Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 99/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 99/2020

Fimmtudaginn 9. júlí 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd D

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 19. febrúar 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar D frá 22. janúar 2020 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar D. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar.

Stúlkan hefur verið í varanlegu fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því að hún var vistuð utan heimilis 4. apríl 2016. Mál kæranda vegna stúlkunnar hefur fjórum sinnum áður verið tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, þ.e. 24. október 2017, mál nr. 236/2017, 20. mars 2018, mál nr. 485/2017, 12. október 2018, mál nr. 202/2018 og 28. júní 2019, mál nr. 77/2019. Frá því að síðasta málið var tekið fyrir hjá úrskurðarnefndinni hefur Barnaverndarnefnd D kveðið upp nýjan úrskurð um umgengni kæranda við stúlkuna.

Í hinum kærða úrskurði kemur meðal annars fram að á síðastliðnu ári hafi umgengni farið fram samkvæmt úrskurði nefndarinnar í tvö af fjórum skiptum. Ekkert hafi komið fram sem kalli á að umgengni sé aukin og eins hafi að mati nefndarinnar ekki komið fram næg rök fyrir því að umgengnisskiptum sé fækkað. Mikilvægt sé að koma á samfellu og reglu varðandi skipulag og framkvæmd umgengninnar svo að stúlkan geti upplifað öryggi í tengslum við hana. Því brýni nefndin það bæði fyrir kynföður og fósturforeldum að leggja sitt af mörkum til þess að umgengni geti farið vel fram og álag í kringum umgengnina verði sem minnst. Til þess að svo megi vera verði aðilar að hlíta þeim reglum er umgengnina varði, vera í góðri samvinnu við starfsmenn og vinna markvisst að því að draga úr spennu og togstreitu sem umgengninni virðist fylgja.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd D ákveður að barnið, C, skuli njóta umgengni við kynföður, A fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn. Umgengni skal fara fram í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar undir eftirliti. Umgengni skal fara fram annan þriðjudag í febrúar, maí, september og desember. Falli umgengni niður af ófyrirsjáanlegum orsökum verður hún skipulögð viku síðar.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2020, var óskað eftir umboði frá lögmanni kæranda sem barst úrskurðarnefndinni í tölvupósti 3. mars 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar D ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar D barst þann 27. mars 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. apríl 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda þann 21. apríl 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. apríl 2020, voru þær sendar barnaverndarnefnd til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umgengni verði breytt á þann veg að kærandi fái aukna umgengni aðra hvora helgi. Til vara krefst kærandi að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umgengni verði ákvörðuð 10 klukkustundir aðra hvora helgi en til þrautavara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi þannig að umgengni verði komið á hið fyrsta og án eftirlits.

Í kæru kemur fram að óskað sé eftir flýtimeðferð hjá nefndinni. Þá sé jafnframt óskað eftir að lögmaður kæranda fái að hitta nefndina og fara yfir málið munnlega. Umgengni hafi farið fram 11. febrúar síðastliðinn og gengið vel að mati kæranda. Þá hafi umgengni gengið vel hingað til, enda mikill kærleikur á milli kæranda og dóttur hans.

Vísað sé til lýsingar á málsatvikum í fyrri greinargerðum til úrskurðarnefndar og til fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar. Sérstaklega sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 202/2018. Tekið sé undir alvarlegar athugasemdir úrskurðarnefndarinnar um að rannsókn málsins þá hafi verið verulega ábótavant og barnaverndarnefnd hafi gengið á svig við rannsóknarreglu 41. gr. bvl, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærandi byggi á sömu rökum í þessu máli en mjög takmarkað sé af gögnum í málinu eftir síðasta úrskurð nefndarinnar, t.d. sé ekkert sálfræðimat, engin gögn frá leikskóla eða öðrum. Rétt sé þó að geta þess að þau gögn sem séu til, meðal annars umsagnir um umgengni kæranda og dóttur hans sem séu mjög góðar og sýni að kæranda sé mjög umhugað um dóttur sína og leggi sig fram í sáttameðferðum en það sama eigi ekki við um fósturforeldra. Gögn þessi hafi ekki fengist afhent en lögmaður kæranda hafi fengið að lesa þau yfir á skrifstofu Barnaverndar D.

Rétt sé samhengisins vegna að ítreka enn og aftur það samkomulag sem kærandi og fósturmóðir hafi gert fyrir afsal forsjár. Markmið fóstursins hafi verið alveg skýrt, þ.e. að tryggja hag barnsins meðal annars með rúmri umgengni við kynforeldra.

Á fyrri stigum hafi kærandi gert alvarlegar athugasemdir við greinargerð talsmanns dóttur sinnar, dags. 10. janúar 2019, og sé rétt að ítreka þær athugasemdir sem sendar hafi verið úrskurðarnefndinni og jafnframt geta þess að talsmaður þessi hafi aldrei rætt við eða hitt kæranda. Þá veki það athygli að með greinargerð Barnaverndar D, dags. 8. janúar 2020, vegna afhendingar gagna, hafi fylgt greinargerð talsmannsins frá 10. janúar 2019 en ekki hafi verið vísað til þess að fyrir lægi að skipa nýjan talsmann sem síðan hafi verið gert 13. janúar 2020. Nýr talsmaður hafi síðan skilað greinargerð 14. janúar 2020, eða degi eftir skipun talsmannsins. Þetta veki óneitanlega athygli en sé í takt við fyrri vinnubrögð Barnaverndarnefndar D og staðfesti enn og aftur óvönduð vinnubrögð, enda sé það barnaverndarnefnd sem skipi barni talsmann samkvæmt 46. gr. bvl. en ekki Barnavernd D. Útilokað sé að Barnaverndarnefnd D hafi skipað hinn nýja talsmann en ekki Barnavernd D.

Öll gögn sem hafi orðið til eftir síðasta úrskurð barnaverndarnefndar árið 2019 bendi til þess að umgengni stúlkunnar við kynföður hafi góð áhrif á hana, henni þyki vænt um hann og vilji vera í umgengni við hann. Henni þyki þær aðstæður sem þau séu sett í ankannalegar og veki það meðal annars upp spurningar um hversu gott sé fyrir hagsmuni stúlkunnar að setja þau í þessa stöðu. Þar sem engin gögn liggi fyrir frá leikskóla stúlkunnar sé gengið út frá því að umsagnir þessara aðila hafi verið jákvæðar í garð kæranda og varðandi umgengni þeirra.

Það sem veki einkum athygli lögmanns kæranda við yfirferð greinargerðar Barnaverndar D fyrir fund sem hafi verið haldinn 22. janúar síðastliðinn hafi verið samantekt L, greinargerð fósturforeldra og ekki síst skýrsla talsmanns dóttur kæranda. Þá hafi ekki verið lagðar fram upplýsingar um síðustu umgengni kæranda og dóttur hans nema þá í texta greinargerðarinnar og engin gögn liggi fyrir frá leikskóla eða fagaðilum. Greinargerð L staðfesti að fósturforeldrar stúlkunnar hafi enga hagsmuni af eða vilja til að leita sátta og fara þannig að tilmælum barnaverndarnefndar. Þau sýni tilraunum fagaðila lítinn sem engan áhuga, enda hafi þau ekki haft hag af því að taka þátt í slíkum tilraunum og fengið öllum sínum kröfum framgengt þegjandi og hljóðalaust. Starfsmenn Barnaverndar D hafi meðal annars gengið gegn úrskurðum barnaverndarnefndar til þess að þóknast fósturforeldrum, líkt og alvarlegar athugasemdir Barnaverndarstofu hafi staðfest.

Þá veki það óneitanlega athygli að fyrri talsmaður barnsins virðist hafa hætt vinnu sinni þegjandi og hljóðalaust án útskýringa. Varðandi skýrslu nýs talsmanns frá 14. janúar síðastliðnum komi bersýnilega í ljós gott samband kæranda við dóttur sína og staðfesti að hann beri hag hennar fyrir brjósti og með þeim sé kærleikur. Jafnframt staðfesti skýrslan ætlun fósturforeldra að takmarka og villa um fyrir stúlkunni hver kærandi sé og tengsl þeirra. Ef eitthvað hafi og/eða muni hafa skaðleg áhrif á stúlkuna þá sé það háttalag og framkoma fósturforeldra sem viljandi eða óviljandi virðast ekki skilja að fullu hlutverk sitt.

Um greinargerð fósturforeldra segi kærandi að þar séu settar fram alvarlegar fullyrðingar sem eigi við engin rök að styðjast og gangi beinlínis gegn vitnisburði annarra aðila sem að málinu hafi komið. Í dæmaskyni megi nefna allt tal um að kærandi hafi boðið dóttur sinni til H. Ekkert slíkt tal hafi verið viðhaft og kærandi viti ekki hvert fósturforeldrar séu að fara með slíku orðalagi.

Þá harmi kærandi að í greinargerð starfsmanns Barnaverndar D sé vísað til þess að hann hafi hafnað umgengni við dóttur sína undir eftirliti. Ekki verði séð að tilgangur þessara skrifa sé annar en að sverta kæranda fyrir nefndarmönnum, en hið rétta sé að kærandi hafi hafnað slíkri umgengni í tvígang með hagsmuni dóttur sinnar í huga. Hann hafi ekki talið það þjóna hagsmunum stúlkunnar að umgengni þeirra væru settar þær skorður að hún færi fram undir eftirliti og í húsnæði barnaverndarnefndar. Það sé hans mat að slík umgengni sé beinlínis andstæð hagsmunum hennar og hafi því mati ekki verið hnekkt, meðal annars með vísan til rannsókna eða fræðirita. Kærandi hafi boðið að settar yrðu upp eftirlitsmyndavélar og kerfi til að hægt væri að hafa eftirlit með umgengninni.

Í lokin megi geta þess að við skoðun á þessum nánar tilteknu gögnum sjáist að gögn þessi staðfesti vilja kæranda til góðra og eðlilegra samskipta við dóttur sína. Jafnframt staðfesti þessi gögn tregðu fósturforeldra til að bæta samskipti aðila og miðla málum og vinna beinlínis gegn þeim markmiðum sem nefndarmenn barnaverndarnefndar hafa sett fram. Vilji þeirra sé enginn til að bæta hag stúlkunnar með því að mæta með opnum hug til sáttameðferðar. Allar tilraunir nefndarinnar virðast því vera til lítils þegar viljinn sé ekki meiri hjá fósturforeldrum en kærandi hafi mætt með opnum hug og vilja til sátta. Þessi ósamvinnuþýðni fósturforeldra megi meðal annars rekja til þess að þau hafi fengið öllum sínum kröfum framgengt og fengið samþykktar allar þær takmarkanir á umgengni kæranda og dóttur hans sem þau hafi sett fram. Þá hafi fósturforeldrar brotið gegn úrskurðum barnaverndarnefndar sem kveði á um fyrir fram ákveðna umgengni og hafi starfsmenn Barnaverndar D stutt þau í þeim brotum. Barnaverndarstofa hafi gert athugasemdir við þessi vinnubrögð starfsmanna Barnaverndar D.

Kærandi fari fram á að honum sé sýnd sú virðing og nærgætni sem hann eigi rétt á lögum samkvæmt. Tekið sé tillit til athugasemda hans og kröfugerðar. Jafnframt fari hann fram á að Barnavernd D og Barnaverndarnefnd D skoði og íhugi það alvarlega hvort þessum aðilum sé stætt á því, lagalega og siðferðislega, að fjalla um mál dóttur hans á þann hátt að sómi sé af og í samræmi við þær reglur sem um mál þessi gilda, meðal annars að mál sé nægjanlega rannsakað og upplýst, gætt sé meðalhófs og hlutleysis í ákvarðanatöku og við framkvæmd ákvarðanna.

Sem fyrr sé vísað til þess að ógilda beri hinn kærða úrskurð með vísan til almennra meginreglna stjórnsýsluréttarins, meðal annars um jafnræði, meðalhóf og rannsóknarregluna. Jafnframt sé vísað til meginreglna barnaverndarlaga um rétt foreldra og barns til umgengni og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en allar takmarkanir á umgengni beri að túlka þröngt, enda stúlkunni engin hætta búin af umgengni við föður sinn. Tímabundinn ágreiningur um tíðni og framkvæmd á umgengni geti ekki verið lögmæt ástæða til takmörkunar og hvað þá að hún valdi stúlkunni því ómælda og óafturkræfa tjóni sem hinn kærði úrskurður muni óneitanlega hafa í för með sér. Ótækt sé með öllu að leggja ábyrgð alfarið á hendur kæranda vegna samskiptaörðugleika aðila máls. Samskipti aðila hafi verið af afar skornum skammti en samkvæmt eftirlitsskýrslum sé ekki annað að sjá en að umgengni hafi gengið vel og án vandkvæða fyrir stúlkuna. Engin ný gögn geti réttlætt það að takmarka umgengni föður við dóttur á þann veg sem gert sé.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Barnaverndarnefndar D kemur fram að stjórnvöldum beri ávallt að líta til meðalhófsreglunnar þegar þau standi frammi fyrir því að taka íþyngjandi ákvörðun. Umboðsmaður barna hafi gagnrýnt það hversu takmörkuð umgengni fósturbarna við kynforeldra hafi alla tíð verið hér á landi. Hann hafi meðal annars bent á að slík tilhögun brjóti í bága við 3. mgr. 37. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður telji að þrátt fyrir að barn hafi búið við slæmar aðstæður hjá kynforeldrum og þeir hafi verið taldir vanhæfir sem uppalendur, sem sé ekki í þessu tilfelli, sé almennt byggt á því að það þjóni hagsmunum barnsins að umgangast kynforeldra sína og þá jafnvel í þeim tilvikum sem þeir hafi verið sviptir forsjá. Mikilvægt sé fyrir börn að halda tengslum við kynforeldra sína, ekki einungis með tilliti til tilfinningalegra tengsla þeirra á milli, heldur einnig svo að barn fái tilfinningu fyrir samfellu í lífi sínu.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar D

Barnaverndarnefnd D gerir þá kröfu að úrskurður nefndarinnar frá 22. janúar 2020 verði staðfestur. Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að skoða beri kröfugerð kæranda í því ljósi að samkvæmt 51. gr. bvl. nái heimild úrskurðarnefndar velferðarmála til að staðfesta, hrinda úrskurði barnaverndarnefndar eða vísa máli aftur til efnislegrar meðferðar. Úrskurðarnefndin geti því ekki tekið aðra efnisákvörðun í málum sem til hennar sé skotið.

Frá því að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála féll í máli nr. 77/2019 hafi kærandi átt umgengni við dóttur sína þrisvar sinnum. Kærandi hafi ákveðið að nýta ekki umgengni sem hafi átt að fara fram í X og X 2019 þar sem hann hafi ekki verið sáttur við það fyrirkomulag sem hafi verið ákveðið í úrskurði barnaverndarnefndar þann 23. janúar 2019. Sá úrskurður hafi verið staðfestur af úrskurðarnefnd velferðarmála.

Í 74. gr. bvl. sé skýrt tekið fram að kynforeldri eigi rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best með það fyrir augum að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun barnsins í fóstur. Samkvæmt reglugerð nr. 804/2004 um fóstur sé varanlegu fóstri ætlað að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu. Horfa verði til þess að markmið með varanlegu fóstri stúlkunnar sé það að hún tengist fósturfjölskyldunni en eigi jafnframt rétt á að þekkja uppruna sinn.

Hinn kærði úrskurður sé efnislega hinn sami og hafi verið kveðinn upp 23. janúar 2019. Aðstæður í málinu séu þær sömu. Sáttameðferð hafi verið reynd án árangurs og því engar forsendur til þess að auka umgengni eða breyta henni að öðru leyti. Hvað varði sáttameðferð á milli aðila hafi, eins og fram komi í bréfi L sálfræðings, málsaðilar ekki verið móttækilegir fyrir hans aðkomu og ekki við annan málsaðila að sakast umfram hinn.

Í bréfi sínu segi L að fósturforeldrar hafi í fyrsta viðtali lýst sig móttfallin því að sækja viðtöl til hans þar sem þau hafi talið hann líklegan til að gæta hagsmuna kæranda. Þau hafi síðan farið í annað viðtal í júní 2019 og þá ekki virst mótfallin því að koma en vegna meðgöngu fósturmóður hafi hún átt erfitt með að komast. Fósturforeldrar hafi lagt áherslu á að umgengni yrði í samræmi við úrskurð barnaverndarnefndar. Kærandi hafi mætt í þrjú viðtöl þar sem sálfræðingurinn hafi lagt til að hann hlíti úrskurði til að koma umgengninni í gang svo að hægt væri að þróa út frá því umgengni sem væri meira að hans skapi. Kærandi hafi afboðað sig í næsta viðtal. Sálfræðingurinn hafi ekki talið forsendur fyrir frekari sáttaumleitunum í málinu að sinni.

Í hinum kærða úrskurði leggi nefndin til að lögmenn aðila komi sér saman um fagaðila sem geti tekið að sér að ná sáttum á milli aðila. Að mati nefndarinnar sé það forsenda þess að unnt verði að mæla fyrir um tíðari umgengni.

IV. Afstaða C

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns, dags. 14. janúar 2020, þar sem óskað var eftir mati á umgengni stúlkunnar við kynföður. Þar kemur meðal annars fram að það sé mat talsmanns að hafi stúlkan þroska til að tjá vilja sinn komi talsmaður þeim skoðunum áleiðis. Stúlkan hafi verið almennt viðræðugóð en viljað lítið tala um samskipti sín og kæranda. Hún hafi þó sagt kæranda vera vin sinn, að hann væri mjög skemmtilegur og að hún vildi hitta hann. Talsmaður hafi aðeins hitt stúlkuna einu sinni og út frá þessu eina viðtali hafi það verið mat talsmanns að stúlkan hafi ekki aldur og þroska til að tjá sig um vilja sinn varðandi umgengni við kæranda og hafi ekki fullan skilning á aðstæðum sínum.

V.  Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni kæranda við stúlkuna. Í greinargerð lögmanns þeirra til nefndarinnar, dags. 23. júní 2020, kemur fram að fósturforeldrar geri kröfu um að hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar D verði staðfestur. Fósturforeldrar leggi áherslu á að umgengnin virðist valda stúlkunni vanlíðan og kvíða sem fram komi í hegðun hennar fyrir og eftir umgengni.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan C er X ára gömul og er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Hún hefur verið hjá sömu fósturforeldrum frá því að hún var X árs gömul. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar.

Kærandi hefur óskað þess að lögmaður sinn fái að hitta úrskurðarnefndina til að fara yfir málið munnlega. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni að jafnaði vera skrifleg. Nefndin getur þó ákveðið að kalla málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund en telja verður að það eigi einkum við þegar mál hefur ekki verið upplýst nægilega með þeim skriflegum gögnum sem fyrir liggja. Í því tilviki sem hér um ræðir er það mat úrskurðarnefndarinnar að gögn málsins upplýsi málið með fullnægjandi hætti.

Kærandi telur að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð málsins. Hann álítur að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu í 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telur hann tillögu barnaverndar brjóta í bága við meðalhófsreglu barnaverndarlaga, 7. mgr. 4. gr. bvl. og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd beri að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Í málinu liggur fyrir að talsmaður aflaði sjónarmiða stúlkunnar áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Þá liggur fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, greinargerð fósturforeldra og skýrsla Jóhanns B. Loftssonar sálfræðings um sáttaviðtöl á milli fósturforeldra og kæranda. Úrskurðarnefndin telur samkvæmt þessu að barnaverndarnefnd hafi aflað þeirra upplýsinga og gagna sem máli skiptu við meðferð málsins og verður að telja að rannsókn málsins hafi að því leyti verið fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Með hinum kærða úrskurði frá 22. janúar 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna fjórum sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar D. Í úrskurðinum er á því byggt að mikilvægt sé að koma á samfellu og reglu varðandi skipulag og framkvæmd umgengninnar svo að stúlkan geti upplifað öryggi í tengslum við hana. Því brýnir nefndin það fyrir kynföður og fósturforeldrum að leggja sitt af mörkunum til þess að umgengni geti farið vel fram og álag í kringum umgengnina verði sem minnst. Til þess að svo megi verða verði aðilar að hlíta þeim reglum er varði umgengnina, vera í góðri samvinnu við starfsmenn og vinna markvisst að því að draga úr spennu og togstreitu sem umgengninni virðist fylgja.

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umgengni breytt á þann veg að hann fái aukna umgengni aðra hvora helgi. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umgengni verði 10 klukkustundir aðra hvora helgi en til þrautavara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi þannig að umgengni verði komið á hið fyrsta og án eftirlits. Barnaverndarnefnd D gerir þá kröfu að úrskurður nefndarinnar frá 22. janúar 2020 verði staðfestur.

Lögmaður fósturforeldra hefur lýst afstöðu þeirra í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar 23. júní 2020 þar sem fram kemur sú afstaða að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Varðandi kröfu kæranda til frekari umgengni við stúlkuna, verður að líta til þess hverjir eru hagsmunir stúlkunnar og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hennar að njóta frekari umgengni við kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni stúlkunnar við kæranda með hliðsjón af því að ekki er verið að reyna styrkja tengsl þeirra enn frekar. Stúlkan, sem er í varanlegu fóstri, á rétt á að þekkja uppruna sinn og álítur úrskurðarnefndin að því sé fullnægt með þeirri umgengni sem mælt er fyrir um í hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar D.

Úrskurðarnefndin telur enn frekar að hagsmunir stúlkunnar, öryggi hennar og þroski séu best varðir með því að ró skapist í kringum hana og hún fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að fullnægjandi rök séu fyrir því að það séu ekki hagsmunir stúlkunnar að styrkja tengsl hennar við kæranda með frekari umgengni.

Þá krefst kærandi þess að hann fái að njóta umgengni við stúlkuna án eftirlits. Hér telur úrskurðarnefndin að líta verði til forsögu málsins. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi meðal annars verið að taka upp myndbönd af stúlkunni í umgengni í þeim tilgangi að birta myndböndin á samfélagsmiðlum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að með þessari háttsemi hafi kærandi ekki hagsmuni stúlkunnar í fyrirrúmi og með hliðsjón af því verður öryggi stúlkunnar að mati úrskurðarnefndarinnar best tryggt með því að umgengni fari fram í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna barnaverndar.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem eigi að leggja til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar D.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar D frá 22. janúar 2020 um umgengni C við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta