Hoppa yfir valmynd

Nr. 139/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 139/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18010028

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. janúar 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum þeirra.

Þess er krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 42. gr. og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 9. júní 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Þann 26. júní 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 30. júní 2017 barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 13. október 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Þýskalands. Kærandi kærði þá ákvörðun þann 15. nóvember 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 6. desember 2017, ásamt fylgigögnum. Með úrskurði kærunefndar nr. 690/2017, dags. 12. desember 2017, felldi kærunefnd úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og lagði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

Þann 10. janúar 2018 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda á ný þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 30. janúar 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 8. febrúar 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í málinu þann 23. febrúar og 9. mars 2018. Þann 9. mars sl. bárust kærunefnd auk þess upplýsingar frá Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Þýskalands. Lagt var til grundvallar að Þýskaland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu en það var þó mat stofnunarinnar að fjölskyldan í heild væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Þýskalands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að helsta ástæða flótta hans og fjölskyldu hans frá [...] hafi verið [...] sem eiginkona kæranda hafi þurft að þola af hálfu bróður kæranda. Þá rekur kærandi aðstæður fjölskyldunnar í Þýskalandi, sem hafi verið bágbornar. Þá hafi sonur hans sætt [...] í flóttamannabúðum þar í landi.

Enn fremur gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á stöðu barna hans. Á ákvörðunum stofnunarinnar verði ekki séð að einstaklingsbundið mat hafi farið fram á stöðu þeirra. Þá verði ekki séð að efnisleg afstaða hafi verið tekin til þess hvort ástæða hafi þótt til beitingar 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í málum barna kæranda, út frá þeirra eigin hagsmunum.

Þá gerir kærandi athugasemd við að hann hafi ekki verið upplýstur um gögn sem Útlendingastofnun hafi borist frá þýskum yfirvöldum fyrr en ákvörðun hafi legið fyrir í máli hans. Hafi kærandi því ekki verið upplýstur um stöðu máls hans og andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur.

Að framanrituðu virtu verði ekki séð að Útlendingastofnun hafi fylgt fyrirmælum kærunefndar og lagt viðhlítandi mat á þau sjónarmið sem stofnuninni sé skylt að leggja til grundvallar varðandi sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð byggir kærandi m.a. á hagsmunum barna sinna og vísar í því sambandi m.a. til 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og ýmissa ákvæða tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins þar að lútandi. Þá vísar kærandi, kröfu sinni til stuðnings, til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og lögskýringargagna að baki ákvæðinu, svo og laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, og lögskýringargagna að baki breytingarlögunum. Kærandi byggir enn fremur á því að ekki megi senda hann og fjölskyldu hans til Þýskalands vegna non-refoulement reglu þjóðaréttar. Vísar kærandi í því sambandi til 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Til stuðnings varakröfu sinni vísar kærandi m.a. til 10. gr. stjórnsýslulaga, 2. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 6. tölul. 3. gr. sömu laga.

Þá hefur kærandi lagt fram ýmis gögn ásamt greinargerð sinni, þ. á m. skírnarvottorð, komunótur frá Göngudeild sóttvarna, greinargerðir [...], sálfræðings, og vottorð [...], ljósmóður, en fyrir liggur að eiginkona kæranda er nú barnshafandi.

Þá barst kærunefnd tölvupóstur frá talsmanni kæranda, dags. 9. mars sl., þar sem vakin var athygli á því að níu mánuðir væru liðnir frá því að kærandi og fjölskylda hans hefðu lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. Því væri ljóst að mál þeirra féllu undir ákvæði I til bráðabirgða við lög um útlendinga nr. 80/2016, sbr. lög nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Af 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur kærunefnd útlendingamála túlkað ákvæðið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Í 1. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða, sbr. lög nr. 81/2017, segir að þrátt fyrir 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli miða við níu mánuði í stað 12 mánaða ef um barn sé að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.

Með úrskurði kærunefndar nr. 138/2018, dags. 20. mars 2018, voru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barna kæranda og eiginkonu hans felldar úr gildi. Lagt var fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn þeirra um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar í ljósi þess að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016, sbr. lög um breytingu á lögum um útlendinga nr. 81/2017, í málum barna kæranda voru uppfyllt. Kærunefnd hefur farið yfir meðferð málsins fyrir stjórnvöldum, m.a. upplýsingar frá Útlendingastofnun, og verður kærandi ekki talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/2017 er það niðurstaða kærunefndar að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði I til bráðabirgða við lögin.Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta