Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2006

Þriðjudaginn 30. maí 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. mars 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 1. mars 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 22. febrúar 2006 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„There are two main subjects, that I have no right of social security system in D-country:

To get support I need to live with my partner and the child in one household in D-country.

To get support, the family income (yearly) can’t be over X EURr (netto) = > X krónur.

Ours were higher:

B 2005 =>  X krónur  =>  X  EUR

A 2005 =>                 =    X  EUR

Family income                 X   EUR

I am self employed, so I will give you a confirmation, that I am not going work and that I am not having income during the time of fæðingarorlof“

 

Með bréfi, dagsettu 7. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 11. apríl 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 12. desember 2005, sem móttekin var 16. desember 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði/fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar í sex mánuði og skyldu greiðslur hefjast þremur mánuðum eftir fæðingu barns hans.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 16. desember 2005 og í umsókn hans kom fram að hann starfaði hjá D-lensku fyrirtæki.

Þá lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 22. febrúar 2006, var umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði um að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir fæðingardag barns hans. Í bréfinu var einnig tekið fram að til að unnt yrði að leggja mat á hvort kærandi ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar þyrftu að berast frá honum frekari gögn.

Engin frekari gögn bárust lífeyristryggingasviði fyrr en með kæru kæranda til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. í dag, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar synjað á þeim forsendum að kærandi væri á vinnumarkaði í D-landi.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 31. mars sl., en ekki liggja fyrir upplýsingar um fæðingu þess í þjóðskrá Hagstofu Íslands. Því liggur ekki endanlega fyrir hvert sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna verður. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kæranda aldrei verið á íslenskum vinnumarkaði og segir hann sjálfur í umsókn sinni að hann starfi hjá D-lensku fyrirtæki. Því má ljóst vera að kærandi uppfyllir ekki framangreint skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og á því ekki rétt á slíkum greiðslum.

Eins og að framan greinir var kæranda í bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 22. febrúar 2006, leiðbeint um að leggja fram frekari gögn til að unnt yrði að leggja mat á hvort hann ætti rétt á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Af gögnum þeim sem kærandi sendi með kæru sinni til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála má ráða að hann sé á vinnumarkaði í D-landi sem sjálfstætt starfandi og að hann eigi ekki rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í D-landi vegna of hárra tekna hans og barnsmóður hans.

Í 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Þar segir í 1. mgr. að foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eigi rétt á fæðingarstyrk vegna fæðingar.

Í 10. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlofs nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, segir að foreldri á innlendum vinnumarkaði sem eigi rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. en uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eigi rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr. laganna.

Þar sem kærandi er samkvæmt framlögðum gögnum á vinnumarkaði í D-landi getur lífeyristryggingasvið ekki fallist á að kærandi sé utan vinnumarkaðar og eigi rétt á fæðingarstyrk sem slíkur samkvæmt 18. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga. Þá getur lífeyristryggingasvið ekki heldur fallist á að kærandi geti byggt rétt til fæðingarstyrks á ákvæði 10. mgr. 13. gr. þar sem hann er ekki á innlendum vinnumarkaði heldur erlendum.

Að lokum skal tekið fram að þar sem bæði Ísland og D-land eru aðilar að evrópska efnahagssvæðinu gildir um þegna beggja ríkjanna að einstaklingar á vinnumarkaði skulu tryggðir í því landi sem þeir vinna í, sbr. II. bálk reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Á kærandi því á þeim grundvelli að vera tryggður í D-lenska almannatryggingakerfinu.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið hvort tveggja að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 95/2000 og að synja umsókn hans um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. apríl 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi á sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 1. mgr. 18. gr. ffl. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þá er í 10. mgr. 13. gr. ffl. kveðið á um rétt foreldris á innlendum vinnumarkaði sem uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. til greiðslu fæðingarstyrk skv. 18. gr.

Barn kæranda er fætt 11. apríl 2006. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 11. október 2005 og fram að fæðingardegi barns.

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki verið og var ekki á innlendum vinnumarkaði við fæðingu barns. Uppfyllti hann samkvæmt því ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. fyrir rétti til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði né skilyrði 10. mgr. 13. gr. ffl. fyrir rétti foreldris á vinnumarkaði til fæðingarstyrks skv. 18. gr. ffl. Hann starfaði á D-lenskum vinnumarkaði og telst því ekki hafa verið utan vinnumarkaðar í skilningi 18. gr. ffl.

Þar sem kærandi uppfyllir hvorki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði né skilyrði 10. mgr. 13. gr. ffl. eða 1. mgr. 18. gr. ffl. fyrir greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar, er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta