Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 96/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 96/2013.

 

1.      Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 25. ágúst 2013, fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsóknin hafi verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá Reykjavíkurborg sé réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknarinnar. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 12. september 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í fyrsta sinn 14. júní 2013. Í vottorði vinnuveitanda, útgefnu af Reykjavíkurborg f.h. B kemur fram að kærandi hafi starfað hjá borginni frá 1. júlí 2010 til 27. mars 2013. Ástæða starfsloka var tilgreind í vottorðinu sem eigin uppsögn kæranda. Með umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur fylgdu skýringar hennar á uppsögn hjá B. Ástæðurnar hafi meðal annars verið framkoma yfirmanns hennar, hann hafi komið mjög illa fram við hana og valdið henni mikilli vanlíðun. Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 13. ágúst 2013, þar sem henni var gerð grein fyrir hugsanlegum afleiðingum þess að hún hafi sjálf sagt upp störfum og henni jafnframt gefinn kostur á að koma frekari skýringum á framfæri. Kærandi nýtti sér það ekki.

Fram kemur í kæru að kærandi telji sig ekki eiga sök á því að hún hafi neyðst til þess að segja upp starfi sínu við B. Hún hafi hafið störf þar í desember árið 2007. Henni hafi líkað afar vel að vinna þar eða alveg þangað til nýr leikskólastjóri hafi tekið til starfa árið 2012. Allt samstarf hafi gengið vel fram að því. Fljótlega eftir að nýi leikskólastjórinn hafi tekið til starfa hafi hún farið að koma illa fram við kæranda og lagt hana í einelti. Hafi það helst verið þegar engir aðrir hafi verið viðstaddir. Hafi fleiri starfsmenn sömu sögu að segja. Kærandi hafi verið farið að líða það illa undir stjórn leikskólastjórans að hún hafi orðið að gera eitthvað í málinu og eina leiðin sem hún hafi séð hafi verið að segja upp. Nú séu nokkrir starfsmenn í sambandi við stéttarfélag sitt vegna framkomu leikskólastjórans og hafi fleiri starfsmenn en kærandi hætt störfum við leikskólann vegna leikskólastjórans. Áður en þessi leikskólastjóri hafi tekið við hafi verið lítil starfsmannavelta, fólki hafi líkað vel að vinna þar. Eftir að nýi leikskólastjórinn hafi tekið við hafi starfsmannaveltan aukist mikið. Fólk hafi ekki treyst sér til þess að vinna undir hennar forsjá. Tölur varðandi starfsmannaveltu megi væntanlega nálgast hjá starfsmannahaldi Reykjavíkurborgar.

Kærandi kveðst ekki telja sig hafa brotið neitt af sér í starfi, heldur hafi hún neyðst til þess að segja upp vegna andlegrar vanlíðunar sem hún hafi ekki getað afborið lengur og hafi eingöngu verið afleiðing ömurlegrar framkomu leikskólastjórans í hennar gerð. Aðstæður í leikskólanum hafi því miður verið orðnar þannig að þetta hafi verið eina færa leiðin fyrir kæranda eins og á hafi staðið.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. nóvember 2013, er vísað til 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í áðurnefndu frumvarpi segi meðal annars að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggja að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum, séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun áréttar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir eru og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segja upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi orðalagið „gildar ástæður“ verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi verið felld þar undir. Ágreiningur milli launamanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma, aðstæður á vinnustað o.s.frv. flokkist ekki sem gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna að mati Vinnumálastofnunar.

Varðandi ástæður kæranda fyrir uppsögninni bendir Vinnumálastofnun á að í þeim tilvikum þegar óánægja starfsmanns með vinnuumhverfi sitt er ástæða starfsloka, þurfi sá er hlut eigi að máli a.m.k. að hafa gert tilraunir til úrbóta áður en hann tekur ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Af gögnum málsins sé ekki að sjá að kærandi hafi reynt að leita úrbóta á aðstæðum á vinnustað enda liggi ekki fyrir að hún hafi leitað til stéttarfélags síns, vinnueftirlitsins eða annarra aðila sem gætu hafa gripið inn í þær aðstæður sem voru til staðar á vinnustað hennar. Vinnumálastofnun telji því að ástæður þær er kærandi gefi fyrir uppsögn sinni teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og var henni gefin kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. nóvember 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.      Niðurstaða

 Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009 og 9. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Að sögn kæranda var ástæða uppsagnar hennar sú að nýr leikskólastjóri sem kom til starfa á B, þar sem hún starfaði, kom illa fram við hana og lagði hana í einelti. Ekki kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi gert tilraun til þess að færa hluti til betri vegar eða leitað aðstoðar stéttarfélags eða annarra aðila þannig að mögulegt hefði verið að koma til móts við athugasemdir hennar og aðfinnslur. Kærandi sagði sjálf upp starfi sínu hjá B, án þess að vera með annað starf í hendi. Henni má hafa verið það ljóst að með því að segja starfi sínu lausu gæti verið erfiðleikum bundið að fá annað starf og líta beri til þess að heppilegra hefði verið fyrir kæranda að reyna að útvega sér annað starf áður en hún sagði starfi sínu lausu.

Með vísan til framanritaðs og röksemda sem færðar hafa verið fram fyrir hinni kærðu ákvörðun af hálfu Vinnumálastofnunar, er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu hafi ekki verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ber því að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. ágúst 2013 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

           

 

 

 

 

                                  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta