Úrskurður nr. 132/2015
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 9. september 2015 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 132/2015
Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010083
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu þann 5. desember 2014 kærði [...], ríkisborgara [...], þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. nóvember 2014, að synja kæranda um búsetuleyfi hér á landi.
Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð í máli þessu.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins voru atvik þess með þeim hætti að kærandi fékk fyrst úgefið dvalarleyfi hér á landi sem barn Íslendings eldra en 18 ára, [...]. Dvalarleyfi kæranda hefur verið endurnýjað fimm sinnum, síðast með gildistíma til 31. desember 2014. Kærandi sótti um búsetuleyfi þann 11. september 2014 og er það sú umsókn sem er hér til umfjöllunar.
Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til innanríkisráðuneytisins með stjórnsýslukæru þann 5. desember 2014. Þann 11. febrúar 2015 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir gögnum málsins frá Útlendingastofnun. Umbeðin gögn bárust kærunefndinni þann 19. og 26. febrúar 2015. Kærunefndinni barst engin greinargerð með kæru, en óskað var eftir að hún yrði lögð fram með bréfi til talsmanns kæranda þann 9. febrúar 2015.
Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa sbr. 3. gr. laga um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að kærandi leiði rétt sinn til búsetu hér á landi af rétti móður sinnar til búsetu. Þar sem móðir kæranda hafi ekki fengið útgefið búsetuleyfi sé rétt að synja henni um útgáfu leyfisins. Niðurstöðu sína byggir stofnunin á 2. mgr. 36. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 11. september 2014 um útgáfu búsetuleyfis.
Sem fyrr segir byggði Útlendingastofnun synjun sína á 2. mgr. 36. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003. Í 2. mgr. ákvæðisins segir:
Dvalarleyfi fyrir aðstandendur skv. 13. gr. útlendingalaga mynda heimild til útgáfu búsetuleyfis með sama hætti og það dvalarleyfi sem viðkomandi umsækjandi leiðir rétt sinn af.
Kærandi leiðir rétt sinn til dvalar hér á landi af móður sem hefur dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002 getur dvalarleyfi skv. ákvæðinu verið grundvöllur búsetuleyfis.
Samkvæmt 7. mgr. 13. gr. laga um útlendinga getur dvalarleyfi aðstandanda verið grundvöllur búsetuleyfis nema útlendingurinn sem hann leiðir rétt sinn af hafi dvalarleyfi sem ekki skapar slíkan grundvöll. Móðir kæranda, sem hún leiðir rétt sinn til dvalar hér á landi af, hefur gilt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis. Þá er það mat kærunefndar að 2. mgr. 36. gr. reglugerðar um útlendinga skilyrði ekki útgáfu búsetuleyfis við að aðstandandi hafi fengið útgefið búsetuleyfi.
Með vísan til þess sem að framan er rakið telur kærunefndin rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar að nýju og veita henni búsetuleyfi hér á landi uppfylli hún önnur lagaskilyrði þar að lútandi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. nóvember 2014, er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda búsetuleyfi að uppfylltum skilyrðum 15. gr. laga um útlendinga.
The decision of the Directorate of Immigration, of 26 November 2014, is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to grant the appellant permanent residence permit, subject to the conditions set forth in Art. 15 of the Immigration Act.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður Pétur Dam Leifsson