020);
  • EASO - Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (EASO, nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Iraq – Security Situation (EASO, Október 2020);
  • Freedom in the World 2019 - Iraq (Freedom House, 8. apríl 2020);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);
  • Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);
  • Iraq: Apostasi og ateisme (Landinfo, 29. ágúst 2018); Iraq - Security situation. EASO Country of Origin Information Report (EASO, 1. mars 2019);
  • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
  • Iraq: Information on the treatment of atheists and apostates by society and authorities in Erbil; state protection available (Immigration and Refugee Board of Canada, 2. september 2016);
  • Iraq: Requirement and procedures to obtain a police report in Kurdistan, both within the country and abroad; information on submitting a police complaint in the Kurdistan Region of Iraq; whether the police produces a written report when a complaint is made in person at a police station (2016-2017) (Immigration and Refugee Board of Canada, 26. apríl 2017);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Kurdistan Region of Iraq (KRI) - Report on issuance of the new Iraqi ID card (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
  • Northern Iraq - Security situation and the situation for internally displaced persons (IDPs) in the disputed areas, incl. possibility to enter and access the Kurdistan Region of Iraq (KRI) (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • Thematic report: The Security Situation in Iraq July 2016-November 2017 (version 4.0) (Migrationsverket, 18. desember 2017);
  • The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitarian Situation (Danish Immigration Service, 1. apríl 2016);
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
  • The World Factbook (Central Intelligence Agency, uppfært 11. nóvember 2020) og
  • Vefsíða European Asylum support office (https://www.aso.europa.eu/country-guidance-iraq/dahukdohuk, sótt 11. nóvember 2020).

Írak er lýðræðisríki með tæplega 39 milljónir íbúa. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í skýrslu Landinfo frá janúar 2016 kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Í skýrslu EASO frá nóvember 2018 kemur fram að samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafi hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá kemur fram í skýrslu UNHCR frá 2019 að dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda hafi framið mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytis frá árinu 2020 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2016 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2017 kemur fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq, KRI). Sjálfstjórnarsvæði Kúrdistan samanstandi af fjórum héruðum (e. governorate); Dohuk, Erbil, Halabja og Sulaymaniyah. Í skýrslu dönsku útlendingaþjónustunnar frá 2016 og skýrslu EASO frá 2018 kemur fram að löggæsla sé mun markvissari í KRI en í suður- og miðhluta Írak. Yfirvöld í Kúrdistan séu í stakk búin til að geta veitt borgurum þess fullnægjandi vernd en að aðgengi að réttarkerfinu geti þó verið háð ýmsum atriðum, svo sem því hver árásaraðili sé. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Þá hafi hersveitum kúrdíska hersins, Peshmerga, tekist að verja svæðið gegn árásum uppreisnarmanna Daesh. Í skýrslu EASO frá 2020 og vefsvæði skrifstofunnar kemur fram að Daesh hafi haft takmarkaða viðveru í Dohuk héraði. Átök við Daesh hafi ekki haft áhrif á öryggisástand í héraðinu, sem sé almennt talið öruggt, og sé lítil hætta fyrir borgara þess að verða fyrir árásum.

Í fyrrgreindri skýrslu UNHCR kemur fram að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli Kúrda og stjórnvalda í Írak. Meðal annars hafi verið deilt um stærð þess svæðis sem lúti sjálfsstjórn Kúrda. Þann 25. september 2017 hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa KRI að tilstuðlan forseta KRI þar sem kosið hafi verið um stofnun sjálfstæðs ríkis KRI. Íröksk stjórnvöld hafi mótmælt atkvæðagreiðslunni og hafi ekki viðurkennt niðurstöður kosninganna. Í skýrslu Freedom House frá árinu 2020 kemur fram að tæplega 93% kjósenda hafi kosið með sjálfstæði en fréttir hafi borist af því að minnihlutahópar á deilusvæðum hafi verið beittir miklum þrýstingi til að kjósa annaðhvort með eða á móti. Í kjölfar kosninganna hafi írakski stjórnarherinn tekið aftur stjórn yfir ytri landamærum Írak innan KRI og landsvæðum sem hafi verið undir stjórn kúrdískra yfirvalda frá árinu 2014, þ. á m. borgina Kirkuk. Þá hafi forseti KRI sagt af sér í nóvember 2017. Áratugum saman hafi tveir stjórnmálaflokkar verið ráðandi í KRI en það séu PUK flokkurinn (e. The Patriotic Union of Kurdistan) og KDP flokkurinn (e. The Kurdistan Democratic Party). Í september 2013 hafi orðið talsverðar breytingar þegar PUK flokkurinn hafi misst stöðu sína sem næststærsti flokkurinn til klofningsframboðsins Gorran (e. The Movement for Change). Í kosningum sem fram fóru þann 30. september 2018 hafi PUK flokkurinn endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn og KDP flokkurinn haldið stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í KRI. Samband PUK flokksins og KDP hafi jafnan verið stirt og einkennst af vantrausti sem og vopnuðum átökum.

Í skýrslu bandarísku utanríkisráðuneytisins frá 2020 um trúfrelsi kemur fram að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslímar og flestir þeirra séu sjía-múslímar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslímar en um 15% íbúa séu súnní-múslímskir Kúrdar og 24% súnní-múslimískir arabar. Íslam, kristni, sabaean-mandean, jasídi og íslam séu einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á írökskum skilríkjum. Einstaklingar sem séu annarrar trúar eða trúlausir geti eingöngu fengið útgefin skilríki ef þeir segist aðhyllast eitthvert framangreindra trúarbragða.

Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í og að litið sé með vanþóknun á trúleysi. Þá kemur fram í skýrslu UK Home Office frá 2019 að einstaklingar sem skipti úr Íslam yfir í aðra trú kunni að mæta erfiðleikum innan síns samfélags og fjölskyldu í Írak, svo sem að verða útskúfað, hótað lífláti eða séu jafnvel drepnir. Mögulegar afleiðingar af trúskiptum séu breytilegar milli ættbálka og einstakra fjölskyldna og séu viðbrögð þeirra oft og tíðum alvarlegri á dreifbýlli svæðum og í öðrum hlutum Írak heldur en í Kúrdistan þar sem stjórnvöld og almenningur séu umburðarlyndari gagnvart einstaklingum sem skipti um trú. Samkvæmt skýrslunni séu engar heimildir um að réttað hafi verið yfir einstaklingum vegna trúskipta þeirra eða trúleysi í KRI og hafi þeir notið stuðnings yfirvalda.

Í skýrslu United States Commission on International Religous Freedom frá 2019 kemur fram að Kúrdistan sé fjöltrúar-samfélag. Flestir íbúar séu múslimar og þeir sem aðhyllist kristna trú myndi stærsta trúarlega minnihlutahópinn. Trúfrelsi sé verndað í drögum að stjórnskrá Kúrdistan, sem samin hafi verið af kúrdíska þinginu, og að það sé almennt virt af kúrdískum stjórnvöldum. Þá bendi drögin til þess að pólitískur vilji sé til þess að styrkja stöðu minnihlutahópa enn frekar á svæðinu en þar sé m.a. að finna ákvæði er verndi rétt fólks til að iðka trú sína sem og annars konar réttindavernd fyrir minnihlutahópa. Brot á trúfrelsi þekkist í Kúrdistan en þau séu hvorki kerfisbundin, viðvarandi né ómannúðleg. Í fyrrgreindri skýrslu Landinfo eru talin upp nokkur dæmi um tilvik á undanförnum árum þar sem stjórnvöld í Kúrdistan og annars staðar í Írak hafa brugðist við trúleysi og gagnrýni á íslam með handtökum og öðru harðræði. Þar kemur jafnframt fram að þótt auðveldara sé fyrir einstaklinga að lýsa yfir trúleysi í Kúrdistan en annars staðar í Írak geti einstaklingar þar jafnframt þurft að þola viðbrögð við trúleysi af hálfu stjórnvalda og annarra aðila. Sambærileg sjónarmið koma fram í skýrslu Immigration and Refugee Board of Canada frá 2016, en af henni má jafnframt ráða að margir trúleysingjar í Kúrdistan vilji ekki opinbera trúarskoðanir sínar af ótta við að vera ofsóttir eða drepnir af öfgahópum eða almenningi á götum úti. Dæmi séu um að fólk sem verði fyrir áreiti vegna trúleysis vilji frekar fara í felur en að leita til lögreglunnar. Þá kemur fram að þrátt fyrir að flestir íbúar Kúrdistan séu múslimar og samfélagið nokkuð íhaldssamt þá séu ekki allir trúræknir og t.a.m. sæki ekki allir múslimar mosku. Í ljósi þess sé ekki sjálfgefið að trúlausir einstaklingar skeri sig úr samfélaginu í Kúrdistan.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Við meðferð málsins hefur kærunefnd jafnframt litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varða kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli trúar (Guidelines on International Protection: Religion-Based Refugee Claims under Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, UN High Commissioner for Refugees, 28. apríl 2004).

Krafa kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þar sem hann hafi komist yfir leyndarmál í starfi hjá öryggisfyrirtæki í Kúrdistan.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi starfað hjá fyrirtækinu, sem hann kvað vera japanskt og kóreskt, við skipulagningu á öryggisvörslu í þrjá mánuði árið 2010. Samviska kæranda hafi ekki leyft honum að verða við beiðni yfirmanns síns um að bera vopn í starfi. Þá hafi hann haft áhyggjur af því að samstarfsmenn hans kæmust að því að hann væri kristinnar trúar þegar Ramadan gengi í garð. Hafi hann því yfirgefið starfsstöð sína og haldið til Grikklands án þess að láta vinnuveitanda sinn eða yfirvöld vita í trássi við ráðningarsamning hans. Í Grikklandi hafi kæranda borist símtal frá aðila sem hafi sagst þekkja kæranda og vita að hann hefði komist yfir leyndamál um óheimilaða olíuleit umrædds fyrirtækis í Írak. Eftir símtalið hafi kærandi talið sig vera í hættu og hafi hann því farið til Ítalíu og þaðan til Íslands.

Að mati kærunefndar var frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun hvað varðar störf hans fyrir framangreint fyrirtæki óskýr og ónákvæm. Gat kærandi ekki svarað spurningum sem eðlilegt þætti að hann gæti upplýst um, s.s. hvert heiti fyrirtækisins væri eða hverja hann óttaðist í heimaríki. Í greinargerð til kærunefndar kemur fram að í kjölfar birtingar hinnar kærðu ákvörðunar hafi kærandi greint talsmanni frá því að umrætt fyrirtæki heiti G.G.F.Z. og starfi undir kínverskri samsteypu að nafni BGP. Þá hafi hann greint talsmanni frá því að hótunin sem honum hafi borist í símtali hafi verið frá öryggissveitum Íraks en ekki fyrirtækinu sjálfu. Ofangreindar skýringar kæranda stangast, í meginatriðum, á við framburð hans í viðtali hjá Útlendingastofnun og þykja þær því ekki til þess fallnar að styðja við frásögn hans af ástæðum flótta frá heimaríki hvað þetta atriði snertir.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem styðja við framangreinda atburðarrás, þ. á m. um að hann hafi starfað fyrir umrætt öryggisfyrirtæki eða borist hótanir vegna leyndarmáls sem hann hafi komist yfir í starfi. Í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að ætlaðir atburðir hafi átt sér stað fyrir um tíu árum síðan er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver gögn um þau atvik sem hann telji leiða til þess að hann sé í hættu í heimaríki. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að frásögn kæranda hvað varðar störf hans fyrir írakskt öryggisfyrirtæki teljist ótrúverðug. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki af vegna starfa sinna fyrir og brottfarar frá fyrirtæki í heimaríki.

Kærandi byggir aðalkröfu sína auk þess á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki sínu vegna trúarskoðana. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi snúið baki við íslamstrú og tekið upp kristna trú í Hollandi árið 2009. Við endurkomu til heimaríkis, síðar það sama ár, hafi kærandi ekki tjáð fjölskyldu sinni eða öðrum frá trúskiptunum, en hann hafi óttast að samstarfsfélagar sínir kæmust að því að hann væri kristinnar trúar. Þá greindi kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun einnig frá því að hann líti einnig á sig sem engrar trúar, þ.e. trúlausan. Kærandi greindi ekki frá neinu áreiti í sinn garð vegna trúskipta sinna eða trúleysis í Kúrdistan.

Af frásögn kæranda má ráða að trúskipti hans tengdust umsóknarferli hans um alþjóðlega vernd í Hollandi árið 2009. Þá sagðist kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. júlí sl. vera trúlaus. Þó svo að fallist sé á að kærandi iðki ekki íslamska trú og hallist frekar að kristni en íslam bendir ekkert í frásögn hans til þess að kristileg sannfæring hans sé af þeim toga eða á því stigi að hann muni iðka kristna trú í heimaríki að því marki að hann eigi á hættu að verða þar fyrir meðferð sem jafnist á við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur jafnframt að draga megi trúarsannfæringu kæranda í efa í ljósi framburðar hans um að hann sé bæði kristinnar trúar og engrar trúar. Þá sé ekki ástæða til að ætla að vitneskja um ætluð trúskipti eða trúleysi kæranda muni berast eða hafi borist til heimaríkis. Enn fremur gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér, og fjallað er um að ofan, ekki til kynna að kristnir eða trúlausir einstaklingar verði almennt fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda eða samfélagsins í Kúrdistan sem nái því marki að teljast ofsóknir. Þá telur kærunefnd að frásögn kæranda bendi ekki til þess að hann muni skera sig svo úr að hann sé útsettari fyrir áreiti vegna ætlaðra trúskipta en aðrir í hans stöðu og á hans heimasvæði að því marki að hann teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir á grundvelli trúskipta eða trúleysis í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísar kærandi m.a. til þess að kærunefnd útlendingamála hafi, í úrskurði nefndarinnar nr. 502/2018 frá 22. nóvember 2018, veitt trúlausum manni frá Írak alþjóðlega vernd. Af greinargerð má ráða að kærandi telji að sömu verndarsjónarmið eigi við í máli hans. Í fyrrgreindu máli féllst kærunefnd ekki á að aðili ætti á hættu ofsóknir í Kúrdistan á grundvelli trúleysis. Hins vegar taldi kærunefnd, að virtum trúverðugum framburði aðila og framlagðra gagna, að aðilinn, sem hafði neitað að vinna með ríkjandi stjórnmálaafli í Sulamaniyah, ætti á hættu ofsóknir á grundvelli ætlaðra stjórnmálaskoðana, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi leit kærunefnd til þýðingar trúarbragða í samfélagi Kúrda í Írak og þeirra afleiðinga sem það kunni að hafa fyrir aðgengi að réttarkerfinu að aðilinn væri trúlaus. Kærunefnd telur, í ljósi þess og með vísan til niðurstöðu framangreinds trúverðugleikamats, að málsástæður og aðstæður aðila þess máls séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda. Kærunefnd tekur hins vegar undir athugasemdir kæranda á þá leið að Útlendingastofnun hefði átt að fjalla um hvers vegna umræddur úrskurður kærunefndar hefði ekki áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar í þessu máli, enda hafa úrskurðir kærunefndar fordæmisgildi fyrir málsmeðferð, lagatúlkun og viðmið Útlendingastofnunar.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og rakið er í greinargerð kæranda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er brothætt eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn ISIS samtakanna, eða þeim svæðum þar sem ISIS er enn við völd. Þá telur Flóttamannstofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimahérað kæranda, [...], sé á öruggu svæði í KRI. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-liðum 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 12. maí 2019. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 26. nóvember 2020, eru liðnir rúmir 18 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Er því heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að uppfylltum öðrum skilyrðum 74. gr.

Þann 13. nóvember 2020 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um hvort kærandi hafi átt þátt í því að niðurstaða í máli hans hafi ekki fengist innan tímamarka, sbr. d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst 16. nóvember og var það mat stofnunarinnar að tafir á afgreiðslu málsins yrðu ekki raktar til kæranda.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi m.a. fram frumrit íraksks vegabréfs með gildistíma til 10. desember 2020. Verður því talið að ekki leiki vafi á því hver kærandi sé, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laganna Kærunefnd hefur einnig litið til d-liðar 2. mgr. ákvæðisins sem gerir þá kröfu að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að frásögn kæranda hafi að hluta til verið metin ótrúverðug sé skilyrðið, eins og hér stendur á, engu að síður uppfyllt. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. útlendingalaga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Article 74(2) of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate of Immigration related to his application for international protection is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                  Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta