Mál nr. 131/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 131/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur 17. ágúst 2009 og fékk greiddar atvinnuleysistryggingar í samræmi við rétt sinn. Í maí 2010 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi væri að starfa við tamningar. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda því með bréfi, dags. 12. júlí 2010, að stofnunin hefði ákveðið að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar með vísan til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. júlí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi greinir frá því að hún hafi verið með hesta fyrir sjálfa sig hjá tilgreindum manni og hjálpað til í sauðburði og gefið fyrir hann í staðinn. Hún hafi ekki verið á launum þar sem hún hafi verið að sjá um sína eigin hesta. Maðurinn hafi einnig verið með hesta fyrir hana í heygöngu. Hún hafi ákveðið að vera hjá þessu fólki með hesta og hjálpa til þar sem hún hafi ekki haft neitt annað að gera því hún væri atvinnulaus og strákurinn hennar á leikskóla. Hún hafi séð fyrir sér að hún gæti ekki verið með hestana á B-stað vegna þess hversu dýrt það væri. Þetta hafi bara verið svona greiði fyrir greiða.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. desember 2010, kemur fram að eftir að stofnunin hafi óskað eftir því að kærandi gerði skriflega grein fyrir afstöðu sinni hafi athugasemdir frá henni borist 8. júní 2010. Þar hafi kærandi tekið fram að hún hefði verið með hestana sína hjá tilgreindum manni og hjálpað til og gefið fyrir hann í staðinn. Telur Vinnumálastofnun að þessar skýringar kæranda séu í engu samræmi við fullyrðingar kæranda á netsíðunni Facebook. Stofnunin greinir frá því að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist að ná tali af þeim manni sem kærandi vísar til í kæru.
Í greinargerðinni er vísað til 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, um markmið laganna. Þar kemur fram að markmiðið sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leiti sér að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í III. kafla laganna séu svo tilgreind almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Nánar sé kveðið á um það í a- til h-lið 1. mgr. 14. gr. hvað teljist vera virk atvinnuleit. Sé meðal annars gert ráð fyrir því að sá sem þiggi atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 14. gr.
Í greinargerðinni er einnig vísað í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins verði beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni vísvitandi rangar upplýsingar sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að viðurlög eigi einnig við ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna.
Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að kærandi hafi lagt fram vottorð frá lækni í febrúar 2010 þar sem fram kemur að kærandi geti ekki unnið erfiðisvinnu sem kallaði á „mikil og snögg átök“. Hafi umrætt vottorð verið veigamikið málsgagn í fyrra máli kæranda er varðaði biðtímaákvörðun sökum höfnunar á vinnu við tamningar. Virðist vottorðið hafa verið gefið út í beinu sambandi við kæru til úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 5/2010. Þrátt fyrir vottað heilsuástand kæranda liggur fyrir að kærandi hóf störf við tamningar í janúar 2010 er hún flutti búferlum að B-stað. Í ljósi afdráttarlausra athugasemda frá kæranda sjálfri á samskiptasíðu hennar og upplýsingum af heimasíðunni Hestaleit.is, þar sem kærandi er skráður söluaðili á reiðhestum, hafnar Vinnumálastofnun andmælum kæranda og telur að hún hafi verið við vinnu á umræddum tíma. Þó svo ávinningur af því að temja hesta kunni að koma síðar fram verði ekki séð að kærandi geti talist í virkri atvinnuleit í skilningi 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem hún sinnir þeim störfum. Þar sem kærandi hafi, þrátt fyrir framangreind atriði, ekki talið ástæðu til að tilkynna Vinnumálastofnun um að atvinnuleit hafi verið hætt eða um tilfallandi vinnu, líkt og henni var skylt skv. 3. mgr. 9. gr. og 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé það eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. janúar 2011. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi dagsettu þann 12. júlí 2010. Þar sagði að Vinnumálastofnun hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hefði „verið staðin að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur“. Jafnframt var kæranda gerð grein fyrir að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hún hefði fengið á tímabilinu frá 18. janúar til 20. maí 2010. Áður en ákvörðun var tekin hafði Vinnumálastofnun kynnt kæranda um að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi hafi verið í vinnu á sama tíma og hún hafi verið skráð atvinnulaus. Í bréfinu var kæranda gefinn kostur á að láta í ljós afstöðu sína til málsins. Í kjölfarið hafnaði kærandi því að hafa verið við vinnu á umræddu tímabili. Hún kvaðst hafa fengið aðstöðu með hross sín á bænum D og hjálpað til á bænum í sauðburði í staðinn. Ekki hafi verið um neinar launagreiðslur að ræða heldur frekar greiða á móti greiða.
Vinnumálastofnun greinir frá því að ekki hafi tekist að ná sambandi við bændur að D-bæ þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og er endanleg ákvörðun því byggð á framangreindum upplýsingum af „facebook“-síðu kæranda um að hún hafi verið í vinnu. Algerlega er horft framhjá skýringum kæranda sem hún hafði sent til Vinnumálastofnunar.
Það er mat úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi borið að rannsaka mál kæranda betur áður en endanleg ákvörðun var tekin. Sérstaklega var nauðsyn á að vanda málsmeðferð þar sem niðurstaða málsins gat orðið mjög íþyngjandi fyrir kæranda. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Ekkert liggur fyrir í málinu um það með hvaða móti reynt var að ná sambandi við framangreinda bændur. Þá liggur ekkert fyrir um að skorað hafi verið á kæranda um að leggja fram frekari gögn fullyrðingum sínum til staðfestingar um að hún hafi ekki verið í vinnu samhliða því að hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur.
Við meðferð máls kæranda var brotið alvarlega á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og því ber að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa máli þessu til Vinnumálastofnunar að nýju til löglegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. júlí 2010 í máli A er felld úr gildi.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson