Mál nr. 3/1999
Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 3/1999:
A
gegn
Ríkisspítölum.
--------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála, fimmtudaginn 29. apríl 1999, var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
Með bréfi, dags. 12. febrúar 1999, óskaði Lára V. Júlíusdóttir, hrl., f.h. A, starfsmanns á endurhæfingardeild Landspítalans, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort kjör hans hjá Ríkisspítölum brytu gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.
Með erindinu fylgdi afrit af launaseðli kæranda og samstarfsmanns, kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs o.fl. og Starfsmannafélagsins Sóknar frá 28. apríl 1997, samkomulagi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags ríkisstofnana um framlengingu og breytingu á kjarasamningi aðila frá 24. apríl 1997, yfirliti yfir greiðslur helstu bótaflokka frá Tryggingastofnun ríkisins og áliti Umboðsmanns Alþingis frá 13. október 1998. Með bréfi dags. 9. mars 1999 til lögmanns kæranda óskaði kærunefnd frekari upplýsinga og er svarbréf lögmannsins dags. 7. apríl 1999.
Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram, fær kærandi greidd laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélagsins Sóknar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs o.fl. Hann hefur náð hæsta starfsaldursþrepi samkvæmt viðkomandi launaflokki og á því ekki möguleika á frekari launahækkunum. Hann er sjóðfélagi í Lífeyrissjóðnum Framsýn. Á sama vinnustað starfar B og vinna þau sömu störf. Hún tekur laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og hefur einnig náð hæsta starfsaldursþrepi samkvæmt viðkomandi launaflokki. Dagvinnulaun hans eru rúmlega 83% af dagvinnulaunum hennar. Hún er sjóðfélagi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild. Þau réttindi eru að mati lögmannsins mun verðmætari en lífeyrisréttindi í hinum almennu lífeyrissjóðum, þ.m.t. Lífeyrissjóðnum Framsýn.
Í erindi kæranda er einnig vísað til þess að réttur þessara starfsmanna til fæðingarorlofs og tryggingaréttur þeirra sé gerólíkur. Önnur kjaraatriði virðist svipuð, svo sem vaktaálagsprósentur, veikinda- og slysaréttur, fatapeningar og orlofsréttur.
Af hálfu kæranda er á því byggt að framangreindir einstaklingar falli báðir undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og njóti því réttar og beri skyldur samkvæmt þeim lögum. Laun þeirra og önnur kjör ráðist hins vegar af mismunandi kjarasamningum og séu mjög ólík. Kærandi eigi aðild að Eflingu, stéttarfélagi, áður Starfsmannafélagið Sókn, en B að Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þau hafi verið valin af handahófi úr félagatali þessara stéttarfélaga til að fá álit kærunefndar jafnréttismála á því hvort sá munur sem er á kjörum félagsmanna í þessum tveimur stéttarfélögum brjóti gegn ákvæðum jafnréttislaga. Fram kemur að skýringin á því hvers vegna þau taki laun samkvæmt mismunandi kjarasamningi sé sú að fram til 1980 hafi ekkert forgangsréttarákvæði verið í kjarasamningunum. Starfsmenn í þessum störfum hafi ýmist orðið félagsmenn í Starfsmannafélagi ríkisstofnana eða Starfsmannafélaginu Sókn. Fyrir þetta hafi verið girt í kjarasamningi við Starfsmannafélagið Sókn um eða eftir 1980. Guðrún hafi hafið störf fyrir þann tíma en kærandi eftir þann tíma. Hann hafi því ekki átt kost á að sækja um aðild að öðru stéttarfélagi en Starfsmannafélaginu Sókn. Af hálfu kæranda er á því byggt að atvinnurekanda sé óheimilt að mismuna starfsfólki í kjörum á grundvelli kynferðis og að aðild starfsmanna að mismunandi stéttarfélögum leysi hann ekki undan þeirri skyldu.
NIÐURSTAÐA
Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er samkvæmt 1. gr. að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar mikilvægu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvarðanir þeirra, m.a. um launakjör starfsmanna.
Samkvæmt 4. gr. jafnréttislaga skulu konum og körlum greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna
nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.
Launamisrétti telst því vera til staðar ef kona og karl vinna sömu störf eða jafnverðmæt og sambærileg störf, verði launamunurinn ekki skýrður með þáttum sem hafa ekkert með kynferði starfsmanna að gera. Kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi benda sterklega til þess að konur fái að meðaltali lægri laun en karlar fyrir sömu eða jafnverðmæt og sambærileg störf í skilningi jafnréttislaga. Framangreindum ákvæðum jafnréttislaga virðist því beint gegn misrétti sem konur verða einkum fyrir.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum vinna kærandi og sú samstarfskona sem hann ber sig saman við, sömu störf hjá sama atvinnurekanda. Launakjör hans eru samt sem áður lakari en hennar og eru skýringarnar þær að þau eru félagsmenn hvort í sínu stéttarfélagi. Fyrir liggur að hvorki kærandi né atvinnurekandi höfðu val um stéttarfélagsaðild kæranda þegar kærandi hóf störf. Ástæða þess er forgangsréttarákvæði í kjarasamningi Starfsmannafélagsins Sóknar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs o.fl. Þegar B hóf störf var slíkt forgangsréttarákvæði ekki fyrir hendi og hafði hún og atvinnurekandi því val um stéttarfélagsaðild.
Kærunefnd jafnréttismála starfar á grundvelli jafnréttislaga. Verkefni nefndarinnar er að taka við ábendingum um brot á ákvæðum þeirra laga og gefa rökstutt álit á því hvort mismunun vegna kynferðis hafi átt sér stað. Í þessu máli hafa engin almenn eða sérstök rök komið fram því til stuðnings að ástæða þess launamunar sem er á milli kæranda og samstarfskonu hans tengist kynferði þeirra á einhvern hátt. Þvert á móti liggur fyrir að launamunurinn orsakast af mismunandi stéttarfélagsaðild vegna forgangsréttarákvæði í kjarasamningi Sóknar og hvort starfsmaður var ráðinn fyrir eða eftir að um það ákvæði var samið. Kærunefnd jafnréttismála telur því erindi kæranda ekki falla undir ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Sigurður Tómas Magnússon
Hjördís Hákonardóttir
Gunnar Jónsson