Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2005

Mál nr. 7/2005

Þriðjudaginn, 5. apríl 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. janúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. janúar 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 3. janúar 2005 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Því miður þá er ég ekki að fullu sátt með útkomu úr fæðingarorlofssjóði til mín. Ég geri mér þó grein fyrir því að síðustu tveir mánuðir fyrir fæðingardag barns eru ekki teknir með inn í þann útreikning. Ég ákvað sjálf að taka við framkvæmdastjórastöðu hótel B fram að fæðingu barnsins míns eða á meðan að heilsan leyfði... Áætlaður fæðingardagur barns var 24. desember en fæðingardagur dóttur minnar var 29. desember 2004. Það sem ég fer fram á og er ósátt með er að ég óska eftir því að þið takið úr laun í október 2003 og takið inn launin mín í október 2004. Þar sem ég tel nóvember og desember mánuði 2004 vera þeir tveir mánuðir fyrir fæðingu dóttur minnar.“

 

Með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 23. febrúar 2005. Í greinargerðinni segir:

Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 8. nóvember 2004, sem móttekin var 11. nóvember 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði. Umsóknin varðar barn sem fætt er 29. desember 2004 en væntanlegur fæðingardagur þess var 24. desember 2004.

Umsókn kæranda fylgdu tilkynning um fæðingarorlof, dags. 8. nóvember 2004 og launaseðlar fyrir september og október 2004. Þann 12. nóvember 2004 var móttekið vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 12. nóvember 2004. Auk þess lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi til kæranda, dags. 3. janúar 2005, var henni af hálfu lífeyristryggingasviðs tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 29. desember 2004 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrá skattyfirvalda. Útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda var miðaður við tekjur hennar tímabilið október 2003 til og með september 2004.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Ef foreldri telur upplýsingar úr viðkomandi skrám ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Í 2. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. ffl. er að finna skýr fyrirmæli um það hvernig greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skuli reiknaðar út. Útreikningur á greiðslum til kæranda var, í samræmi við ákvæði þessi, byggður á tekjum kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK tímabilið október 2003 til og með september 2004, eins og fyrr segir.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að samkvæmt áðurnefndri reglu 2. mgr. 13. gr. ffl. hafi verði rétt að miða útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði við tímabilið október 2003 til og með september 2004. Enga heimild er að finna í lögum til að víkja frá þeirri reglu og því telur lífeyristryggingasvið að ekki sé heimilt að miða útreikning fæðingarorlofsgreiðslna við annað tímabil en þar kveðið er á um. Þá telur lífeyristryggingasvið ekkert fram komið í málinu þess efnis að ætla megi að upplýsingar úr skrám skattyfirvalda varðandi tekjur kæranda séu rangar. Því telur lífeyristryggingasvið í ljósi alls framangreinds að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 3. janúar 2005, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. mars 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 22. mars 2005, þar sem hún ítrekar fyrri kröfur.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hafi sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Barn kæranda er fætt þann 29. desember 2004 sem telst vera upphafsdagur fæðingarorlofs hennar. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá október 2003 til og með september 2004 sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Lög um fæðingar- og foreldraorlof heimila ekki að vikið sé frá reglu 2. mgr. 13. gr. laganna við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um breytingu á útreikningi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest. 

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslu til A, í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta