Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 13/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni


Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 1. janúar til 19. október 2011, samtals að fjárhæð 1.509.791 kr.


Kærandi óskaði eftir endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar með tölvubréfi, dags. 14. nóvember 2011 en með bréfi, dags. 22. nóvember 2011, synjaði Vinnumálstofnun þeirri beiðni. Kærandi óskaði í kjölfarið eftir auknum rökstuðningi stofnunarinnar með tölvubréfi, dags. 24. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 21. desember 2011, barst kæranda rökstuðningur Vinnumálastofnunar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði Helga María Pálsdóttir hdl. hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, f.h. kæranda, með erindi, dags. 23. janúar 2012. Kærandi krefst þess að honum verði gert, í stað hinnar kærðu ákvörðunar, að greiða 67.413 kr. auk 15% álags og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur frá 7. nóvember 2011 þar til hann hættir virkri atvinnuleit í samræmi við 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.


Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. nóvember 2008. Vinnumálastofnun sendi kæranda erindi 27. október 2011 þar sem honum var tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hafi starfað sem blaðamaður samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Þá hafi stofnuninni jafnframt borist upplýsingar þess efnis að kærandi hafi farið til útlanda vegna starfa sinna án þess að tilkynna það. Í bréfinu var kæranda veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum vegna þessara upplýsinga innan sjö daga. Kærandi mætti á fund hjá Vinnumálastofnun 2. nóvember 2011 og skilaði í kjölfarið inn skýringum þar sem fram kom að hann hefði unnið sem verktaki hjá B, á þessu ári, við skrif í bílablað þess. Hann hafi haft að meðaltali 68.000 kr. á mánuði og farið til útlanda í boði C til að reynsluaka bifreið og í framhaldinu ritað grein um ferðina.


Með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hafi ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur til hans vegna ótilkynntar verktakavinnu hjá B. Í samskiptaskrá kæranda við Vinnumálastofnun kemur fram að ákvörðun í máli kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 4. nóvember 2011. Í bréfinu frá 7. nóvember 2011 segir enn fremur að það sé niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Einnig var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins frá 1. janúar til 19. október 2011 að fjárhæð 1.509.791 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á máli sínu með tölvubréfi, dags. 14. nóvember 2011. Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 22. nóvember 2011, þar sem fram kemur að beiðni hans um endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafi verið synjað á þeirri forsendu að ekki hafi borist nýjar upplýsingar sem höfðu þýðingu vegna málsins og ekki verði séð að ákvörðun stofnunarinnar hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Niðurstaða stofnunarinnar hafi hins vegar verið sú að staðfesta fyrri ákvörðun sína frá 4. nóvember 2011. Með tölvubréfi, dags. 24. nóvember 2011, óskaði kærandi eftir rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar og var kæranda sendur rökstuðningur með bréfi, dags. 21. desember 2011.

 

Kærandi krefst þess í kæru, dags. 23. janúar 2013, að endurkrafan verði lækkuð í 67.413 kr. auk 15% álags og hann fái greiddar bætur frá og með 7. nóvember 2011 þar til hann hættir virkri atvinnuleit skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi bendir á að skilyrði fyrir endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi hafi vísvitandi veitt Vinnumálastofnun rangar upplýsingar skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá skuli sá sem það gerir endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki vitað að sér væri skylt að tilkynna allar tekjur og hverjar afleiðingarnar yrðu ef hann myndi láta það hjá líða. Hann hafi talið að Vinnumálastofnun fengi upplýsingar um tekjur hans jafnóðum og gæti þannig skert bætur hans mánaðarlega ef hann færi yfir frítekjumarkið. Ástæða þess að kærandi hafi ekki tilkynnt um greiðslurnar hafi ekki verið af ásettu ráði heldur vanþekkingar hans á þeirri skyldu sem á honum hvílir. Kærandi kveðst aldrei hafa veitt Vinnumálastofnun rangar upplýsingar og hafnar því alfarið að hann hafi að ásetningi svikið út bætur hjá stofnuninni með því að hafa ekki tilkynnt um hlutastarfið. Það sé einhliða túlkun Vinnumálastofnunar. Þá komi hvorki fram í gögnum frá Vinnumálastofnun og kæranda að kæranda hafi verið ljós tilkynningarskyldan né að hann hafi af ásetningi hunsað hana. Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun víki ekki einu orði að því hvernig komist var að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar. Þá bendir kærandi á að ekki verði séð hvernig unnt sé að krefja hann um endurgreiðslu á öllum atvinnuleysisbótunum sem hann fékk á tímabilinu frá 1. janúar til 19. október 2010 en tekjur hans á þessu tímabili hafi verið misháar. Suma mánuðina hafi hann verið yfir frítekjumörkunum og aðra undir þeim. Þá rekur kærandi hvaða tekjur hann hafi haft á tímabilinu. Kærandi bendir á að í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysisbætur komi fram að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbótum sé hærra en nemi óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram sé. Hið sama gildi um tekjur fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslum úr almennum lífeyrissjóðum, séreignarsjóðum og fjármagnstekjum. Samtals hafi hann því fengið 67.413 kr. ofgreiddar, en ekki 1.509.791 kr. auk 15% álags. Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi verkefni hjá B á tímabilinu og því uppfyllt 13. gr., sbr. 14. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, enda ekki í föstu starfi hjá B. Af þessum ástæðum sé fullyrðing Vinnumálastofnunar um að hann hafi ekki verið í virkri atvinnuleit því einfaldlega röng. Þá standi ekki rök til þess í ljósi framangreinds að kærandi fái ekki greiddar atvinnuleysisbætur næstu tólf mánuðina frá 7. nóvember 2011 enda hafi hann aldrei hætt atvinnuleit í skilningi 10. gr. laganna á umræddu tímabili. Enn fremur bendir kærandi á að um íþyngjandi úrræði sé að ræða og því skuli gæta meðalhófs, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. maí 2012, bendir Vinnumálastofnun á að málið varði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi var í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna um að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Vinnumálastofnun bendir á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Með lögum nr. 134/2009 hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.


Vinnumálastofnun vísar til ákvæða 10. og 35. gr. a og bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. sé tekið fram að launamaður verði að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Vinnumálastofnun telur ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði og hluti þess starfs sé framkvæmt erlendis, geti hvorki talist vera án vinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eða ekki.


Vinnumálastofnun bendir á að af gögnum málsins megi ráða aða kærandi hafi verið í verktakavinnu hjá B á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta og kærandi viðurkenni það í skýringarbréfum sínum til stofnunarinnar. Í gögnum málsins sé einnig að finna afrit af greinum sem kærandi hafi skrifað. Þar sé meðal annars að finna grein sem kærandi skrifaði um reynsluakstur sinn á D í E en kærandi hafi aldrei tilkynnt um þá utanlandsferð.


Kærandi hafi ekki tilkynnt um þessar breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík upplýsingaskylda hvíli á þeim sem þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta. Vanþekking kæranda á lögum um atvinnuleysistryggingar breyti ekki þeirri skyldu sem hvíli á honum samkvæmt þeim.


Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum.


Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar frá 1. til 31. október 2010 og að auki hafi hann ekki tilkynnt stofnuninni um að virkri atvinnuleit væri hætt. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 19. október 2010 að fjárhæð 1.509.791 kr. með 15% álagi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 29. maí 2012. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 22. júní 2012. Í athugasemdum kæranda mótmælir hann fullyrðingu Vinnumálastofnunar um að hann hafi hætt virkri atvinnuleit í skilningi 10. eða 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann þáði laun fyrir tilfallandi verkefni hjá B. Kærandi telur að þrátt fyrir að sú skylda hafi hvílt á honum að tilkynna um tekjur vegna tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a sé ekki hægt að líta svo á að hann hafi hætt virkri atvinnuleit í skilningi laganna og að hann hafi með vísvitandi hætti veitt rangar upplýsingar þannig að hægt sé að krefja hann um endurgreiðslu á öllum greiddum atvinnuleysisbótum í tímabilinu. Slík niðurstaða sé í andstöðu við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi kveðst hafa verið í góðri trú og þetta hafi verið tilfallandi verkefni og engin loforð eða vissa fyrir því að hann fengi önnur verkefni. Kærandi ítrekar að hann hafi ekki vísvitandi veitt rangar upplýsingar eins og ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gerir ráð fyrir. Þá ítrekar kærandi ákvæði 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysisbætur.


 

 

2.

Niðurstaða


Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:


Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.


Með 4. gr. laga nr. 103/2011 voru gerðar orðalagsbreytingar á 1. málsl. ákvæðisins. Af þeim breytingum leiðir að ef atvinnuleitandi lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Ekki verður fallist á að Vinnumálastofnun hafi sýnt fram á að kærandi hafi með vísvitandi hætti leynt upplýsingum í skilningi 1. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hefur bent á að hann hafi verið í góðri trú um að hann mætti afla tekna upp að tilteknu frítekjumarki og honum hafi verið ókunnugt um skyldu sína að láta Vinnumálastofnun vita af þessari tekjuöflun. Í ljósi þessa verður ekki séð að kærandi hafi brotið gegn 1. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.


Á hinn bóginn þarf að taka til skoðunar hvort háttsemi kæranda leiði til þess að brotið hafi verið á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sá málsliður hefur verið túlkaður á þann veg að tiltekin hlutlæg skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að hægt sé að beita ákvæðinu og skipti þá huglæg afstaða atvinnuleitenda ekki máli. Þetta þýðir með öðrum orðum að beita eigi þessum málslið þegar (1) atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og (2) einnig þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a. Þá segir í 35. gr. a:


Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.


Samkvæmt gögnum málsins, sbr. meðal annars upplýsingum frá kæranda sjálfum, starfaði hann við greinaskrif fyrir B a.m.k. á tímabilinu frá 1. janúar til 19. nóvember 2011. Þá kemur einnig fram í gögnum málsins og samkvæmt kæranda sjálfum að hann fór til útlanda vegna greinaskrifanna. Af gögnum málsins verður hvorki ráðið að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um greinaskrifin, þ.e. um hina tilfallandi vinnu í skilningi 35. gr. a, né um ferðir erlendis vegna þeirra en kærandi fékk greiðslur atvinnuleysisbóta frá stofnuninni á sama tíma. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu.


Samkvæmt 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er atvinnuleitanda gert að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Kærandi greinir frá því að hann hafi farið til útlanda vegna skrifa sinna. Atvinnuleitendur er dveljast erlendis teljast ekki uppfylla það almenna skilyrði 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hinn tryggði skuli vera staddur hér á landi.


Kærandi kveður sér ekki hafa verið kunnugt um viðkomandi reglur en að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum, þar sem víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunarinnar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna.


Þá vísar hann til þess að hann hafi talið sig mega hafa tekjur að fjárhæð 59.047 kr. á mánuði án þess að það hefði áhrif á rétt hans til bóta og vísar til reglna um frítekjumark atvinnuleysisbóta í 36. gr. laga um atvinnuleysisbætur sem fjallar um frádrátt vegna tekna bótaþega, meðal annars vegna tilfallandi vinnu. Í ákvæðinu segir að ekki komi til skerðingar bóta nema tekjur fari yfir 52.000 kr. á mánuði (nú 59.047 kr.) og hið sama gildi um tilfallandi vinnu. Ákvæðið á ekki við um ótilkynnta, tilfallandi vinnu, sbr. einkum ákvæði 35. gr. a, þar sem fram kemur að tilkynna skuli um slíka vinnu í síðasta lagi samdægurs. Ekki er því unnt að túlka reglur um frítekjumark á þann veg að ekki þurfi að tilkynna um tilfallandi vinnu nema laun fyrir hana fara upp fyrir áðurnefnt frítekjumark.


Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.


Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. janúar til 19. nóvember 2011 alls 1.509.791 kr. en innifalið í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 


 

 

Úrskurðarorð



Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. nóvember 2011 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 1.509.791 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Málið var endurupptekið og úrskurðað þann 26. febrúar 2015



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta