Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 2/2006

A

gegn

Eimskipum ehf.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 16. júní 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.       

Inngangur

Með kæru, dags. 29. janúar 2006, óskaði kærandi A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Eimskip ehf. hefðu brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í tímabundið sumarstarf tækjastjóra í Sundahöfn, en ráðið var í starfið í maímánuði 2005.

Kæran var kynnt Eimskipum ehf. með bréfi, dags. 7. mars 2006. Umsögn Samtaka atvinnulífsins, f.h. Eimskipa ehf., barst með bréfi, dags. 28. mars 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með tölvubréfi, dags. 11. apríl 2006, og voru þær sendar Eimskipum ehf. til kynningar, dags. 12. apríl 2006. Engar frekari athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að Eimskip ehf. auglýstu í maí 2005 laus til umsóknar störf tækjastjóra í Sundahöfn. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að óskað væri eftir starfsmönnum á stærri vinnuvélar með full vinnuvélaréttindi. Reynsla af sambærilegum störfum væri æskileg en ekki nauðsynleg. Leitað væri eftir öflugum einstaklingum með ríka ábyrgðarkennd, góða þjónustulund og jákvæðni, stundvísi og sem gætu unnið undir álagi. Kærandi sótti um stöðu hjá Eimskipum ehf. Var kærandi boðaður til starfsviðtals en var ekki ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu. Að sögn Eimskipa ehf. var annar ráðinn í starf í gámafærslum og hafi sá einnig verið karlmaður.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Að hálfu kæranda er á því byggt að hann hafi réttindi til að starfa á vinnuvélum. Kærandi bendir á að hann viti til þess að kona sem hann sé kunnugur hafi sótt um starf hjá Eimskipum ehf. fyrr á árinu (2005) og verið ráðin, en hafi ekki haft reynslu eða réttindi á vinnuvélar. Kærandi telur sig því hæfari og með meiri réttindi. Forsvarsmenn Eimskipa ehf. hafi gengið hart að kæranda að sýna meðmæli frá fyrri vinnuveitendum, en sú kona sem fyrr var vísað til hafi ekki verið krafin um meðmæli er hún sótti um starf hjá Eimskipum ehf.

Kærandi hafi sótt um starf hjá Eimskipum ehf. alls þrisvar sinnum og alltaf fengið neitun. Hann hafi því reiðst eftir að hafa fengið neitun tvisvar og sent tölvupóst til starfsmannadeildar Eimskipa ehf. og látið í ljós óánægju sína. Honum hafi verið tjáð að hæfni hans í samskiptalegu tilliti væri ekki í samræmi við væntingar fyrirtækisins, en í því sambandi hafi verið höfð í huga reiði sem hann hafi látið í ljós vegna synjunar um starf.

Kærandi telur það viðmót er hann mætti hjá Eimskipum ehf. hafa verið mjög ólíkt því viðmóti er áðurgreind kona hafi mætt er hún hafi sótt um starf. Hann telji sig hafa meiri reynslu þar sem hann hafi vinnuvélaréttindi en áðurgreind kona hafi það ekki.

Kærandi segir hörð viðbrögð sín við fregnum þess efnis að hann hafi ekki fengið umrætt starf hjá Eimskipum ehf. vera sprottin af því að hann hafi bráðvantað vinnu, hann hafi sótt um fjölda starfa og fengið synjanir.

 

IV.

Sjónarmið Eimskipa ehf.

Af hálfu Eimskipa ehf. er litið svo á að stjórnunarréttur varðandi val á umsækjendum um störf hjá fyrirtækinu liggi hjá fyrirtækinu sjálfu, að teknu tilliti til þeirra laga og reglna sem líta skuli til við val á umsækjendum, svo sem jafnréttislaga. Meginreglan sé því sú að atvinnurekandinn beri ábyrgð á rekstrinum og eigi frjálst val um það hvort hann ráði til sín starfsmenn og þá hverja hann ráði. Eimskip ehf. hafi lagt sig fram um að gæta þess að gera ekki upp á milli umsækjenda á grundvelli kynferðis, enda hafi öll laus störf staðið opin jafnt körlum sem konum. Fyrirtækið hafi unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækisins og haft sérstaklega í huga kynjahlutföll við nýráðningar.

Kærandi hafi sótt um sumarstarf sem auglýst hafi verið laust til umsóknar í maí 2005 og hafi hann verið boðaður í viðtal. Framkoma hans sem og óöryggi á tækin hafi ekki verið í samræmi við þær kröfur og væntingar er Eimskip ehf. geri til starfsmanna sinna. Það hafi því verið mat stjórnenda að kærandi uppfyllti ekki þær kröfur sem Eimskip ehf. setji í starfsmannastefnu og í gildum fyrirtækisins: „Árangur, samstarf og traust.“ Af þessum ástæðum hafi honum verið synjað um starf í gámafærslum. Starfsmaður starfsþróunardeildar Eimskipa ehf. hafi haft samband við kæranda og látið hann vita af niðurstöðunni þess efnis að annar umsækjandi hefði verið ráðinn í starf í gámafærslum, sem reyndar hafi verið karlmaður. Í framhaldi hafi kærandi viðhaft óviðeigandi orð um félagið.

Eðli málsins samkvæmt séu karlar í meirihluta þeirra starfa sem kærandi hafi sótt um hjá Eimskipum ehf., eða 100% á gámasvæði og um 80% í Vöruhóteli. Það hafi því ekki verið um að ræða að karlar hafi ekki verið ráðnir til fyrirtækisins á grundvelli kynferðis. Viðleitni Eimskipa ehf. til þess að jafna kynjahlutföllin með ráðningu konu fyrr um sumarið hafi ekkert tengst höfnun á ráðningu kæranda. Eimskip ehf. líti því svo á að jafnréttislög eigi ekki við í umræddu máli þar sem fráleitt hafi verið um að ræða mismunun á grundvelli kynferðis. Sú kona sem kærandi hafi borið sig saman við hafi verið ráðin til starfa áður en umsókn kæranda um starf á Vöruhóteli barst fyrirtækinu.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í starf á gámasvæði félagsins, en ráðið var í stöðuna í maí 2005.

Svo sem rakið er hér að framan sótti kærandi um umrætt starf á gámasvæði Eimskipa ehf. í maí 2005 en fékk synjun. Af hálfu Eimskipa ehf. er því haldið fram að í umrætt starf hafi verið ráðinn karlmaður. Að áliti kærunefndar jafnréttismála kemur því ekki til álita að sú ráðning hafi getað farið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, enda verður ekki talið að sú ráðning hafi með beinum eða óbeinum hætti tengst kynferði kæranda. Í þessu sambandi skal einnig bent á að af hálfu Eimskipa ehf. var synjun um ráðningu meðal annars studd þeim rökum að framkoma kæranda og öryggi gagnvart viðkomandi vinnutæki hafi ekki verið í samræmi við væntingar og viðmið fyrirtækisins, en kærandi var sérstaklega prófaður á starfssvæði félagsins að því er síðarnefnda atriðið varðar.

Af hálfu kæranda er til þess vísað að viðmót það sem hann hafi fengið í tengslum við umsóknarferlið hafi verið annað en tiltekins kvenkyns umsækjanda sem hann vísar til í samanburðarskyni. Ekki verður ráðið af gögnum málsins og fyrirliggjandi upplýsingum að munur á viðmóti, þó viðurkenndur væri, hafi á einhvern hátt mátt rekja til kynferðis kæranda.

Með vísan til framanritaðs er það álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið leiddar líkur að því að Eimskip ehf. hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga við ráðningu í starf á gámasvæði félagsins í maí 2005.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta