Mál nr. 54/2005
Þriðjudaginn, 4. apríl 2006
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 5. desember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 26. nóvember 2005.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 2. nóvember 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
Í desember 2002 lenti ég í bílslysi sem hafði þær afleiðingar að ég þurfti á mikilli endurhæfingu að halda í kjölfarið. Þegar að þetta gerðist er ég nýbúin að klára 6 önn á B-braut við D-framhaldsskóla og búin að skrá mig á vorönnina (03) hjá þeim og ætlaði að taka 23 einingar á þeirri önn, sem myndi verða til þess að ég myndi útskrifast með stúdentspróf eftir haustönnina 2003. Vegna slyssins gat ég ekki stundað námið á vorönninni sem ég stefni á.
Eftir útskrift af Grensásdeild LSH, reyndi ég við D-framhaldsskólann aftur bæði haustönn 03 og vorönn 04, vegna afleiðinga slyssins gekk það ekki alveg sem skyldi og var því ákveðið í samráði við læknateymið á Grensás að ég skyldi halda áfram með þetta nám hjá E-skóla og klár ég þar alveg tvær annir sem sagt haustönn 04 og vorönn 05. Hóf ég svo nám aftur hjá E-skóla um haustið 2005 er þá komin á áttunda mánuð meðgöngu, þar sem ég var gengin svona langt reyndist skólasetan erfið og var mér ráðlagt að hætta þar sem ég ætti svo stutt eftir í fæðingu.E- er metinn til eininga hjá Fjölbrauta- og Menntaskólum og kláraði ég samsvarandi a.m.k. 13 einingum á hvorri önn sem ég var í E-skóla. Einnig skal tekið fram að nám í E-skóla telst lánshæft hjá LÍN.
Með ósk um jákvæð viðbrögð við þessari kæru minni og að ég fái að njóta jafnræðis við aðra.“
Með bréfi, dagsettu 12. janúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 7. febrúar 2006. Í greinargerðinni segir:
„Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 2. nóvember 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám. Tekið var fram að í stað fæðingarstyrks námsmanna yrði kæranda greiddur fæðingarstyrkur, sem foreldri utan vinnumarkaðar og henni sent greiðsluyfirlit þess efnis, dags. sama dag.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.
Barn kæranda fæddist þann 26. október 2005. Framlögð gögn bera með sér að kærandi stundaði nám við E-skóla, í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins. E-skóli er hins vegar ekki á lista, sem lífeyristryggingasvið hefur fengið frá menntamálaráðuneytinu, yfir viðurkenndar menntastofnanir á Íslandi og samkvæmt upplýsingum sem lífeyristryggingasvið fékk símleiðis frá menntamálaráðuneytinu hefur E-skóli ekki óskað eftir viðurkenningu ráðuneytisins sem menntastofnun.
Á grundvelli framangreinds taldi lífeyristryggingasvið sér ekki fært að líta á nám kæranda við E-skóla sem nám við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi og taldi kæranda af þeim sökum ekki uppfylla framangreint skilyrði um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 fyrir fæðingu barns hennar, eins og það er skilgreint í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. febrúar 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með tölvupósti frá F, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu bárust upplýsingar um E-skóla að beiðni aðstandanda kæranda, en þar segir orðrétt: „E-skóli hefur starfað sem reglulegur skóli frá árinu 1987 og notið viðurkenningar í skólakerfinu þótt aldrei hafi verið sótt um formlega viðurkenningu fyrir hana sem einkaskóla á framhaldsskólastigi.“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.
Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.
Kærandi ól barn 26. október 2005. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 26. október 2004 fram að fæðingu barns.
Kærandi var við nám í E-skóla og lauk þaðan samkvæmt gögnum málsins 86% af fullu námi á vorönn 2005 og var skráð í 80% nám á haustönn 2005. Það er mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að ekki sé hægt að líta framhjá því að þrátt fyrir að E-skóli hafi ekki óskað eftir því formlega að teljast viðurkenndur skóli er viðurkennt af menntamálaráðuneytinu að um sé að ræða viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um fæðingarstyrk sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson