Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 324/2022- Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 324/2022

Fimmtudaginn 6. október 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. júní 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. apríl 2022, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. nóvember 2021 og var umsóknin samþykkt 1. desember 2021. Við reglubundið eftirlit í mars 2022 kom í ljós að kærandi var skráð í 31 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. apríl 2022, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og skýringar á því hvers vegna hún hefði ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Skólavottorð barst samdægurs og skýringar bárust 19. apríl 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. apríl 2022, var kæranda tilkynnt að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 3. janúar til 11. apríl 2022 að fjárhæð 732.093 kr., að meðtöldu álagi, þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta þann tíma sem hún var skráð í nám. Í kjölfar frekari gagnaframlagningu og skýringa frá kæranda var mál hennar tekið til endurumfjöllunar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. júní 2022, var kæranda tilkynnt að ákvörðun frá 29. apríl 2022 væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 22. júní 2022 og rökstuðning fyrir kærunni 14. júlí 2022. Með bréfi, dags. 14. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 12. ágúst 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. ágúst 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 28. ágúst 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. ágúst 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. apríl 2022 um að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 3. janúar til 11. apríl 2022 og ákvörðun um að henni beri að endurgreiða þær sem nemi 732.093 kr. með skuldajöfnun við síðar til komnar atvinnuleysisbætur. Einnig sé kærð ákvörðun frá 14. júní 2022 um að fyrri ákvörðun frá 29. apríl 2022 skyldi standa óbreytt. Fyrri ákvörðun sé aðeins rökstudd með því að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga þann tíma sem hún hafi verið í námi en ekki sé þar vísað til réttarheimilda, sbr. 1. og 2. mgr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Síðari ákvörðunin sé órökstudd en þar sé aðeins tilgreint að fyrri ákvörðun hafi verið efnislega rétt og ekki sé tilgreint hvaða gögn hafi verið lögð fram.

Kærandi tekur fram að hún hafi skráð sig í meistaranám í sálfræði við Háskóla Íslands sumarið 2021 og hafi ætlað að hefja nám þá um haustið. Áður hafi kærandi sótt um meistaranám við Utrecht University sem hún hafi svo fengið inngöngu í og því hafi hún ákveðið að sleppa náminu við Háskóla Íslands og vinna þar til hún færi til Hollands. Eftir nokkra mánuði hafi kærandi misst vinnuna. Hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur og hafi verið að leita sér að annarri vinnu síðan þá. Á þeim tíma hafi verið það langur tími liðinn frá því að hún hafi sótt um námið í Háskóla Íslands að hún hafi verið búin að gleyma þeirri skráningu og hafi yfirsést að segja sig úr því. Um miðjan apríl 2022 hafi kærandi fengið rukkun frá Vinnumálastofnun upp á 750.000 kr. vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta þar sem hún hafi enn verið skráð í nám. Kærandi hafi um leið fengið staðfestingu á úrsögn úr námi frá nemendaskrá. Kærandi hafi hvorki stundað námið, ekki mætt í neinn tíma né skilað verkefnum þetta skólaár og hafi ekki stigið inn í skólann nema til þess að fá vottorð um að hún hafi ekki stundað námið.

Meðfylgjandi vottorð frá formanni kjörsviðsins í félagslegri sálfræði í MS námi í hagnýtri sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands staðfesti að kærandi hafi ekki stundað neitt nám hjá þeim. Auk þess hafi kærandi fengið vottorð frá kennurum námskeiða í félagslegri sálfræði á vorönn 2022. Þetta ætti að vera fyllileg sönnun fyrir því að ekkert hafi hindrað kæranda í því að vera í virkri atvinnuleit. Þá hafi ekkert komið fram um að skráningu hennar hjá Vinnumálastofnun hafi verið þannig háttað að virk atvinnuleit væri á einhvern hátt hindruð. Athugun eftir á á formlegri skráningu hennar í nám sé ekki heldur í samræmi við þann tilgang laganna að bótaþegi þurfi að vera í virkri atvinnuleit og standa vinnumarkaðnum til boða ef eftir því sé leitað. Eins og sérstaklega sé staðfest í vottorði aðjúnkts hafi kærandi ekki einu sinni nálgast námsefnið og því verið óvirk með öllu.

Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé ekki talað um skráningu í nám heldur ástundun. Því sé augljóst að meta þurfi hverju sinni, að minnsta kosti ef tilefni gefist til eins og hér, hvort nám sé stundað, ella hefði löggjafinn nefnt skráningu í nám. Efni 1. málsl. c-liðar 3. gr. laganna sé í samræmi við þessa túlkun kæranda, enda sé þar talað um samfellt nám í að minnsta kosti sex mánuði. Enn frekari stuðning megi finna fyrir skýringu kæranda og gegn túlkun Vinnumálastofnunar að í 2. málsl. c-liðar 3. gr. sé sérstaklega tekið fram að einstök námskeið teljist ekki til náms. Enn síður ætti því að teljast til náms í skilningi laganna formleg skráning í nám sem gleymist að afskrá og hafi ekki átt sér stað. Loks styðji 5. mgr. 52. gr. laganna túlkun kæranda.

Kærandi telji því að ákvörðun Vinnumálastofnunar skorti lagastoð, auk eftirgreindra málsmeðferðargalla. Kærandi telji að Vinnumálastofnun hafi virt að vettugi þá almennu skyldu stjórnvalda samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður hverju sinni þegar um mat sé að ræða. Fjölmargar athugasemdir með ýmsum frumvarpsákvæðum í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar styðji þetta. Jafnvel þótt skráning í nám kunni að duga í upphafi (l. prima facie) sem ástæða synjunar verði að telja að við andmælarétt (sem henni hafi ekki verið gefinn) eða ósk um endurupptöku eða í síðasta lagi við málskot, beri að meta atvik hverju sinni og taka formlega og rökstudda afstöðu til þess hvort skráning hafi verið í samræmi við raunveruleikann eins og oftast eða eins og hér að ekkert nám hafi verið stundað í kjölfar formlegrar skráningar. Loks telji kærandi að ákvörðun og endurmat Vinnumálastofnunar hafi skort lögáskilinn rökstuðning, sbr. það sem að framan greini, þannig að hana beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda, sbr. neðangreindar kröfur kæranda. Kærandi telji að sú staðreynd að Vinnumálastofnun hafi skuldajöfnunarrétt og beiti honum í málinu styðji að málstaður hennar verði metinn með hagstæðasta móti eins og atvik leyfi.

Kærandi krefjist þess aðallega að niðurstöðu Vinnumálastofnunar verði snúið við og að fallið verði frá innheimtu og skuldajöfnun samkvæmt framangreindu. Til vara geri kærandi kröfu um að ákvörðun stofnunarinnar verði ógilt og að stofnuninni verði falið að meta málið einstaklingsbundið að nýju með tilliti til nefndra vottorða og aðstæðna og taka löglega rökstudda ákvörðun að nýju.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að helstu rök Vinnumálastofnunar fyrir því að hún eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum séu að þrátt fyrir að hún hafi ekki stundað námið, hvorki mætt né skilað verkefnum, gæti hún samt mætt í lokapróf og þannig lokið einingum. Sú fullyrðing standist ekki skoðun þar sem nám í sálfræði við Háskóla Íslands á meistarastigi felist í símati og ekki séu lokapróf. Þar af leiðandi sé ekki hægt að mæta eingöngu í lokapróf og ná þannig áfanganum. Í meðfylgjandi staðfestingu frá formanni kjörsviðsins Félagsleg sálfræði í MS námi í hagnýtri sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands segi orðrétt:

„Ég staðfesti það hér með að það er heilmikið því til fyrirstöðu og ég óska þess að stafsfólk Vinnumálastofnunar hafi samband við kennara Háskóla Íslands áður en það gefur sér forsendur um hvernig námsmati er háttað. A hlaut inngöngu í nám á meistarastigi þar sem aðeins fimm nemendur eru teknir inn á ári hverju. Kennarar kjörsviðsins taka því augljóslega eftir því að einn nemandinn mætir aldrei í námið. Í náminu eru ekki lokapróf, enda tíðkast þau ekki nú til dags í námi á meistarastigi. Nemendur skila verkefnum og halda kynningar jafnt og þétt yfir veturinn. Þetta kallast símat. Ekki er hægt að komast í gegnum námið án þess að mæta í tíma yfir veturinn.“

Kærandi ítreki rök sín um texta laganna þar sem talað sé um ástundun en ekki skráningu í nám. Í greinargerð Vinnumálastofnunnar sé hvorki bent á nein fordæmi né færð fram rök fyrir rýmkandi skilningi stofnunarinnar á lögunum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 4. nóvember 2021. Með erindi, dags. 1. desember 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 80%. Kærandi hafi tilgreint í umsókn sinni að hún væri aðeins reiðubúin til að taka 80% starfi.

Við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós að kærandi væri skráð í 31 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2022 en hún hafi hvorki tilkynnt Vinnumálastofnun um umrætt nám né hafi legið fyrir námssamningur. Kæranda hafi í kjölfarið verið sendur tölvupóstur þann 28. mars 2022 og henni greint frá því að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum stofnunarinnar stundaði hún nám á vorönn samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga sem almennt væri óheimilt. Þess hafi verið óskað að kærandi sendi stofnuninni skólavottorð þar sem fram kæmi umfang náms hennar. Þann 31. mars hafi kærandi greint Vinnumálastofnun frá því að hún væri ekki í námi, enda væri hún á leið til Hollands í framhaldsnám haustið 2022. Kæranda hafi verið greint frá því að stofnuninni þyrfti að berast skólavottorð því til stuðnings.

Með erindi, dags. 13. apríl 2022, hafi aftur verið óskað eftir því við kæranda að hún skilaði skólavottorði þar sem umfang náms hennar væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hún upplýsti Vinnumálastofnun ekki um nám sitt. Sama dag, eða þann 13. apríl, hafi kærandi skilað Vinnumálastofnun skólavottorði. Þar komi fram að kærandi hafi verið skráð nemandi við Háskóla Íslands háskólaárið 2021-2022 en hafi sagt sig úr námi 11. apríl 2022. Þann 19. apríl 2022 hafi kærandi mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og afhent stofnuninni ítarlegra skólavottorð, útgefið 19. apríl 2022. Þar komi fram að kærandi hafi verið skráð í 31 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands í hagnýtri sálfræði á vorönn 2022. Kærandi hefði þó sagt sig úr öllum áföngum. Auk þess að afhenda stofnuninni skólavottorð hafi kærandi sent stofnuninni tölvupóst þar sem hún hafi greint frá því að hafa verið skráð í nám en aldrei byrjað í náminu.

Með erindi, dags. 29. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga þann tíma sem hún hafi verið í námi bæri henni að endurgreiða þær bætur sem henni hafi verið greiddar fyrir tímabilið 3. janúar til 11. apríl 2022, samtals 732.093 kr. Þann 3. maí 2022 hafi kærandi sent stofnuninni frekari gögn vegna námsins. Um hafi verið að ræða staðfestingu frá kennurum við Háskóla Íslands þess efnis að kærandi hefði aldrei mætt í neina kennslustund né skilað verkefnum vegna þeirra námskeiða sem hún hafi verið skráð í á vorönn 2022. Í kjölfarið hafi mál kæranda verið tekið til endurumfjöllunar. Með erindi, dags. 14. júní 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hennar hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri þó mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hennar, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist stofnuninni.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur málsins varði innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins 3. janúar til 11. apríl 2022 en samkvæmt gögnum úr námsmannaskrá hafi kærandi verið skráð í nám á umræddu tímabili. Einkum komi til álita hvort kærandi hafi í raun stundað nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Í c. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um nám. Í 1. mgr. 52. gr. segi orðrétt: 

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“

Af ákvæði 1. mgr. 52. gr. sé ljóst að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með 52. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, hvort sem um sé að ræða fjarnám, dag- eða kvöldskóla. Eins og rakið hafi verið í málsatvikum liggi fyrir að kærandi hafi verið skráð í 31 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2022 en á þeim tíma hafi kærandi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Hvorki hafi legið fyrir námssamningur vegna námsins né hafi kærandi látið stofnunina vita að hún væri skráð í nám. Þá eigi undanþáguákvæði 2. til 4. mgr. 52. gr. laganna ekki við í tilfelli kæranda.

Kærandi hafi vísað til þess að hún hafi ekki stundað umrætt nám heldur hafi henni yfirsést að skrá sig úr náminu. Samkvæmt gögnum frá Háskóla Íslands hafi kærandi afskráð sig úr námi þann 11. apríl. Að auki liggi fyrir gögn frá kennurum við skólann þess efnis að kærandi hafi hvorki mætt í tíma né skilað verkefnum vegna umrædds náms. Þegar metið sé hvort atvinnuleitandi stundi nám líti Vinnumálastofnun til upplýsinga úr námsmannaskrá. Það sé eina úrræðið sem stofnunin búi yfir til að sinna eftirlitshlutverki sínu þegar komi að þeim sem stundi nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga. Að mati Vinnumálastofnunar sé ótækt að túlka ákvæði c-liðar 3. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þann hátt að sá sem sé skráður í nám teljist ekki námsmaður í skilningi laganna sökum þess að hann hafi ekki sinnt námi eða ekki lokið prófum með fullnægjandi árangri. Það að mæta ekki í kennslustundir eða að sinna ekki verkefnaskilum breyti ekki þeirri staðreynd að viðkomandi hafi verið skráður í nám samkvæmt 52. gr. laganna. Ákvæðið geri ráð fyrir ákveðnum einingafjölda en Vinnumálastofnun sé ekki gert að meta hvort atvinnuleitandi sem sé skráður í nám stundi nám sitt vel eða illa. Því sé aðeins unnt að líta til skráningar viðkomandi hjá viðkomandi menntastofnun. Með vísan til framangreinds telji stofnunin ekki rétt að líta til þess hvort kærandi hafi mætt í tíma eða unnið verkefnavinnu í tengslum við námið heldur beri að líta til raunverulegrar skráningar hennar í umrætt nám. Jafnframt beri að hafa í huga að ekkert sé því til fyrirstöðu að nemandi ljúki einingum, til dæmis með mætingu í lokapróf, þrátt fyrir að hafa ekki mætt í kennslustundir eða sinnt verkefnaskilum. Í því samhengi þyki Vinnumálastofnun ekki skipta máli þótt kærandi hafi skráð sig úr náminu þann 11. apríl, enda hafi það ekki verið gert fyrr en Vinnumálastofnun hafi í reglulegu eftirliti sínu séð að kærandi væri skráð í nám og hafið að óska eftir upplýsingum frá kæranda.

Í ljósi alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi stundað nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé því ljóst að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 3. janúar til 11. apríl 2022. Í 39. gr. laganna sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds beri kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 3. janúar til 11. apríl 2022, enda liggi fyrir að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Heildarskuld kæranda hafi verið 732.093 kr. og þar af álag að fjárhæð 95.490 kr. Skuld kæranda standi í dag í 693.609 kr. þar sem 38.484 kr. hafi verið skuldajafnaðar við síðar tilkomnar atvinnuleysisbætur. Þá hafi kærandi afskráð sig af atvinnuleysisbótum þann 1. júlí 2022. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til skuldamyndunar. Vinnumálastofnun vísi til þess að við upphaf umsóknar sé öllum atvinnuleitendum vísað á upplýsingar um réttindi sín og skyldur, þar á meðal um heimildir til að stunda nám. Að auki sé á heimasíðu stofnunarinnar skýrt tekið fram að almennt sé óheimilt að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga en þó sé heimilt að stunda allt að 12 ECTS-eininga nám á hverri námsönn. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kæranda hljóti að hafa verið ljóst að ávallt þyrfti að tilkynna stofnuninni ef nám væri stundað. Það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Með vísan til framangreinds beri kæranda því að greiða umrædda skuld, auk álags, enda hafi kærandi að mati Vinnumálastofnunar ekki fært rök fyrir því að fella eigi niður álag á skuld hennar.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar geri kærandi jafnframt athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Kærandi telji að Vinnumálastofnun hafi virt að vettugi þá almennu skyldu samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður hverju sinni. Vinnumálastofnun hafni þeirri staðhæfingu kæranda. Aflað hafi verið skýringa og gagna frá kæranda í kjölfar þess að stofnuninni hafi borist þær upplýsingar að hún væri skráð í nám. Það hafi verið gert í þeim tilgangi að afla upplýsinga svo að hægt væri að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður kæranda. Ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli þess mats með vísan til ákvæða laga um atvinnuleysistryggingar.

Þá telji kærandi ákvörðun stofnunarinnar um skuldamyndun skorta lögáskilinn rökstuðning og beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda ákvörðunina. Þau mistök hafi orðið við birtingu ákvörðunarinnar til kæranda að ekki hafi verið vísað til þeirra lagaheimilda sem ákvörðunin hafi verið byggð á. Aftur á móti hafi kæranda verið leiðbeint um rétt sinn til að óska eftir frekari rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því þyki Vinnumálastofnun ljóst að birting ákvörðunarinnar til kæranda hafi uppfyllt skilyrði 20. gr. stjórnsýslulaga. Því sé ekki tilefni til að fella ákvörðunina úr gildi af þeirri ástæðu einni að ekki hafi beinlínis verið vísað til þeirrar lagastoðar sem hún hafi verið byggð á, enda hafi efni hennar komið skýrt fram í erindi stofnunarinnar, dags. 29. apríl 2022.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 3. janúar til 11. apríl 2022, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, auk álags, samtals 693.609 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 3. janúar til 11. apríl 2022 á þeirri forsendu að kærandi hafi verið í námi þann tíma og því ekki uppfyllt skilyrði til greiðslna atvinnuleysisbóta.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna er það meginregla að námsmenn eru ekki tryggðir á sama tímabili og þeir stunda nám, enda sé það ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Frá þeirri meginreglu eru gerðar tilteknar undantekningar er fram koma í 2.-5. mgr. ákvæðisins.

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Óumdeilt er að kærandi var skráð í 31 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands á vorönn 2022 samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi ætlað að hefja nám við Háskóla Íslands haustið 2021 en hætt við því að hún hafi fengið inngöngu í nám erlendis. Kærandi hafi ákveðið að vinna þar til hún færi í það nám en svo misst vinnuna. Hún hafi verið búin að gleyma skráningu í námið við Háskóla Íslands þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur og yfirsést að segja sig úr því. Kærandi kveðst ekki hafa stundað námið, líkt og ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 áskilji, og hefur lagt fram gögn því til stuðnings.

Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að þegar metið sé hvort atvinnuleitandi stundi nám sé litið til upplýsinga úr námsmannaskrá en það sé eina úrræðið sem stofnunin búi yfir til að sinna eftirlitshlutverki sínu þegar komi að þeim sem stundi nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta.

Úrskurðarnefndin getur fallist á að almennt sé það svo að þeir sem eru skráðir í ákveðið nám teljist stunda námið samkvæmt almennum skilningi þess orðs. Hins vegar getur nefndin ekki fallist á að einungis sé unnt að líta til raunverulegrar skráningar þegar kemur að því að meta hvort einstaklingur teljist stunda nám og sé þar með ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006. Ástundun náms getur verið með ýmsum hætti allt eftir reglum þess náms sem um ræðir, svo sem tímasókn, verkefnaskil, hlutapróf eða eingöngu lokapróf. Því telur úrskurðarnefndin að meta þurfi hverju sinni hvort um raunverulega ástundun náms sé að ræða þegar einstaklingur kveðst ekki hafa stundað nám þrátt fyrir skráningu þar um, þ.e. fara þurfi fram einstaklingsbundið mat í hverju máli fyrir sig. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi lagt fram gögn sem sýna með óyggjandi hætti að hún hafi ekki stundað nám á vorönn 2022. Ber þar helst að nefna staðfestingu formanns kjörsviðsins Félagsleg sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands um að kærandi hafi ekki sótt nám við deildina skólaárið 2021-2022 og staðfestingu kennara um að kærandi hafi ekki mætt í neina kennslustund, ekki skilað verkefnum og ekki nálgast námsefni.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, eins og stendur á í þessu máli, að meginregla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 hafi ekki átt við um kæranda á vorönn 2022, þ.e. hún stundaði ekki nám í skilningi laganna. Að því virtu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 3. janúar til 11. apríl 2022 felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. apríl 2022, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta