Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2005

Mál nr. 4/2005

Þriðjudaginn, 5. apríl 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. janúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. janúar 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. október 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég stunda nám við B og hef lokið tveimur árum af námi mínu þar. Síðastliðið vor fann ég út að ég átti von á mér um miðjan nóvember 2004, nánar tiltekið 17. nóvember 2004. Undanfarin sumur hef ég starfað sem bókari á D og hélt ég uppteknum hætti nú í sumar og starfaði þar frá því í maí. Þegar leið á meðgönguna, fór ég að efast um að ég gæti lagt stund á fullt nám við B, þar sem álagið er mikið og prófatímabilið mjög stuttu eftir áætlaðan fæðingardag og líklega erfitt að ætla sér að taka próf rétt eftir fæðingu. Ég hringdi því í Tryggingastofnun ríkisins og fékk þær upplýsingar að ef ég myndi aðeins taka 50% nám myndi ég fyrir gera rétti mínum til námsmannafæðingarstyrks, ég þyrfti að vera skráð í 100% nám og þar með greiða full skólagjöld (skólagjöld við B lækka ef færri einingar eru teknar). Ég fékk jafnframt þær upplýsingar að þar sem ég byrjaði að vinna í maí, gæti ég einfaldlega haldið áfram að vinna og þar með unnið mér rétt til að fá fæðingarorlof í stað námsmannafæðingarstyrk.

Ég ákvað því í ljósi ráðlegginga hans að taka mér frí frá námi og þar sem hvort eð er vantaði starfsmann í mitt stöðugildi á vinnustaðnum mínum, hentaði það bæði mér og vinnuveitanda mínum að ég myndi halda áfram störfum. Var það ætlun mín að starfa út október 2004 og byrja fæðingarorlof 1. nóvember 2004. Þegar ég skilaði inn fæðingarorlofsumsókninni í TR spurði ég enn og aftur ráðgjafann sem tók á móti umsókninni, um hvort það væri ekki örugglega allt í lagi með umsóknina og allt eins og það átti að vera. Eftir annars algjörlega heilbrigða og vandræðalausa meðgöngu og öllum til undrunar, fæddi ég dóttur mína þann 20. október, 4 vikum fyrir tímann.

Þegar heim var komið, eftir 8 daga legu á fæðingardeild, þar sem dóttir mín þurfti á ljósameðferð að halda vegna nýburagulu, barst mér svo bréf frá Tryggingastofnun með tilkynningu þess efnis að mér væri synjað um að taka fæðingarorlof þar sem ég hefði ekki verið á vinnumarkaði í mars og apríl 2004, en gæti þó fengið námsmannafæðingarstyrk.

Synjun byggð á röngum rökum:

Skv. lögum um fæðingarorlof þarf umsækjandi um fæðingarorlof að hafa starfað í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, í það minnsta 25% starfshlutfall í hverjum mánuði. Eins og fram kemur á þeim sex launaseðlum sem ég hef fengið fyrir störf mín þá sex mánuði sem ég vann, áður er kom að fæðingu, er ég yfir þeim mörkum og fullnægi því skilyrðum. Í frumvarpi til nýrra laga um breytingu á fæðingarorlofslögum, kemur fram að forsendan fyrir þessu 6 mánaða marki, sé sú að greitt sé hið minnsta í sex mánuði tryggingagjald fyrir starfsmann, þar sem fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi.

“Þykir eðlilegra í ljósi þess að Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi að foreldri hafi unnið þann tíma á innlendum vinnumarkaði þannig að greitt hafi verið af tekjum þess tryggingagjald í tiltekinn lágmarkstíma. Þykja sex mánuðir hæfilegur tími í því sambandi.”

Þar sem ég hef starfað þessa sex mánuði, hefur tryggingagjaldið verið greitt fyrir þetta tímabil. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða tilvísun í lög sem enn hafa ekki tekið gildi, hljóta svipuð sjónarmið að gilda um þetta atriði.

Rökstuðningur synjunar fólst í því að undirrituð hafi ekki verið á vinnumarkaði í mars og apríl. Var alveg ljóst frá upphafi að á þeim tíma var undirrituð í fullu námi...

Í fyrsta lagi finnst mér sanngjarnt og eðlilegt að orð og ráðleggingar TR skulu standa, sérstaklega þar sem að samkvæmt lögunum uppfylli ég samkvæmt mínum skilningi öll skilyrði fyrir töku fæðingarorlofs.

Í öðru lagi er hér, hvernig sem á málið er litið, brestur á að leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sbr. 7. gr. laga nr. 37/1993 um stjórnsýslu sé fullnægt. Hefði ráðgjafi TR átt að tilkynna mér um að:

a) ég hefði ekki þurft að fórna því að fara aftur í skólann. E fullvissaði mig um að ef ég legði ekki stund á fullt nám, þá myndi ég fyrirgera rétti mínum til fæðingarstyrks.

b) ég myndi tapa rétti mínum til fæðingarorlofs, ef dóttir mín myndi fæðast of snemma (eða mér fyrirskipað að hætta að vinna af ljósmóður minni vegna heilsufarsástæðna eins og er mjög algengt o.s.frv.)...

Í þriðja lagi þykir mér jafnvel þótt dóttir mín hafi fæðst of snemma og TR vilji því telja með apríl inn í launatímabilið, sanngjarnt og eðlilegt að tekið sé tillit til aðstæðna, þess að hún fæddist 4 vikum of snemma...“

 

Með bréfi, dagsettu 10. febrúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 23. febrúar 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 17. september 2004, sem móttekin var 1. október 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. nóvember 2004. Umsóknin varðar barn sem fætt er 20. október 2004 en áætlaður fæðingardagur þess var 17. nóvember 2004.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð um væntanlegan fæðingardag, dags. 20. september 2004, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 17. september 2004, staðfesting á skólavist, dags. 16. september 2004 og launaseðlar fyrir maí, júní, júlí og ágúst 2004. Þá lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 26. október 2004, var henni synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum. Var kæranda þess í stað tilkynnt að hún ætti rétt á fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði og var kæranda sent greiðsluyfirlit, dags. sama dag, yfir greiðslur fæðingarstyrks tímabilið nóvember 2004 til og með apríl 2005.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í 3. mgr. 8. gr. ffl. er kveðið á um að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda gat því samkvæmt 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. í síðasta lagi verið fæðingardagur barns hennar en eins og að framan greinir er barn hennar fætt 20. október 2004. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá 20. apríl barnsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum hóf kærandi ekki störf á innlendum vinnumarkaði fyrr en í maí 2004 og var því utan vinnumarkaðar a.m.k. fyrstu ellefu daga sex mánaða viðmiðunartímabilsins, sem kveðið er á um í 1. mgr. 13. gr. ffl., þ.e. frá 20. til og með 30. apríl 2004.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið kæranda ekki uppfylla skilyrðið um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og því hafi verið rétt að synja umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Rétt þykir að benda á að kærandi var í þess stað afgreidd með fæðingarstyrk sem námsmaður á grundvelli 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 969/2001.

Í kæru er gerð grein fyrir að kærandi hafi leitað til starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins eftir upplýsingum og ráðgjöf vegna fyrirhugaðs fæðingarorlofs og farið eftir þeim leiðbeiningum sem henni voru veittar. Í kæru er því jafnframt haldið fram að í þessum samskiptum hafi leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki verið fullnægt. Þessu er hér með hafnað af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins og skal á það bent að stofnunin telur sig sinna þeirri leiðbeiningarskyldu sem á henni hvílir hvort tveggja samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 24. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Af þessu tilefni skal enn fremur tekið fram að ómögulegt er að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Þá skal jafnframt á það bent að ekki verður séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi til greiðslna enda eru þau réttindi og skilyrði þeirra bundin í lög.

Í kæru er því enn fremur haldið fram að við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna um fæðingar- og foreldraorlof. Lífeyristryggingasvið telur því ekki tilefni til að gera í greinargerð þessari athugasemdir varðandi það sem kærandi telur vera brot á stjórnsýslulögum. Sjái úrskurðarnefndin sér hins vegar fært að taka á þessum atriðum kærunnar áskilur lífeyristryggingasvið sér rétt til að koma að frekari athugasemdum síðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. mars 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 11. mars 2005, þar sem hún ítrekar fyrri sjónarmið.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Ágreiningur í máli þessu varðar rétt kæranda til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dagsettu 26. október 2004 var kæranda synjað um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði en viðurkennt að hún ætti rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður.

Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi ól barn 20. október 2004. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 20. apríl 2004 til fæðingardags barns. Kærandi lauk námi í maí 2004 og hóf síðan störf hjá D, þar sem hún starfaði fram að fæðingu barnsins.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að fá greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem hún var ekki samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta