Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 585/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 585/2023

Fimmtudaginn 8. febrúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 1. desember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. nóvember 2023, um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. nóvember 2023, var kæranda synjað um endurhæfingarlífeyri með þeim rökum að fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teldist ekki nægilega ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst þætti hvernig sú endurhæfing sem kæmi fram í áætlun kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. desember 2023. Með bréfi, dags. 13. desember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. desember 2023, tilkynnti Tryggingastofnun að stofnunin hefði fallist á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri og var upphafstími ákvarðaður frá 1. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 2. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar ríkisins. Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir frá kæranda með tölvupósti 14. janúar 2024.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki greitt kæranda framfærslu síðan 1. október 2023. Kærandi hafi verið frá vinnumarkaði vegna slyss og langvarandi streitu. Þann 1. ágúst 2023 hafi hún loks fengið rétta greiningu og meðferð og sjái hún fram á að hún muni fara að vinna aftur vorið 2024. Þar sem kærandi hafi verið í millibilsástandi eftir útskrift frá B og farið yfir til heimilislæknis og taugalæknis þá hafi Tryggingastofnun sagt að hún þyrfti að skila inn fyrirhuguðum tímum hjá sjúkraþjálfara.

Kæranda hafi verið neitað hjá VIRK að svo stöddu og sé að bíða eftir að komast inn á Reykjalund á næstu dögum. Hún sé nýbyrjuð hjá C endurhæfingu og sjái strax miklar framfarir. Hún þurfi sína framfærslu til að halda áfram og geta komist til vinnu vorið 2024.

Tryggingastofnun ríkisins hafi ætlast til að kærandi ætti tíma í framtíðinni hjá sjúkraþjálfara en hún geti staðfest að hún muni mæta til C út janúar eins og segi í endurhæfingaráætlun. Það segi ekki til um að hún sé hjá sjúkraþjálfara í endurhæfingaráætlun svo Tryggingastofnun ætti ekki að fara fram á þá tíma. Kærandi fari fram á að Tryggingstofnun greiði henni tilbaka frá 1. nóvember 2023.

Í athugasemdum kæranda frá 14. janúar 2024 segir að frá 1. nóvember 2023 til 19. desember 2023 hafi kæranda ekki borist framfærsla frá Tryggingastofnun ríkisins. Farið sé fram á að stofnunin greiði henni aðstoð vegna þeirra áhrifa sem það hafi haft, þ.e. að hafa verið án framfærslu í miklum veikindum og miðri endurhæfingu.

Samkvæmt fyrirliggjandi afritum af samskiptum kæranda og Tryggingastofnunar sé ljóst að um misskilining hafi verið að ræða sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Taugalæknir kæranda hafi sent Tryggingastofnun endurhæfingaráætlun sem hafi tiltekið hver staðan væri. Hvergi í áætluninni hafi verið minnst að kærandi sé í umsjón sjúkraþjálfara á því tímabili sem endurhæfingaráætlun hafi átt að endast.

Í bréfi Tryggingstofnunar hafi verið farið fram á upplýsingar um fyrirhugaða tíma hjá sjúkraþjálfara og hver næstu skref væru hjá sjúkraþjálfara.

Þar sem kærandi hafi ekki haft framfærslu þennan tíma hafi kæranda ekki verið gert kleift að sækja endurhæfingu. Hún hafi þurft að fá lán sem hún sjái sér ekki fært um að greiða og allir reikningar hafi verið sendir í innheimtu. Kærandi hafi greitt samtals 43.119 kr. í innheimtuþjónustu, að frátöldum lánum og skammtímalánum.

Kærandi sé nú byrjuð hjá Reykjalundi og komið hafi í ljós að staða hennar sé miklu verri en haldið hafi verið og möguleiki sé á að endurhæfingu verði frestað og að sótt verði um örorku vegna alvarleika málsins. Ekki nóg með það heldur hafi Tryggingstofnun ekki greitt til skatts af fyrstu greiðslum til kæranda frá 1. júlí til 1. október 2023 og hafi hún fengið um það bil 45.000 kr. lægra greitt frá þeim. Kærandi sé ekki viss hvort barnabætur árið 2024 muni skerðast vegna þess sem væri virkilega skaðlegt fyrir einstakling í svona stöðu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. desember 2023 kemur fram að kæran varði synjun á umsókn um endurhæfingarlífeyri.

Kærandi hafi sent inn ný gögn og hafi stofnunin í kjölfarið samþykkt umsóknina þann 19. desember 2023 frá 1. nóvember 2023 til 29. febrúar 2024. Áður hafi endurhæfingarlífeyrir verið samþykktur frá 1. júlí 2023 til 31. október 2023, kærandi hafi því þegið endurhæfingarlífeyri frá 1. júlí 2023.

Þar sem ekki sé lengur ágreiningur til staðar, fari Tryggingastofnun ríkisins fram á við úrskurðarnefnd velferðarmála að málinu verði vísað frá.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. nóvember 2023, um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri. Undir rekstri málsins tók stofnunin nýja ákvörðun, dags. 19. desember 2023, þar sem fallist var að greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. nóvember 2023 til 29. febrúar 2024.

Í kæru segir að kærandi fari fram á að Tryggingstofnun greiði henni endurhæfingarlífeyri frá 1. nóvember 2023. Í athugasemdum frá 14. janúar 2024 segir kærandi að henni hafi ekki borist framfærsla frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 1. nóvember 2023 til 19. desember 2023. Farið sé fram á að stofnunin greiði henni aðstoð vegna þeirra áhrifa sem það hafi haft en allir reikningar hennar hafi verið sendir í innheimtu. Auk þess greinir kærandi frá því að Tryggingstofnun hafi ekki greitt skatt af fyrstu greiðslum til kæranda frá 1. júlí til 1. október 2023.

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segir að úrskurðarnefndin skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveði á um málskot til nefndarinnar. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar séu á grundvelli laganna. Einnig segir í 14. gr. laga nr. 99/2007 að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Af framangreindu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála er bundið við stjórnvaldsákvarðanir sem Tryggingastofnun tekur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur samþykkt umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri frá því tímamarki sem hún óskaði eftir. Ekki er uppi ágreiningur um þá niðurstöðu en af málatilbúnaði kæranda má ráða að hún vilji fá viðbótargreiðslur vegna þess að Tryggingastofnun synjaði upphaflega umsókn hennar. Þá gerir kærandi athugasemdir við skattalega meðhöndlun greiddra bóta.

Með hliðsjón af framangreindu virðist ekki vera ágreiningur um neina stjórnvaldsákvörðun sem Tryggingastofnun hefur tekið samkvæmt lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð. Ákvarðanir um skattalega meðhöndlun greiðslna eiga ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá verður ekki séð að kærandi hafi beint kröfu að Tryggingastofnun um viðbótargreiðslur vegna þeirra áhrifa sem upphafleg synjun hafði. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta