Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2017

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

Úrskurður

uppkveðinn 10. mars 2017

í máli nr. 9/2017

A

gegn

B

Föstudaginn 10. mars 2017 var ofangreint mál tekið fyrir í kærunefnd húsamála og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður.

ÚRSKURÐUR:

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.

Aðilar þessa máls eru:

Sóknaraðili: A, leigjandi herbergis.

Varnaraðili: B, eigandi eignarinnar.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða henni tryggingarfé að fjárhæð 42.000 kr.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 9. janúar 2017, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 18. janúar 2017 , var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 31. janúar 2017, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 31. janúar 2017. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn frá varnaraðila með bréfi, dags. 1. febrúar 2017, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 13. febrúar 2017, og voru sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 13. febrúar 2017, til upplýsingar og til að koma að athugasemdum. Gagnaðili gerði athugasemdir með bréfi, dags. 14. febrúar 2017, sem barst nefndinni 14. febrúar 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Sóknaraðili leigði herbergi af varnaraðila. Deilt er um hvort varnaraðila hafi verið heimilt að ganga að tryggingarfé sóknaraðila á þeirri forsendu að hún hafi eyðilagt tvær rúllugardínur sem í herberginu voru.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst hafa leigt herbergi af varnaraðila í þrjá mánaði frá 15. október 2016. Hinn 1. janúar 2017 hafi hún sent tölvupóst til varnaraðila þar sem snúra á rúllugardínu í herberginu hafði slitnað í tvennt. Varnaraðili hafi samstundis komið og litið á þetta og sóknaraðili bent honum á að hin gardínan væri líka svolítið stíf þegar hún væri dregin upp eða niður. Hafi hann sagt að þetta væri allt í lagi og hnýtt snúruna saman. Þegar komið var að greiðslu leigu hafi varnaraðili tilkynnt að bæta þyrfti við leigufjárhæðina 10.000 kr. vegna tjóns á gardínu eða draga þá fjárhæð af framlögðu tryggingarfé. Sóknaraðili neitaði enda hafi hún ekki skemmt téðar gardínur. Sjö dögum eftir að varnaraðili handhnýtti snúruna saman hafi kærasti sóknaraðila lagað snúruna, sem sé úr plasti, með því að bræða saman endana á henni.

Aðilar hafi átt í tölvupóstsamskiptum vegna málsins en varnaraðili neitað að endurgreiða tryggingarféð þótt sóknaraðili telji ljóst að hún hafi ekki skemmt gardínurnar heldur sé um eðlilegt slit að ræða á gömlum gardínum.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi klippt í sundur bandið á rúllugardínunni þó að hún hafi engar sannanir fyrir því aðrar en þær að sóknaraðili og kærasti hennar séu þau einu sem notað hafa herbergið frá 15. október 2016. Hvað hina gardínuna varðar þá sé greinilega skemmd í henni þar sem sóknaraðili hafi alltaf verið með gluggann opinn og þegar bleyta og trekkur sé stöðugt við opinn gluggann megi gefa sér það að gardínan skemmist með tímanum. Áður hafi varnaraðili bent sóknaraðila á að vera ekki alltaf með glugga og svaladyr opnar. Eftir skil eignarinnar hafi komið í ljóst að ryksugubarki hafi verið skorinn með þeim afleiðingum að hann hafi slitnað auk þess sem sóknaraðili hafi skilað herberginu illa þrifnu. Varnaraðili krefjist þó aðeins um 10.000 kr. vegna tjóns á gardínum en samkvæmt fyrirliggjandi tilboði frá Z brautum og gluggatjöldum kosti nýjar gardínur 31.412 kr. með uppsetningu.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila telur hún sérstakt að nú þegar málið sé komið til kærunefndar tíni varnaraðili til sögunnar fleiri muni sem sóknaraðili eigi að hafa skemmt. Vísar hún því á bug og lýsir hvernig það standist ekki nánari skoðun út frá málavöxtum. Þá bendir hún á framlagðan tölvupóst þar sem hún spyrji varnaraðila hvort það sé í lagi að hafa gluggann opinn. Varnaraðili játi því, það sé aðeins svalahurðin sem ekki megi vera opin þegar veður er blautt.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila eru fyrri kröfur ítrekaðar.

VI. Niðurstaða

Aðila greinir á um hvort sóknaraðili beri ábyrgð á skemmdum á gardínum og hvort varnaraðila beri að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 42.000 kr.

Ákvæði 63. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, kveður á um að leigjandi skuli, að leigutíma loknum, skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Leigjandi beri óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt teljist ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafi af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi.

Ekki fór fram úttekt á hinu leigða húsnæði við upphaf leigutíma, sbr. XIV. kafla húsaleigulaga svo að ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand á gardínum við upphaf leigutíma. Aðilar eru þó sammála um að um gamlar gardínur sé að ræða. Kærunefnd telur að fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á annað en að skemmdir á téðum gardínum teljist eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar. Á því beri sóknaraðili ekki ábyrgð og varnaraðila beri því að endurgreiða henni tryggingarfé. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga ber leigusala að varðveita tryggingarfé á sérgreindum óbundnum bankareikningi sem ber svo háa vexti sem kostur er til greiðsludags og greiðist þá leigjanda reyni ekki á trygginguna. Samkvæmt því liggur réttarstaða sóknaraðila ljós fyrir hvað þetta varðar þrátt fyrir að ekki komi fram í kröfugerð að vaxta sé krafist.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum og ekki hægt að kæra þá til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar fyrir dómstólum þá sé nefndinni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem eru til meðferðar hjá henni þar til dómur gengur í málinu.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 42.500 kr. auk vaxta lögum samkvæmt.

Reykjavík, 10. mars 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta