Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 1/1999:

A
gegn
Ríkisútvarpinu.

------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 11. júní 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi, dags. 28. desember 1998, óskaði A, framhaldsskólakennari og fyrrverandi dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu á Akureyri, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu dagskrárgerðarmanns við svæðisútvarpið á Akureyri bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Með bréfi, dags. 14. janúar 1999, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftirfarandi upplýsinga og gagna:
1. Fjölda og kyn umsækjenda um stöðu dagskrárgerðarmanns hjá svæðisútvarpinu á Akureyri sem auglýst var í ágúst 1998.
2. Upplýsingar um menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var, sbr. 8. gr. jafnréttislaga, ásamt afriti af umsókn hans.
3. Hvað ráðið hafi vali á umsækjendum.
4. Afrit af umsögnum um umsækjendur, ef fyrir lægju.
5. Fjölda og kyn fastráðinna dagskrárgerðamanna hjá svæðisútvarpinu á Akureyri.
6. Fjölda og kyn fastráðinna dagskrárgerðamanna hjá Ríkisútvarpinu.
7. Afrit af auglýsingu um starfið.
8. Afrit af starfslýsingu, ef fyrir lægi.
9. Annað það sem Ríkisútvarpið teldi geta verið til upplýsingar fyrir málið.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Erindi kæranda, dags. 28. desember 1998, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf útvarpsstjóra, dags. 25. janúar 1999, ásamt fylgigögnum.
3. Umsögn kæranda um svarbréf útvarpsstjóra, dags. 7. febrúar 1999, ásamt fylgigögnum.
4. Afrit af fundargerð útvarpsráðs frá 25. ágúst 1998.

Dóra Ingvadóttir, framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins, mætti á fund kærunefndar 19. apríl 1999 og kærandi 17. maí 1999.

II

Staða dagskrárgerðarmanns við svæðisútvarpið á Akureyri var, ásamt nokkrum öðrum störfum hjá Ríkisútvarpinu, auglýst laus til umsóknar 19. júlí 1998. Í auglýsingu var tekið fram að í það starf, starf fréttamanna og dagskrárgerðarmanns í menningardeild, væri leitað að fólki með háskólapróf eða reynslu í frétta- og blaðamennsku, fólki sem hefði góða rödd og gott vald á íslensku máli, ætti gott með að tjá sig í töluðu máli og gæti unnið undir miklu álagi. Tekið var fram að umsækjendur myndu gangast undir sérstakt hæfnispróf. Umsóknarfrestur var til 5. ágúst 1998. Umsækjendur um þá stöðu sem hér er til umfjöllunar voru fimm, þrír karlar og tvær konur. Arnar Páll Hauksson, deildarstjóri svæðisútvarpsins á Akureyri, mælti með B í starfið. Í umsögn hans til framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins, dags. 19. ágúst 1998, kemur m.a. fram að hann treysti B best umsækjenda til að sinna starfinu. Hann hafi komið til starfa hjá svæðisútvarpinu þá um vorið og reynslan af störfum hans væri góð. Hann hafi sýnt að hann eigi gott með að tileinka sér vinnubrögðin og starfa sjálfstætt. Útvarpsráð samþykkti á fundi sínum 25. ágúst 1998 að mæla með B og í framhaldi af því réði útvarpsstjóri hann til starfans.

Lagðar hafa verið fram upplýsingar um menntun og starfsferil kæranda og þess sem ráðinn var.

Kærandi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1984 og BA prófi í íslensku með fjölmiðlafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 1994. Sama ár lauk hún einnig prófi í hagnýtri fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og í kennslufræðum til kennsluréttinda ári síðar. Hún sótti námskeið í uppsetningu tímarita og bæklinga veturinn 1994 og endurmenntunarnámskeið fyrir íslenskukennara sumarið 1996. Liður í námi hennar í hagnýtri fjölmiðlun var starf hjá textavarpi sjónvarpsins sumarið 1994, þar sem hún vann m.a. við gerð samantekta úr fréttatímum útvarpsins. Hún kenndi við Verkmenntaskólann á Akureyri frá hausti 1995 til vors 1997. Í júlí 1997 var hún ráðin tímabundið sem dagskrárgerðarmaður hjá svæðisútvarpinu á Akureyri og starfaði þar í rúmt ár.

B lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1986 og BA prófi í íslensku sem aðal- og aukagrein frá Háskóla Íslands 1992. Hann stundaði magistersnám í íslensku árin 1992 til 1995. Hann var við frönskunám í Frakklandi um sjö mánaða skeið veturinn 1986 til 1987. Hann starfaði við prófarkalestur og málfarsráðgjöf á Tímanum í Reykjavík frá 1993 til 1994 og hjá Íslenska útvarpsfélaginu 1994 til 1998 við prófarkalestur og þýðingar. Hann var ráðinn tímabundið hjá svæðisútvarpinu á Akureyri vorið 1998.

Lagt hefur verið fram eintak af starfsmannastefnu Ríkisútvarpsins, sem samþykkt var á fundi framkvæmdastjórnar 13. mars 1998. Þar segir að Ríkisútvarpið sé þjónustustofnun í almannaþágu og að markmiðið með starfsemi þess sé í grundvallaratriðum að bjóða á sem hagkvæmastan hátt vandað og fjölbreytt dagskrárefni við allra hæfi og dreifa af bestu getu til sem flestra landsmanna á láði og legi. Meginaflið til að ná þessu markmiði sé starfsfólk stofnunarinnar og því sé höfuðatriði að vel sé vandað til ráðningar þess í upphafi. Ríkisútvarpið leitist því við að hafa á að skipa samstilltum hópi hæfra starfsmanna og vilji leggja sitt af mörkum til þess að starfsumhverfi sé gott og góður starfsandi ríki. Þessu markmiði hyggist Ríkisútvarpið m.a. ná með ráðningum sem byggist á mati menntunar, starfsreynslu og hæfni og með því að vinna í anda jafnréttislaga um kjör og framgang í starfi.

Hjá Ríkisútvarpinu eru 36 starfsmenn fastráðnir við dagskrárgerð á landinu öllu, 19 konur og 17 karlar. Hjá svæðisútvarpinu á Akureyri starfa 11 manns. Dagskrárgerðarmenn eru þrír, allt karlar. Deildarstjóri og fréttamaður eru einnig karlar. Svæðisútvarpið á Akureyri, sem er deild innan útvarpsins, er stærsta svæðisútvarpið og þjónar öllu Norðurlandi. Útsendingar svæðisútvarpsins eru 40 mínútur fyrir hádegi og 30 mínútur síðdegis virka daga. Auk þess tekur svæðisútvarpið þátt í útvarpi á landsvísu með því að sjá um gerð einstakra fastra liða, eins og til dæmis Byggðalínu og Laufskálans, og einnig með því að leggja til innskot í þætti eins og Samfélagið í nærmynd og Víðsjá. Í þessu felst að þættir, sem útvarpað er á landsvísu, eru reglulega á ábyrgð og undir umsjón svæðisútvarpsins.

III

Kærandi vísar til þess að hún hafi bæði meiri menntun en sá sem ráðinn var og lengri starfsreynslu við fjölmiðlun. Hún hafi tekið fjölmiðlafræði sem aukagrein til BA prófs og lokið námi í hagnýtri fjölmiðlun. Hann hafi ekki menntun á sviði fjölmiðlunar. Hún kveðst hafa mjög fjölbreytta starfsreynslu sem nýtist vel í starfi sem þessu. Hún hafi starfað bæði við frumvinnslu og framleiðslu kjöts og fisks, í byggingarvinnu og við þjónustu- og afgreiðslustörf. Flestir þeirra vinnustaða sem hún hafi unnið á, séu á hlustunarsvæði svæðisútvarpsins á Akureyri sem hljóti að skipta máli í starfi dagskrárgerðarmanns. Þá hafi hún lengri starfsreynslu við dagskrárgerð en sá sem ráðinn var. Hún hafi starfað í rúmt ár hjá svæðisútvarpinu á Akureyri þegar ráðið var í stöðuna, auk starfs við textavarp sjónvarps sumarið 1994.

Því er mótmælt að það réttlæti val á umsækjendum að deildarstjóri svæðisútvarpsins á Akureyri hafi mælt með B, eins og fram komi í skýringum forsvarsmanna Ríkisútvarpsins. Þess séu dæmi að gengið sé fram hjá vilja yfirmanns við ráðningu starfsfólks. Hún hafi vitað það þegar hún lagði inn umsókn sína að deildarstjórinn vildi hana ekki í starfið. Hann sé þekktur fyrir ósanngirni og hana hafi hún þurft að þola í samstarfi sínu við hann. Því hafi hún rætt samskipti þeirra við framkvæmdastjóra útvarpsins. Eftir það samtal, hafi hún talið að forsvarsmenn útvarpsins myndu kanna málið rækilega og m.a. tala við hana áður en ráðið yrði. Það hafi því komið henni á óvart hvernig staðið hafi verið að ráðningunni. Hún hafi ekki verið kölluð í viðtal og henni sé kunnugt um að einungis hafi verið rætt við einn af þeim fjórum sem hún nefndi sem meðmælendur. Það sé því mjög sérkennilegt að val á umsækjendum sé síðan rökstutt fyrst og fremst með því að deildarstjóri hafi mælt með B en ekki henni.

Í þeim gögnum sem Ríkisútvarpið hafi lagt fram og í þeim skýringum sem færðar hafi verið fram fyrir valinu, sé vísað til þess að um lítinn vinnustað sé að ræða þar sem starfsmenn verði að geta gengið inn í öll störf, ásamt því að geta starfað sjálfstætt og tileinkað sér ný vinnubrögð. Kærandi telur þessi sjónarmið eiga við um sig eins og starfsferill hennar beri með sér. Hún uppfylli þannig öll skilyrði starfsauglýsingarinnar.

Að lokum leggur kærandi áherslu á að með erindi sínu sé hún ekki á neinn hátt að vega að hæfni þess sem var ráðinn. Hann sé vel hæfur. Hún telji sig hins vegar hæfari og með brotthvarfi hennar frá svæðisútvarpinu á Akureyri gegni einungis karlar dagskrárgerð og fréttum. Hún hafi sinnt málefnum kvenna á Norðurlandi vel og kostað kapps um að þeirra raddir fengju að komast að í útsendingum svæðisútvarpsins á Akureyri. Við svæðisútvarpið á Akureyri vanti tilfinnanlega konu í starfslið útvarpsmanna. Því telji hún ákvörðun útvarpsstjóra brot gegn bæði ákvæðum jafnréttislaga og starfsmannastefnu Ríkisútvarpsins.

Af hálfu kærða er áhersla lögð á að kærandi og sá sem ráðinn var hafi sambærilega menntun og starfsreynslu. Kærandi standi þannig ekki öðrum umsækjendum framar að því er það varði. Ríkisútvarpið leggi áherslu á breidd í menntun þeirra sem sinna dagskrárgerð. Ekki sé sóst eftir starfsfólki með menntun úr einni grein innan Háskólans umfram aðrar. Þannig sé umsækjandi oft ráðinn vegna þess að hann hafi menntun sem aðrir starfsmenn hafi ekki og auki þannig breiddina. Menntun í hagnýtri fjölmiðlun, sem kærandi leggur áherslu á að hún hafi umfram þann sem ráðinn var, njóti engar sérstöðu. Í reynd sé reynsla stofnunarinnar að sú menntun hafi ekki skilað því sem vonir stóðu til þar sem námið sé hvorki nægjanlega markvisst né hagnýtt þegar á reyni.

Þegar litið sé til starfsreynslu þeirra við fjölmiðlun þá sé hún áþekk. Hún hafi vissulega starfað lengur við dagskrárgerð en hann. Á móti komi að hann hafi starfað lengi við málfarsráðgjöf og prófarkalestur sem nýtist vel í þessu starfi. Ríkisútvarpið leggi fyrst og fremst áherslu á að dagskrárgerðarmenn hafi góða íslenskukunnáttu og beiti málinu rétt. Þá skipti framkoma, rödd og góð grunnmenntun máli. B hafi einfaldlega verið talinn standa henni framar á því sviði.

Að því er varðar sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var umfram kæranda, þá hafi það verið mat þeirra sem leitað var umsagnar hjá og unnið hefðu með báðum, bæði hjá svæðisútvarpinu á Akureyri og hjá Ríkisútvarpinu í Reykjavík, að B hefði bæði mjög góða framkomu, væri yfirvegaður og hefði staðið sig vel í starfi. Mat á störfum kæranda væri að hún stæði sig ekki eins vel. Hún væri hvorki eins jákvæð í samstarfi né tæki nægjanlega vel tilsögn. Það væri ekki venja að kalla þá umsækjendur í viðtal sem væru í starfi hjá stofnuninni og yfirmenn þekktu. Því hafi hvorki kærandi né B verið kölluð í viðtal, andstætt því sem hafi verið gert við aðra umsækjendur. Hins vegar hafi framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins fundað með deildarstjóra og starfsfólki svæðisútvarpsins á Akureyri í ágúst sl. og þá átt þess kost að fylgjast með bæði kæranda og B í starfi. Framkvæmdastjórinn hafi stutt meðmæli deildarstjóra.

Við val á umsækjendum skipti einnig máli að deildarstjóri svæðisútvarpsins á Akureyri hafi mælt með B, framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins hafi tekið undir þau meðmæli og útvarpsráð eindregið mælt með honum. Á þessu hafi útvarpsstjóri síðan byggt ákvörðun sína. Meðmæli yfirmanns skipti máli og venjan er að reynt sé að fara eftir þeim nema sérstök rök standi til annars. Í þessu tilviki hafi ekki verið talið að slík rök væru til staðar. B var bæði talinn hæfari til starfans og hlutfall kynja meðal starfsmanna við dagskrárgerð á landsvísu nokkuð jafnt, í reynd fleiri konur en karlar.


NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu
atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf og um stöðubreytingar. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum.

Í 8. gr. er að finna mikilvægar leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar er tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem ráðinn var umfram kæranda. Túlka verður jafnréttislögin svo að ef umsækjendur af gagnstæðu kyni eru ámóta hæfir, þá skuli ráða umsækjanda sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Tilgangi laganna verði ekki náð með öðrum hætti, sbr. 1. gr., 1. ml. 3. gr. og 5. gr. jafnréttislaga. Starfsmannastefna Ríkisútvarpsins kveður jafnframt á um að útvarpið skuli starfa í samræmi við jafnréttislög.

Kærandi og B eru bæði með BA próf í íslensku frá Háskóla Íslands. Kærandi tók fjölmiðlafræði sem aukagrein en B íslensku. Til viðbótar þessu námi hefur kærandi lokið 62 einingum í kennslufræðum og hagnýtri fjölmiðlun. B hefur lokið 43 einingum til magistersprófs í íslensku.

Bæði eiga að baki starfsreynslu við fjölmiðlun. Kærandi hefur starfað í eitt ár sem dagskrárgerðarmaður hjá svæðisútvarpinu á Akureyri og þrjá mánuði við textavarp sjónvarpsins. Starfsreynsla B hjá Ríkisútvarpinu er aðeins nokkrir mánuðir. Áður hafði hann starfað hjá dagblaðinu Tímanum í eitt ár og hjá Íslenska útvarpsfélaginu í fjögur ár, bæði sem málfarsráðunautur og við prófarkalestur. Í starfi hans fólst m.a. að yfirfara þætti og ritað mál. Fram hefur komið að við mat á hæfni umsækjenda um stöður dagskrárgerðarmanna er áhersla lögð á hæfni í íslensku, bæði talað mál og ritað. Fallast ber því á það með kærða að starfsreynsla B bæði á Tímanum og hjá Íslenska útvarpsfélaginu hafi beina þýðingu fyrir starf dagskrárgerðarmanns. Kærandi hefur samkvæmt þessu ívið meiri menntun en sá sem ráðinn var og hefur sérstaklega lagt sig eftir að mennta sig á sviði fjölmiðlunar. Sá sem stöðuna fékk hefur hins vegar lengri starfsreynslu við fjölmiðla. Rétt þykir að árétta að samkvæmt auglýsingu skyldu umsækjendur gangast undir sérstak hæfnispróf. Slíkt próf fór ekki fram og kærandi og sá sem ráðinn var voru ekki kölluð í viðtöl þar sem yfirmenn þekktu þau af störfum sínum. Slíkt hæfnispróf kynni þó að hafa gefið skýrari grundvöll til samanburðar á hæfni til starfsins á þeim tíma sem ráðið var í stöðuna. Ekki hefur verið bent á aðra sérstaka
hæfileika þess sem ráðinn var sem skipta máli. Að öllu þessu virtu verður að telja menntun þeirra og starfsreynslu mjög sambærilega.

Jafnréttislögin leggja þá skyldu á atvinnurekendur að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Í starfsmannastefnu Ríkisútvarpsins, sem samþykkt var stuttu áður en starfið var auglýst, er þessi skylda áréttuð. Fastráðnir dagskrárgerðarmenn hjá Ríkisútvarpinu eru 36, 19 konur og 17 karlar. Er þannig jafnræði með kynjunum þegar litið er á stofnunina sem heild. Af hálfu kæranda er á því byggt að með því að ráða B í stöðu dagskrárgerðarmanns hjá svæðisútvarpinu á Akureyri en ekki hana, hafi eina kvenröddin hjá svæðisútvarpinu horfið. Nú séu þar allir dagskrárgerðar- og fréttamenn karlar. Þar með séu meiri líkur á að málefnum og áhugasviðum kvenna verði ekki gerð skil í sama mæli og málefnum og áhugasviðum karla. Upplýst er að útsending frá svæðisútvarpinu á Akureyri er í 40 mínútur fyrir hádegi og 30 mínútur síðdegis á virkum dögum. Útsendingar frá öðrum svæðisútvörpum eru styttri. Svæðisútvarpið á Akureyri er stærsta svæðisútvarp landsins og þjónar stærsta þéttbýlissvæðinu utan höfuðborgarsvæðisins. Þá liggur fyrir að starfsmenn svæðisútvarpa leggja til efni í þætti sem útvarpað er á landsvísu og þeir stjórna reglubundið tilteknum landsmálaþáttum á móti dagskrárgerðarmönnum sem starfa hjá Ríkisútvarpinu í Reykjavík.

Kærunefnd tekur undir það með kæranda að mikilvægt sé að bæði konur og karlar starfi við dagskrárgerð svæðisútvarpanna svo raddir og sjónarmið kvenna jafnt sem karla heyrist þar. Svæðisútvarpið á Akureyri er ekki sjálfstæð stofnun heldur deild innan Ríkisútvarpsins. Ákvarðanir um ráðningu dagskrárgerðarmanna þar eru teknar af útvarpsstjóra, ekki deildarstjóra svæðisútvarpsins. Talsverður tilflutningur hefur verið á starfsfólki á milli svæðisútvarpsins og höfuðstöðvanna í Reykjavík. Sem fyrr segir koma útsendingar svæðisútvarpsins inn í útsendingar rásar 2 samtals 70 mínútur á dag auk þess sem dagskrárgerðarmenn svæðisútvarpsins vinna að þáttum sem sendir eru út bæði á rás 1 og 2. Ætla má að nokkuð sé fjallað um málefni Norðurlands á báðum rásunum utan framangreindra útsendinga. Því er hvorki hægt að líta á svæðisútvarpið á Akureyri sem svo sjálfstæða deild innan Ríkisútvarpsins né útsendingar þess svo afmarkaðan hluta af útsendingum Ríkisútvarpsins að stofnuninni hafi borið skylda til að gæta að kynjahlutföllum dagskrárgerðarmanna við svæðisútvarpið sérstaklega við ráðningu í umrætt starf.

Þótt svo hafi viljað til að engin kona hafi starfað sem dagskrárgerðarmaður við svæðisútvarpið á Akureyri þegar ráðið var í umrædda stöðu verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fleiri konur en karlar starfa sem dagskrárgerðarmenn hjá Ríkisútvarpinu. Með vísan til framangreindra sjónarmiða um stöðu svæðisútvarpsins á Akureyri í skilningi 5. gr. jafnréttislaga og þess að hæfni kæranda og þess sem ráðinn var þykir ámóta, verður Ríkisútvarpið ekki talið hafa brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga við ráðningu B í stöðu dagskrárgerðarmanns við svæðisútvarpið á Akureyri.
 


Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta