Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 55/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 3. janúar 2012 fjallað um fjarveru hans á boðað námskeið. Vegna þess að kærandi uppfyllti ekki mætingarskyldu á námskeið var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði frá og með 4. janúar 2012 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr., sbr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 5. mars 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. október 2009. Kæranda var sent bréf, dags. 12. október 2011, þar sem hann var boðaður á námskeiðið „Virk skref“ og í því boði var vakin sérstök athygli á því að það gæti valdið niðurfellingu á greiðslum atvinnuleysisbóta ef atvinnuleitandi hafnar úrræðum Vinnumálastofnunar eða sinnir ekki mætingarskyldu á námskeiðið. Kærandi sendi stofnuninni tölvupóst 17. október 2011 þar sem hann segist ekki geta mætt á námskeiðið þar sem hann sé að vinna að því að koma á tengslum milli íslenskra fyrirtækja og fyrirtækja í LíbíuB. Sú vinna taki mikinn tíma og að hann þurfi því að vera til taks hvenær sem er sólarhrings. Kæranda var tilkynnt sama dag með tölvupósti starfsmanns Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur gætu ekki fengið undanþágur frá því að mæta í boðað úrræði eða atvinnuviðtal nema að hafa fengið samþykkt verkefni „Eigið frumkvöðlastarf“. Var kæranda jafnframt leiðbeint um hvað fælist í slíku verkefni og hvernig hann gæti sótt um það.


Þann 1. desember 2011 var farið yfir mætingar á námskeiðið „Virk skref“ og hafði kærandi ekki mætt í neitt skipti á námskeiðið. Var kæranda í kjölfarið sent bréf, dags. 8. desember 2011, þar sem honum var boðið að skila skýringum á því hvers vegna hann sinnti ekki mætingarskyldu á námskeiðið „Virk skref“. Skýringarbréf kæranda barst stofnuninni 14. desember 2011 ásamt afriti af umsókn hans um „Eigið frumkvöðlastarf“. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 20. desember 2011 og skýringar hans ekki metnar gildar. Var tekin sú ákvörðun að fella niður rétt kæranda til bóta frá og með 21. desember 2011 í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, en kærandi hafði sætt niðurfellingu bóta áður með ákvörðun, dags. 9. mars 2011. Kæranda var tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 21. desember 2011. Í kjölfar þess óskaði kærandi eftir endurupptöku á máli sínu í tvígang en í bæði skipti var beiðni hans hafnað, sjá bréf dags. 4. janúar og 29. febrúar 2012. Í öllum bréfum Vinnumálastofnunar var kæranda jafnframt leiðbeint um heimild sína til að krefjast endurupptöku málsins fyrir viðkomandi stjórnvaldi, rétti sínum til skriflegs rökstuðnings fyrir ákvörðun stofnunarinnar sem og um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Í kæru kemur fram að rökstuðningur kæranda fyrir því að hafa ekki getað mætt á boðuð námskeið sé sá að í júlí 2009 hafi hann greinst með sykursýki. Hún hafi uppgötvast þegar kærandi hafi skyndilega fengið blæðingar inn á augun og misst að miklu leyti sjónina. Kærandi hafi verið í stífu eftirliti og leysiaðgerðum hjá augnlækni og sé enn í meðferð hjá honum. Kærandi hafi fengið einhvern bata en það komi samt blæðingar af og til og meðan þær séu sem verstar þá missi hann að miklu leyti sjónina á meðan blæðing hreinsast í burtu, en það geti tekið nokkrar vikur við hverja blæðingu. Þetta hafi valdið því að kærandi hafi átt mjög erfitt með alla tölvuvinnu, lestur og skrift og því ekki treyst sér til að mæta á boðuð námskeið því á þessum námskeiðum sé alltaf einhver tölvuvinna, skrift og lestur. Kærandi hafi skýrt mál sitt nokkrum sinnum hjá Vinnumálastofnun og sent læknisvottorð en það hafi ekki verið tekið mark á því hingað til.

 

Kærandi bendir á að honum hafi boðist vinna síðasta sumar á vegum Borgarbyggðar og Vinnumálastofnunar í skógrækt. Kærandi hafi tekið þá vinnu fegins hendi þannig að hann muni ekki hafna starfi bjóðist honum starf sem hann getur unnið.


Í júní 2011 hafi kærandi byrjað á verkefni sem hann kallar Ísland – B sem á að koma á viðskiptasambandi milli íslenskra fyrirtækja og fyrirtækja í heimalandi kæranda. Í október 2011 hafi kærandi sótt um samstarfssamning hjá Nýsköpunarmiðstöð og Vinnumálastofnun vegna frumkvöðlastarfs og fengið það verkefni samþykkt í lok desember 2011. Kærandi hafi náð nokkrum árangri með það verkefni og sé nú þegar kominn með þrjú stór íslensk fyrirtæki sem eru byrjuð í samningaviðræðum við innflutningsfyrirtæki í B. Kærandi vonast til þess að þetta verkefni verði til þess að hann geti skapað sér vinnu til framtíðar. Þá tekur kærandi fram að hann hafi með sér gott fólk við allar skriftir vegna verkefnisins.

 

Kærandi kveðst vera ósáttur við að ekki skuli tekið mark á þeirri sjónskerðingu sem hann glími við og að hann sé skikkaður á námskeið sem hann ráði ekki við.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. maí 2012, kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða.

 

Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.

 

Þegar kærandi hafi verið boðaður á námskeiðið „Virk skref“ hafi hann ekki verið búinn að sækja um og fá samþykkt „Eigið frumkvöðlastarf“. Líkt og tekið hafi verið fram við kæranda í tölvupósti, dags. 17. október 2011, hafi hann ekki verið undanþeginn virkri atvinnuleit, þ.e. því að mæta í boðað úrræði eða atvinnuviðtal nema að hafa fengið samþykkt verkefni „Eigið frumkvöðlastarf“, en það grundvallist á 7. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009.

 

Þar sem kærandi hafði áður sætt niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði, sbr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, vegna ófullnægjandi mætingar á námskeið, sbr. ákvörðun Vinnumálastofnunar 9. mars 2011, hafði núverandi niðurfelling ítrekunaráhrif skv. 61. gr. laganna. Því hafi bótaréttur kæranda verið niðurfelldur í þrjá mánuði.

 

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hefur verið skráður hjá Vinnumálastofnun án greiðslna atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði frá 21. desember 2011, að því gefnu að hann uppfylli öll almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. júní 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

 

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Í upphafi hafði kærandi ekki upplýst fyrir fram um skerta vinnufærni sína eins og honum bar að gera skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef slíkar ástæður væru til staðar og ekkert lá fyrir um það að kærandi væri ekki fullfær til almennrar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að hann uppfyllti að öðru leyti skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var hins vegar gefið tækifæri á að skila vottorði vegna skertrar starfshæfni út af sjóninni, en hann hafði greinst með sykursýki sem hafði þannig áhrif á sjónina að hann gat ekki stundað störf sem krefjast mikillar tölvunotkunar eða lesturs. Kærandi hefur auk þess þurft að ganga reglulega undir aðgerðir hjá Landspítala út af sjóninni. Vinnumálastofnun tók tillit til þessara læknisvottorða samkvæmt samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar.

 

Þegar á tímabilið leið og kærandi var boðaður á námskeið hjá Vinnumálastofnun sem kröfðust ekki tölvunotkunar eða lesturs þá bar kærandi fyrir sig þeirri ástæðu fyrir fjarveru á námskeiðin að hann væri að undirbúa viðskiptahugmynd um samband milli íslenskra fyrirtækja og fyrirtækja í Líbíu. Kærandi væri þar af leiðandi upptekinn við þá vinnu. Vinnumálastofnun benti kæranda á að fá samþykkt verkefnið „Eigið frumkvöðlastarf“ en fram að því að sú umsókn yrði samþykkt teldist hann ekki vera í virkri atvinnuleit nema sækja þau úrræði sem Vinnumálastofnun býður atvinnuleitendum upp á.

 

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felst virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum sem standa til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, kemur fram sama skylda:

 

Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

 

Samkvæmt þessu var kærandi ekki undanþeginn virkri atvinnuleit og skv. 7. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, bar kæranda að hafa fengið samþykkt fyrrgreint verkefni.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, og þeirra röksemda sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. janúar 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í þrjá mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta