Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/1998

Álit kærunefndar jafnréttismála

í málinu nr. 11/1998

A

gegn

Akureyrarbæ.

------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 6. maí 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi dags. 20 nóvember 1998 óskaði A, leikskólastjóri og fyrrverandi deildarstjóri leikskóladeildar Akureyrarbæjar, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun bæjaryfirvalda á að greiða henni sömu laun og tryggja henni sambærileg kjör og atvinnumálafulltrúa Akureyrarbæjar bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga). Til vara óskaði hún þess að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun bæjaryfirvalda á að greiða henni sömu laun og tryggja henni sambærileg kjör og deildarstjóra öldrunardeildar Akureyrarbæjar bryti gegn jafnréttislögum.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði upplýsinga frá Akureyrarbæ um:

  1. Kjör atvinnumálafulltrúa og deildarstjóra öldrunardeildar Akureyrarbæjar þegar kærandi hóf störf hjá bænum og núgildandi kjör þeirra sem stöðunum gegna.
  2. Kjör deildarstjóra leikskóladeildar Akureyrarbæjar þegar kærandi hóf störf hjá bænum og núgildandi kjör deildarstjóra leikskóladeildar.
  3. Afstöðu bæjarins til þeirrar fullyrðingar kæranda að munur sé á raunverulegum kjörum þeirra sem störfunum gegna þrátt fyrir að starfsmatsnefnd bæjarins hafi metið störfin jafnverðmæt.
  4. Skýringar á þeim kjaramun, sé honum til að dreifa.
  5. Staðfestingu á að framlögð starfslýsing fyrir deildarstjóra leikskóladeildar væri í gildi.
  6. Starfslýsingar fyrir atvinnumálafulltrúa og öldrunarfulltrúa.
  7. Annað það sem Akureyrarbær vill taka fram og er til upplýsingar fyrir málið.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:

  1. Kæra, dags. 20. nóvember 1998, ásamt fylgigögnum.
  2. Svarbréf bæjarlögmanns Akureyrarbæjar, dags. 5. janúar 1999, ásamt fylgigögnu
  3. Bréf kæranda, dags. 24. janúar 1999.
  4. Bréf bæjarlögmanns, dags. 7. apríl 1999.

Þann 16. febrúar mættu bæði kærandi og lögmaður hennar, Elínborg Björnsdóttir, hdl. og bæjarlögmaður Akureyrar, Baldur Dýrfjörð, á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins.

II

Kærandi var ráðin deildarstjóri dagvistardeildar (síðar leikskóladeild) Akureyrarbæjar í maí 1991, fyrst til eins árs en síðan fastráðin. Í ráðningarsamningi var tilgreint að hún tæki laun samkvæmt kjarasamningi Fóstrufélags Íslands (nú Félag íslenskra leikskólakennara) og var kærandi félagsmaður í því félagi. Með sérstökum samningi við kæranda var hins vegar ákveðið að hún tæki laun samkvæmt launatöflu í kjarasamningi Starfsmannafélags Akureyrarbæjar (STAK) og launanefndar sveitarfélaga, en það félag fór áður með samningsumboð vegna starfsins. Þessi leið var valin þar sem hún var kæranda hagstæðari en sú að taka laun samkvæmt kjarasamningi Fóstrufélags Íslands. Bæði kærandi og forsvarsmenn Fóstrufélags Íslands gerðu ítrekað kröfu til þess að laun hennar yrðu endurskoðuð bæði með tilliti til eðlis, ábyrgðar og umfangs starfsins og þess að endurmat hefði farið fram á kjörum annarra deildarstjóra bæjarins í samræmi við kjarasamninga STAK og launanefndarinnar. Sams konar erindi hafði einnig verið sent fyrir forvera kæranda í starfi.

Í mars 1993 var kæranda boðin hækkun um nokkra launaflokka gegn lækkun á fastri yfirvinnugreiðslu, afturvirkt frá 1. apríl 1992. Kærandi þáði boðið. Kröfu hennar um fastan bifreiðastyrk var hins vegar hafnað. firátt fyrir þessa launahækkun var kærandi enn ósátt við kjör sín og taldi starf sitt vanmetið til launa miðað við aðrar sambærilegar stöður hjá bænum. Í samráði við jafnréttis- og fræðslufulltrúa bæjarins vann hún áfram að því að fá kjör sín bætt.

Á fundi jafnréttisnefndar Akureyrarbæjar 12. júlí 1995 var samþykkt að óska þess að laun og störf nokkurra karla og kvenna í deildarstjórastöðum hjá Akureyrarbæ yrðu borin saman með starfsmati. Nefndin óskaði eftir samvinnu og samráði við kjaranefnd bæjarins, STAK og starfsmatsnefnd. Bæjarráð samþykkti erindið og vísaði því til kjaranefndar. Í bréfi formanns jafnréttisnefndar til formanns kjaranefndar kemur eftirfarandi m.a. fram:

Með bréfi þessu fer undirrituð fram á að gerð verði örlítil tilraun til að nýta starfsmat til samanburðar launa og starfa karla og kvenna í deildarstjórastöðum hjá Akureyrarbæ, út fyrir þann hóp sem samkvæmt samningum gangast undir starfsmat.

Óskað er eftir samanburði þriggja "para", þ.e.:

  1. a) Deildarstjóra leikskóladeildar og b) deildarstjóra öldrunardeildar
  2. a) Jafnréttis- og fræðslufulltrúa og b) atvinnumálafulltrúa
  3. a) Deildarstjóra ráðgjafadeildar og b) deildartæknifræðingi hjá tæknideild

Forsenda þess að einmitt þessi pör eru valin er sú að ekki eru fleiri deildarstjórastöður skipaðar konum hjá Akureyrarbæ og reynt er að velja á móti störf sem í fljótu bragði virðast sambærileg, eru skipaðar (svo) körlum og eru á öðrum sviðum.

Hjá pari 1 er starf a) ekki metið í starfsmati en starf b) er metið

Hjá pari 2 er starf a) nýlega metið í starfsmati en starf b) ekki metið

Hjá pari 3 er starf a) metið í starfsmati en starf b) ekki metið

Tilraunin var unnin ári seinna. Starf deildarstjóra leikskóladeildar var metið til 168 stiga, starf atvinnumálafulltrúa 170 stiga og starf deildarstjóra öldrunardeildar 172 stiga. Fram kom að störfin voru metin miðað við fyrirliggjandi starfslýsingar og gildandi starfsmatskerfi og jafnframt, að í starfsmati skipti hvorki máli hver starfi gegni né hvors kyns hann sé.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu, eftir að enn hafði verið krafist hækkunar á launum kæranda, voru laun hennar hækkuð um tvo launaflokka í febrúar 1997, afturvirkt til október 1996. Kærandi sagði starfi sínu síðan lausu 2. júní 1997 og lét af störfum í lok september sama ár.

Í máli nr. 7/1997 komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Akureyrarbær hefði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga með því að tryggja jafnréttis- og fræðslufulltrúa ekki sambærileg kjör og atvinnumálafulltrúa. Fyrir liggur að kærandi telur þetta mál, að breyttu breytanda, sambærilegt því máli. Með bréfi dags. 13. mars 1998 til bæjarstjóra Akureyrarbæjar, fór kærandi enn á ný fram á endurskoðun kjara sinna þann tíma sem hún hafði verið í starfi hjá bænum. Til stuðnings erindi sínu vísaði kærandi til fyrrnefnds álits í máli nr. 7/1997. Erindið var ítrekað með bréfi dags. 1. júlí 1998. Með bréfi bæjarstjóra til kæranda, dags. 22. júlí 1998, var henni tilkynnt að bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefði hafnað erindi hennar.

Samkvæmt gögnum málsins voru grunnlaun deildarstjóra leikskóladeildar Akureyrarbæjar í maí 1991, þegar kærandi hóf þar störf, [ X kr.] á mánuði, [launaflokkur X ], 5. þrep samkvæmt kjarasamningi STAK við launanefndina. Greitt var fyrir 40 yfirvinnutíma á mánuði og fyrir akstur samkvæmt akstursbók. Heildarlaun kæranda í maí 1991 voru [ X kr.] með orlofi á yfirvinnu. Í desember 1998 voru grunnlaun þess sem þá gegndi starfi deildarstjóra leikskóladeildar [ X kr.], [launaflokkur X], 7. þrep samkvæmt kjarasamningi STAK við launanefndina. Að auki fylgdu starfinu greiðslur fyrir 33 yfirvinnutíma á mánuði og greitt var fyrir akstur samkvæmt akstursbók. Heildarlaun fyrir starfið í desember 1998 voru [ X kr.] með orlofi á yfirvinnu.

Grunnmánaðarlaun atvinnumálafulltrúa voru [ X kr.] í maí 1991, [launaflokkur X] samkvæmt kjarasamningi verk- og tæknifræðinga og Akureyrarbæjar. Auk þess var greitt fyrir 33 yfirvinnutíma á mánuði. Þá fylgdi starfinu fastur bifreiðastyrkur sem svaraði til 600 km aksturs á mánuði. Heildarlaun voru því [ X kr.] með orlofi á yfirvinnu auk bifreiðastyrks sem nam 15.630 kr. Í desember 1998 voru grunnmánaðarlaun atvinnumálafulltrúa [ X kr.], [launaflokkur X], 6. þrep samkvæmt sama kjarasamningi en annað var óbreytt. Heildarlaun atvinnumálafulltrúa í desember 1998 voru [ X kr.] með orlofi á yfirvinnu, auk bifreiðastyrks sem nam 21.870 kr.

Grunnmánaðarlaun deildarstjóra öldrunardeildar voru [ X kr.], [launaflokkur X], 7. þrep, samkvæmt kjarasamningi STAK og launanefndar sveitarfélaga í maí 1991. Auk þess var greitt fyrir 33 yfirvinnutíma á mánuði. fiá fylgdi starfinu fastur bifreiðastyrkur sem svaraði til 500 km aksturs á mánuði. Heildarlaun voru [ X kr.] með orlofi á yfirvinnu auk bifreiðastyrks sem nam 13.025 kr. Í desember 1998 voru grunnmánaðarlaun deildarstjóra búsetudeildar, en það heitir deildin nú, [ X kr.], [launaflokkur X], 5. þrep, samkvæmt sama kjarasamningi, en annað var óbreytt. Heildarlaun deildarstjóra öldrunardeildar í desember 1998 voru [ X kr.] með orlofi á yfirvinnu, auk bifriðastyrks sem nam 18.225 kr.

 

III

Kærandi leggur áherslu á að hún hafi ítrekað lýst yfir óánægju með kjör sín og gert kröfu til þess að njóta sambærilegra kjara og aðrir deildarstjórar hjá bænum á meðan hún gegndi starfinu sem kært er vegna. Starfsmatsnefnd bæjarins hafi á árinu 1996 metið starfið til 168 stiga, starf atvinnumálafulltrúa til 170 stiga og starf deildarstjóra öldrunardeildar til 172 stiga. Þrátt fyrir það hafi kjörum hennar ekki verið breytt til samræmis við kjör þeirra karla sem gegndu störfunum sem hún ber sig saman við. Ákvörðun bæjarins um að hækka laun hennar um tvo launaflokka í byrjun ársins 1997, eða eftir að starfsmatið lá fyrir, breyti engu. Grunnlaun hennar hafi eftir sem áður verið lægri og hún ekki notið sambærilegs bifreiðastyrks. Í reynd hafi deildarstjóri leikskóladeildar og deildarstjóri ráðgjafadeildar, sem einnig sé kona, verið einu deildarstjórarnir sem ekki nutu bifreiðahlunninda. Allir aðrir hafi fengið greitt fyrir 400 til 800 km akstur á mánuði. Gefi augaleið að um hlunnindi sé að ræða en ekki einvörðungu greiðslu til að mæta kostnaði við akstur. Þar sem mál hennar og mál nr. 7/1997 séu sambærileg, hafi hún ákveðið að bíða með frekari aðgerðir þar til niðurstaða kærunefndar í því máli lægi fyrir. Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hafi hins vegar hafnað öllum samningum bæði við jafnréttis- og fræðslufulltrúa og aðra þá sem voru í sömu stöðu, þ.m.t. hana. Því leiti hún til nefndarinnar.

Kærandi bendir á að leikskólastjórar séu dæmigerð kvennastétt sem hafi átt mjög erfitt uppdráttar í sinni kjarabaráttu. Starf deildarstjóra leikskóladeildar felist fyrst og fremst í fjárhagsáætlanagerð og umsjón með rekstri, en deildin velti yfir 200 milljónum króna á ári, auk uppbyggingar málaflokksins. Starf hennar hafi hins vegar ekki verið metið sambærilegt við störf annarra deildarstjóra hjá bænum og laun hennar hafi ekki ráðist af starfinu, heldur hinu hvaða menntun hún hafði og því að hún er kona. fietta endurspegli viðhorf ráðamanna til stjórnunarstarfa á starfssviðum þar sem konur eru ráðandi. Akureyrarbæ sé ekki stoð í að benda á að henni hafi verið raðað í efsta launaflokk deildarstjóra samkvæmt kjarasamningi Félags leikskólakennara við Akureyrarbæ. Möguleikar bæjarins til þess að greiða henni hærri laun takmarkist hvorki af þeim kjarasamningi né leysi hann bæinn undan skyldum sínum samkvæmt jafnréttislögum.

Kærandi vísar jafnframt til skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá febrúar 1998, um samanburð á launum karla og kvenna sem starfa hjá Akureyrarbæ, máli sínu til stuðnings. fiar komi skýrt fram að laun kvenna hjá Akureyrarbæ séu lægri en laun karla og launamunurinn sé mestur milli kvenna og karla í stjórnunarstöðum, að teknu tilliti til aldurs og starfsaldurs. Akureyrarbær hafi með samþykkt jafnréttisáætlunar lýst því yfir að við ákvörðun launa og fríðinda skuli þess gætt að kynjum sé ekki mismunað, sbr. 4. gr. jafnréttislaga. Í því sambandi skuli sérstaklega horft til mismunandi starfssviða, reynslu og menntunar kvenna og karla.

Af hálfu kærða er því alfarið mótmælt, að sá munur sem sé á kjörum í þeim störfum sem borin eru saman tengist á nokkurn hátt kynferði þeirra sem störfunum gegni. Munurinn skýrist annars vegar af mismunandi kjarasamningum og hins vegar af mismunandi röðun í launaflokka innan kjarasamnings STAK og launanefndar sveitarfélaga. Deildarstjóri leikskóladeildar taki samkvæmt ráðningarsamningi laun samkvæmt kjarasamningi síns stéttarfélags, Félags leikskólakennara, við Akureyrarbæ, en þeim samningi við kæranda hafi að vísu verið breytt til hagsbótar fyrir hana á þann hátt að launaviðmið sé sótt í kjarasamning STAK og launanefndar sveitarfélaga. Deildarstjóri öldrunardeildar taki laun samkvæmt kjarasamningi STAK og launanefndar sveitarfélaga en atvinnumálafulltrúi taki laun samkvæmt kjarasamningi Félags verk- og tæknifræðinga við Akureyrarbæ samkvæmt sérstakri ákvörðun bæjarstjórnar. Kærandi hafi ásamt t. d. amtsbókaverði, forstöðumanni rafmagnseftirlits, launafulltrúa og æskulýðs- og íþróttafulltrúa tekið laun samkvæmt [launaflokki X] á árinu 1991 þegar ágreiningur þessi hófst. Deildarstjóri öldrunardeildar hafi þá tekið laun samkvæmt [launaflokki X]. Munurinn skýrist því af mismunandi röðun í launaflokka og launaþrep innan kjarasamnings. Munurinn hafi nú verið leiðréttur í samræmi við niðurstöðu vinnuhóps um tilraunastarfsmat um nokkur starfsheiti hjá bænum. Ekki sé lengur launamunur á milli deildarstjóra leikskóladeildar og búsetudeildar.

Að því er varðar aðalkröfu kæranda um sömu kjör og atvinnumálafulltrúi er vísað til þeirra röksemda sem fram komu af hálfu bæjarins í máli kærunefndar jafnréttismála nr. 7/1997. Ákvörðun um launaviðmiðun sé háð mati bæjarstjórnar hverju sinni. Á því sé byggt að bærinn hafi frelsi til að leggja mat á störf með tilliti til aðstæðna hverju sinni. fiví sé mótmælt að deildarstjóri leikskóladeildar eða annarra deilda geti sótt viðmið til forstöðumanna sem taka laun samkvæmt öðrum kjarasamningum. 

Þá er mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda, að mál hennar sé sambærilegt málinu nr. 7/1997. Staða atvinnumálafulltrúa sé eitt þriggja embætta í skipuriti bæjarins sem heyri beint undir bæjarstjóra. Hin séu embætti bæjarlögmanns og jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Kjör í tveimur þessara embætta taki mið af kjarasamningi verk- og tæknifræðinga við Akureyrarbæ en í hinu þriðja, embætti jafnréttis- og fræðslufulltrúa, af kjarasamningi STAK við launanefnd sveitarfélaga. Verði ekki fallist á það sjónarmið Akureyrarbæjar að bærinn hafi frjálst val um kjarasamningsviðmið, en sá ágreiningur sé nú fyrir dómstólum, sé alla vega ljóst að deildarstjórar hafi ekki sömu stöðu og þessi þrjú tilgreindu embætti. Engir deildarstjórar hjá bænum taki laun samkvæmt viðmiði við kjarasamning verk- og tæknifræðinga við Akureyrarbæ. Viðurkenning á aðalkröfu kæranda fæli í sér að aðrir deildarstjórar hjá bænum yrðu í sömu stöðu og kærandi. Það fæli í sér óþolandi uppbrot á launakerfi bæjarins.

Akureyrarbær segir bifreiðastyrki ekki fela í sér hlunnindi. Bærinn meti það á grundvelli akstursdagbókar starfsmanns hvort bifreið sé notuð í þeim mæli í starfinu að ástæða sé til að greiða fastan bifreiðastyrk. Sé akstur starfsmanns mjög mikill, vilji bærinn semja um fastar akstursgreiðslur til að setja ákveðið þak á greiðslurnar. Það hafi einfaldlega verið mat bæjarins að þetta hafi ekki átt við um deildarstjóra leikskóladeildar. Kærandi hafi hins vegar ætíð krafist bifreiðastyrks sem hlunninda en ekki vegna mikils aksturs. Þeirri kröfu hafi bærinn hafnað vegna þeirrar meginreglu sem um greiðslu bifreiðastyrkja gildi.

 

IV

Ekki er í jafnréttislögum kveðið á um fresti til að bera erindi undir kærunefnd jafnréttismála. Reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er almennt beitt um málsmeðferð fyrir nefndinni, að svo miklu leyti sem við getur átt. Í 27. gr. stjórnsýslulaga er að finna ákvæði um kærufresti til æðra stjórnvalds en það á eðli málsins samkvæmt ekki við um erindi til kærunefndar jafnréttismála. Engu að síðar verður að telja það almenna reglu að leita skuli álits nefndarinnar án óhæfilegs dráttar. Fresti til að bera mál undir nefndina verður að setja hæfileg mörk í því skyni að forða óvissu, vinnuveitandi þarf að ákveðnum tíma liðnum að geta treyst því að við ákvörðun hans verði unað. Eins og málum háttar hér til þykir erindi ekki hafa komið of seint fram. Kemur þar einkum tvennt til. Annars vegar ber kærði það ekki fyrir sig að erindið hafi komið of seint fram og tekur til efnislegra varna í málinu. Hins vegar gat kærða ekki dulist að kærandi felldi sig ekki við afgreiðslu kærða á málum sínum þar sem kærandi eða aðrir í hennar nafni knúðu margítrekað á um bætt kjör kæranda til handa. Kærunefnd tekur málið því til efnislegrar umfjöllunar.

 

V

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er samkvæmt 1. gr. þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar mikilvægu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. msar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra, m.a. um launakjör starfsmanna.

Samkvæmt 4. gr. jafnréttislaga skulu konum og körlum greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Launamunur felur í sér launamisrétti séu störf talin jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaganna, enda verði launamunurinn ekki skýrður með þáttum sem hafa ekkert með kynferði starfsmanna að gera. Jafnréttislög gefa ekki nánari leiðbeiningar um það hvað leggja skuli til grundvallar mati á verðmæti og sambærileika starfa. Ljóst er þó, að ákvæðið er ekki svo þröngt að það takmarkist við sömu störf sem starfsmenn af gagnstæðu kyni gegna, heldur getur það tekið til starfa með ólíkum viðfangsefnum. Lögin tryggja starfsmanni heldur ekki sömu laun og starfsmaður af gagnstæðu kyni fær. Þau skylda hins vegar launagreiðanda til þess að ákvarða laun karla og kvenna með sömu aðferðum og til að nota mælikvarða sem falla jafnt að eiginleikum beggja kynja.

Kannanir, sem gerðar hafa verið hér á landi, benda sterklega til þess að konur fái að meðaltali lægri laun en karlar fyrir störf sem telja verður jafnverðmæt og sambærileg í þeim skilningi sem ætla má að löggjafinn hafi lagt í þau hugtök í jafnréttislögunum. Markmiðið með framangreindum ákvæðum jafnréttislaga er að útrýma því misrétti sem virðist til staðar. Kærði hefur undirstrikað sínar skyldur og fyrirætlanir í þessu efni með samþykkt jafnréttisáætlunar. Í áætluninni fyrir tímabilið 1993 til 1997, grein 2.2.2., er því lýst yfir að við ákvörðun launa og annarra fríðinda skuli þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Í því sambandi skuli sérstaklega horft til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann könnun fyrir Akureyrarbæ á launum kvenna og karla sem starfa hjá bænum, en skýrslan er dagsett í febrúar 1998. Niðurstaðan varð sú, að í samsvarandi störfum og á samsvarandi starfssviðum hjá Akureyrarbæ fengju konur að meðaltali 8% lægri laun en karlar að teknu tilliti til vinnutíma, aldurs og starfsaldurs. Væri einungis litið til grunnlauna voru konur að meðaltali með 6% lægri laun en karlar. Launamunurinn jókst í 12% væru grunnskólakennarar felldir út úr hópnum. Einnig kom fram að svo virtist sem aukin ábyrgð í starfi skilaði sér síður í launum kven- en karlstjórnenda. Loks varð ljós verulegur munur á milli akstursgreiðslna til karla og kvenna. Svipað hlutfall kvenna og karla þægju greiðslur samkvæmt akstursbók en hins vegar væru um 12% karla á föstum aksturssamningum en innan við 1% kvenna.

 

1. Aðalkrafa kæranda.

Aðalkrafa kæranda er að starf hennar verði talið jafnverðmætt og sambærilegt starfi atvinnumálafulltrúa og að hún eigi rétt á sambærilegum kjörum og hann.

Lagðar hafa verið fram í málinu starfslýsingar fyrir bæði störfin. Samkvæmt þeim eru störf atvinnumálafulltrúa og deildarstjóra leikskóladeildar ólík. Megináherslan í starfslýsingu deildarstjóra leikskóladeildar er eftirlit með rekstri og mannahaldi á starfssviðinu ásamt faglegri uppbyggingu þess. Starfið snýr að innra starfi á vegum sveitarfélagsins, þjónustu við ákveðinn hóp bæjarbúa. Starf atvinnumálafulltrúa er tilkomið vegna uppbyggingar atvinnulífs á Akureyri. Hann skal stuðla að bættum aðstæðum til atvinnurekstrar á svæðinu með það að markmiði að laða að fyrirtæki og styrkja þau sem fyrir eru. Áhersla er lögð á frumkvæði í starfi, upplýsingamiðlun og þróunarstarf innan viðkomandi sviðs. Í starfslýsingunum er viðkomandi starfi einungis lýst en ekki tilgreint hvaða kröfur eru gerðar um menntun og aðra hæfni þeirra sem því gegna. fiá liggur fyrir að störf atvinnumálafulltrúa og deildarstjóra leikskóladeildar eru ekki jafnsett samkvæmt skipuriti Akureyrarbæjar. Atvinnumálafulltrúi heyrir beint undir bæjarstjóra en deildarstjóri leikskóladeildar heyrir undir sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs sem aftur heyrir undir bæjarstjóra.

Kjör atvinnumálafulltrúa réðust af kjarasamningi verk- og tæknifræðinga og Akureyrarbæjar óháð því hvort verkfræðingur gegndi starfinu eða ekki. Laun kæranda tóku hins vegar mið af kjarasamningi STAK og launanefndar sveitarfélaga. Í hvorugu tilfellinu tengdist viðmiðið menntun þeirra sem starfanum gegndu. Atvinnumálafulltrúi naut verulega betri launakjara en deildarstjóri leikskóladeildar og gildir þá einu hvort miðað er við þann tíma er kærandi kom til starfa hjá Akureyrarbæ eða desember 1998. Ennfremur liggur fyrir, að atvinnumálafulltrúi fékk greiddan fastan bifreiðastyrk, en kæranda var synjað um slíkan bifreiðastyrk.

Kemur þá til skoðunar hvort framangreind störf verði talin jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga. Í tilraunastarfsmatinu, en ætla verður að til grundvallar því liggi svipaðar hugmyndir og felast í tilvitnuðum hugtökum jafnréttislaga, var starf deildarstjóra leikskóladeildar metið til 168 stiga og starf atvinnumálafulltrúa til 170 stiga. Sá munur einn sér skýrir ekki kjaramuninn. Bæjarlögmaður hefur mótmælt því að starfsmatstilraunin, sem var liður í stærri könnun á vegum jafnréttisnefndar bæjarins, sé sönnun þess að störfin teljist jafnverðmæt og að sömu ráðningarkjör skuli gilda um þau. fiað starfsmatskerfi sem gildi hjá bænum takmarkist við þau störf sem falli undir kjarasamning STAK og launanefndar sveitarfélaga og þá starfsmenn sem taka laun samkvæmt þeim kjarasamningi. Starfskjör í nokkrum æðstu embættum hjá Akureyrarbæ, þ. m. t. starfi atvinnumálafulltrúa, taki samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar mið af kjarasamningi verk- og tæknifræðinga við bæinn, án tillits til þess hvort þeir sem starfinu gegni hverju sinni falli menntunar sinnar vegna undir þann samning. Engir deildarstjórar falli í þennan hóp. Staða þessara starfa sé allt önnur innan bæjarkerfisins en staða deildarstjóra. Því geti deildarstjórar bæjarins sem taka laun skv. kjarasamningi STAK ekki sótt viðmið til þeirra forstöðumanna sem taka laun samkvæmt öðrum kjarasamningum.

Tilgangur jafnréttislaga er að vinna gegn því launamisrétti sem kannanir sýna að er á milli kynjanna. Tilgangur laganna er hins vegar hvorki að leggja grunn að hefðbundinni kjarabaráttu einstaklinga eða hópa né að útrýma samningsfrelsi, enda þótt lögin setji því vissulega nokkrar skorður. Grundvallaratriðið er, að ákvörðun sé tekin á hlutlægan hátt og sömu forsendum og aðferðum sé beitt til þess að komast að niðurstöðu, hvors kyns sem starfsmaður kann að vera. Starfsmat getur veitt mikilvægar upplýsingar um verðmæti starfa í skilningi jafnréttislaganna. Niðurstaða þeirrar tilraunar sem fram fór á vegum bæjarins gefur vísbendingar um verðmæti starfanna sem þar voru metin að þessu leyti. Starfsmat girðir þó ekki fyrir að atvinnurekandi geti metið einstök störf hærra til launa en önnur eða raðað þeim ofar í skipuriti en öðrum, enda standi hlutlæg rök til slíkra ákvarðana og þær feli ekki í sér mismunun milli kvenna og karla. Þegar litið er til ólíkra starfsskyldna atvinnumálafulltrúa og deildarstjóra leikskóladeildar og þó sérstaklega mismunandi stöðu þessara starfa innan bæjarkerfisins verður að telja að kærði hafi fært að því fullnægjandi rök, að starf deildarstjóra leikskóladeildar og atvinnumálafulltrúa séu ekki sambærileg og jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga, þrátt fyrir niðurstöðu starfsmatstilraunarinnar.

 

2. Varakrafa kæranda.

Til vara krefst kærandi þess að starf hennar verði talið jafnverðmætt og sambærilegt starfi deildarstjóra öldrunardeildar og að hún eigi rétt á sambærilegum kjörum og hann.

Lagðar hafa verið fram starfslýsingar fyrir deildarstjóra leikskóladeildar og deildarstjóra öldrunardeildar. Í árslok 1996 var heiti öldrunardeildar breytt í búsetudeild þar sem deildinni voru þá einnig falin málefni fatlaðra. Starfslýsing fyrir deildarstjóra búsetudeildar hefur einnig verið lögð fram.

Megináherslan í öllum þremur starfslýsingunum er ábyrgð á framkvæmd viðkomandi málaflokks á félags- og fræðslusviði bæjarins. Áhersla er lögð á faglega uppbyggingu málasviðsins og frumkvæði deildarstjóra að nýjum starfsháttum innan þess sviðs. Helstu verkefni eru gerð fjárhags- og rekstraráætlana í samráði við forstöðumenn sem undir deildarstjóra heyra, gerð framkvæmdaáætlana í samráði við tæknideild bæjarins, starfsmannafræðsla og forsvar fyrir bæinn varðandi málaflokkinn. Störfin heyra undir sviðsstjóra félags- og fræðslusviðs og eru því á sama stað í skipuriti bæjarins. Af starfslýsingum má ráða að störfin séu svipuð að ábyrgð, verkefnum og starfsumhverfi, enda þótt þau snúi hvort að sínum málaflokki. Þegar við bætist niðurstaða þeirrar starfsmatstilraunar sem lá fyrir á miðju ári 1996, verður að telja að kærandi hafi nægjanlega sýnt fram á að störfin tvö séu jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga.

Laun í báðum störfunum fóru að kjarasamningi STAK og launanefndar sveitarfélaga. Sá munur var þó á, að starf deildarstjóra öldrunardeildar féll beint undir kjarasamninginn en starf deildarstjóra leikskóladeildar var fellt undir kjarasamninginnsamkvæmt sérstöku samkomulagi milli kæranda og bæjaryfirvalda. fiað sérstaka samkomulag verður hins vegar til þess að kærða er ekki stoð í þeim málatilbúnaði að mismunandi kjarasamningar séu ástæða mismunandi kjara.

Fyrir liggur að deildarstjóri öldrunardeildar naut verulega betri kjara en deildarstjóri leikskóladeildar á þeim tíma sem kærandi tók til starfa hjá kærða. Ef frá er skilin greiðsla fyrir akstur, voru heildarlaun kæranda þá 84% af heildarlaunum deildarstjóra öldrunardeildar. Launamunurinn hefur ekki verið skýrður með mismunandi starfsaldri eða öðrum þáttum sem varða þá einstaklinga sem störfunum gegndu og geta réttlætt slíkan launamun.

Í tilraunastarfsmatinu var starf deildarstjóra leikskóladeildar metið til 168 stiga en starf deildarstjóra öldrunardeildar til 172 stiga. Kærði hefur upplýst að eftir þá niðurstöðu hafi kjör í störfunum verið samræmd. Sú staðhæfing fær stoð í samanburði í desember 1998. Þá voru kjörin sambærileg að frátöldum akstursgreiðslum. Könnun Félagsvísindastofnunar frá 1998 gefur sterklega til kynna að kynjum sé mismunað varðandi akstursgreiðslur. Hins vegar liggur ekkert fyrir um hversu mikill akstur fylgdi hvoru starfi og þar með að hve miklu leyti akstursstyrkur til deildarstjóra öldrunardeildar feli í sér hlunningi honum til handa. Þykja því ekki alveg nægjanleg rök til þess að fella sönnunarbyrði um þetta atriði á Akureyrarbæ.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd jafnréttismála að kærandi hafi, frá því hún var fastráðin í maí 1992, átt rétt á sambærilegum kjörum og deildarstjóri öldrunardeildar naut, að teknu tilliti til mismunandi starfsaldurs og þess stigamunar sem er á störfunum samkvæmt starfsmatstilraun bæjarins. Tímann fram að fastráðningu má líta á sem reynslutíma og því ekki hægt að fullyrða að kjaramunur á því tímabili feli í sér brot. Frá fastráðningu verður hins vegar talið að Akureyrarbær hafi verið brotlegur gegn ákvæðum 4. gr. og 1. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 við ákvörðun launa deildarstjóra leikskóladeildar. Það brot hafi verið viðvarandi til þess tíma er kjörin voru samræmd.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Akureyrarbæjar að kæranda verði bættur sá munur sem var á kjörum hennar og kjörum deildarstjóra öldrunardeildar, nú búsetudeildar, tímabilið frá fastráðningu í maí 1992 og þar til kjörin í þessum störfum voru samræmd að svo miklu leyti sem sá munur skýrist ekki af þáttum eins og mismunandi starfsaldri eða þeim stigamun sem var á störfunum samkvæmt starfsmatstilraun bæjarins.

  

  

Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta