Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 27. maí 2005
Ár 2005, föstudaginn 27. maí, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matmálið nr. 1/2005.
Landsnet hf.
gegn
Prestsetrasjóði
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara og Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, en formaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.
Með bréfi dagsettu 20. desember 2004 beiddist Landsvirkjun Háaleitisbraut 68, Reykjavík, nú Landsnet hf., Krókhálsi 5c, 110 Reykjavík, þess að matsnefnd eignarnámsbóta skeri úr um ágreining um fjárhæð bóta vegna þess hluta 420 kV háspennulínu, Sultartangalínu 3, sem áformað er að leggja um land jarðarinnar Saurbæjar í Hvalfjarðarstrandarhreppi, og vegna færslu og breytingar á Brennimelslínu 1 í landi jarðarinnar. Þinglýstur eigandi jarðarinnar er Prestsetrasjóður Laugavegi 31, Reykjavík. Ábúandi jarðarinnar er Kristinn Jens Sigurþórsson, sóknarprestur í Saurbæ, Hvalfjarðarströnd.
Eignarnámsheimild er í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Fyrir liggur full heimild eiganda Saurbæjar vegna framkvæmda í landi jarðarinnar. Ekki hefur þó náðst samkomulag við eiganda jarðarinnar um bætur vegna þeirra og óskaði landeigandi þess að ágreiningi um fjárhæð bóta yrði vísað til matsnefndar eignarnámsbóta.
Í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum vegna 420 kV Sultartangalínu 3, Sultatangi – Brennimelur, dags. 19. júlí 2002, féllst Skipulagsstofnun á fyrirhugaða framkvæmd. Umhverfisráðherra staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar með úrskurði, dags. 19. mars 2003. Iðnaðarráðherra veitti Landsvirkjun heimild til byggingar Sultartangalínu 3 og breytingar á Brennimelslínu 1, dags. 21. júlí 2004. Framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Hvalfjarðarstrandarhrepps var veitt í ágúst 2004.
Eignarnemi Landsnet hf., sem var stofnað á grundvelli laga nr. 75/2004, tók 1. janúar 2005 við öllum réttindum og skyldum Landsvirkjunar vegna byggingar og reksturs Sultartangalínu 3 og breytingar á Brennimelslínu 1. Sultartangalína 1 mun liggja um land matsþola á hálsunum á milli Vatnaskógar/Svarfhólsskógar og Hvalfjarðarstrandar. Brennimelslína 1 sem liggur nú um land jarðarinnar verður færð úr hlíðinni þar sem hún liggur í dag og upp á hálsana samsíða Sultartangalínu 3 í um 50 metra fjarlægð. Brennimelslínu 1 verður hægt að spennuhækka í 400 kV en tengilínan frá Ferstiklu og upp á Saurbæjarháls að hlið Sultartangalínu 3 verður þó byggð sem 220 kV lína.
Afmörkun afnota
A. Möstur
Eignarnemi mun reisa 9 möstur á landi eignarnámsþola til að bera Sultartangalínu 3 og 8 möstur til að bera Brennimelslínu 1, ásamt undirstöðum og stögum og strengja á milli mastra leiðara og jarðvír. Turnarnir í línunum verða að mestu stöguð stálgrindarmöstur sem bera uppi leiðarana. Hæð mastra er á bilinu 20,3-35,9 m, með um 26 m langri þverslá. Fætur þeirra standa á steyptum undirstöðum og leiðarar hanga á stálgrindarslá (brú) í um 4 m löngum einangrunarkeðjum. Háspennulínurnar tvær eru til samans 6.115 metrar að lengd í landi jarðarinnar. Heimild eignarnema felst í því að reisa þessi mannvirki og að láta þau standa í landinu ótímabundið, svo lengi sem fyrirtækið telur þörf á. Eignarnemi fer fram á óheftan umferðarrétt um land jarðarinnar meðan á framkvæmdum stendur, svo og til að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með ofangreindum mannvirkjum í landi jarðarinnar svo lengi sem þörf krefur. Núverandi Brennimelslína 1 liggur um land Saurbæjar og mun hún rifin niður þegar uppbyggingu nýju línunnar er lokið. Alls verða 8 möstur rifin og er lengd línunnar í landinu 3.005 metrar.
B. Vegslóðir
Eignarnemi mun leggja malarbornar vegslóðir að flestum mastrastæðum í línunum, til efnisflutninga og aðkomu. Í matsskýrslu, sbr. úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá 19. júlí 2002 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, kemur þó fram að á hálsunum sunnan Svínadals verði slóðagerð haldið í lágmarki, einkum á Brennifelli, og hún samræmd landnotkunaráformum aðalskipulags. Möguleiki er að vinna hluta verksins þar á frosinni jörð að vetri til. Heildarlengd vegslóða er um 3.000 metrar og að jafnaði 4 metrar á breidd, auk fláa. Auk þess verða í landi jarðarinnar endurbættar vegslóðir alls um 1.100 metrar að lengd. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðir þessar vegna línulagnarinnar, svo og til þess að sinna framvegis endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
C. Byggingarbann
Samkvæmt ákvæðum 402., 403., og 404. gr. reglugerðar nr. 264/1971, um raforkuvirki, með áorðnum breytingum, leggst sú kvöð á næsta nágrenni línanna, að ekki má byggja önnur mannvirki á nánar tilteknu landrými undir og meðfram línunum þar sem þær liggja samsíða,. Útreiknuð mesta breidd byggingarbanns á hverju hafi er á milli 99,3 – 123,1 metrar þar sem línurnar eru samsíða. Þar sem línurnar liggja ekki samhliða er útreiknuð mesta breidd byggingarbanns á milli 56,4 – 84,6 metrar. Ekki er heimilt að reisa byggingar á þessu belti (byggingarbannssvæði/helgunarsvæði) en hinsvegar er heimilt að stunda aðra landnotkun, s.s. túnrækt, beit, berjatínslu, og lágvaxna skógrækt (allt að 3,4. metra, t.d. jólatrjárækt). Einnig er heimilt að leggja vegi og fleiri mannvirki undir línurnar, að uppfylltum vissum skilyrðum um fjarlægðir. Sambærileg takmörkun vegna helgunarsvæðis/byggingarbannssvæðis undir og meðfram núverandi Brennimelslínu 1 í Saurbæjarhlíð fellur niður þegar línan verður færð. Byggingabannsbreidd núverandi línu er að meðaltali um 65 metrar.
Sjónarmið eignarnema vegna mats á bótum
- Umfang tjóns
Eignarnemi öðlist ekki fullkominn eignarrétt á landi undir vegslóðir og línur, heldur takmarkaðan eignarrétt, afnotarétt, sem fyrirtækið þurfi um ótakmarkaðan tíma eða svo lengi sem þörf verði á að umræddar línur liggi um það að mati eiganda þeirra. Eignarnemi geri þannig ekki athugasemd við að forráðamenn jarðarinnar leyfi umferð um vegslóðir eða nýtingu lands að öðru leyti svo lengi sem slíkt skapi ekki hættu fyrir rekstur línanna eða tálmar aðgang að þeim. Eignarnemi telji tjón matsþola einskorðast við missi lands sem fari undir vegi og möstur auk þess sem takmörkun verði á nýtingu þess lands sem fellur innan byggingarbannssvæðis línanna. Eignarnemi telji ekki að matsþoli verði fyrir frekara tjóni. Þá bendir eignarnemi á að matsþoli eigi aðeins kröfu til að fá bætt fjárhagslegt tjón, en ekki ófjárhagslegt. Eignarnemi telji að verðmæti jarðarinnar Saurbæjar rýrni ekki umfram það sem bætt verði af öðrum ástæðum. Matsþola beri að sanna fjárhagslegt tjón umfram það sem viðurkennt sé, að öðrum kosti verði eignarnema ekki gert að greiða bætur vegna þess. Eignarnemi telji að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda hafi ekki verið sýnt fram á að tjóni verði valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hafi verið.
- Fjárhæð eignarnámsbóta
Aðalforsenda eignarnema við tilboðsgerð til matsþola hafi verið grundvallarregla 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð skuli koma fyrir eignarnumin réttindi. Tilboðið hafi verið byggt á grunni sem notaður hafi verið var í samningum við alla landeigendur á línuleið Sultartangalínu 3 og einnig samninga við landeigendur vegna lagningar Fljótsdalslína 3 og 4. Tilgangur þessa grunns hafi ekki síst verið sá að gætt væri jafnræðis á milli aðila með samskonar hagsmuni og um leið samræmis í bótagreiðslum vegna lagningar háspennulína. Þessi aðferðarfræði hafi átt að tryggja að allir landeigendur sætu við sama borð í samningum við Landsvirkjun, nú Landsnet, að teknu tilliti til aðstæðna á hverjum stað. Grunnurinn hafi fyrst og fremst byggst á niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta frá 1. júlí 1999 í samhljóða úrskurðum vegna lagningar Búrfellslínu 3 og hæstaréttardómi frá 1997, bls. 52. Landflokkun hafi verið byggð á niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta og öðrum atriðum er máli skipta. Þá hafi einnig verið stuðst við úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta til dagsins í dag hvað varðar verðmat lands. Ennfremur hafi verið höfð hliðsjón af orðsendingum Vegagerðarinnar um landbætur vegna vegagerðar, upplýsingum frá Bændasamtökunum um ræktunarkostnað og útreikningum Suðurlandsskóga og Héraðsskóga um stofnkostnað og verðmæti skógræktar. Auk þess hafi ábendingar og athugasemdir landeigenda á línuleið Fljótsdalslínu 3 og 4 og Sultartangalínu 3 verið hafðar til hliðsjónar við endanlega ákvörðun á grunnverði lands sem miðað hafi verið við í tilboðum vegna framangreindra framkvæmda. Tekið skuli skýrt fram að tilboð eignarnema hafi á allan hátt verið hagkvæm fyrir landeigendur, t.d. hafi verið miðað við hámarksverð, boðin hafi verið full greiðsla fyrir möstur, vegi og byggingarbann án frádráttar, miðað hafi verið við 116 metra byggingarbannssvæði, landflokkun hafi í öllum tilfellum verið gróflega áætluð til hagsbóta fyrir landeigendur, auk annarra atriða. Tilboð eignarnema hafi í öllum tilvikum miðað að því að landeigendur væru betur settir með samningum en með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta og/eða dómstóla. Til hliðsjónar vísar eignarnemi til skjals nr. 9, þar sem land undir möstur og vegi hafi verið dregið frá byggingarbannssvæði, byggingabannssvæði sé meðaltal af útreikaðri mestri breidd á hverju hafi, landflokkun hafi verið raunhæfari og reiknað hafi verið verðmæti þess lands sem skilað verði til baka við færslu Brennimelslínu 1. Skýrt hafi verið tekið fram í samningaviðræðum við matsþola að yrði ekki fallist á tilboðin féllu þau niður og hefðu ekki fordæmisgildi við síðari meðferð málsins. Hafi eignarnemi áskilið sér allan rétt til að láta reyna á raunverulegt tjón og fjárhæð bóta kæmi til meðferðar matsnefndar eignarnámsbóta og/eða dómstóla. Tilboð eignarnema sé því klárlega niður fallið og matsnefndinni ekki heimilt að miða við þær fjárhæðir sem eignarnemi hafi verið reiðubúin til að greiða til að ná samkomulagi við matsþola án þess að til matsmáls þyrfti að koma.
Eignarnemi vísar til landskrár fasteigna en skv. yfirliti Fasteignamats ríkisins, dags. 24. janúar sl. sé stærð jarðarinnar 893,2 ha, fasteignamat jarðarinnar sé 1.047.000 krónur, fasteignamat ræktaðs lands, alls 21.2 ha sé 927.000 krónur.
C. Frádráttur vegna skila á núverandi línustæði Brennimelslínu 1
Eignarnemi telur að til frádráttar bótum sem ákvarðaðar verði vegna Sultartangalínu 3 og Brennimelslínu 1 skuli koma hagsbætur sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum, því að landeiganda sé skilað landi í Saurbæjarhlíð og því hagræði sem í því felist fyrir matsþola að sú lína verði flutt upp á hálsana fyrir ofan hlíðina þar sem þeirra gætir ekki jafn mikið, fjarri íbúðarhúsi og öðrum mannvirkjum á jörðinni. Verðmæti þess lands sem sé skilað sé að mati eignarnema meira en þess lands sem fari undir línurnar á hálsunum og í Leirdal. Taka beri mið af þessu við ákvörðun fjárhæðar bóta.
Kröfugerð eignarnámsþola
Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnámsbætur fyrir eignarnumið land, skerðingu réttinda vegna byggingarbanns og slóðalagningar verði ákvarðaðar 21.171.200 krónur. Þá er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvarðaðar 10.000.000 króna að auki vegna almennrar verðrýrnunar á jörðinni vegna framkvæmda eignarnema.
Gerð er krafa til þess að engin frádráttur komi frá ákvörðuðum bótum vegna færslu Brennimelslínu af núverandi línustæði upp að Sultartangalínu.
Þá er þess krafist að eignarnámsþola verði ákvörðuð fjárhæð í kostnað vegna reksturs máls þessa.
Sjónarmið eignarnámsþola
Af hálfu eignarnámsþola sé fallist á þá aðferðarfræði við útreikning eignarnámsbótanna sem fram komi í tilboðsskjali eignarnema og liggur frammi í málinu. Þar sé gert ráð fyrir fullnaðarbótum fyrir það land sem tekið sé undir staurastæður og vegslóða en hlutfallslega lægri fjárhæð (67%) fyrir land sem einungis verði háð byggingabanni. Ekki sé gerð athugasemd við stærðarútreikninga í tilboði eignarnema en skv. því fari 2,04 ha. undir möstur, 2,15 ha. undir vegslóða og 36,8 ha. verði háðir byggingabanni.
Eignarnámsþoli telji á hinn bóginn það verð sem miðað sé við í útreikningum sé helmingi of lágt. Þannig telji eignarnámsþoli að hektaraverð á dýrasta landinu eigi að vera 1.000.000 króna og 180.000 krónur á því sem ódýrast sé. Tilboð eignarnema hljóði upp á 8.216.100 krónur en gerð sé krafa til þess að bæturnar fyrir þá eignaskerðingu sem fram komi í tilboði eignarnema verði ákvarðaðar 16.432.200 krónur. Að auki sé gerð krafa til þess að eignarnemi bæti 7 ha. spildu eða horn sem muni myndast milli Brennimelslínu og Sultartangalínu í Leirdal. Vegna nálægðar við raflínurnar verði sú spilda ónýtanleg til nokkurs nema beitar og berjatínslu. Gerð sé krafa til þess að bætur komi fyrir þá spildu sem um væri að ræða svæði sem háð sé byggingabanni eða 67% af 1.000.000 krónum eða 4.739.000 krónur ( 7 x 677.000).
Nánar um verðmæti landsins
Landi því sem raflínurnar fari yfir megi í raun skipta í tvennt. Annars vegar sé um að ræða kjörland til hvers konar frístundaiðkunar s.s. sumarhúsabyggðar, kjarri vaxið og gróið. Þetta eigi við um landið í Leirdal og Móadal. Hins vegar sé um að ræða land sem liggi milli Leirdals og Móadals og vestan Móadals. Þetta land liggi hærra en dalirnir og sé blautara og ekki eins hentugt til frísundaiðkunar og sumarhúsabyggðar. Landið sé engu að síður vel gróið og til þess fallið að auka enn verðmæti landsins í Móadal og Leirdal.
Ljóst sé að verðmæti lands í nágrenni Reykjavíkur hafi stóraukist á síðustu árum. Allt land í 0-150 km. fjarlægð frá Reykjavík sé eftirsóknarvert og séu greiddar háar fjárhæðir fyrir kjörlönd undir sumarhús. Ekki sé óalgengt að 1.000.000 krónur pr. ha. séu greiddar fyrir bestu löndin í þessu sambandi. Óhætt sé að fullyrða að landið í Móadal og Leirdal tilheyri slíku kjörlandi, enda stutt frá Reykjavík, kjarri vaxið og vel aðgengilegt. Með vísan til þessa er sú krafa gerð að tilboðsverð eignarnema sem gerði ráð fyrir hámarksverði pr. ha. 500.000 krónur verði hækkað um helming svo sem að framan greini. Sama eigi við um landið milli dalanna tveggja og vestan Móadals og sé það því fært upp í 180.000 krónur pr. ha.
Auk þess sem að framan sé rakið sé gerð krafa til 10.000.000 króna viðbótar eignarnámsbóta vegna almennrar verðlækkunar á jörðinni sem lagning raflínanna tveggja muni hafa í för með sér. Ljóst sé að línurnar þveri jörðina á mjög frjósömum og fallegum stað og hafi línurnar því áhrif langt út fyrir það svæði sem sé háð byggingarbanni. Þannig sé sjónmengun af línunum sem geri allt land þar sem þær sjást frá mun óáhugaverðara til sumarhúsabyggðar. Í þessu sambandi sé vert að hafa í huga að raflínurnar séu mjög áberandi og möstur há auk þess sem tvær línur samsíða myndi í raun vegg sem skeri jörðina í tvennt. Fordæmi séu fyrir því í matsmálum hjá Matsnefnd eignarnámsbóta er tengst hafi lagningu Búrfellslínu 3A frá árinu 1999 að greiddar séu bætur fyrir sjónmengun. Sjónarmið sem þar hafi legið til grundvallar eigi við í máli þessu einnig.
Frádráttur vegna færslu Brennimelslínu:
Svo sem fram komi í kröfugerðarkafla sé sú krafa gerð að land það sem nú sé undir Brennimelslínu og skilað verði þegar línan verði flutt upp að Sultartangalínu verði ekki reiknað til frádráttar bótum í máli þessu. Í yfirlýsingu dags. 22. mars 1977 sem séra Jón Einarsson, þáverandi ábúandi á Saurbæ, hafi undirritað vegna lagningar Brennimelslínu, komi fram að Landsvirkjun hafi heimild til að láta raflínuna standa óátalið af eigendum og ábúendum í landinu. Fyrir þennan rétt hafi Landsvirkjun greitt 400.000 krónur. Hvergi komi fram að presturinn hafi afsalað Landsvirkjun landi undir línuna né hafi eignarnemi sýnt fram á að Landsvirkjun hafi með öðrum hætti öðlast frekari rétt til landsins en þann sem nákvæmlega er fjallað um í yfirlýsingunni. Þó eignarnemi kjósi nú að hætta að nýta sér þann rétt að láta Brennimelslínu standa þar í landinu sem hún nú er, eigi það ekki að orsaka fjárhagstjón fyrir eignarnámsþola svo sem verða myndi ef verðmæti landsins undir línunni kæmi nú til frádráttar bótum fyrir nýja línustæðið.
Greinargerð ábúanda:
Sérstaklega sé tekið fram í tilefni af framlagningu greinargerðar af hálfu sr. Kristins Jens Sigurþórssonar ábúanda á Saurbæ í máli þessu, að Prestssetrasjóður sé eigandi jarðarinnar og aðili matsmáls þessa en ekki ábúandinn. Sjónarmið þau sem fram komi í greinargerð sr. Kristins séu hans þó eignarnámsþoli geti að nokkru leyti fallist á þau að svo miklu leyti sem þau samræmast efni greinargerðar þessarar.
NIÐURSTAÐA
Land það sem eignarnámið beinist að er annars vegar gróið og kjarri vaxið land í Leirdal og Móadal og hins vegar síður gróið land sem að hluta til liggur hærra í landi Saurbæjar.
Eignarnemi reisir 9 möstur til að bera Sultartangalínu 3 og 8 möstur til að bera Brennimelslínu 1 eða samtals 17 möstur. Samtals fara 2,04 ha lands undir möstur þessi og er enginn ágreiningur um það með aðilum. Einnig er ágreiningslaust að 2,15 ha fara undir vegaslóða og 36,8 ha lands verðar háðar byggingarbanni.
Af því landi sem fer undir möstur eru 1,08 ha kjarri vaxið og hugsanlegt að nýta það sem sumarbústaðaland. Verður til þess litið við ákvörðun bóta. Á hinn bóginn eru 0,96 ha sem hefur mun þrengri nýtingarmöguleika.
Af landi því sem fer undir vegaslóða er 1,3 ha kjarri vaxið land sem metið er með sama hætti og kjarrlendi sem fer undir möstur. Þá fara 0,85 ha lakara lands undir vegslóða.
Loks verða 17 ha kjarrlendis og 19,8 ha síðra lands háðir byggingarbanni á grundvelli 401. gr. reglugerðar nr. 264/1971 um raforkuvirki með síðari breytingum.
Samkvæmt framansögðu fara alls 4,19 ha undir möstur og vegaslóða. Af því landi eru 2,38 ha kjarrlendi en 1,81 ha lakara land.
Matsnefnd telur að kjarrlendi sé hæfilega metið á 700.000 krónur hver hektari og lakara land 100.000 krónur. Af því landi sem háð verður byggingarbanni má hafa önnur not og telur nefndin hæfilegt að bætur fyrir það nemi annars vegar 500.000 krónur á ha fyrir kjarrlendi en 70.000 krónur á ha fyrir lakara land. Hér er litið til þess að verð fasteigna almennt hefur hækkað mjög ört að undanförnu og þess að jörðin Saurbær er á góðum stað í námunda við þéttbýlasta hluta landsins. Einnig hefur nefndin litið til sölu lands á þessu svæði.
Við mat þetta er jafnframt tekið tillit til þess að not af 7 ha spildu í Leirdal takmarkast. Óljós áform um breytingu á legu Brennimelslínu 1 hafa ekki áhrif hér. Er það land metið til sama verðs og land sem háð er byggingarbanni.
Eignarnámsþoli hefur ekki sýnt fram á beint fjárhagslegt tjón sitt að öðru leyti en hér að framan hefur verið metið. Verður því ekki fallist á kröfu hans um bætur vegna almennrar verðrýrnunar.
Samkvæmt þessu verða bætur vegna þessara liða ákvarðaðar þannig:
Vegna mastra 852.000 krónur
Vegna vegaslóða 995.000 krónur
Vegna byggingarbanns 9.886.000 krónur
7 ha spilda 3.500.000 krónur
samtals 15.233.000 krónur
Fram kemur að þáverandi ábúandi í Saurbæ heimilaði Landsvirkjun að reisa 8 stauravirki til að bera háspennulínu og óhindraðan aðgang að henni um land Saurbæjar á árinu 1977. Voru þessi réttindi veitt ótímabundið og gegn eingreiðslu í peningum. Nefndin telur að réttindi þessi séu öldungis sambærileg þeim sem nú eru tekin eignarnámi. Hér er um að ræða annars vegar 0,96 ha undir möstur og 18,3 ha sem eru háðir byggingarbanni. Land þetta er skammt norðan þjóðvegar allgróið og að hluta til fallið til bygginga. Á hinn bóginn er hluti þessa lands mjög nærri þjóðveginum og dregur það úr nýtingarkostum. Kemur land þetta, sem nú er skilað að fullu, til frádráttar við ákvörðun eignarnámsbóta. Nefndin telur að verðmæti þess lands sem er undir möstrum nemi 400.000 krónum og verðmæti lands sem háð er byggingarbanni nemi 300.000 krónum á ha. Samtals koma því 5.890.000 til frádráttar vegna þessa.
Samkvæmt þessu ákvarðast bætur til eignarnámsþola 9.343.000 krónur.
Þá ber eignarnema að greiða málskostnað eignanámsþola sem ákveðst 545.910 krónur.
Loks ber eignarnema að greiða kostnað vegna starfa matsnefndar í máli þessu 584.200 krónur til ríkissjóðs.
ÚRSKURÐARORÐ
Eignarnemi, Landsnet hf., greiði eignarnámsþola, Prestsetrasjóði, 9.343.000 krónur og 545.910 krónur í málskostnað. Eignarnemi greiði 584.200 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
Allan V. Magnússon
Benedikt Bogason
Sverrir Kristinsson