Mál nr. 13/2006
Þriðjudaginn 30. maí 2006
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 6. mars 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 2. mars 2006.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og ákvarða henni greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar.
Í kærubréfi segir:
„Ég sótti um fæðingarorlof sem mér var hafnað um af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins. Meðfylgjandi er bréf frá þeim. Þar kemur fram að það vantar upp á 15 launaða daga sem brúar bil milli skólagöngu og samfelldrar vinnu í sex mánuði fyrir fæðinguna. Samkvæmt samtali við T.R. á ég rétt á lægri fæðingarstyrk sem er um B krónur á mánuði í staðinn fyrir styrk sem er í samræmi við það sem námsmenn fá sem eru um D krónur á mánuði.
Ég er mjög ósátt við þessa niðurstöðu TR. Ég útskrifaðist sem E-fræðingur 25. júní 2005. Við eigum dreng sem er fæddur 30. janúar 2004 og var hann hjá dagmömmu síðastliðið sumar sem að vinnur til kl. 14. á daginn og tók hún fimm vikna sumarfrí sem gerði mér mjög erfitt fyrir að sækja um vinnu. Aðlögunartími nýútskrifaðra E-fræðinga eru a.m.k. 3 mánuðir og vinnutími yfirleitt til kl. 16. á daginn. Eiginmaður minn er oft fjarverandi í lengri tíma vegna atvinnu sinnar og takmörkuð utanaðkomandi aðstoð með son okkar, varð til þess að ég var án atvinnu síðastliðið sumar.
Þar sem eiginmaður minn starfaði erlendis í þrjú ár, dvaldi ég erlendis hjá honum á sumrin og hef því ekki unnið með skólanum hérlendis á þeim tíma. TR benti mér á að ég hefði getað sótt um atvinnuleysisbætur síðastliðið sumar sem ég nýtti mér ekki. Sú athugun mín leiddi í ljós að ég átti ekki rétt á þeim vegna fyrrgreindra aðstæðna.
Ég tel ekki sanngjarnt að eftir fjögurra ára háskólanám og þess sem ég er að leggja til í samfélaginu með minni atvinnu, að ég eigi ekki rétt á mannsæmandi fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk. Ég trúi ekki að 15 dagar eyðileggi áhyggjulaust fæðingarorlof sem mig langar að eiga með ófæddu barni okkar. Ég sé ekki fram á annað en að byrja að vinna þegar barnið er rúmlega fjögurra mánaða ef þetta breytist ekki og ekki veit ég hvernig það á að ganga með barn á brjósti. Ég skil ekki hvernig ég á að lifa á B krónur á mánuði og ég trúi ekki öðru en að þið sem sitjið í nefndinni séuð sammála mér.“
Með bréfi, dagsettu 16. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 3. maí 2006. Í greinargerðinni segir:
„Með umsókn, dags. 19. janúar 2006, sem móttekin var 24. janúar 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuð frá fæðingardegi barns hennar, sem áætlaður var 13. mars 2006.
Með umsókn kæranda fylgdu vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 19. janúar 2006, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 20. janúar 2006, launaseðlar, dags. 1. nóvember 2005 og 1. og 30. desember 2005, svo og námsferilsyfirlit kæranda við F-háskóla, dags. 24. janúar 2006.
Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.
Þann 20. febrúar 2006 sendi lífeyristryggingasvið bréf til kæranda, sem ranglega var dags. 20. september 2006. Í bréfinu var kæranda gerð grein fyrir að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og henni gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn til staðfestingar á rétti hennar til greiðslna.
Þann 27. febrúar 2006 hafði kærandi símasamband við starfsmann lífeyristryggingasvið og gerði grein fyrir að hún gæti ekki lagt fram þau gögn sem henni hafði bréflega verið bent á að leggja fram.
Engin frekari gögn bárust frá kæranda og var umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði því synjað með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 9. mars 2006. Í sama bréfi var kæranda bent á að hún ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar. Kærandi óskaði í framhaldinu eftir að fá greiddan fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar og var henni þann 21. mars 2006 send greiðsluáætlun yfir greiðslur fæðingarstyrks til hennar.
Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.
Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,
a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.
Barn kæranda er fætt þann 4. mars 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er því frá 4. september 2005 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið 4. september 2005 til 3. mars 2006.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum var kærandi í námi við F-háskóla á vorönn 2005 og hóf síðan störf í G þann 29. september 2005. Engar upplýsingar liggja fyrir sem benda til að unnt sé að telja kæranda á vinnumarkaði tímabilið 4. til og með 28. september 2005 samkvæmt ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, eins og gert var í bréfi, dags. 9. mars 2006.
Vegna náms kæranda á vorönn 2005 skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.
Kærandi var sannanlega í fullu námi á vorönn 2005. Nám hennar á vorönn nægir ekki til að hún uppfylli almenna skilyrðið fyrir fæðingarstyrk námsmanna um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, þar sem barn hennar er, eins og að framan greinir, fætt þann 4. mars 2006.
Í 8. og 9. mgr. 19. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er að finna undanþáguheimildir frá því að fullt námi hafi verið stundað í sex mánuði. Þannig er samkvæmt 8. mgr. 19. gr. heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði.
Aðstæður kæranda falla ekki undir undanþáguheimild 8. mgr. 19. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna. Þá telur lífeyristryggingasvið að undanþáguheimild 9. mgr. 19. gr. laganna eigi heldur ekki við um aðstæður kæranda, enda ekki unnt að fallast á að kærandi hafi verið samfellt á vinnumarkaði eftir að námi hennar lauk vorið 2005, sbr. það sem að framan er rakið um þátttöku hennar á innlendum vinnumarkaði.
Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að leiðbeina kæranda um rétt hennar til fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar þegar synja varð henni um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og að greiðsluyfirlit, dags. 21. mars 2006, beri réttilega með sér þann rétt sem hún á til greiðslna samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. lög nr. 90/2004.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 15. maí 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og ákvarða henni greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst jafnframt:
a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.
Kærandi ól barn 4. mars 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 4. september 2005 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi hvorki í starfi á tímabilinu 4. september til 29. september 2005, en þá hóf hún störf á G, né átti hún rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi uppfyllir þannig ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt því ber að staðfesta þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi framangreindra laga er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 7. mgr. 19. gr. ffl.
Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.
Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. ffl. er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði.
Óumdeilt er að kærandi var í fullu námi í F-háskóla á vormisseri 2005 og útskrifaðist þaðan sem E-fræðingur þann 25. júní 2005. Nám hennar á vormisseri 2005 nægir ekki til að uppfyllt sé skilyrði um sex mánaða samfellt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Kærandi hóf ekki störf á vinnumarkaði fyrr en 29. september 2005. Hún átti ekki rétt á atvinnuleysisbótum til að brúa tímabilið sem leið frá því að námi hennar lauk þar til hún hóf störf. Með hliðsjón af því uppfyllir hún ekki skilyrði undanþáguákvæðis 9. mgr. 9. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í námi og á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði. Samkvæmt því hefur kærandi ekki öðlast rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest svo og ákvörðun stofnunarinnar um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem foreldris utan vinnumarkaðar.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest. Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um rétt kæranda til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson