Hoppa yfir valmynd

Nr. 105/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 105/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU19110005 og KNU19110006

Kæra […]

[…]og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. nóvember 2019 kærðu einstaklingar sem kveðast heita […], vera fædd […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir K) og […], vera fæddur […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. október 2019, um að synja kærendum og börnum þeirra, […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir B) um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá vísa kærendur til þess að skv. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eigi maki útlendings sem njóti alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára rétt á alþjóðlegri vernd.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. júlí 2018. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 26. júlí 2018, 9. október 2018 og 9. júlí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 15. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 5. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 19. nóvember 2019. Viðbótargögn og viðbótarathugasemdir bárust kærunefnd þann 15., 20. og 30. janúar 2020 og 10. og 11. febrúar s.á. Í greinargerð óskuðu kærendur eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. M kom til viðtals við kærunefnd þann 9. janúar sl.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli K kemur fram að hún byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sæti ofsóknum manns sem telji hana bera ábyrgð á dauða dóttur sinnar og að lögregluyfirvöld í landinu séu einnig á eftir henni af þeim sökum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli M kemur fram að hann byggi umsókn sína um vernd á því að hann sæti ofsóknum af hálfu meðlima tiltekins leynifélags í heimalandi sínu sem vilji að hann gangi til liðs við félagið og einnig að nígerísk yfirvöld séu á eftir honum.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda, kom fram að þau væru svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Börnum kærenda var vísað frá landinu.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að kærendur séu kristin og að þau hafi fæðst og alist upp í Benín í Nígeríu. Þar hafi þau starfað og búið þar til þau hafi neyðst til að flýja. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi M greint frá því að móðir hans hafi yfirgefið hann þegar hann hafi verið 6 mánaða gamall en hann hafi verið einkabarn foreldra sinna. Faðir M hafi verið stjórnmálamaður og háttsettur meðlimur í leynifélaginu Ogboni en hann hafi látist árið 2005. Faðir hans hafi verið auðugur maður og þar sem M hafi verið einkabarn þá hafi hann samkvæmt hefð í Benín átt að erfa föður sinn. M kvað föðurbróður sinn hafa séð um eignir föður síns eftir andlát hans en hann hafi aldrei fengið arf föður síns greiddan. Föðurbróðir M hafi nokkrum árum eftir andlát föður M upplýst M um að hann ætti að taka við stöðunni sem faðir hans hafi gegnt í félaginu. M hafi greint frænda sínum frá því að hann hafi ekki viljað ganga í félagið þar sem það færi gegn kristinni trú hans. Miklar helgifórnir hafi verið í kringum dauða föður M og hafi hann t.a.m. ekki fengið að jarða föður sinn samkvæmt kristnum hefðum vegna félagsins. M hafi haldið upp á afmælið sitt í húsi föður síns árið 2014 er frændi hans hafi mætt þangað, rifist við hann og slegið M í höfuðið með vínflösku. Auk þess hafi hann stungið M í síðuna með flöskunni. M hafi leitað til lögreglunnar en lögreglan hafi talið þetta vera fjölskylduerjur og hafi því ekki aðhafst. M hafi þá leitað til öldunga í fjölskyldu sinni og talið að málið hafi verið leyst. Frændi M hafi haft samband við M í nóvember 2014 og beðið hann um að fylgja sér að byggingu sem væri verið að byggja. Frændi M hafi borið klút að andliti M þegar þeir hafi verið í bílnum á leiðinni að byggingunni og við það hafi liðið yfir M. Hann hafi vaknað í byggingunni, bundinn á höndum og fótum og umkringdur fólki, m.a. stjórnmálamönnum, aðaldómara, lögreglustjóra, fyrrgreindum öldungum og öðru þekktu fólki. Fólkið hafi hvatt hann til að ganga í leynifélagið og reynt að sannfæra hann um að hann gæti orðið áhrifavaldur í þjóðfélaginu en M hafi sagt þeim að hann hefði ekki áhuga. Fyrrverandi ráðherra í Nígeríu, [...], hafi tjáð M að hann yrði drepinn ef hann gengi ekki í félagið. M hafi verið pyntaður í kjölfarið, m.a. hafi hann verið merktur með rakvélarblöðum á bringu og á baki. Þá hafi fingur hans verið skorinn og blóð úr honum látið leka í pott. Fleiru hafi verið bætt í pottinn og hafi M verið neyddur til að drekka hluta vökvans. Í sama herbergi og M hafi verið stúlka sem hafi verið hrein mey og taldi M að hann hafi átt að taka stúlkuna af lífi í þeim tilgangi að vígja hann inn í félagið. Í kjölfar framangreindra pyntinga hafi þau verið skilin eftir í herberginu. M hafi kallað á hjálp er hann hafi heyrt einhvern á gangi fyrir utan glugga á herberginu en sú manneskja hafi í kjölfarið klifrað inn um gluggann og aðstoðað M og stúlkuna við að flýja. M hafi komist að aðalveginum en stúlkan hafi látist á leiðinni. Við veginn hafi maður stöðvað bifreið sína og aðstoðað M við að komast til Lagos þar sem M hafi fengið að búa hjá vini sínum. Eftir að hafa dvalið í u.þ.b. mánuð í Lagos hafi vini M verið tjáð af nágranna fjölskyldu hans að ráðist hafi verið á fjölskyldu hans og að þau væru öll illa særð og á leið á spítala. Árásarmennirnir hafi verið að leita að M og hafi M í kjölfarið ákveðið að flýja heimaríki sitt. Vinur M hafi þá flúið til Gana þar sem lögreglan hafi verið að leita að honum sökum þess að hann hafi aðstoðað M. M óttist að hann verði beittur ofbeldi og jafnvel myrtur af meðlimum Ogboni félagsins en miklar líkur séu á að meðlimir félagsins séu í háttsettum stöðum innan samfélagsins. Þá hafi M fengið skilaboð frá meðlimum safnaðar síns þess efnis að lögreglan í heimaríki sé að leita að honum vegna stúlkunnar sem hann hafi skilið eftir í skóginum.

Þá kemur fram í greinargerð kærenda að K hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hafa starfað sem hárgreiðslukona í heimaríki sínu. Í nóvember 2015 hafi vinkona K verið í heimsókn þegar blóð hafi byrjað að leka úr leggöngum vinkonunnar og hafi verið farið með hana í flýti upp á spítala. K hafi þar komist að því að vinkona hennar hafi farið í fóstureyðingu sem hafi ekki verið nægilega vel framkvæmd og hafi hún í kjölfarið látist. Foreldrar vinkonu K hafi skömmu síðar komið að heimili K í fylgd lögreglu og ásakað K um að bera sök á andláti dóttur þeirra og hafi faðir stúlkunnar, sem K kveði að heiti [...], viljað K feiga. Foreldrar stúlkunnar hafi haldið því fram að K hafi farið með henni til að láta framkvæma fóstureyðinguna en K kvaðst ekki hafa vitað af þessu. Lögreglan hafi komið reglulega næstu daga til að leita að K. Hún hafi dvalið hjá frænku sinni í [...] í tvo mánuði en móðir K hafi tjáð henni að foreldrar fyrrgreindrar stúlku hafi komið nokkum sinnum á heimili þeirra til að leita að K og hafi m.a. hótað foreldrum K að brenna hús þeirra. K hafi viljað flýja og frænka hennar hafi sagt K að hún ætti vinkonu sem ætti veitingastað í borginni [...]. K hafi talið að frænka sín væri að meina borgina [...] í Nígeríu sem hafi verið stutt frá þeim. Í febrúar 2016 hafi fyrrgreind vinkona frænku K viljað fara til [...] og boðið K með en áður en þær hafi lagt af stað hafi konan náð í fjórar stúlkur til viðbótar og hafi þær ferðast þangað. K hafi ekki þorað að leita til lögreglu í Nígeríu þar sem faðir stúlkunnar sé stjórnmálamaður og mjög efnaður. Þá sé hann mjög áhrifamikill og hafi náð að rekja spor K til [...] þar sem tveir strákar hafi elt hana heim til frænku sinnar frá markaði. K sé fullviss um að faðir stúlkunnar muni hefna sín á sér ef hún færi til baka en hann sé búinn að hóta því að myrða hana. Faðirinn hafi látið handtaka systur K en hann hafi haldið að hún væri K vegna þess hve líkar þær séu. Auk þess hafi foreldrar K verið handteknir a.m.k. í tvígang vegna málsins þar sem faðir stúlkunnar telji þau vera að fela K. K telji Nígeríu vera mjög spillt land og að lögreglunni sé ekki treystandi þar sem þar starfi óheiðarlegt fólk og mikið sé um mútugreiðslur. K óttist lögregluna og að verða dæmd á ósanngjarnan hátt og sett í fangelsi. K hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. október 2018 að fyrrgreind vinkona frænku sinnar hafi lokkað hana til Líbýu á fölskum forsendum þar sem hún hafi tjáð K að hún gæti unnið á veitingastað. Í staðinn hafi hún neytt K út í vændi og hafi K verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Konan hafi sent menn til hennar og tekið fjármuni fyrir. K fái sára höfuðverki þegar hún hugsi um fyrrgreinda atburði, auk þess sem þeir hafi haft truflandi áhrif á hjónaband hennar.

Í greinargerð kærenda er fjallað almennt um aðstæður í Nígeríu, m.a. um alvarleg mannréttindabrot, spillingu og refsileysi innan stjórnkerfisins, bága stöðu kvenna, mansal sem skipulagða glæpastarfsemi, áhrif Ogboni félagsins og afleiðingar þess að neita þátttöku í því, útbreitt ofbeldi gagnvart börnum og skort á heilbrigðisþjónustu. Kærendur vísa til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.Í greinargerð er fjallað um hagsmuni barna kærenda. Börn kærenda hafi verið á flótta utan heimaríkis síns allt sitt líf en A sé rúmlega tveggja ára og B sé um átta mánaða gamall. Byggja kærendur á því að börn teljist ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Kærendur vísa til ákvæða barnalaga nr. 76/2003, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, laga um útlendinga og tilskipana Evrópusambandsins nr. 2011/95/EB, 2013/33/EB og 2013/32/EB. Kærendur óttist um líf fjölskyldunnar og mikilvægt sé að veita þeim vernd í öruggu umhverfi þar sem þau þurfi ekki að óttast frekari ofsóknir eða ofbeldi.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim og börnum þeirra verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Rekja megi ástæðu flótta kærenda til þess að þau eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar K að tilteknum þjóðfélagshópi, sem nígerísk kona og sem þolandi mansals, og vegna þess að kærendur séu kristinnar trúar, sbr. b- og d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. K hafi verið flutt til Líbýu á fölskum forsendur þar sem hún hafi orðið þolandi mansals. Faðir vinkonu K, Matthew, bíði jafnframt eftir að ná tökum á K og hafi ofsótt fjölskyldu hennar ítrekað. Heimildir beri með sér að þolendur mansals í Nígeríu eigi á hættu að verða fyrir endurteknu mansali eða grimmilegum hefndarðaðgerðum. K væri því hætta búin yrði henni gert að fara aftur til Nígeríu. Þá hafi kærendur ekki stuðningsnet í heimaríki sínu og aðgengi þolenda mansals að vernd yfirvalda sé takmarkað. Til stuðnings kröfu sinni vísa kærendur til nýlegra ákvarðana Útlendingastofnunar í málum nr. 2018-10936 og 2019-03109. Þá séu kærendur kristin en vandræði þeirra megi rekja til trúar þeirra. M hafi ekki viljað ganga til liðs við Ogboni félagið vegna trúar sinnar og K hafi ekki viljað aðstoða vinkonu sína við fóstureyðingu af sömu ástæðu. Þá hafi árásir gagnvart kristnum borgurum af hálfu vopnaðra hópa orðið algengari á síðari misserum og hafi fjöldi manns látist. Kærendur hafi því ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum vegna trúarbragða sinna, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst að nígerísk yfirvöld geti ekki eða vilji ekki veita þolendum mansals eða kristnum borgurum sínum tilskilda vernd og því beri að leggja til grundvallar að yfirvöld í Nígeríu hafi hvorki vilja né getu til að veita kærendum þá vernd sem þau þurfi á að halda gagnvart ofsóknaraðilum sínum, sbr. c-lið 4.m gr. 38. gr. sömu laga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefjast kærendur þess til vara að þeim verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærendur byggja á því að þau eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. K, sem þolandi mansals, eigi á hættu að verða fyrir endurteknu mansali, auk þess sem hún, ásamt fjölskyldu hennar, eigi jafnvel á hættu grimmilegar hefndaraðgerðir í Nígeríu. Um sé að ræða efnaðan einstakling sem vilji K feiga og því sé hæpið að hún geti treyst á vernd lögreglu í heimaríki þar sem mikil spilling sé innan kerfisins. Þá sé M í hættu vegna þess að hann hafi neitað aðild að Ogboni félaginu. M hafi verið beittur ofbeldi af frænda sínum, pyntaður af meðlimum félagsins og honum tjáð að hann skyldi líflátinn ef hann myndi neita aðild að félaginu. Auk þess sé M í hættu þar sem lögreglan leiti hans vegna dauða fyrrgreindrar stúlku eftir flótta þeirra frá félaginu. Meðlimir félagsins séu m.a. háttsettir innan lögreglunnar og stjórnvalda í landinu og því geti M ekki leitað verndar. Með vísan til framangreinds sé ljóst að kærendur uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda eigi þau á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði þau send aftur til heimaríkis þeirra.

Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærendur vísa til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi m.a. fram að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá segi í athugasemdum að til greina komi að minni kröfur séu gerðar til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 74. gr., eigi þau ekki rétt á dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Í greinargerð kærenda kemur fram að mikið sé um vegalausa einstaklinga innan Nígeríu og kynnu kærendur og börn þeirra að standa frammi fyrir því að enda vegalaus. Þá hafi kærendur ekkert bakland sem þau geti leitað til í Nígeríu. Meðferðaraðilar K hafi greint frá því að brýnt sé fyrir K að fá aðstoð og stuðning til að vinna úr þeim áföllum sem hún hafi upplifað. Þá eigi kærendur tvö ung börn sem hafi ekki komið til Nígeríu. Því væri hagsmunum barnanna best borgið yrði fjölskyldunni veitt dvalarleyfi hér á landi.

Þann 30. janúar 2020 barst kærunefndinni viðbótargreinargerð kærenda þar sem þau krefjast til þrautaþrautavara að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafi sótt um alþjóðlega vernd hinn 25. júlí 2018. Frá þeim tíma séu liðnir meira en 18 mánuðir mánuðir, en í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærendur telji að skilyrðin séu uppfyllt í tilviki þeirra. Kærendur halda því jafnframt fram að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um mál þeirra.

Kærendur telja að með endursendingu þeirra til Nígeríu yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telja kærendur að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Í greinargerð kærenda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar, m.a. hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað, að rannsókn hafi verið ábótavant og að stofnunin hafi látið hjá líða að fjalla um hluta frásagnar kærenda í ákvörðunum sínum. Þá hafi Útlendingastofnun litið framhjá ákvörðun sinni í öðru máli sem sé afar sambærilegt máli kærenda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað ítölskum flóttamannaskilríkjum undir nöfnunum [...], [...] og [...] fyrir sig og A. Þá hafi B fæðst hér á landi þann […]. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lögðu kærendur fram frumrit af flóttamannaskilríkjum sínum og barns síns, A. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kærenda en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að þau séu ríkisborgarar Nígeríu. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærendur og börn þeirra séu nígerískir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Nigeria (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, 28. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Female Genital Mutilation (FGM) (U.K. Home Office, 13. ágúst 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Trafficking of women (U.K. Home Office, 4. júlí 2019);
  • Country Profile: FGM in Nigeria (28 Too Many, október 2016);
  • EASO COI Meeting Report – Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 – Rome (European Asylum Support Office, 1. ágúst 2017);
  • EASO Country Guidance – Nigeria – Guidance note and common analysis (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Country Focus (European Asylum Support Office, júní 2017);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Sex trafficking of women (European Asylum Support Office, október 2015);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2019 – Nigeria (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Herders against Farmers: Nigeria‘s Expanding Deadly Conflict (International Crisis Group (ICG), 19. september 2017);
  • Information on trafficking including, situation for returnees of previous trafficking and risk og re-trafficking (Refugee Documentation Centre, RDC, Legal Aid Board, 17. júní 2019);
  • Nigeria 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Trafficking in Persons Report – Nigeria (U.S. Department of State, 17. júlí 2019);
  • Nigeria 2016 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 15. ágúst 2017);
  • Nigeria 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, maí 2019);
  • Nigeria: Fulani herdsmen, including motivations, modus operandi and recruitment methods; raids by Fulani herdsmen in schools in Benin City in October 2016 (2016-August 2018) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. ágúst 2018);
  • Nigeria: Herders and Farmers Clash Over Land (Institute for War and Peace Reporting, 19. ágúst 2016);
  • Nigeria: Ogboni society, including its history, structure, rituals and ceremonies; information on membership and the consequences of refusing to join (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. nóvember 2012);
  • Nigeria: Returforhold for kvinner som har arbeidet i prostitusjon i Europa (Landinfo, 20. mars 2017);
  • Nigeria: Rising toll of middle-belt violence (Human Rights Watch, 28. júní 2018);
  • Responses to Information Requests – Nigeria: Ogboni society, including structure, rituals, ceremonies, and current status; membership and the consequences of refusing to join or trying to leave; relationship with police and judicial authorities (2017-April 2019) (Immigration and Refugee Board of Canada, 31. júlí 2019) og
  • World Report 2019 – Nigeria (Human Rights Watch, janúar 2019).

Nígería er sambandslýðveldi með rúmlega 203 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslu EASO frá 2017 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi gerst uppvísir af því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun á lögreglumönnum sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla. Fram kemur í ofangreindum gögnum að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða skilvirk vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu og er almennt talið að um sé að ræða skilvirkt úrræði fyrir borgara Nígeríu.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að Nígería sé upprunaland, viðkomustaður og áfangastaður mansals og nauðungarvinnu. Flestir þolendur mansals komi frá borginni Benín í Edo fylki. Fram kemur að nígerísk stjórnvöld uppfylli ekki enn lágmarksviðmið ríkja vegna baráttu gegn mansali en hafi þó tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og koma í veg fyrir mansal. Með tilliti til þess hafi bandarísk stjórnvöld fært Nígeríu upp úr alvarleikarþrepi þrjú upp í þrep tvö í skýrslu sinni varðandi mansal frá árinu 2019, sem er sama þrep og Ísland er í. Gerðar hafi verið ýmsar stefnubreytingar í þessum málum og sérstök löggjöf sett til að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal. Þá hafi stjórnvöld þjálfað lögreglulið landsins, starfsmenn ríkisins og stofnanir til að gera þeim betur kleift að rannsaka, sækja til saka og sakfella gerendur mansals. Árið 2003 hafi tekið gildi lög sem komu stofnuninni NAPTIP (e. the National Agency for the Prohibition of Traffic in Persons and Other Related Matters) á fót. Markmið NAPTIP sé að vekja athygli á málefninu, fræða þjóðina og með þeim hætti að reyna að koma í veg fyrir frekara mansal, vernda þolendur mansals ásamt því að sækja gerendur til saka. Einnig hafi verið samþykkt sérstök lög gegn mansali árið 2015 en þau hafi gert það refsivert að stunda mansal og mæli ennfremur fyrir um fangelsisvist allt að fimmtán árum fyrir brot gegn þeim. Í maí árið 2018 hafi yfirvöld í Edo fylki auk þess samþykkt sérstök lög gegn mansali, þar sem lágmarksrefsing fyrir mansal er fimm ára fangelsi og sekt. Starf NAPTIP felist í því að stuðla að framfylgni laga og reglugerða gegn mansali í Nígeríu, rannsaka mansalsmál og fræða og efla lögreglu og aðra aðila sem komi að upprætingu mansals í Nígeríu. Einnig aðstoði stofnunin þolendur mansals með því að veita þeim skjól, ráðgjöf, hafa uppi á fjölskyldumeðlimum þeirra, aðstoða við heimkomu og aðlögun að samfélaginu á ný. Samkvæmt skýrslu Landinfo hefur NAPTIP þekkingu og reynslu af því að sinna þolendum mansals sem eigi börn. NAPTIP hafi til umráða húsnæði fyrir þolendur mansals í borgunum Abuja, Lagos, Benin, Uyo, Enugu, Kano, Sokoto, Maiduguri og Markudi. Þá kemur fram í skýrslum að dvöl í húsnæði NAPTIP sé ekki langtímalausn og dvelji þolendur þar í um tvær til sex vikur. Hafi NAPTIP unnið með frjálsum félagasamtökum sem geti útvegað þolendum mansals langtímahúsnæði. Þá verði konur sem dvelji hjá NAPTIP einatt útskúfaðar úr samfélaginu þar sem gert sé ráð fyrir að þær hafi unnið við vændi erlendis. Af þeim sökum hafi NAPTIP reynt að senda konur eins fljótt og verða megi til fjölskyldu sinnar eða í annað húsnæði. Skortur á fjármagni takmarki getu NAPTIP og frjálsra félagasamtaka við að aðstoða þolendur mansals við að aðlagast samfélaginu og standa á eigin fótum. Nígerísk yfirvöld hafi komið til móts við umræddan fjárskort hjá NAPTIP og veitt þolendum mansals fjárstyrk sem aðstoði við aðlögun að samfélaginu. Þolendur mansals séu líklegri til þess að sæta endurteknu mansali heldur en að sæta líkamlegu ofbeldi í hefndaraðgerðum. Lögreglan í ríkinu hafi þó almennt getu til þess að aðstoða þolendur mansals, jafnvel þótt þolendur standi enn í skuld við smyglarann sinn.

Fram kemur í ofangreindum gögnum að ofbeldi gagnvart börnum sé útbreitt í Nígeríu. Þá sé Nígería með hæsta hlutfall barnahjónabanda í Afríku en yfir 23 milljónir stúlkna og kvenna hafi verið giftar sem börn. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hafi unnið í samvinnu með yfirvöldum í Nígeríu, m.a. við að bæta lagaumgjörð varðandi vernd barna gegn ofbeldi, breyta viðurkenndum félagsháttum sem feli í sér hættulegar hefðir líkt og kynfæralimlestingar og barnahjónabönd, auk þess sem unnið hafi verið að styrkingu félagslegrar þjónustu og barnaverndarstarfs þar í landi. Þá hafi yfirvöld samþykkt aðgerðaáætlun, National Strategy to End Child Marriage in Nigeria (2016-2021) með það að markmiði að útrýma barnahjónaböndum fyrir árið 2030. Jafnframt vinni yfirvöld hörðum höndum að aðgerðaáætlun sem feli m.a. í sér forvarnarstarf meðal ráðuneyta og stofnana með það að markmiði að stöðva ofbeldi gagnvart börnum. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að Nígería hafi fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991 og stofnskrá Afríkusambandsins um velferð og réttindi barnsins (e. The African Charter on the Rights and Welfare of the Child) árið 2000. Hafi þjóðþing Nígeríu samþykkt árið 2003 lög um réttindi barnsins (e. the Child Rights Act) og tóku þau gildi sama ár. Þar sem Nígería sé sambandslýðveldi sé ekki nóg að þjóðþingið samþykki löggjöfina heldur þurfi bæði fylkisþing og landstjóri hvers fylkis að samþykkja lagasetninguna til þess að hún taki gildi í hverju fylki. Árið 2019 hafi 24 fylki af 36 tekið lögin í gildi og séu flest þeirra í suðurhluta Nígeríu m.a. Edo fylki. Lögin kveði á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir er varða börn skuli byggðar á því sem sé barninu fyrir bestu. Í lögunum komi einnig fram að öll börn eigi rétt á að njóta menntunar og heilbrigðisþjónustu. Árið 2004 hafi þjóðþing Nígeríu samþykkt löggjöf sem kveði á um ókeypis grunnskólagöngu (e. The Universal Basic Education (UBE) Programme). Hafi þessi nýjung verið leidd í lög með því markmiði að fjölga nemendum í grunnskóla og koma á fót ókeypis og skyldubundnu skólakerfi fyrir öll börn í Nígeríu.

Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2019 er talið að um helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta. Samkvæmt ofangreindum gögnum má rekja tilvist Fulani öfgahópa að mestu leyti til átaka á milli múslimskra hirðingja og kristinna landeiganda í Nígeríu. Þá eigi flestar árásir sér stað í miðju landsins og norðausturhluta þess.

Samkvæmt upplýsingaskýrslu kanadísku flóttamannanefndarinnar, annarsvegar frá 2012 og hins vegar frá 2019, sé Ogboni félagið samtök sem eigi rætur að rekja allt til 19. aldar. Þetta hafi verið leynilegt félag sem hafi myndast innan Yoruba samfélagsins og hafi samanstaðið af öldungum þess. Þar sem félagið hafi verið leynilegt sé því ekki vitað nákvæmlega hvernig því hafi verið stjórnað eða hvað hafi farið fram innan þess. Félagið hafi framkvæmt ýmsar helgiathafnir en einnig haft með höndum ákveðið ákvarðanavald m.a. um val á höfðingjum/kóngum. Eftir lok nýlendutímans hafi hlutverk þessa félags hins vegar orðið minna og fólk hafi ekki lengur haft þörf á því til þess að vernda sitt samfélag. Því hafi tilgangur félaganna snúist upp í andhverfu sína og meðlimir nýti stöðu sína einkum til að vernda og auka vald þeirra sjálfra. Samkvæmt ofangreindum heimildum hafi sumir meðlimir félagsins stundað fjárkúganir, ofbeldi og morð. Þrátt fyrir að völd félagsins séu minni en áður þá sé talið að félagið geti enn haft áhrif á ýmis málefni innan þeirra samfélaga sem það starfi í. Samkvæmt heimildum séu m.a. lögreglumenn, dómarar og stjórnmálamenn meðlimir í félagi og því geti félagið komist upp með margt án afskipta yfirvalda. Ekki séu öruggar heimildir fyrir því að stöður innan félagins erfist á milli kynslóða en ef einstaklingur hafi t.a.m. verið viðstaddur á fundum sem barn eða ef foreldrar barnsins hafi heitið því að barnið yrði síðar meðlimur þá myndi félagið ganga út frá því og beita einstakling þrýstingi til þess að verða meðlimur. Fram kemur að í flestum tilfellum gangi einstaklingar í félagið af fúsum og frjálsum vilja þar sem þeir vilji fá völd, peninga og velgengni. Neiti einstaklingar að ganga í félagið geti þeir þó upplifað félagslegan þrýsting, ógnun og jafnvel þvingun af hálfu meðlima félagsins, sérstaklega þeir sem hafi átt foreldri í félaginu. Heimildir bera þó með sér að meðlimir Ogboni félagsins beiti almennt ekki ofbeldi gagnvart einstaklingum sem neiti að gerast aðilar. Mannréttindaskrifstofunni Nigeria‘s National Human Rights Commission (NHRC) hafi þá ekki borist neinar tilkynningar í byrjun árs 2019 vegna ofsókna af hálfu Ogboni félagsins gagnvart einstaklingum sem hafi neitað að ganga í félagið. Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að kristnir einstaklingar gangi í félagið líkt og einstaklingar sem stundi önnur trúarbrögð. Þó geti það verið álitið skammarlegt af hálfu kristinna einstaklinga að vera aðili að Ogboni félaginu. Áhrif félagsins séu jafnframt að víkja fyrir kristinni og íslamskri trú. Þá sé ekkert sem bendi til þess að Ogboni félagið hafi áhrif á lögregluyfirvöld í stærri borgum í Nígeríu eða á alríkisstofnanir í landinu.

Samkvæmt ofangreindum gögnum er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í fyrsta, annað og þriðja stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum bæjaryfirvalda, annað stigið sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Í tímaritsgrein frá árinu 2010 var m.a. talið að allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum. Samkvæmt ofangreindum gögnum bjóði töluverður fjöldi opinberra og einkarekinna sjúkrahúsa í Nígeríu upp á sálfræðiþjónustu. Flest sjúkrahúsin séu staðsett í borgum og þéttbýli og meðferð sé aðgengileg vegna allra almennra vandamála tengdum geðheilsu. Þá séu einnig reknar opinberar stofur þar sem hægt sé að fá þjónustu geðlækna, geðhjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja umsókn sína á því að K hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem rekja megi til aðildar hennar að tilteknum þjóðfélagshópi sem nígerísk kona og sem þolandi mansals. Þá séu kærendur kristin og hafi þau ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna trúarbragða sinna. M óttist einnig leynifélagið Ogboni vegna þess að hann hafi neitað aðild að því. Þá hafi yfirvöld í Nígeríu hvorki getu né vilja til að veita kærendum vernd, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. sömu laga.

Mat á trúverðugleika frásagnar kærenda er byggt á endurritum af viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun, viðtali við M hjá kærunefnd, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kærenda. Kærunefnd telur ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar frásögn K um að hún hafi verið þolandi mansals. Þá verður einnig lagt til grundvallar að kærendur séu kristin.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi M frá því að faðir hans hafi verið í leynifélaginu Ogboni og samkvæmt hefð hafi M átt að taka við stöðu föður síns en hann hafi ekki viljað það. M hafi í kjölfarið lent í útistöðum við frænda sinn. Frændi hans hafi svæft hann með einhverju efni og farið með hann í byggingu þar sem hann hafi verið pyntaður og hvattur af þekktu og háttsettu fólki úr samfélaginu til þess að taka við fyrrgreindri stöðu. Nokkurs misræmis var að gæta í framburði M varðandi flótta hans frá Nígeríu í viðtölum hjá Útlendingastofnun og í viðtali hjá kærunefnd þann 9. janúar 2020. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 26. júlí 2018 kvaðst M hafa verið bundinn fastur en náð að losa sig sjálfur, farið upp á þak á byggingunni og komist þaðan út. Þar hafi hann séð að hann, og lítil stúlka sem hafi verið með honum, væru úti í skógi. M hafi komist upp að veg en stúlkan hafi dáið á leiðinni. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. júlí 2019 og hjá kærunefnd lýsti M hins vegar því að hafa heyrt einhvern á gangi fyrir utan glugga á herbergi þar sem hann hafi verið skilinn eftir ásamt framangreindri stúlku og kallað á hjálp. Ótilgreindur maður hafi í kjölfarið klifrað inn um gluggann, losað þau úr böndunum og hjálpað þeim að flýja. Þau hafi verið stödd úti í skógi en maðurinn hafi sagt þeim að flýja úr skóginum og finna veginn en stúlkan hafi dáið á leiðinni.

Kærunefnd óskaði eftir upptöku af viðtali sem tekið var við M hjá Útlendingastofnun, dags. 26. júlí 2018, þar sem að M kannaðist ekki við að hafa lýst atvikum eins og fram kom á endurriti af viðtalinu. Upptakan staðfesti hins vegar framangreint misræmi í frásögn M varðandi flótta hans úr áðurnefndri byggingu. Kærunefnd gaf M kost á að veita nefndinni skýringar á umræddu misræmi þann 21. janúar 2020. Í svari sem kærunefnd barst þann 23. janúar s.á. greindi M frá því að hann hafi ekki greint frá allri sögunni í fyrsta viðtali sínu hjá Útlendingastofnun þar sem honum hafi verið leiðbeint um að vera stuttorður í frásögn sinni. Þá kom fram að ekki hafi verið um að ræða venjulegan glugga í áðurnefndri byggingu heldur glugga sem hafi verið ofarlega á vegg og hafi numið við loftið. Því gæti verið að tungumálaörðugleikar hafi orsakað misskilning. Þá hafi M notað tennur sínar til að losa sig úr böndum áður en fyrrnefndur maður hafi komið inn um gluggann og leyst hann og stúlkuna, enda hafi M verið kyrfilega bundinn. Því væri ekki um að ræða misræmi heldur hafi M ekki greint frá öllum þáttum frásagnar sinnar fyrrgreindra leiðbeininga. Þá gerði M athugasemd við það að fyrsta viðtali hans sé gefið slíkt vægi að það hafi afgerandi áhrif á trúverðugleika hans, einkum í ljósi þess að talsmaður hafi ekki verið viðstaddur viðtalið. Að mati kærunefndar eru framangreindar skýringar M ótrúverðugar. Verður ekki að mati kærunefndar séð að um sé að ræða nánari útskýringu á flótta M heldur misræmi í framburði. Þá verður jafnframt ekki séð að framangreint misræmi stafi af tungumálaörðugleikum eða af þeirri ástæðu að M hafi verið gert að vera stuttorður í frásögn sinni.

Kærunefnd óskaði eftir því við M þann 9. janúar 2020 að hann myndi gangast undir læknisskoðun vegna hugsanlegra öra, auk þess sem hann legði fram sjúkra- og lögregluskýrslu vegna árásar frænda M. Þá óskaði kærunefnd jafnframt eftir því að M legði fram skjáskot af skilaboðum frá presti hans í heimaríki þar sem fram kæmi að lögregluyfirvöld væru að leita að M vegna dauða framangreindrar stúlku. Í svari sem kærunefnd barst þann 15. janúar 2020 kom fram að M gæti ekki nálgast umrædd samskipti sín við prestinn sinn þar sem aðgangur hans á samfélagsmiðlinum Facebook væri ekki lengur virkur. M lagði fram komunótur frá göngudeild sóttvarna þar sem fram kom að M væri með nokkur ör á bringu, baki, handlegg og öxl. Ekki hafi þó verið hægt að staðfesta orsök þeirra. Þann 20. janúar 2020 lagði M fram lögreglu- og sjúkraskýrslu sem hann kvaðst hafa fengið senda frá lögreglustöð og sjúkrahúsi í Nígeríu vegna meintrar árásar af hálfu frænda síns. Auk þess lögðu kærendur fram skjöl sem þau kváðu vera nígerísk þjóðernisvottorð. Um var að ræða frumrit af skjölunum og sendi kærunefnd þau í áreiðanleikakönnun hjá lögreglu þann 27. janúar 2020. Kærunefnd barst skjalarannsóknarskýrsla frá lögreglu þann 4. febrúar s.á. þar sem m.a. kom fram að framangreind skjöl væru ótraustvekjandi og ótrúverðug m.a. með vísan í samræmi milli skjala auk umfjöllunar ríkissjónvarps Ítalíu um fyrrgreind þjóðernisvottorð. Í ljósi þess veitti kærunefnd kærendum frest til 11. febrúar 2020 til þess að koma á framfæri andmælum eða skýringum. Í svari sem kærunefnd barst frá kærendum kom fram að þau hefðu lagt fram fyrrgreind gögn í góðri trú um að þau væru ófölsuð. Þau hafi notið aðstoðar lögmanns sem tilheyri sama trúfélagi og M í Nígeríu en samkvæmt kærendum séu lögreglu- og sjúkraskýrslur einungis aðgengilegar lögmönnum þar í landi. Þá hafi þau fengið þjóðernisvottorðin send frá sendiráðinu í Róm. Kærunefnd telur framangreindar skýringar kærenda ótrúverðugar en ólíklegt er að mati kærunefndar að lögmaður í Nígeríu hafi aflað falsaðra gagna fyrir hönd kærenda án þeirra vitneskju. Dregur framangreind frásögn enn frekar úr trúverðugleika M að mati kærunefndar. Með tilliti til framangreindrar skýrslu, trúverðugleika kærenda og þess að kærendur lögðu fram fölsuð skjöl við komu sína til landsins árið 2018 er það mat kærunefndar að umrædd gögn hafi ekki sönnunargildi og verða þau ekki lögð til grundvallar í málinu.

Með vísan til framangreinds verður því ekki lagt til grundvallar að M eigi á hættu ofsóknir af hálfu Ogboni leynifélagsins í heimaríki sínu eða að hans sé leitað af yfirvöldum vegna dauða framangreindrar stúlku. Kærunefnd telur þó, með vísan í heimildir, ekki hægt að útiloka að faðir M hafi verið meðlimur í leynifélaginu í heimaríki og að hann hafi ætlað M að taka við sinni stöðu en að ítök og völd meðlima þess leynifélags séu hins vegar ekki slík að M hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af þeim sökum eða að hann geti ekki leitað viðeigandi verndar stjórnvalda, telji hann sig í hættu og leiti hann eftir slíkri vernd.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að vinkona hennar hafi farið í fóstureyðingu í heimaríki sem hafi ekki verið nægilega vel framkvæmd og hún hafi látist í kjölfarið. Foreldrar vinkonu K telji K bera ábyrgð á andláti dóttur þeirra en þau hafi í nokkur skipti farið að heimili K til að leita að henni, eyðilagt þar muni og hótað foreldrum hennar. K hafi ekki þorað að leita til lögreglu í heimaríki þar sem faðir vinkonu hennar, [...], sé stjórnmálamaður og mjög efnaður. Þá sé hann áhrifamikill og hafi náð að rekja spor K til [...] þar sem tveir strákar hafi elt hana. Foreldrar K hafi verið handteknir, auk þess sem [...] hafi látið handtaka systur K árið 2016 í þeirri trú að hún væri K þar sem þær systur séu mjög líkar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 26. júlí 2018 kvaðst K hafa farið í felur hjá systur sinni eftir að foreldrar hennar hafi sagt henni að flýja. Foreldrar K hafi síðan látið hana hafa pening til að fara til Líbýu og taka þaðan bát til Evrópu. Í viðtali þann 9. júlí 2019 kvaðst K hins vegar hafa farið til frænku sinnar í [...] og verið þar í tvo mánuði. Þar hafi vinkona frænku K tekið K með sér til Líbýu, gegn hennar vilja, og þvingað hana þar í vændi. Um er að ræða misræmi í framburði K sem rýrir að mati kærunefndar trúverðugleika hennar. K hefur þá ekki lagt fram nein gögn, önnur en framburð sinn, sem rennir stoðum undir frásögn hennar. Rannsókn kærunefndar leiddi ennfremur ekki í ljós að til væri stjórnmálamaður að nafni [...] í Nígeríu en kærandi hefur engin gögn lagt fram sem gætu sýnt fram á tilvist þessa manns eða þess hlutverks sem hann á að hafa gegnt. Með tilliti til framangreinds og misræmis í framburði K telur kærunefnd frásögn hennar varðandi handtöku fjölskyldumeðlima hennar og hótanir af hálfu foreldra vinkonu hennar vera ótrúverðuga. Verður ekki lagt til grundvallar að K eigi á hættu ofsóknir af hálfu foreldra vinkonu hennar í heimaríki eða að hún sé grunuð af yfirvöldum vegna andláts vinkonu sinnar.

Við mat á því hvort að konur hafi almennt ástæðuríkan ótta við að vera þvingaðar í mansal skal samkvæmt ofangreindum skýrslum m.a. líta til þess hversu mikið smyglarinn viti um bakgrunn konunnar og fjölskyldu hennar, hvort að fjölskylda konunnar hafi tekið þátt í smyglinu og hvort að konan hafi borið vitni gegn smyglaranum. Í viðtali K hjá Útlendingastofnun kvað hún vinkonu frænku sinnar hafa neytt sig út í vændi eftir að frænka K hafi sagt henni að vinkona sín ætti veitingastað sem K gæti unnið á. Þá hafi K samkvæmt framburði sínum einnig verið nauðgað þrisvar sinnum. Hún hafi sloppið frá konunni eftir að hafa náð að flýja út um glugga. Hún hafi verið í efnislitlum fötum og að henni hafi komið maður sem hafi farið með hana heim til sín og fjölskyldu sinnar. Þar hafi K útskýrt aðstæður sínar og maðurinn hafi sagt K að hún væri ekki örugg í Líbýu og að best væri fyrir hana að fara til Ítalíu. Hann hafi fylgt K að sjávarsíðunni og sagt að ítölsk yfirvöld myndu aðstoða hana. Af frásögn K má ráða að konan sem hafi þvingað K í vændi hafi ekki haft samband við hana eftir að hún hafi náð að flýja og að hún viti ekki hvar hún sé niðurkomin í dag. Þá má jafnframt ráða af framburði K að fjölskylda hennar hafi ekki tekið þátt í smyglinu. K nýtur stuðnings eiginmanns síns og fjölskyldu sinnar. Þrátt fyrir að þolendur mansals geti átt erfitt uppdráttar við endurkomu til Nígeríu benda gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér ekki til þess að þeir verði almennt fyrir ofsóknum við heimkomu. Til staðar séu innviðir í heimaríki kærenda sem sérhæfi sig í þjónustu og aðstoð við þolendur mansals. Gögn bendi þá til þess að yfirvöld hafi getu til þess að aðstoða þolendur mansals. Það er því mat kærunefndar að K eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda, bæði hjá stofnuninni NAPTIP og lögreglu, telji hún vera þörf á því. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að um fjögur ár eru liðin frá því að K var þolandi mansals.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindu kærendur frá því að þau séu kristin og að vandræði þeirra megi m.a. rekja til þess. M hafi ekki viljað ganga til liðs við leynifélagið Ogboni vegna trúar sinnar og [...] hafi ekki viljað aðstoða vinkonu sína við fóstureyðingu af sömu ástæðu. Samkvæmt skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað er trúfrelsi verndað í stjórnarskrá Nígeríu. Þá sé um helmingur íbúa í Nígeríu kristinnar trúar og séu í meirihluta í suðurhluta landsins þar sem kærendur bjuggu. Þótt gögn bendi til þess að átök eigi sér stað á milli kristinna og múslima þá horfir kærunefnd til þess að yfirleitt sé um að ræða átök á milli hirðingja og bænda sem séu einkum bundin við fylki í miðri Nígeríu eða norðausturhluta landsins. Þrátt fyrir að ráða megi af ofangreindum gögnum að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla sé að einhverju leyti ábótavant þá bera gögn með sér að yfirvöld í Nígeríu hafi almennt getu og vilja til þess að bregðast við árásum vopnaðra hópa. Með vísan til framangreinds og aðstæðna kærenda verður ekki talið að kærendur og börn þeirra hafi ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum af hálfu vopnaðra hópa vegna trúar sinnar.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í ljósi ungs aldurs barna kærenda taldi Útlendingastofnun ekki þörf á að taka viðtal við þau. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnanna nægilega komið á framfæri með framburði kærenda og hagsmunagæslu talsmanns. Horfir kærunefnd m.a. til þess að börn þau sem um ræðir eru í fylgd foreldra sinna sem eru ung, heilsuhraust og vinnufær og njóta börnin stuðnings þeirra. Líkt og áður greinir stendur börnum kærenda til boða gjaldfrjáls grunnskólamenntun í heimaríki þeirra. Þá beri gögn með sér að börnin muni jafnframt hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu í heimaríki. Það er þá mat kærunefndar að aðstæður barna kærenda, þ.e. að hafa ekki komið til Nígeríu, komi eitt og sér ekki í veg fyrir að þau fylgi foreldrum sínum til heimaríkis þeirra. Þrátt fyrir að M kveðist glíma við verki í baki hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars en að kærendur séu vinnufær og geti framfleytt börnum sínum. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnanna, að það sé þeim fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau og börn þeirra hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37.gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort að aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort að einstaklingur sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda hverju sinni að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisgögnum eru börn kærenda hraust og hafa þau dafnað vel. Kærunefnd horfir til þess að börnin eru í fylgd foreldra sinna og njóta stuðnings þeirra. Ekkert hefur þá komið fram sem bendir til annars en að kærendur séu vinnufærir og færir um að tryggja framfærslu barna sinna. K kvaðst hafa átt sína eigin hárgreiðslustofu í heimaríki og M kvaðst hafa m.a. unnið við bílaþvott og við að leggja flísar. Þá eigi þau bæði fjölskyldur í heimaríki.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi M frá verkjum í baki, auk þess sem hann svæfi illa. Gögn málsins bera þá með sér að K hafi sótt ráðgjöf hjá Bjarkarhlíð, Kvennaathvarfinu og Stígamótum. Samkvæmt bréfi frá […], ráðgjafa á Stígamótum, hafi K tjáð sig um kynferðisofbeldi sem hún hafi orðið fyrir í Líbýu þegar henni hafi verið nauðgað af nokkrum mönnum. Auk þess hafi hún upplifað fleiri áföll á leið sinni til Ítalíu. K glími enn við miklar afleiðingar ofbeldisins og áfallanna sem hún hafi orðið fyrir. Þá glími hún við kvíða og ótta og eigi erfitt með svefn. K sé hrædd við tilhugsunina um að verða send til Nígeríu og sjái ekkert annað í stöðunni en að taka sitt eigið líf verði henni gert að yfirgefa Ísland. Kærendur og börn þeirra séu að öðru leyti við góða heilsu.

Það að K sæki sálfræðimeðferð hér á landi leiðir ekki sjálfkrafa til þess að hún teljist hafa ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisástæðna. Í ljósi þess sem fram hefur komið verður sú meðferð sem K þarfnast hvorki talin vera svo sérhæfð að hún geti einungis hlotið hana hérlendis né að ef hún yrði rofin yrði það til tjóns fyrir hana verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis kærenda. Líkt og fram hefur komið stendur kærendum og börnum þeirra til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki en samkvæmt gögnum sé aðgengi að heilbrigðisþjónustu í þéttbýli talsvert betra en á strjálbýlli svæðum. Í boði sé sálfræðiaðstoð í Nígeríu fyrir K bæði á sjúkrahúsum og stofum þar sem talið verður að hún muni hafa aðgang að geðlæknum, geðhjúkrunarfræðingum og sálfræðingum. Þá kemur fram í ofangreindum athugasemdum að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kærenda þá teljist svæðið þar sem kærendur höfðu búsetu öruggt svæði. Þá standi borgurum Nígeríu almennt til boða skilvirk vernd yfirvalda. K hefur lýst því að hún sé þolandi mansals. Samkvæmt viðtali K hjá Útlendingastofnun séu um 4 ár liðin síðan hún hafi verið þvinguð í vændi. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður þolenda mansals við endurkomu til Nígeríu og mats á trúverðugleika kærenda er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíða kærenda og barna þeirra í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barna þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og börn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd þann 25. júlí 2018. Kærendur hafa ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 19.mars 2020, eru liðnir tæpir 20 mánuðir. Kærendur teljast því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar að skilyrði a-, c- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt. Kærunefnd hefur sérstaklega litið til d-liðar 2. mgr. ákvæðisins sem gerir þá kröfu að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að framburður kærenda hafi tekið breytingum hjá íslenskum stjórnvöldum og verið metinn ótrúverðugur sé skilyrðið, eins og hér stendur á, engu að síður uppfyllt. Skilyrði b-liðar, um að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé, er hins vegar að mati kærunefndar ekki uppfyllt enda hefur kærendum ekki tekist að sýna fram á auðkenni sitt. Þá segir í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að ákvæði 2. mgr. gildi ekki um útlending sem eitt eða fleira af eftirfarandi eigi við um:

a. útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd,

b. útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis,

c. útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði fengið fullnægjandi skoðun,

d. útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.

Líkt og áður greinir fór fram rannsókn á skjölum sem kærendur lögðu fram þann 20. janúar 2020 máli sínu til stuðnings. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglu kom m.a. fram að skjölin séu óstraustvekjandi og ótrúverðug. Skjalið sem M hafi kveðið vera lögregluskýrslu víki í útliti frá því sem nígeríska lögreglan noti, skjölin beri enga öryggisþætti og samanburðargögn fyrir skjöl af þessu tagi séu ekki að finna í þeim gagnagrunnum sem lögreglan noti. Jafnframt séu þjóðernisvottorðin sem kærendur hafi lagt fram einföld að allri gerð. Þá sé auðvelt að fá útgefin þjóðernisvottorð af nígeríska sendiráðinu í Róm á fölskum forsendum. Í ljósi framangreinds séu framlögð þjóðernisvottorð kærenda ótraustvekjandi að mati lögreglu. Að mati kærunefndar er ekki vafi á því að um fölsuð skjöl sé að ræða og verður því að líta svo á að kærendur hafi framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd, sbr. a-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er ljóst að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á ekki við um kærendur, sbr. 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er að finna heimild til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Er það mat kærunefndar að aðstæður í máli kærenda séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þann 14. september 2018 fæddist sonur K, […]. Mál kærenda var þá í meðferð hjá stjórnvöldum og telur kærunefnd að […] hafi fengið stöðu aðila þessa máls við fæðingu. Frá fæðingu hans og þar til þessi úrskurður er upp kveðinn hafa liðið 18 mánuðir og […] dagar.

Ekki leikur vafi á því hver B sé enda er hann fæddur hér á landi. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 74. gr. verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Nefndin hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að 4. mgr. 74. gr. heimili ekki undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. Nefndin telur þó engu að síður að rétt sé að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Að mati kærunefndar er B það ungur að árum að ekki sé raunhæft að ætla að hann hafi myndað sér skoðun sem þýðingu gæti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin hafi verið skýrsla af honum. Nefndin telur því með vísan til framangreinds að ákvæði a-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir því að B sé veitt dvalarleyfi á grundvelli málsgreinarinnar. Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður því ekki komist að annarri niðurstöðu en að veita kærendum og A einnig dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og að þeim skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kærenda og barna þeirra eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children are vacated. The Directorate is instructed to issue residence permits for the appellants and their children based on Article 74, paragraph 2.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                          Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta