Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 386/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 386/2019

Fimmtudaginn 12. desember 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. september 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. ágúst 2019, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 7. desember 2018. Umsókn kæranda var samþykkt þann 10. janúar 2019. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2019, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hún hefði verið stödd erlendis í janúar 2019 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Þar sem fullnægjandi gögn höfðu ekki borist þann 15. mars 2019 voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar. Í kjölfarið bárust fullnægjandi gögn og var mál kæranda endurupptekið. Þann 9. apríl 2019 var kærandi krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 335.557 kr. fyrir tímabilið 13. desember 2018 til 27. janúar 2019. Í ágúst 2019 var hluti skuldar kæranda enn ógreiddur og með ákvörðun, dags. 22. ágúst 2019, var farið fram á að kærandi myndi endurgreiða stofnuninni 291.191 kr., án álags, á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. september 2019. Með bréfi, dags. 18. september 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 25. október 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. október 2019, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé ekki sátt við afgreiðslu Vinnumálastofnunar vegna ferðar hennar erlendis (orlofs). Í október 2018 hafi kæranda verið tilkynnt að henni yrði sagt upp störfum fyrir jólin hjá tilteknu fyrirtæki og ekki víst hvenær starfsemi myndi hefjast á ný. Um svipað leyti hafi aðilar frá stéttarfélagi og Vinnumálastofnun veitt upplýsingar um hvernig skráning atvinnuleysisbóta færi fram og margt fleira. Kærandi tali enga íslensku og litla ensku. Kæranda hafi aldrei verið tjáð að hún þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun þegar hún færi til útlanda. Hún hefði ekki farið í ferðina ef hún hefði vitað að hún yrði launalaus á meðan. Kærandi hafi ekki fengið nein laun í rúma tvo mánuði og hafi þurft að taka lán til að lifa. Hún sé á lágmarkslaunum, nái varla að lifa og sjái ekki fram á að geta greitt Vinnumálastofnun til baka. Kærandi hafi reynt hvað hún geti til að verða sér úti um aukavinnu en það hafi því miður ekki tekist. Kærandi vísar til þess að greiðsluseðlar Vinnumálastofnunar séu óskiljanlegir og hún átti sig ekki á þeim frádrætti sem þar sé að finna.

Kærandi bendir á að í lok mars 2019 hafi vinnuveitandi hennar verið lýstur gjaldþrota en hún hafi aldrei fengið að sjá niðurstöðu frá Atvinnuleysistryggingasjóði varðandi vinnu hennar í mars sem og greiðslu fyrir áunnin réttindi eins og stéttarfélagið hafi gert kröfu til. Samkvæmt þeim hafi kærandi átt inni eins mánaðar uppsagnarfrest sem og unninn tíma í mars. Þann mánuð hafi kærandi skráð sig í tilfallandi vinnu og við það hafi réttur hennar til atvinnuleysisbóta verið skertur. Hún hafi hins vegar ekki fengið greitt fyrir þá daga sem hún hafi unnið, hvorki frá Vinnumálastofnun né vinnuveitanda sínum.

Kærandi óskar einlæglega eftir því að mál hennar verði endurskoðað og tekið verði tillit til þess að hún sé hvorki skrifandi né lesandi á ensku eða íslensku og eigi gríðarlega erfitt með að greiða svo mikla fjármuni til baka. Auðvitað eigi hún að leita sér hjálpar þegar hún skilji ekki eitthvað eða hafi ekki vitneskju og það sé hún nú að gera. Kærandi ítrekar að henni hafi verið kennt hvernig hún ætti að skrá sig á atvinnuleysisbætur og að hún yrði að tilkynna ef hún fengi vinnu. Henni hafi aldrei verið sagt að hún þyrfti að tilkynna ef hún færi til útlanda. Hún geti ekki spurt um eitthvað ef hún viti ekki hvað hún eigi að spyrja um. Að vera án atvinnu og án atvinnumöguleika á B í desember og janúar hafi verið ástæða ferðarinnar. Hún hafi komið til baka vegna þess að henni hafi verið lofuð vinna í byrjun febrúar en það hafi ekki staðist. Í febrúar og mars hafi hún einungis unnið 10 daga og þá hafi fyrirtækið orðið gjaldþrota. Hún hafi þurft að flytja og finna vinnu annars staðar. Það hafi aldrei verið ætlun kæranda að svíkja eða stelast til að gera eitthvað rangt, hún hafi ekki vitað betur. Kæranda finnist ákvörðun Vinnumálastofnunar gríðarlega harkaleg miðað við að það eina sem hún hafi ekki gert rétt hafi verið að tilkynna ekki um för til útlanda. Á þessum tíma hafi hún ekki átt fyrir mat, ekki haft vinnu eða farið neitt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Til skuldarinnar hafi stofnast, meðal annars vegna ótilkynntrar dvalar erlendis og tekna af tilfallandi vinnu hennar samhliða því að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur. Óumdeilt sé að kærandi hafi verið stödd erlendis á tímabilinu 13. desember 2018 til 27. janúar 2019. Kærufrestur vegna ákvörðunar frá 14. mars 2019 sé nú liðinn og því snúi málið einvörðungu að ákvörðun stofnunarinnar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheimta ofgreiddar bætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Ekkert álag hafi verið lagt á skuld kæranda. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og skuld kæranda við Vinnumálastofnun nemi 291.191 kr. sem henni beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 39. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. ágúst 2019, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 291.191 kr., án álags, á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. apríl 2019, var kærandi krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna dvalar erlendis á tímabilinu 13. desember 2018 til 27. janúar 2019 samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna, þ.e. með skuldajöfnuði við 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Af kæru má ráða að ágreiningur málsins lúti að framangreindri ákvörðun. Úrskurðarnefndin tekur fram að í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. apríl 2019 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um þriggja mánaða kærufrest. Ljóst er að sá frestur var liðinn þegar kærandi lagði inn kæru til úrskurðarnefndarinnar 16. september 2019 og verður sá þáttur kærunnar því ekki tekinn til efnislegrar meðferðar.

Í hinni kærðu ákvörðun er farið fram á að kærandi endurgreiði Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda er gefinn kostur á að semja um greiðslu skuldarinnar og tilkynnt að mál hennar verði sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu hafi greiðsla ekki borist innan 90 daga. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að rétt hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda við Vinnumálastofnun. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. ágúst 2019, í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta