Mál nr. 3/2006. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. júlí 2006
í máli nr. 3/2006:
Icepharma ehf. og
BrainLab
gegn
Landspítala Háskólasjúkrahúsi og
Ríkiskaupum
Með bréfi 27. janúar 2006 kæra Icepharma ehf. og BrainLab ákvörðun Ríkiskaupa fyrir hönd Landspítala Háskólasjúkrahúss 30. desember 2006 um að taka tilboði InterMedica ehf. í útboði nr. 13850 auðkennt sem ,,A Surgical Navigation System for the Department of Surgery at Landspítali – University Hospital in Reykjavík, Iceland“.
Kærendur krefjast þess að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærðu gagnvart þeim og að kærðu verði gert að greiða þeim kostnað við að hafa kæruna uppi.
Kærðu krefjast þess að kærunni verði vísað frá og að kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefjast þeir þess að kærendur verði úrskurðaðir til greiðslu málskostnaðar, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.
I.
Í maí 2005 óskuðu kærðu eftir tilboðum í staðsetningarkerfi fyrir skurðaðgerðir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Um var að ræða almennt útboð á Evrópska efnahagsvæðinu. Óskað var eftir tvenns konar tilboðum þannig að kærðu hefðu valkost um að leigja tækin eða kaupa þau. Frestur bjóðenda til fyrirspurna var til 3. júní 2005 og svarfrestur til 10. júní sama ár. Opnun tilboða var fyrirhuguð 16. júní 2005, en á þeim tíma tilkynnti fyrirsvarsmaður kærðu að mistök hefðu orðið þar sem einni fyrirspurn hefði ekki verið svarað. Var opnun tilboða vegna þessa frestað til 29. júní 2005 og bárust alls átta tilboð frá tveimur aðilum. Þrjú tilboð bárust frá kærendum, sem miðuðust við eitt, tvö eða þrjú kerfi, og námu þau kr. 28.197.383, kr. 40.281.975 og kr. 44.310.173. Fimm tilboð bárust frá InterMedica ehf. og Medtronics, sem miðuðust við eitt eða tvö kerfi, og námu tvö þeirra kr. 40.195.953 og þrjú kr. 43.585.641. Nefnd skipuð fimm einstaklingum, sem unnið hafði að gerð útboðslýsingar, mat tilboðin og gerði skýrslu um úttekt á þeim. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að lausn með tveimur grunntækjum hentaði spítalanum best miðað við þær klínísku þarfir sem settar voru fram í útboðslýsingu. Hlutu kærendur 8,0 í einkunn fyrir það tilboð, en InterMedica ehf. hlaut einkunnina 9,6. Með tölvupósti 30. desember 2005 var tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka tilboði sem barst frá InterMedica ehf. þar sem boðið var staðsetningartæki frá Medtronic af gerðinni Stealthstation Treon Plus. Kærendur óskuðu í kjölfarið eftir skýringum á tilteknum atriðum og var meðal annars óskað skýringa á því hvers vegna kærendur hefðu ekki verið valdir í útboðinu þar sem þeir hefðu skilað inn lægsta tilboðinu. Var því svarað með vísan til þess að í lið 2.17 í útboðslýsingu komi fram að það tilboð verði valið sem metið verði hagstæðast miðað við matsþætti í liðum 2.17.2 og 2.17.3. Hafi því ekki eingöngu verið byggt á verði við mat á tilboðum, en að öðru leyti var vísað í greinargerð þar sem fjallað var um mat á tilboði kærenda. Kærendur sendu inn fyrirspurnir á ný með bréfi 19. janúar 2006 og var þar óskað upplýsinga um heildarverð þess tilboðs sem valið var og upplýsinga um hvort sams konar tækni og iPlan Fibertracking, sem sett var inn í tilboð kærenda, hefði verið uppreiknað í tilboði InterMedica ehf. Í svarbréfi kærðu 27. janúar 2006 kom fram að heildarverð hagstæðasta tilboðs hefði verið kr. 43.585.641 og að einstökum hlutum hefði verið bætt við tilboð til að þau uppfylltu útboðslýsingu með sem bestum hætti í samræmi við kröfur í liðum 1.1., 4.2 og 4.3 í útboðslýsingu. Þegar slíkum þáttum hefði verið bætt við fengist samanburðarverð.
II.
Kærendur byggja á því að kærðu hafi við yfirferð tilboða og síðar við val á þeim breytt tilboði kæranda með ólögmætum hætti. Af gögnum málsins verði ráðið að kærðu hafi tekið tilboði InterMedica ehf. að fjárhæð kr. 43.585.641 og því einsýnt að engu hafi verið breytt í tilboði fyrirtækisins. Sé háttsemi kærðu augljóst brot á jafnræðisreglu 11. gr. laga nr. 94/2001 og ólögfestum meginreglum útboðsréttar. Þá hafi verið þverbrotnar reglur sem gildi um val á tilboðum og reglur um gegnsæi við það val. Í útboðsgögnum hafi forsendur fyrir vali á tilboði verið settar fram þannig að klínísk og tæknileg geta skyldi vega 50%, verð skyldi vega 40% og þjónusta og stuðningur bjóðenda vega 10%, en síðastnefndum þætti verið skipt niður í notendaþjálfun og notendaþjónustu 4%, þjálfun tæknimanna og tækniþjónustu 4% og staðsetningu varahlutalagers og afhendingarþjónustu 2%. Hafi tvö tilboð kærenda verið lægri heldur en það tilboð sem valið var. Af skýrslu kærðu um tilboð kærenda verði ráðið að aðeins tilboð nr. 2 hafi verið metið til einkunna og hafi fengist 48,4% fyrir klíníska og tæknilega getu, 33,7% fyrir verð og 9,6% fyrir þjónustu. Hafi kærendur því fengið 9,2 í einkunn. Hafi þau tæki sem kærandi bauð fram uppfyllt öll skilyrði útboðsgagna. Hafi kærðu við mat á tilboðum bætt við dýrari lausn en boðin hafi verið í tilboðinu, þ.e. Vectorvision 2 í stað Vectorvision Compact. Þá hafi verið settar inn ýmsar sérlausnir, t.d. iPlan Fibertracking sem InterMedica ehf. geti ekki boðið og raunar enginn nema kærendur. Hækki sú lausn verðið um kr. 2.126.888. Í skýrslu kærðu komi því fram að verð tilboðs kærenda hafi numið kr. 54.307.033 sem sé miklu hærra heldur en framlögð tilboð og grundvallist einkunnin 33,7% af 40% á þeirri tölu. Hafi kærðu þannig byggt mat sitt á tilboði sem alls ekki hafi verið lagt fram af hálfu kærenda. Í skýrslu kærðu um tilboð kærenda sé það tilgreint að fjárhæð kr. 43.308.765, en kr. 41.482.299 með afslætti. Fái hvorug þessara fjárhæða staðist miðað við framlagt tilboð nr. 2 sem hafi verið að fjárhæð kr. 40.281.173. Viðbætur nemi svo hvorki meira né minna en kr. 13.952.629 sem raski bersýnilega öllum grundvelli tilboðsins. Bent er á að InterMedica ehf. geti alls ekki fullnægt sumum af þeim skilyrðum og þáttum sem aðeins hafi verið bætt við tilboð kærenda. Þannig sé fyrirtækið ekki í stakk búið til að bjóða tæki sem tilgreind séu í töflu 6 á bls. 6 í skýrslu kærðu um úttekt á tilboðum, nr. 49-51, 54 og 56 og kunni að vera um fleiri tæki að ræða. Hafi þessum tækjum hins vegar verið bætt við tilboð kærenda sem viðbótarhlutir. Ef samræmis og jafnræðis væri gætt þá yrði það sama gert við tilboð InterMedica ehf. og það einnig hækkað. Tekið er fram að í skýrslu kærðu sé tekið fram undir liðnum ,,Almennt“ að Vectorvision Compact sé ekki fullkomið varakerfi fyrir Vectorvision 2 og henti síður kærðu. Hins vegar sé ljóst að þau kerfi sem boðin voru, saman eða í sitt hvoru lagi, hafi uppfyllt öll skilyrði útboðsgagna og virðist það ágreiningslaust í málinu.
Ekki hafi með nokkru móti verið unnt að sjá af útboðsskilmálum að kærðu gætu tekið þætti úr tilboðum aðila, bætt öðrum við og raunar raðað tilboðum upp á nýtt. Hafi tilboð kærenda verið afbökuð af kærðu við mat á þeim og sé sú háttsemi brot á reglum um jafnræði bjóðenda, sbr. 11. gr. laga nr. 94/2001. Með því að breyta tilboðum kærenda án heimildar að lögum eða í útboðsgögnum hafi verið farið á svig við jafnræði aðila sem tryggja eigi með tilgreindu ákvæði. Tekið er fram að samkvæmt lið 2.15 í útboðsgögnum hafi frávikstilboð verið óheimil, en framgöngu kærðu í málinu verði helst lýst þannig að þeir hafi sjálfir breytt tilboði kærenda í frávikstilboð.
Þá er byggt á því að háttsemi kærðu feli í sér brot á reglum um val á tilboðum, sbr. VIII. kafla laga nr. 94/2001. Hafi kærðu borið að meta tilboð aðila eftir þeim fyrirfram gefnu forsendum sem fram hafi komið í lið 2.17 í útboðsgögnum. Hafi hvergi verið að finna heimild til að velja þau tæki sem kærði teldi henta tilboðum kærenda, bæta þeim við og auka þannig verðið. Hefðu slíkar heimildir þurft að koma skýrt fram í útboðsgögnum þannig að kærendur gætu áttað sig á þeirri heimild, auk þess sem heimildin hefði þurft að styðjast við lög. Telji kærendur að lagaheimild skorti og vísa til þess að val á tilboði megi einungis grundvallast á þeim forsendum sem séu tíundaðar í útboðsgögnum, sbr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Forsendur fyrir vali tilboðs þurfi að koma skýrt fram í útboðsgögnum og megi ekki vísa til annarra atriða en þeirra sem staðreynd verði á grundvelli gagna sem bjóðendur leggi fram eða með öðrum hlutlægum hætti, sbr. 26. gr. laganna. Hafi verið útilokað fyrir kærendur að átta sig á að kærðu myndu hluta í sundur tilboð þeirra og bæta við þáttum sem ekki hafi verið inn í tilboðunum sjálfum. Hafi það því verið óheimilt.
Krafa kærenda um álit nefndarinnar á skaðabótaskyldu kærðu gagnvart þeim er byggð á 2. mgr. 81. gr., sbr. 84. gr. laga nr. 94/2001. Verði talið að háttsemi kærðu hafi farið í bága við lög leiði það nánast beinlínis af því að fallast verði á kröfur kærenda. Sé einsýnt að skilyrðum 84. gr. sé fullnægt í málinu og er í því sambandi vísað til þess að kærendur hafi hlotið góðar einkunnir fyrir aðra þætti en verð og raunverulega átt lægsta verðið. Verði því að telja yfirgnæfandi líkur á því að tilboð þeirra hefði verið valið hefði hið framboðna verð verið metið til einkunnar en ekki tilbúið og samsett verð.
Kærendur mótmæla kröfu kærðu um frávísun málsins og benda á að sérstaklega sé gert ráð fyrir því í lögum nr. 94/2001 að kærunefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu, sbr. 2. mgr. 81. gr. laganna. Sé engin þörf á að gera aðra kröfu því samhliða, svo sem um að ákvörðun verði metin ólögmæt.
Vísað er til lýsingar kærðu um hvernig vali á tilboði hafi verið háttað og tekið fram að öll tilboð kærenda hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru í útboðslýsingu og innihaldið allan þann búnað sem krafist hafi verið af kærðu. Feli aðferðafræði kærðu í sér að bætt sé við tilboð tækjum og búnaði sem ekki hafi verið sérstök þörf á til að fullnægja skilyrðum útboðsgagna. Sé bætt við tækjum sé það vitaskuld til þess fallið að gera tilboð betra tæknilega séð. Hins vegar verði að líta til þess að fari tilboð ekki í bága við útboðsskilmála eða vanti ekkert upp á að skilyrðum útboðsgagna sé fullnægt geti kærðu ekki bætt við búnaði án þess að það eigi sér stoð í útboðsskilmálum. Þá hafi slík háttsemi í för með sér að verð hækki frá því sem boðið var, en það hafi ráðið mestu um að kærendur urðu ekki fyrir valinu. Ekki stoði fyrir kærðu að vísa til 50. gr. laga nr. 94/2001. Virðist þeir ganga út frá því að heimilt hafi verið að sníða tilboð kærenda eftir eigin höfði og leggja síðan mat á hvort það hentaði þeirra forsendum, þ.e. forsendum sem kærendur gátu ekki áttað sig á hverjar væru fyrirfram. Við allt ferlið hafi gleymst að gera verði grein fyrir þeim forsendum sem byggt verði á í útboðsskilmálum, sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001. Hafi kærunefnd útboðsmála margoft fjallað um þær kröfur sem gerðar séu til kaupenda um skýrleika og gegnsæi útboðsskilmála. Sé byggt á sjónarmiðum við val á tilboði, sem ekki komi fram í útboðsskilmálum, leiði það oftast til þess að litið sé svo á að staðið hafi verið að vali bjóðenda með ólögmætum hætti. Þá hafi ekki þýðingu að vísa til hefðar við útboðsgerð í ljósi þess að hefðin fari í bága við lög, enda verði lögbrot nú ekki réttlætt með fyrri lögbrotum.
Þá hafi aðeins eitt tilboð kærenda verið metið til einkunna og tilboð nr. 1, sem hafi verið langlægst, alls ekki verið metið. Verði að skilja það svo að tilboðinu hafi verið hafnað án sýnilegra sjónarmiða og raka. Leiði það eitt og sér til þess að fallast verði á kröfur kærenda í málinu. Fram komi í greinargerð kærðu að tilboð í lausn með einu tæki hafi borist frá öllum bjóðendum og verið hafnað þar sem ljóst væri að álag við notkun þess samkvæmt þarfalýsingu í lið 1.2 i útboðslýsingu yrði óásættanlegt eða aðgengi að því óverulegt eða ekkert fyrir aðrar sérgreinar en heila- og taugaskurðlækningar. Tekið er fram að í útboðsskilmálum hafi verið gert ráð fyrir því að bjóðendur byðu eitt eða fleiri tæki og komi hvergi fram að hafna eigi slíkum tilboðum. Hefði þurft að áskilja það sérstaklega í útboðsskilmálum ef heimila ætti höfnun tilboða á þessum grundvelli, sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001. Hefði það komið fram í útboðsskilmálum að kærðu kysu tvö kerfi framar öðrum fjölda hefðu kærendur hagað tilboðsgerð sinni með öðrum hætti. Þegar af þeirri ástæðu að ekki kom fram í útboðsskilmálum að tvö tæki væru hentugust fyrir kærðu verði að ógilda hið kærða útboð og fallast á kröfur kærenda. Tekið er fram að heimilt sé að hafna tilboðum séu þau ógild af ástæðum sem teknar séu fram í útboðsskilmálum. Hins vegar hafi kærðu viðurkennt að tilboð kærenda hafi verið gilt og tilboðinu ekki verið hafnað af ástæðum sem getið hafi verið í útboðsskilmálum. Sé höfnun kærðu á lægsta tilboði útboðsins því bersýnilega ólögmæt.
Hafi kærendur jafnframt boðið þrjú tæki, en fram komi í greinargerð kærðu að ekki hafi verið talinn nægilegur ávinningur af því að taka slíku tilboði. Hafi verið útilokað fyrir kærendur að átta sig á fyrirætlunum kærðu að þessu leyti og hefði þurft að taka það sérstaklega fram ef gera ætti tilboðum með tveimur kerfum hærra undir höfði en tilboðum með einu eða þremur kerfum. Í þessu sambandi er tekið fram að upphaflegir útboðsskilmálar hafi gert ráð fyrir að aðeins eitt tæki yrði boðið í umræddu útboði. Hafi upphaflegum útboðsskilmálum síðan verið breytt að beiðni InterMedica ehf., enda félagið ekki í stakk búið til að bjóða eitt tæki. Í greinargerð kærðu komi einnig fram að ákveðið hafi verið að hafna tilboði kærenda nr. 1 og að höfnunin hafi byggst á rétti kaupanda til að taka hvaða tilboði sem er samkvæmt 13. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða með tilheyrandi rökstuðningi, sbr. 53. gr. laga nr. 94/2001, auk þess sem áskilið hafi verið í lið 2.11 útboðslýsingar að taka mætti hvaða tilboði sem er eða hafna öllum. Kærendur telja þessa röksemdafærslu ekki fá staðist og vísa til þess að áskilnaður um höfnun allra tilboða veiti ekki heimild til þess að kaupandi hafi frjálsar hendur í þessu sambandi. Fyrir höfnun verði að vera málefnalegar og rökstuddar ástæður og geti það ekki verið málefnalegt að fara fram á tilboð á einu tæki eða fleiri og hafna síðan tilboðum á einu tæki þar sem það standist þegar af þeirri ástæðu ekki kröfur útboðsins. Vísað er til þess að Hæstiréttur hafi fjallað um heimildir hér að lútandi í dómi frá 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005. Komi þar meðal annars fram að líta verði til 26. gr. laga nr. 94/2001 við mat á heimild til höfnunar allra tilboða. Sé litið til dómsins hefði þurft að koma fram í útboðsskilmálum að heimilt hefði verið að hafna öllum tilboðum sem buðu upp á eitt tæki. Tekið er fram að tilvísun kærðu til laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða hafi ekki þýðingu, enda um að ræða almenn lög sem víki fyrir sérlögum um opinber innkaup.
Vísað er til lýsingar kærðu á aðferðafræðinni við lagfæringu á tilboði kærenda þar sem fram kemur að kærðu hafi tekið þá hluti sem kærendur skiluðu inn sem ,,optional“ og bætt þeim að mestu við tilboð kærenda. Við það hafi tilboðið hækkað verulega og möguleikar kærenda verið takmarkaðir. Kærðu líti svo á að með því að bjóða fram tæki sem ,,optional“ hafi þeim verið heimilt að taka inn þá þætti sem þeim hugnaðist og ,,velja bestu lausn úr hans tilboði og þeim tæknibúnaði sem þar er á boðstólum“. Hafi kærðu með þessu misskilið í öllum grundvallaratriðum heimildir þeirra til að taka inn hluti sem séu valkvæðir. Væri fallist á að þessi aðferðafræði væri réttmæt gætu kaupendur í öllum útboðum, þar sem boðið væri upp á að setja inn í tilboð ,,optional“ kosti samhliða grunntilboði, haft frjálsar hendur um að gera tilboð bjóðenda þannig úr garði að möguleikar þeirra í útboðinu væru nánast engir. Sé þetta fyrirkomulag, sem augljóslega fari í bága við lög, til þess fallið að auka svigrúm fyrir geðþóttaákvarðanir. Með þessum hætti sé val á tilboði algjörlega byggt á huglægu mati kærðu og gegnsæi og jafnræði algjörlega fyrir borð borin, en markmið laga nr. 94/2001 sé einmitt að tryggja gegnsæi og jafnræði aðila. Ekkert bendi til þess að þeir hlutir, sem boðnir hafi verið fram ,,optional“, og kærðu bættu við tilboð kærenda hafi verið áskildir sérstaklega í útboðsskilmálum eða að þörf hafi verið á þeim til að fullnægja skilyrðum þeirra. Hefði það þurft ef gera ætti þessa hluti að skilyrði fyrir hagkvæmni tilboðs, sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001. Þá er vísað til þess að kærðu hafi ekki heldur sýnt fram á að tilboð kærenda án ,,optional“ hlutanna hafi farið í bága við útboðsskilmála eða ekki fullnægt skilyrðum þeirra.
Hér hafi ennfremur þýðingu að bera tilboð kærenda saman við tilboð þess aðila sem kærðu kusu að semja við. Hafi kærendur ekki undir höndum tilboð þess aðila og sé því óhægt um vik að tjá sig um það efnislega með tæmandi hætti. Hins vegar er fullyrt að í sumum tilvikum sé bætt við tilboð kærenda tækjum sem enginn annar aðili geti boðið fram. Ennfremur hafi kærðu í flestum tilvikum bætt tækjum við tilboð kærenda sem hefðu þá átt að koma í stað þeirra sem fyrir voru í grunntilboðum þeirra en ekki sem hrein viðbót. Sem dæmi megi nefna að bætt hafi verið við tæki nr. 52, þ.e. softtouch registration pointer, en tæki nr. 12 og 13 sem voru í grunntilboðinu fullnægi fullkomlega þeim kröfum sem kærðu gerðu og sé tæki nr. 52 aldrei notað samhliða fyrrnefndum tækjum heldur í staðinn fyrir þau. Þá sé ljóst að fyrirtækið InterMedica ehf. sé ekki í stakk búið til að bjóða fram tæki nr. 49-51, 54 og 56, en þeim tækjum hafi verið bætt við tilboð kærenda. Flest tækin sem bætt hafi verið við tilboð kærenda geti enginn annar aðili boðið fram og eigi það t.a.m. við um iPlan Fibertracking. Í þessu sambandi er bent á að kærðu hafi viðurkennt að InterMedica ehf. geti ekki boðið sömu gæði, sbr. hjálagt bréfi frá kærða LSH, dags. 27. janúar 2006, þar sem fram komi að fyrirtækið hafi ekki haft sömu getu og kærendur. Ekki liggi þó fyrir með nákvæmum hætti hver munurinn sé þar sem kærðu hafi ekki undir höndum gögn til að staðreyna það. Tekið er fram að kærðu hafi bætt öllum sömu ,,optional“ þáttunum við tilboð kærenda nr. 1 og 2 en ekki liggi fyrir hverju var bætt við tilboð nr. 3 sem hafi ekki verið metið til einkunnar. Sé afar ótrúverðugt að sömu ,,optional“ hluti hafi þurft í tilboð sem séu með mismunandi fjölda tækja. Loks er þess getið að ástæða þess að kærendur settu fram valkvæð tilboð að hluta voru óskýr svör kærðu við fyrirspurnum um kröfur í útboðinu. Eins og ráðið verði af svörum frá kærða Ríkiskaupum í tölvupósti frá 22. júní 2005 hafi algjörlega verið látið undir höfuð leggjast að skýra út þær tæknilegu kröfur sem gerðar voru fyrirspurnir um. Þá hafi mikilvægum spurningum sem lutu að tæknilegum atriðum ekki verið sinnt eða í besta falli verið svarað með þeirri spurningu á móti af hverju kærendur þyrftu að fá upplýsingar um þessi atriði.
Vísað er til þess að í greinargerð kærðu komi fram að í tilboð kærenda hafi vantað mikilvæga þætti miðað við þarfalýsingu til þess að gera tilboðið sambærilegt tilboði InterMedica ehf. Kærendur byggja á því að þeir hafi uppfyllt allar þær kröfur sem settar hafi verið fram í útboðsskilmálum, þ. á m. þær kröfur sem settar hafi verið fram sem skilyrði. Hvergi sé minnst á hvaða mikilvægu þætti hafi vantað og raunar hvergi verið færð rök fyrir því að tilboð kærenda hafi farið í bága við útboðsskilmála eða að eitthvað hafi vantað upp á. Sé einungis vísað til mats spítalans sjálfs á einu tilboði kærenda, en ljóst að ekki hafi verið byggt á þessu mati enda hafi spítalinn hagsmuna að gæta við úrlausn málsins. Þá sé fjarri öllu lagi að heimilt hafi verið að ,,gera tilboðin sambærileg“, en aðeins hafi þýðingu að bera tilboð saman við kröfur í útboðslýsingu og gefa þeim svo einkunn á þeim grundvelli.
Vísað er til þess að í greinargerð kærðu komi fram að öll tilboð kærenda hafi verið skoðuð. Hins vegar hafi aðeins eitt verið metið til einkunnar, þ.e. það tilboð sem gerði ráð fyrir tveimur tækjum. Hvergi í útboðsskilmálum verði ráðið að tilboð með einu eða þremur tækjum verði ekki metin til einkunna. Bent er á að tilboð kærenda með þremur tækjum hafi hljóðað upp á kr. 44.310.173 og tilboð með einu tæki upp á kr. 28.197.383, en það tilboð sem tekið var numið kr. 43.585.641. Megi leið að því sterkar líkur að tilboð kærenda með þremur tækjum hefði fengið mun hærri einkunn en það tilboð sem valið var í ljósi þess málatilbúnaðar kærðu að eftir því sem fjöldi tækja sé meiri þeim mun betri hafi tilboðin verið. Þá hafi tilboð kærenda, sem gerði ráð fyrir einu tæki og var lægsta tilboðið í hinu kærða útboði, ekki verið metið til einkunnar og verið hafnað án frekari rökstuðnings.
Vísað er til umfjöllunar í greinargerð kærðu um fjárhæðir tilboða kærenda. Þar komi fram að tilboð kærenda nr. 2 hafi raunverulega numið kr. 53.604.847, en ekki kr. 40.281.975 eins og tilgreint hafi verið á tilboðsblaði. Sé þessi umfjöllun kærðu alröng og raunar í andstöðu við fyrri málatilbúnað þeirra. Til að taka af öll tvímæli hafi tilboð kærenda verið að fjárhæð kr. 28.197.383, kr. 40.281.975 og kr. 44.310.173. Hafi tilboðin hvert og eitt verið sett fram í einni heildartölu og gert ráð fyrir afslætti á þeim tækjum sem lágu til grundvallar tilboðunum. Ef hefðbundið verð tækja í grunntilboði er lagt saman fæst ekki út framsett tilboð heldur er höfð til hliðsjónar heildartala hvers tilboðs. Kærðu hafi sjálfir gengið út frá þessum skilningi, enda komi fram í umfjöllun um tilboð kærenda að afsláttur hafi verið skýrður út af hálfu kærenda og að heildarverðin væru í samræmi við upplesin verð á opnunarfundi. Hafi því verið ágreiningslaust með aðilum að líta ætti á heildarverð og séu síðbúnir útúrsnúningar kærðu ótrúverðugir. Í greinargerð kærðu sé sagt að miða eigi við einingarverð og er málatilbúnaði kærðu mótmælt með vísan til framangreinds.
III.
Kærðu byggja kröfu sína um að kærunni verði vísað frá á því að form hennar sé ekki í samræmi við d-lið 1. mgr. 4. gr. starfsreglna kærunefndar útboðsmála. Krafa um að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærðu gagnvart kærendum megi ekki standa óstudd og sé kæranda skylt að gera raunverulegar kröfur í málinu. Sé það ekki hlutverk nefndarinnar að gefa út sérfræðiálit um skaðabótakröfu fyrir kærendur.
Vísað er til þess að kærendur byggi á því að tilboðum þeirra hafi verið breytt með ólögmætum hætti og að við mat á tilboðum þeirra hafi kærðu bætt við dýrari lausn en boðin var. Hins vegar komi jafnframt fram í kærunni að kærendur telji þetta verklag í góðu lagi svo framarlega sem það sé líka notað við mat á tilboðum hins bjóðandans. Felist í þessu augljós mótsögn og kæran því í raun efnislega ónýt hvað þetta atriði varði. Sé málsástæðan því dregin til baka og beri að vísa henni frá. Hins vegar komi fram í kæru að brotið hafi verið gegn 11. gr. laga nr. 94/2001 um jafnræði bjóðenda, en það ekki rökstutt eða nokkur gögn lögð fram til stuðnings fullyrðingunni. Tekið er fram að málsmeðferð við mat á tilboðum hafi verið hefðbundin og miðað að því að tryggja jafnræði bjóðenda og jafnframt að því að velja hagstæðasta tilboðið sem fullnægði þörfum kaupanda best á þeim forsendum sem settar voru fram í útboðslýsingu, en þó einkum lýsingu á klínískum þörfum og kröfulýsingu í köflum 1 og 4 og lið 2.1.17 í útboðslýsingu. Hafi tilboð kærenda verið metin á grundvelli útboðslýsingar og í samræmi við lög og reglugerðir. Hafi tilboð beggja bjóðenda hlotið sömu meðferð og engu verið bætt við tilboðin, heldur hafi matið eingöngu byggst á því sem boðið var í tilboðunum. Hafi tilboð kærenda ekki sett neinar hömlur við mati kærðu á þeim sundurliðuðu valkostum sem boðnir voru eða með hvaða hætti besta lausnin yrði sett upp með eða án einstakra verðlagðra, valfrjálsra valkosta. Hafi báðir bjóðendur boðið eitt og tvö kerfi, en kærendur jafnframt boðið þrjú kerfi til að koma til móts við umfangsmiklar klínískar þarfir og kröfur í útboðslýsingu. Ekki hafi verið sett takmörk í útboðslýsingu við því hvernig bjóðendur mættu koma til móts við þær klínísku þarfir sem þar var lýst, heldur einungis gerð krafa um að kröfum útboðslýsingar yrði fylgt. Hafi báðir bjóðendur talið sig geta fullnægt þeim kröfum betur með því að bjóða fleiri en eitt kerfi og sérfræðingahópur kaupanda komist að þeirri niðurstöðu við mat sitt á tilboðum að tvö kerfi myndu fullnægja best þörfum kaupanda. Ekki hafi verið talinn nægilegur ávinningur af því að taka tilboði með þremur kerfum til að það réttlætti viðbótarkostnaðinn.
Tekið er fram að í tilboðum InterMedica ehf. hafi ekki verið boðnir viðbótar valkostir eða valmöguleikar heldur hafi allt sem fyrirtækið hafði upp á að bjóða verið innifalið í tilboðinu og í uppgefnu og upplesnu tilboðsverði. Meginmunur tilboða hafi verið í fjölda kerfa sem boðin voru, þar sem í tilboðum A og B hafi verið boðið eitt grunnkerfi með mörgum sundurliðuðum einingum með mjög víðtækum möguleikum fyrir notkun í mörgum sérgreinum í samræmi við útboðslýsingu. Tilboð C, D, og E hafi innihaldið tvö sams konar grunnkerfi og tilboð A og B og verið með sömu sundurliðuðu einingunum, en nú í tveimur eintökum, sem þannig hafi verið hægt að skipta niður á hvort grunnkerfi. Kosturinn við tvö kerfi með öllum tiltækum einingum sé að þá sé hægt að útbúa kerfin þannig að þau geti verið sérhæfð hvort fyrir sína sérgrein eða sérgreinar. Munurinn á milli tilboða A og B annars vegar og C, D og E hins vegar hafi legið í mismunandi leigukjörum, en kaupkjörin verið þau sömu og hvað þau snerti hafi verið um sömu tilboð að ræða. Hafi tilboð InterMedica ehf. verið sundurliðuð í einingar og allar einingar verðlagðar í erlendri mynt. Hafi verið boðið að fella út þá liði eða einingar sem ekki hentuðu kaupanda og lækka tilboðsverðið í samræmi við verðlagningu þeirra eininga sem væri hafnað. Við mat tilboða hafi ekki verið talin ástæða til að fella einstakar einingar úr tilboði InterMedica ehf., enda uppfylltu tilboðin í heild sinni kröfur útboðslýsingar best, sbr. 50 gr. laga nr. 94/2001.
Tekið er fram að í þremur tilboðun kærenda hafi verið boðin eitt, tvö og þrjú kerfi. Hafi tilboðin verið samsett úr grunnkerfi og valfrjálsum valkostum við grunnkerfið. Hafi verð grunnkerfis í hverju tilfelli, þ.e. eitt grunnkerfi í tilboði nr. 1, tvö grunnkerfi í tilboði nr. 2 og þrjú grunnkerfi í tilboði nr. 3, verið gefið á tilboðsblaði viðkomandi tilboðs. Auk boðinna grunnkerfa hafi jafnframt verið boðnir valfrjálsir valkostir, sem gáfu kost á því að laga tilboðin betur að þarfa- og kröfulýsingu útboðslýsingar. Valkostirnir hafi allir verið verðlagðir sérstaklega og við mat tilboða hafi grunnkerfið með völdum valfrjálsum valkostum verið notað til viðmiðunar. Hafi þeir valkostir verið valdir, sem sérfræðingahópurinn sem að matinu stóð, taldi nauðsynlegt að fylgdu með til þess að tilboðin uppfylltu hina klínísku þarfa- og kröfulýsingu útboðslýsingar og hina lögboðnu kröfu 50. gr. laga nr. 94/2001.
Aðferð kærðu við mat á tilboðum er lýst svo að innihald hvers tilboðs hafi verið skoðað og borið saman við þarfa- og kröfulýsingu í útboðslýsingu. Hafi tilboð verið sundurliðuð og sundurliðaðar einingar verið verðlagðar, hafi þeim einingum verið raðað saman í bestu lausn, sem samtals geri boðinn tækjabúnað þannig úr garði að hann komist næst því að uppfylla þarfa- og kröfulýsingu útboðslýsingar. Byggi þetta verklag á 50 gr. laga nr. 94/2001 og á margra ára gamalli hefð við mat tilboða í lækningatæki á LSH og á almennum venjum um meðferð tilboða sem sett séu fram í mörgum liðum og feli í sér marga valkosti eða leiðir í vali sem lagðar séu í hendur kaupanda. Í útboðslýsingu hafi verið óskað eftir sundurliðun tilboðs í verðlagðar einingar, sbr. lið 2.14.7 þar sem fram komi að listi yfir allar helstu einingar boðins tækjabúnaðar, hugbúnaðarþátta og viðbótarbúnaðar, sem boðinn sé, skuli fylgja með tilboðinu, helst með upplýsingum um verð. Ekki sé vitað fyrirfram hvernig slík sundurliðun líti út og því ekki hægt að setja hana upp á tilboðsblaði, en litið sé á sundurliðun bjóðenda sem viðbót við tilboðsblað og hún meðhöndluð með þeim hætti, sbr. 27. gr. eldri reglugerðar um innkaup ríkisins nr. 302/1996. Beri bjóðendum að sjálfsögðu að verða við þessari beiðni um sundurliðun sbr. ennfremur gr. 6.2 lið b í ÍST 30. Tekið er fram að þessi beiðni um sundurliðun verðs sé þó ekki ófrávíkjanleg og vilji bjóðandi ekki verða við henni sé honum það heimilt án þess að tilboð hans verði ógilt. Að sjálfsögðu sé bjóðendum heimilt að leggja fram tilboð með einu ósundurliðuðu verði eða áskilja að tilboð þeirra sé eingöngu metið á tilteknum grunni. Slík krafa geti hins vegar fært stöðu tilboðs þeirra til lakara horfs en efni standi til og jafnframt geti verið minni líkur á því að kaupandinn fái þann búnað sem hann óski eftir og vilji festa kaup á. Vísað er til þess að tilboð InterMedica ehf. hafi innihaldið alla hugsanlega kosti, sem fyrirtækið gat boðið og uppfyllt allar þarfir og kröfur í útboðslýsingu. Hafi tilboð kærenda því staðið afar höllum fæti gagnvart tilboðum InterMedica ehf. ef ekki var horft til valfrjálsu valkostanna, en þeir hafi innihaldið marga þætti sem nauðsynlegir voru til að uppfylla þarfir og óskir í útboðslýsingu og hafi verið ljóst að þeir myndu fylgja með í kaupsamningi væri hann gerður við kærendur á grundvelli tilboðsins. Af þessum ástæðum hafi verið nauðsynlegt að skoða valfrjálsu valkostina með öðrum þáttum í tilboði kærenda. Ítrekað er að til þess að uppfylla þarfalýsingu og kröfur í útboðslýsingu, hafi tækjabúnaðurinn samkvæmt tilboðum kærenda þurft að innihalda hugbúnað sem eingöngu var talinn upp í valfrjálsum valkostum enda ítrekað í hann vísað í texta tilboðins um getu tækjabúnaðarins til að uppfylla útboðslýsinguna. Vísað er til þess að í töflu 3.4c í skýrslu um úttekt á tilboðum komi fram hvaða valfrjálsu valkostir séu nauðsynlegir til að tilboð teljist uppfylla þarfalýsingu og kröfur í útboðslýsingu og sem matsnefnd valdi í tæknilega heildarlausn.
Við skoðun hafi komið í ljós að tilboð beggja bjóðenda fólu í sér lausn, sem í grundvallaratriðum byggði á því að boðin voru tvö sams konar eða svipuð tæki, sem hvort fyrir sig var hægt að sérútbúa fyrir eina eða tvær sérgreinar. Hafi þess tilboð komið lengst til móts við þarfalýsingu og kröfur í útboðslýsingu. Einnig hafi verið metið hvernig tækjabúnaður þessara tilboða uppfyllti nánari kröfulýsingu í kafla 4, 5, 6 og 8 í útboðslýsingu. Hafi matsnefnd fallist á röksemdir beggja bjóðenda um að tilboð með tveimur tækjum uppfyllti betur þarfalýsingu útboðslýsingar, einkum lið 1.2, en tilboð með einu tæki, einkum þar sem slík lausn hafi komið mun betur til móts við þarfir hinna mismunandi sérgreina sem ætlað var að nota tækjabúnaðinn. Þá hafi tilboð í lausn með einu tæki borist frá báðum bjóðendum, en verið ákveðið að hafna þeim þar sem ljóst væri að álag við notkun þess samkvæmt þarfalýsingu í lið 1.2. í útboðslýsingu yrði óásættanlegt og aðgengi að því óverulegt eða ekkert fyrir aðrar sérgreinar en heila- og taugaskurðlækningar. Hafi verið bent á þetta í tilboðum beggja bjóðenda með tveimur tækjum. Sé litið til samanburðar tilboða með einu tæki í töflu 3.6 í skýrslu um úttekt á tilboðum sjáist strax að tilboð InterMedica ehf. sé hagstæðara en tilboð kærenda. Sé tilboð InterMedica ehf. lægra en tilboð kærenda án nauðsynlegra valkosta auk þess sem þar sé allt innifalið, en tilboð kærenda dýrara hvað varði tilboðsverð grunnþátta og verði ennþá dýrara sé bætt við nauðsynlegum valfrjálsum valkostum. Nái tilboð kærenda samt ekki gæðamati tilboðs InterMedica ehf. í klínískum og tæknilegum gæðum. Hafi tilboð nr. 2 frá kærendum og tilboð C, D og E frá InterMedica ehf. falið í sér lausn með tveimur tækjum og matsnefnd talið þau uppfylla þarfir kaupanda best samkvæmt forsendum útboðsgagna, sbr. 50. gr. laga nr. 94/2001, lið 2.17.2 í útboðslýsingu og niðurstöður í einkunnatöflu í 7. kafla skýrslu um úttekt á tilboðum. Hafi verið ákveðið að hafna tilboði nr. 1 frá kærendum þar sem það hafi verið lakara miðað við kröfur í útboðslýsingu en ofangreind tilboð og tilboðum A og B frá InterMedica ehf. verið hafnað á sömu forsendum. Sé þessi höfnun byggð á rétti kaupanda til að taka hvaða tilboði sem er, sbr. 13. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða með tilheyrandi rökstuðningi sbr. 53 gr. laga nr. 94/2001 um rökstuðning fyrir höfnun tilboðs. Auk þess sé skýrt tekið fram í lið 2.11 í útboðslýsingu að kaupendur áskilji sér allan rétt til að taka hvað tilboði sem er eða hafna öllum að uppfylltum ofangreindum lagaákvæðum. Þá hafi jafnræðisreglu verið fylgt við þessa ákvörðun.
Vísað er til þess að gerð hafi verið skýrsla þar sem fram komi ítarleg úttekt á tilboðum og hvernig þau komi út gagnvart einstökum atriðum í þarfa og kröfulýsingu útboðslýsingar. Í kafla 7 sé að finna einkunnatöflu, þar sem fram komi einkunn hvers tilboðs sem hafi verið metið og hafi tilboð beggja bjóðenda verið metin með sambærilegum hætti í öllum einstökum liðum. Hafi verið ákveðið að kaupa tækin í stað þess að leigja og tilboðsverð bjóðenda um kaup því verið notuð við mat tilboða. Hafi skýrslan verið lögð til grundvallar niðurstöðu um mat á tilboðum og þar verið fjallað um bjóðendur og boðinn búnað með sama eða sambærilegum hætti svo að jafnræði þeirra væri tryggt. Megi sjá af skýrslunni að engu hafi verið bætt í tilboð kærenda eða úr því tekið og að öll meðhöndlun tilboða hafi miðað að því að meta bestu mögulegar lausnir, enda vægi klíníska og tæknilega matsins stærstur og mikilvægastur í matsferlinu. Komi þar jafnframt fram að vinnulag við mat tilboða breyti engu um óhjákvæmilega niðurstöðu matsins, þ.e. að InterMedica ehf. hafi verið með hagstæðari tilboð en kærendur jafnvel þó að tilboð kærenda fengi hæstu einkunn án tillits til valfrjálsu valkostanna. Hafi niðurstaðan verið sú að hagstæðasta tilboðið stafaði frá InterMedica ehf. hvort sem matið væri miðað við kerfi með eitt, tvö eða þrjú tæki og hvort sem þau væru með eða án valfrjálsra valkosta, sem boðnir hafi verið í tilboðum kærenda.
Mótmælt er að nokkru hafi verið breytt í tilboði kærenda og tekið fram að tilboð þeirra hafi verið byggt upp af sundurliðuðum grunnþætti og valfrjálsum valkostum í hverju tilboði sem hafi næstum verið jafnmargir og grunnþættir hvers tilboðs. Hafi tilboð InterMedica ehf. ekki falið í sér neina slíka valfrjálsa valkosti, enda hafi allt verið innifalið í því og uppgefnu tilboðsverði. Einnig hafi þar komið fram að heimilt væri að taka út úr boðinni lausn þá sundurliðuðu þætti, sem væru óþarfir að mati kaupandans, þannig að tilboðið yrði lagað að kröfugerðinni samkvæmt mati kaupandans um bestu lausn. Sé alsiða við mat á tilboðum í almennum útboðum að leggja til grundvallar matinu bestu lausn, sem felist í að allir nauðsynlegir þættir í tilboðinu séu metnir, þ.e. bæði grunnþættir og valfrjálsir valkostir, enda vísað ítrekað í valkostina í umfjöllun um einstaka liði útboðslýsingar í tilboðinu. Með því að setja valfrjálsa verðtilgreinda valkosti í tilboð sitt geri bjóðandi það sveigjanlegra og betur í stakk búið til að mæta flókinni þarfalýsingu í útboðslýsingunni og feli þar með kaupanda að velja sér bestu lausn úr hans tilboði og þeim tæknibúnaði sem þar er á boðstólum, sbr. 50 gr. laga nr. 94/2001. Tekið er fram að þótt engin slík jöfnun tilboða eða aðlögun að þörfum og kröfum útboðslýsingar hefði farið fram, hefði tilboði kærenda verið hafnað þar sem það hafi verið dýrara og boðinn tækjabúnaður lakari. Hafi þetta verklag við mat tilboða verið viðhaft um margra ára skeið við útboð á lækningatækjum án athugasemda, enda jafnræði bjóðenda tryggt við mat tilboða og unnt að fá bestu lausnina fyrir spítalann. Þá virðist kærendur einnig vera sáttir við þessa málsmeðferð enda vísi þeir ítrekað til þess að hún sé í lagi svo framarlega sem það sama gildi um alla bjóðendur.
Vísað er til þess að kærendur fullyrði að sökum þess að samningsverð sé hið sama og lesið hafi verið upp við opnun tilboða þ.e. kr. 43.585.641, hafi engu verið breytt í tilboði InterMedica ehf. og að slík háttsemi sé augljóst brot á jafnræðisreglu 11.gr. laga nr. 94/2001 og ólögfestum meginreglum útboðsréttar. Þessu er mótmælt og tekið fram að meðferð á tilboði kærenda hafi einmitt miðað að því að tryggja jafnræði bjóðenda við mat á tilboðum. Í tilboði InterMedica ehf. hafi allt verið innifalið og því engu verið við að bæta. Í grunntilboði kærenda hafi hins vegar vantað mikilvæga þætti miðað við þarfalýsingu til þess að tilboðin væru sambærileg og þeim því verið bætt við áður en tilboðin voru borin saman, enda hafi gæðamatið vegið meira en verðþáttur heildarmatsins. Tekið er fram að þótt þetta verklag við matið hefði ekki verið viðhaft, þ.e. að taka með nauðsynlega valfrjálsa valkosti, og einungis hefði verið horft á grunntilboð kærenda hefði tilboð InterMedica ehf. samt verið hagstæðara jafnvel þótt einungis hefði verið horft á verðið. Komi þetta skýrt fram í kafla 7 í skýrslu um úttekt á tilboðum.
Því er mótmælt að reglur sem gildi um val á tilboðum og reglur um gegnsæi hafi verið brotnar. Hvergi komi fram í lögum eða reglugerðum að ekki sé heimilt að taka tillit til valfrjálsra valkosta við mat á tilboðum, enda vandséð hvað fyrir bjóðendum vaki sem geri slíkt tilboð þar sem valfrjálsir valkostir séu um 40% af þáttum tilboðsins. Fyrst beri þess að geta að verulegt álitamál sé hvort grunnlausnin ein og sér geti talist vera gilt tilboð, þar sem verulega hafi vantað upp á að þættir úr þarfa- og kröfulýsingu í útboðslýsingu væru uppfylltir. Þá sé ítrekað vísað í valfrjálsu valkostina í svörum í tilboðinu við því hvernig kærendur telji sig uppfylla útboðskröfur. Sé því alveg ljóst að bjóðandi geri ráð fyrir því sjálfur að valkostir séu teknir með í heildarmati tilboðs. Ennfremur hefði einkunn í gæðamati orðið miklu lakari en raun varð ef tilboðið með grunnlausninni einni hefði verið metið gilt.
Fallist er á að ekki komi nægilega vel fram í greinargerð til kærenda að öll tilboð hans hafi verið skoðuð ítarlega. Þar komi þó fram að sú lausn eða kerfi sem báðir bjóðendur buðu, þ.e. með tveimur tækjum hafi orðið fyrir valinu og tilboðum með einu tæki og þremur tækjum verið hafnað. Í skýrslu um úttekt á tilboðum hafi öll tilboð frá báðum bjóðendum verið borin saman og komið í ljós að tilboð InterMedica ehf. voru bæði hagstæðari og lægri en tilboð kærenda, en þar sem tilboðum með einu og þremur tækjum var hafnað hafi sá samanburður ekki verið með í greinargerð til kærenda.
Fallist er á að ,,boðinn tækjabúnaður“ frá kærendum hafi uppfyllt kröfur útboðslýsingar, en tekið fram að það sé þó alfarið háð því hvernig hugtakið sé skilgreint. Í umfjöllun um tilboð kærenda og mati á því sé alltaf gert ráð fyrir að nauðsynlegir valfrjálsir valkostir séu hluti þess tækjabúnaðar, sem skilgreindur sé sem ,,boðinn tækjabúnaður“ eins og tilboðið geri ráð fyrir í svörum varðandi einstaka liði. Til þess að uppfylla kröfu- og þarfalýsingu í útboðslýsingu þurfi ,,boðinn tækjabúnaður“ að innihalda nokkrar einingar, sem kærendur hafi skilgreint í tilboði sínu sem valfrjálsa valkosti. Hafi tilboðið verið skoðað og metið á þeim grundvelli, bæði grunnbúnaður og valfrjálsir valkostir. Ef einungis hefði mátt skoða grunnhluta tilboðsins, þ.e. grunntækjabúnað miðað við verð á tilboðsblaði, eins og kærendur virðist gera kröfu um, uppfylli tilboðið ekki kröfu- og þarfalýsingu í útboðslýsingu og hefði fengið mun lakara gæðamat en fram kemur í matsskýrslu eða jafnvel verið hafnað.
Vísað er til þess að kærendur fullyrði að kærðu hafi bætt við dýrari lausn, en boðin hafi verið í tilboðinu, þ.e. Vectorvision 2 í stað Vectorvision Compact, auk þess sem ýmsar sérlausnir t.d. iPlan Fibertracking, sem aðeins BrainLab geti boðið á heimsmarkaði hafi verið settar inn í tilboð kærenda og hækkað það verulega. Tekið er fram að við meðferð og mat tilboða hafi verið gerð þau mistök að tilboð kærenda hafi verið metin á röngum forsendum hvað varði verðþátt, en verðþáttur tilboða þeirra hafi verið lægri en vera skyldi. Hafi þær tölur sem kærendur settu fram á tilboðsblaði ekki verið í samræmi við ítarlega sundurliðun í tilboðinu sjálfu. Hafi bæði verið um að ræða hreina samlagningarvillu, auk þess sem kærendur virðist hafa ætlað að bjóða afsláttarkjör frá heildarverðum en gleymt að taka það fram í tilboðinu sjálfu eða á tilboðsblaði. Samkvæmt lið 2.14.6 í útboðslýsingu og almennum útboðsvenjum sé alveg skýrt að miða skuli við einingarverð við mat tilboða þegar misræmi komi fram í verðútreikningi. Hafi það ekki verið gert við mat tilboða hjá matsnefndinni og þau því verið metin á röngum forsendum hvað varði verð með verulegu hagræði fyrir kærendur. Í fyrirliggjandi matsskýrslu hafi þessi mistök verið leiðrétt og allur samanburður verið miðaður við einingarverð tilboðs kærenda. Feli leiðréttingin í sér að verðmismunur milli bjóðenda varðandi sambærileg tilboð þeirra aukist verulega og í raun skipti ekki máli hvernig tilboð kærenda sé metið, þ.e. með eða án valfrjálsra valkosta þar sem þau séu alltaf óhagstæðari en sambærileg tilboð InterMedica ehf. Því er mótmælt að kærðu hafi bætt við dýrari lausn en boðin var fram. Heildarverð þeirrar lausnar, sem fólst í tilboði kærenda nr. 2 hafi numið kr. 86.838.272, miðað við að allir valfrjálsir valkostir væru reiknaðir inn í heildarverðið í samræmi við samanlögð einingarverð. Verð á tilboðsblaði, sem lesið hafi verið upp við opnun hafi verið kr. 40.281.975, en átt að vera kr. 53.604.837 miðað við samanlögð einingarverð í tilboðinu. Samanburðarverð við mat tilboðs 2 hafi ranglega verið kr. 54.307.033 í greinargerð til kærenda, en átt að vera kr. 73.190.739 miðað við einingarverð tilboða sem sé rúmum 13 milljónum króna lægra verð en dýrasta lausn með öllum valkostum. Verði því ekki séð að fullyrðing kærenda eigi við rök að styðjast.
Telji kærðu að við mat á tilboði hafi þeir fulla heimild til að hafa með þá valfrjálsu valkosti í tilboðinu, sem þeir telji nauðsynlega til að boðinn tækjabúnaður uppfylli þarfalýsingu og kröfur útboðslýsingar. Ekki síst þar sem í tilboði kærenda sé ítrekað vísað í þessa valfrjálsu valkosti þegar útskýrt sé hvernig tækjabúnaðurinn uppfylli kröfur útboðslýsingar. Því er hafnað að kærðu séu bundnir af því að meta einungis hluta tilboðsins, þ.e. þann hluta sem svari til þess verðs, sem fram komi á tilboðsblaði, enda komi hvorki fram nein ábending, ósk eða krafa um slíkt í tilboði kærenda. Á hinn bóginn virðist bjóðandi einmitt ætlast til að tilteknar einingar úr valfrjálsum valkostum þurfi til að uppfylla útboðslýsingu eins og til dæmist komi fram í tilboði í svari hans við lið 4.3.1 í útboðslýsingu, en þar vísi hann einmitt í iPlan fibertracking, sem sé valfrjáls valkostur, um búnað sem sé nauðsynlegur til að uppfylla kröfu í útboðslýsingu. Samsvarandi tilvísun sé að finna í svari við lið. 4.3.2 í tilboði kærenda. Þá er vísað í svör kærenda, dags 20. des. 2005, við fyrirspurn kærðu, dags 15. des. 2005, t.d. í lið 8, um það hvaða búnaði þeir mæli með að sé settur upp fyrir bæklunarlækningar, en kærendur mæli með því að valfrjálsir valkostir 58-75 séu allar teknir með í tækjabúnað sinn samkvæmt. tilboði nr. 2.
Tekið er fram að matsnefnd hafi ekki talið Vectorvision Compact vera nægilega góðan fyrir sjúkrahúsið og þeim búnaði því verið hafnað í endanlegu mati. Hins vegar hafi það verið mat nefndarinnar að Vectorvision 2 væri fullnægjandi búnaður fyrir sjúkrahúsið enda komi hann best út í mati. Því hafi tilboð kærenda verið aðlagað hvað þetta atriði varði, þ.e.a.s. í staðinn fyrir tvö tæki, þar sem annað væri með Vectorvision 2 og hitt með Vectorvision Compact hafi verið skoðað verð á tveimur tækjum þar sem bæði væru með Vectorvision 2. Hafi verðmunurinn á Vectorvision 2 og Compact verið kr. 1.611.000 og hækkað tilboðið sem því nam eða um 2,2%, auk annarra nauðsynlegra valfrjálsra valkosta. Þó þetta hefði ekki verið gert, hefði tilboð kærenda samt sem áður bæði verið óhagstæðara og jafnframt dýrara en tilboð InterMedica.
Fullyrðingum kærenda um að InterMedica ehf. geti ekki fullnægt sumum þeim skilyrðum og þáttum sem bætt var við tilboð kærenda er mótmælt. Tekið er fram að við mat tilboða hafi sambærilegar lausnir og þær sem bætt hafi verið við tilboð kærenda, verið taldar felast í tilboði InterMedica ehf., þó svo að þær hafi ekki verið þær sömu enda séu þær bæði vörumerkjaleyfisháðar og einkaleyfisháðar að einhverju leyti. Til þess að tilboð kærenda væri sambærilegt við tilboð InterMedica ehf. hafi matsnefndin talið að bæta þyrfti við grunntilboð nokkrum valfrjálsum valkostum. Tryggi verklag við mat tilboða jafnræði bjóðenda og leiði jafnframt til bestu lausnar fyrir spítalann í boðnum tækjabúnaði miðað við forsendur útboðslýsingar, sbr. 50 gr. laga nr. 94/2001.
Vísað er til þess að í kæru komi fram að ekki sé tekið fram í útboðsskilmálum að kærðu geti tekið þætti út úr tilboðum og bætt öðrum inn og raðað tilboðunum upp á nýtt. Sé slík umröðun sé án heimildar í lögum eða útboðsgögnum án þess að hið sama sé gert við tilboð hins bjóðandans til að tryggja jafnræði. Þessu er mótmælt og tekið fram að málsmeðferð hafi einmitt miðað að því að tryggja jafnræði bjóðenda og að samanburður yrði gerður á sambærilegum búnaði, sem kaupandi teldi að best kæmi til móts við þarfa- og kröfulýsingu í útboðslýsingu og hentaði honum þar með best. Valfrjálsir valkostir, sem metnir voru með í tilboð kærenda, hafi verið nauðsynlegir til að tilboð þeirra uppfyllti útboðslýsingu og væri sambærilegt við tilboð InterMedica ehf. sem innihélt sambærilegan búnað. Hafi tilboð bjóðenda verið metin með sama hætti, en ekki verið hægt að bæta við tilboð InterMedica ehf. þáttum eða einingum sem þegar voru innifaldir.
Tekið er fram að mat tilboða hafi verið miðað við forsendur í útboðslýsingu, sbr. lið 2.17. Hafi tilboðin eingöngu verið metin á þeim forsendum og með sama hætti. Ekki hafi allt verið tekið með úr tilboði kærenda, heldur einungis þeir þættir úr grunntilboði og valfrjálsum valkostum ásamt tilheyrandi einingaverðum tilboðs sem nauðsynlegt hafi verið til að uppfylla útboðslýsingu og til að gera tilboð bjóðenda eins sambærileg og hægt var. Hafi það jafnframt miðað að því að finna bestu lausn fyrir kaupanda, sbr. 50 gr. laga nr. 94/2001.
Hvað varðar kröfu kærenda um að kærunefnd útboðsmála gefi álit sitt á skaðabótaskyldu kærðu gagnvart kærendum er vísað til þess að þeir hafi ekki sýnt fram á að kærðu hafi brotið lög eða reglur um opinber útboð. Hins vegar hafi kærðu sýnt fram á að verklag þeirra við mat á tilboðum hafi verið nákvæmt og ítarlegt og í fullu samræmi við lög, reglur og útboðslýsingu. Þá hafi jafnræði bjóðenda verið tryggt og í engu verið brotið á rétti kærenda. Jafnvel megi með nokkrum rétti halda því fram að tilboði kærenda hafi verið hampað ótilhlýðilega á kostnað tilboðs keppinautar síns en þrátt fyrir það hafi tilboði þeirra verið hafnað þar sem það hafi bæði verið óhagstæðara og dýrara. Sé einsýnt að skaðabótaskylda kærðu gagnvart kærendum sé ekki fyrir hendi, enda hvergi verið á rétti þeirra brotið eins og sýnt hafi verið fram á. Þrátt fyrir að tilboð þeirra hefði fengið þá meðferð sem þeir óski eftir hefði staða tilboða þeirra aldrei orðið önnur en niðurstaða matsins leiddi til, þ.e. tilboð InterMedica ehf. hefðu alltaf verið hagstæðari en tilboð kærenda. Tekið er fram að þó að tilboð kærenda hefðu verið metin gild án valfrjálsu valkostanna og þó svo að gæðamat þeirra hefði verið 100%, sem alls ekki var raunin, hefðu þau samt sem áður verið óhagstæðari en sambærileg tilboð InterMedica ehf., eins og ítrekað hafi verið sýnt fram á hér og í skýrslu um úttekt á tilboðum.
Kröfu kærenda um málskostnað er mótmælt með vísan til þess að þeir hafi ekki sýnt fram á lögbrot í tengslum við verklag við mat á tilboðum, auk þess sem ítarlega hafi komið fram í útboðslýsingu á hvaða forsendum tilboð séu metin og þeim forsendum verið fylgt til hins ýtrasta.
Í greinargerð frá kærðu Ríkiskaupum er tekið fram að við nánari yfirferð tilboða kærenda hafi upplesin tilboðsverð reynst röng þar sem um verulegar samlagningarskekkjur hafi verið að ræða í þeim. Þegar tilboðin hafi verið leiðrétt með tilliti til einingarverða hafi rétt verð tilboðs nr. 1 verið kr. 41.252.443, tilboðs nr. 2 kr. 53.604.837 og tilboðs nr. 3 kr. 69.117.429. Í útboðsgögnum hafi komið fram með skýrum hætti lágmarkskröfur kærðu til staðsetningarkerfisins og úrskýrt í lið 2.14.4 að tilboð yrðu að uppfylla lágmarkskröfur sem auðkenndar voru með orðinu “SHALL” á undan lýsingu kröfunnar. Hafi kærendur hins vegar kosið að bjóða valkvætt kosti sem tilgreindir voru í útboðsgögnum sem lágmarkskrafa, þ.e. auðkenndir með “SHALL” á undan lýsingu kröfu. Til að gera tilboð kærenda samanburðarhæf við tilboð InterMedica ehf. hafi kærðu þurft að bæta verði valkosta við leiðrétt tilboðsverð kærenda. Við samanburð tilboða hafi kærendur því verið með talsvert hærra verð en tilboð InterMedica ehf. og hafi það endurspeglast í lakari einkunn fyrir verð. Tekið er fram að fullyrðing kærenda um að einungis tilboð nr. 2 hafi verið metið til einkunnar sé ekki rétt. Í rökstuðningi kærðu vegna höfnunar á tilboðum kærenda hafi einungis verið greint frá einkunn hæsta tilboðs hans, en ekki þótt ástæða til að greina frá einkunn hinna tilboðanna. Vísað er til þess að einkunnagjöf hafi verið byggð á upplesnu verði að viðbættu verði fyrir valkosti. Þrátt fyrir það sé tilboð kærenda með lakari heildareinkunn en það tilboð sem tekið hafi verið. Hefði það því engu breytt um niðurstöðu útboðsins þótt upplesin tilboðsverð hefðu ekki verið leiðrétt. Ennfremur hafi verð valkosta lækkað um 30% í samræmi við upplýsingar frá kærendum. Hafi kærendur því notið þess vafa sem lék á tilboði þeirra og á engan hátt verið mismunað. Megi af framansögðu vera ljóst að jafnræðis hafi gætt í hvívetna og að hallað hafi verið á InterMedica ehf. ef eitthvað var.
IV.
Kærðu hafa krafist þess að kæru verði vísað frá vegna þess að krafa um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu þeirra gagnvart kærendum geti ekki staðið óstudd. Í 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup er sérstaklega gert ráð fyrir að nefndin geti látið uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda. Er ekkert sem stendur því í vegi að slík krafa standi ein og óstudd, enda er hún byggð á þeirri forsendu að brotið hafi verið gegn lögum nr. 94/2001. Eru því ekki efni til að fallast á kröfu kærðu um frávísun málsins.
Kærendur skiluðu þremur tilboðum í hinu kærða útboði og komu heildarverð þeirra fram á tilboðsblöðum. Hverju tilboði fylgdi listi yfir boðna grunnþætti ásamt einingarverðum og jafnframt listi yfir valfrjálsa þætti ásamt einingarverðum. Heildarverð það sem fram kom á tilboðsblöðum miðaðist við boðna grunnþætti. Fyrir liggur að eftir opnun tilboða bættu kærðu ýmsum valfrjálsum þáttum við grunntilboð kærenda og skiptu öðrum út. Sem dæmi má nefna að tilboð kærenda nr. 2 sem gerði ráð fyrir tveimur tækjum fól í sér Vectorvision Compact og Vectorvision 2 lausn, en var breytt af kærðu þannig að bæði tækin voru búin Vectorvision 2 lausn. Þá voru valfrjálsum þáttum sem námu samtals kr. 19.932.327 bætt við tilboðið. Þessar breytingar og viðbætur leiddu til hækkunar á heildarverði tilboða kærenda samkvæmt tilboðsblöðum og lækkaði einkunn þeirra fyrir verð í samræmi við það. Kærendur byggja meðal annars á því að með því að breyta tilboðum þeirra án heimildar að lögum eða í útboðsgögnum hafi kærðu farið á svig við reglur um jafnræði bjóðenda og brotið gegn reglum um val á tilboðum, sbr. 11. gr. og 26. gr., sbr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Kærðu byggja meðal annars á því að nauðsynlegt hafi verið að bæta þessum valfrjálsu þáttum við tilboð bjóðenda til að þau uppfylltu þarfa- og kröfulýsingu útboðsgagna, auk þess sem tilgangurinn hafi verið að gera tilboð kærenda sambærileg við tilboð InterMedica ehf.
Í VIII. kafla laga nr. 94/2001 er að finna lagareglur um val á tilboðum í opinberum innkaupum. Í 26. gr. laganna er mælt fyrir um að í útboðsgögnum skuli tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs með eins nákvæmum hætti og framast er unnt. Í 2. mgr. 50. gr. sömu laga kemur fram að óheimilt sé að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram komi í útboðsgögnum, sbr. 26. gr. laganna. Í athugasemdum við 26. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 94/2001 kemur fram að þessi regla skipti sköpum við að tryggja gegnsæi við opinber innkaup með því að bjóðendur eigi að virtum útboðsgögnum að geta áttað sig á því fyrirfram hvernig staðið verði að mati á hagkvæmasta tilboði og hagað boðum sínum í samræmi við það. Í athugasemdum við 50. gr. segir að með því að tilgreina forsendur við mat á hagkvæmasta tilboði í útboðsgögnum samkvæmt 26. gr. bindi kaupandi hendur sínar og eigi mat kaupanda því að vera fyrirsjáanlegt og byggt á hlutrænum sjónarmiðum. Í samræmi við þetta bar kærðu að meta tilboð kærenda eftir þeim forsendum sem fram komu í lið 2.17 í útboðsgögnum sem bar heitið “Criteria for the tender and award of contract”. Fram kemur í lið 2.17.1 að hagkvæmasta tilboðið verði valið, þ.e. það tilboð sem fái hæsta einkunn samkvæmt þeim forsendum sem fram komi í lið 2.17.2 með þeirri reikniaðferð sem lýst sé í lið 2.17.3. Í 2.17.2 kemur fram að við mat á tilboðum muni klínísk og tæknileg geta vega 50%, verð 40% og þjónusta og stuðningur bjóðenda 10%. Síðastnefndur þáttur var sundurliðaður í notendaþjálfun og notendaþjónustu 4%, þjálfun tæknimanna og tækniþjónustu 4% og staðsetningu varahlutalagers og afhendingarþjónustu 2%. Í lið 2.17.4 segir að óskað sé eftir því að tilboð miðist annars vegar við leigu og hins vegar við kaup á boðnum búnaði þar sem ekki hafi verið ákveðið hvor leiðin verði farin, en að mat á tilboðum muni grundvallast á öðru hvoru verðinu. Í lið 2.8 kemur fram að tilboð skuli gera á tilboðsblöð og var þar gert ráð fyrir að fyllt væri út heildarverð í íslenskum krónum ásamt virðisaukaskatti miðað við leigu á búnaði og kaup á búnaði. Máttu bjóðendur ætla að miðað yrði við þetta verð við mat á tilboðum í samræmi við lið 2.17.2 í útboðsgögnum, að því undanskildu að miða átti við einingarverð væru villur í útreikningi, sbr. lið 2.14.6. Í útboðsgögnum var ekki vikið að því að kærðu væri heimilt að bæta valfrjálsum þáttum við grunntilboð kærenda eða skipta boðnum grunnþáttum út fyrir valfrjálsa þætti eins og gert var. Að virtum útboðsgögnum gátu bjóðendur því ekki áttað sig á því fyrirfram að kærðu myndu beita þessari aðferð við mat á hagkvæmasta tilboðinu og var matið því ekki í samræmi við kröfur laga nr. 94/2001 um gegnsæi og fyrirsjáanleika. Hefði kærðu verið í lófa lagið að gera grein fyrir því að þessari aðferð yrði beitt við mat á tilboðum í útboðsgögnum í samræmi við kröfu 26. gr., sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Þar sem það var ekki gert verður talið að framkvæmd hins kærða útboðs hafi brotið gegn ofangreindum ákvæðum. Þá telur kærunefnd útboðsmála að kærðu hefði verið rétt að rökstyðja skilmerkilega ástæður fyrir því að valfrjálsum þáttum var bætt við eða boðnum grunnþáttum skipt út og að sá rökstuðningur hefði þurft að vera sundurliðaður fyrir hvern þátt, hefði framangreind aðferð verið viðhöfð. Þar að auki má sjá af töflu 8.1 í skýrslu kærðu um úttekt á tilboðum að þátturinn klínísk og tæknileg gæði, sem vega átti 50% samkvæmt lið 2.17.2 í útboðsgögnum, var sundurliðaður í sjö undirliði og höfðu fimm þeirra vægið 8% en tveir þeirra vægið 5%. Ekki var gerð grein fyrir þessum undirliðum eða vægi þeirra í útboðsgögnum. Í samræmi við 26. gr. og 2. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001 bar kærðu að tilgreina þær forsendur sem notaðar skyldu við einkunnagjöf með eins nákvæmum hætti og framast var unnt í útboðsgögnum og fullt samræmi að vera milli þeirra og hins endanlega mats. Telja verður að með ofannefndri framkvæmd hafi verið brotið gegn þessum ákvæðum.
Kærendur byggja jafnframt á því að aðeins eitt tilboða þeirra hafi verið metið til einkunna og að tilboðum þeirra sem gerðu ráð fyrir einu og þremur tækjum hafi verið hafnað af ástæðum sem ekki komu fram í útboðsgögnum, sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001. Af skýrslu matsnefndar um úttekt á tilboðum má sjá að öll tilboð kærenda og InterMedica ehf. voru metin og gefin einkunn fyrir þá þætti sem greinir í lið 2.17.2 í útboðsgögnum, þ.e. fyrir klínísk og tæknileg gæði, verð og þjónustu og stuðning bjóðanda. Af töflu 8.1, sem ber heitið ,,Heildarsamanburður á tilboðum“, má sjá að tilboð kærenda nr. 1 fékk 7,6 í einkunn, tilboð kærenda nr. 2 einkunnina 7,7, tilboð kærenda nr. 3 einkunnina 7,4 og tilboð kærenda, sem breytt hafði verið þannig að gert var ráð fyrir tveimur Vectorvision 2 lausnum, einkunnina 8,0. Tilboð InterMedica ehf. A og B fengu hins vegar einkunnina 9,4 og tilboð C, D og E einkunnina 9,6. Var ákveðið að ganga til samninga við InterMedica ehf. á grundvelli þess tilboðs sem hlaut hæsta einkunn í útboðinu, en öðrum boðum hafnað. Samkvæmt þessu var ekki um það að ræða að tilboð hefðu ekki verið metin til einkunna eða að höfnun tilboða hefði verið byggð á ástæðum sem ekki komu fram í útboðsgögnum, enda ljóst að það tilboð sem hlyti hæsta einkunn yrði fyrir valinu.
Kærendur hafa krafist þess að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærðu. Í 1. mgr. 84. gr. laga nr. 94/2001 er mælt fyrir um skaðabótaskyldu vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Samkvæmt ákvæðinu er skilyrði slíkrar skyldu að um brot á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim sé að ræða. Einnig að bjóðandi sanni að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið. Því hefur þegar verið slegið föstu að um brot á lögum nr. 94/2001 hafi verið að ræða. Við mat á því hvort kærendur hafi átt raunhæfa möguleika á að vera valdir af kærðu verður að líta til einingarverða í grunntilboði þeirra, sbr. lið 2.14.6 í útboðsgögnum. Ekki er hægt að líta til meints afsláttar kærenda, enda kemur hann ekki fram í tilboðinu. Ef miðað er við einingarverð nam tilboð kærenda nr. 1 sem miðaðist við eitt tæki kr. 41.252.443, tilboð kærenda nr. 2 sem miðaðist við tvö tæki kr. 57.649.149 og tilboð kærenda nr. 3 sem miðaðist við þrjú tæki kr. 69.117.427. Það tilboð sem varð fyrir valinu miðaðist við tvö tæki og nam það kr. 43.585.641. Af þessu leiðir að kærendur áttu ekki raunhæfa möguleika á að verða valdir af kærðu, enda var tilboð þeirra sem miðaðist við tvö tæki rúmlega kr. 14.000.000 hærra en það tilboð sem tekið var auk þess sem í það vantaði ýmsa liði til að uppfylla lágmarkskröfur útboðslýsingar. Með vísan til þessa verður að hafna kröfu kærenda um að nefndin láti uppi það álit sitt að kærðu séu skaðabótaskyldir gagnvart þeim.
Kærendur krefjast þess að kærðu verði gert að greiða þeim kostnað við að hafa kæruna uppi. Samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 getur kærunefnd útboðsmála ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Með hliðsjón af niðurstöðu máls þessa og umfangi þess ákveðst að kærðu greiði kærendum kr. 400.000 í kostnað við að hafa kæruna uppi. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kærðu hafa krafist þess að kærendum verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Í ljósi þess að kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærðu hafi brotið gegn lögum nr. 94/2001 verður að hafna kröfunni.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærðu, Landspítala Háskólasjúkrahúss og Ríkiskaupa, um frávísun krafna kærenda, Icepharma ehf. og BrainLab, vegna útboðs nr. 13850 auðkennt sem ,,A Surgical Navigation System for the Department of Surgery at Landspítali – University Hospital in Reykjavík, Iceland“ er hafnað.
Kröfu kærenda um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærðu gagnvart þeim er hafnað.
Kærðu greiði kærendum kr. 400.000, að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna kostnaðar við að hafa kæru í málinu uppi.
Kröfu kærðu um að kærendum verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs er hafnað.
Reykjavík, 5. júlí 2006
Páll Sigurðsson
Stanley Pálsson
Sigfús Jónsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 5. júlí 2006.