Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 167/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 167/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, Ívari A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 19. júlí 2010 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði fyrir milligöngu stofnunarinnar. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður í 40 daga frá og með 7. júlí 2010 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. kæru móttekna 2. september 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi hóf töku atvinnuleysisbóta á grundvelli umsóknar sinnar frá 1. apríl 2010. Föstudaginn 4. júní 2010 reyndu starfsmenn Vinnumálastofnunar árangurslaust að ná símasambandi við hann vegna fyrirhugaðs atvinnuviðtals hjá X þann 8. júní sama ár. Í greinargerð Vinnumálastofnunar fyrir úrskurðarnefndinni, dags. 5. apríl 2011, kemur fram að starfsmenn stofnunarinnar hafi tvívegis reynt að ná símasambandi við kæranda 4. júní 2010 og einnig hafi verið gerðar tilraunir til að ná sambandi við hann mánudaginn 7. júní 2011. Þessar tilraunir hafi reynst árangurslausar. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 14. júní 2010 þar sem óskað var eftir skriflegri afstöðu hans á ástæðum höfnunar á atvinnutilboði.

Í tölvubréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 2. júlí 2010, kemur fram að það hafi verið hringt í hann á föstudegi 4. júní 2010 um klukkan tólf en hann hafi ekki náð að svara í símann. Hann hafi hringt til baka um tveimur mínútum seinna eða um fimm mínútum yfir tólf en þá hafi verið lokað. Kærandi lagði fram yfirlit yfir símtöl þessu til staðfestingar. Kærandi greinir frá því að honum hafi verið sagt að reynt hafi verið að hringja í hann á mánudeginum eftir helgina en hann muni ekki eftir að hafa misst af símtali enda svari hann alltaf í símann þegar hann hringir.

Vinnumálastofnun tók þá ákvörðun 7. júlí 2010 að fella bótarétt kæranda niður í 40 daga. Að beiðni kæranda var málið aftur fyrir hjá Vinnumálastofnun. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 11. ágúst 2010, var hin kærða ákvörðun tekin. Var hún sama efnis og sú sem hafði verið tekin 7. júlí 2010.

Af hálfu kæranda kemur fram að honum hafi verið synjað um greiðslu atvinnuleysisbóta vegna þess að hann mætti ekki í atvinnuviðtal. Hann hafi ekki fengið bréfið þar sem hann hafi verið boðaður í umrætt atvinnuviðtal en hann hafi heyrt að pósturinn í svietarfélaginu B, þar sem hann býr, sé ekki að standa sig. Hann hafi rétt misst af símtali klukkan tólf á föstudegi frá þjónustumiðstöð Vinnumálastofnun og hringt til baka þremur mínútum seinna. Þá hafi ekki verið svarað þar sem starfsmennirnir hafi verið farnir í helgarfrí. Hann hafi sent símayfirlit þessu til staðfestingar en ekki hafi verið tekið mark á því og hafi hann þann grun að þetta hafi ekki verið athugað. Það hafi ekki verið haft samband við hann á mánudeginum eftir því hafi hann ályktað að þetta hafi ekki verið neitt merkilegt. Kærandi greinir frá því að það sé óviðunandi að það hafi einungis verið hringt í hann einu sinni.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. apríl 2010, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Vinnumálastofnun greinir jafnframt frá því að eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Kemur fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Vinnumálastofnun greinir frá því að í kæru komi fram að kæranda hafi verið synjað um greiðslur atvinnuleysistrygginga vegna formgalla í atvinnuviðtali. Kærandi hafi skilað inn skýringum og sundurliðun á símnotkun 4. júní 2010 þar sem fram kemur að hann hafi gert tilraun til að hringja í Vinnumálastofnun kl. 12.05 þann 4. júní 2010. Vinnumálastofnun greinir frá því að boðun í atvinnuviðtalið sé dagsett 4. júní 2010 og viðtalið hafi átt að fara fram 8. sama mánaðar. Hafi strax verið leitast við það að tilkynna kæranda um atvinnuviðtal en ekki hafi náðst í hann.

Vinnumálastofnun hafnar fullyrðingum kæranda um að stofnunin hafi gert eina tilraun til að tilkynna kæranda um framangreint atvinnuviðtal og að ákvörðun um biðtíma hafi verið tekin á þeim grundvelli. Vinnumálastofnun telur að umsækjendur um atvinnuleysisbætur beri sjálfir ábyrgð á atvinnuleit sinni. Sé það grundvallarskilyrði þess að unnt sé að bjóða atvinnuleitanda starf, að hann svari símhringingum og öðrum boðum sem honum séu send. Kærandi hafi ekki svarað símtölum stofnunarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Það sé mat stofnunarinnar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess hversu rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur um að vera virkir í atvinnuleit, telur Vinnumálastofnun að kærandi eigi að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. apríl 2011, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. sama mánaðar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Úrskurðarnefndin óskaði skýringa Vinnumálastofnunar á því að bréf um boðun starfsviðtals hafi ekki verið sent kæranda. Samkvæmt svari Vinnumálastofnunar, sem barst 19. maí 2011, var kæranda ekki sent bréf um atvinnuviðtalið vegna þess hve fyrirvarinn hafi verið skammur, þ.e. atvinnutilboðið barst 4. júní 2010 og viðtalið átti að fara fram 8. júní sama ár. Þá aflaði úrskurðarnefndin þeirra upplýsinga að opnunartími þjónustuskrifstofa Vinnumálastofnunar árið 2010 hafi verið þannig háttað að lokað hafi verið á föstudögum eftir hádegi og að af þeirri ástæðu væri líklegt að kærandi hefði 4. júní 2010 fengið samband við símsvara hjá stofnuninni þar sem fram kæmi að það væri lokað.

2.

Niðurstaða

Þýðingarmestu atvik þessa máls eru þau að föstudaginn 4. júní 2010 bárust starfsmönnum Vinnumálastofnunar upplýsingar um starfsviðtal ætlað atvinnuleitendum. Starfsviðtalið átti að fara fram 8. júní 2010 eða einum virkum degi eftir að stofnunin fékk upplýsingar um það. Tilraun var gerð til að upplýsa kæranda um þetta starfsviðtal en hún misheppnaðist. Kæranda var ekki sent bréf um viðtalið og hvorki föstudaginn 4. júní né mánudaginn 7. júní 2010 náðist símasamband við kæranda. Upplýst er að kærandi hringdi kl. 12.05 í síma Vinnumálastofnunar 4. júní 2010 en þá var skrifstofa stofnunarinnar lokuð. Kærandi hefur hafnað því að Vinnumálastofnun hafi reynt að ná í sig í síma 7. júní 2010.

Hin kærða ákvörðun var reist á svohljóðandi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

Eins og atvik máls gefa til kynna þá fór kærandi aldrei í atvinnuviðtalið 8. júní 2010 vegna þess að hann vissi ekki af því. Kæranda gafst því aldrei færi á taka eða hafna starfi sem honum hafði verið boðið með sannanlegum hætti. Þegar af þeirri ástæðu getur fyrri málsliður 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki átt við í málinu.

Það er hægt að beita síðari málslið ákvæðisins þegar atvinnuleitandi svarar ekki boðunum Vinnumálastofnunar vegna fyrirhugaðs atvinnuviðtals. Þetta byggir á atvinnuleitanda er óheimilt að sniðganga atvinnuviðtal með því einu að láta ekki ná í sig. Færa verður sönnur á slíka hegðun atvinnuleitanda.

Í þessu máli hófst Vinnumálastofnun handa að boða kæranda í starfsviðtal með skömmum fyrirvara. Stofnunin aflaði sér ekki bréflega sönnunar um boðunina. Líta verður til þess að kærandi hafði símasamband við Vinnumálastofnun skömmu eftir hádegi föstudaginn 4. júní 2010 en þá um morguninn höfðu starfsmenn stofnunarinnar reynt að ná símasambandi við hann. Kærandi kannast ekki við að hafa fengið símhringingar frá Vinnumálastofnun mánudaginn 7. júní 2010. Með hliðsjón af ofangreindu verður ekki fallist á að kærandi hafi með sannanlegum hætti vikið sér undan því að mæta í atvinnuviðtal 8. júní 2010. Því falla atvik málsins ekki undir síðari málslið 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framansögðu verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Það athugast að með hinni kærðu ákvörðun var kveðið á um að kærandi skyldi sæta 40 daga biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta þótt sú regla hafði gilt frá 1. janúar 2010 að atvinnuleitendur skyldu sæta biðtíma í tvo mánuði, sbr. 20. gr. laga nr. 134/2009. Þessi ónákvæmni kemur ekki að sök þar sem fram kom í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009, að lengd tímabilsins væri sú sama, hvort sem miðað væri við 40 daga eða tvo mánuði. Nauðsynlegt er þó að tilgreina að kærandi eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá og með 7. júlí 2010 að telja.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er felld úr gildi. Kærandi, A á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá og með 7. júlí 2010 að telja.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta