Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 158/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. nóvember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 158/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15010053


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. maí 2014, kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. maí 2014, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f. laga nr. 96/2002, um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. VII. kafla laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd skv. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.


II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til landsins, að eigin sögn, þann 9. júní 2012. Hann sótti um hæli 7. júlí s.á. hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun 3. apríl 2014 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. maí 2014, synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli jafnframt því sem honum var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til innanríkisráðuneytisins við birtingu þann 23. maí 2014.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. a. laga nr. 96/2002 með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga með síðari breytingum. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

Þann 6. október 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og greindi nefndinni frá máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b. útlendingalaga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.


III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um hæli og dvalarleyfi hér á landi á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimalandi sínu vegna deilna og átaka […].

Útlendingastofnun benti á að misræmi hefði verið á milli greinargerðar talsmanns kæranda og framburðar kæranda hjá stofnuninni. Laut það helst að huglægu mati kæranda um aðstæður sínar í […] og hvort hann teldi að sér yrði vært þar. Var ekki talið unnt að byggja á greinargerð talsmanns að því leyti sem hún stangaðist á við frásögn kæranda hjá lögreglu og Útlendingastofnunar.

Útlendingastofnun fjallaði um deilur […]. Gögn um þessi málefni studdu við nokkuð nákvæma frásögn kæranda og var hún því í grófum dráttum talin trúverðug og lögð til grundvallar í máli hans.

Útlendingastofnun taldi að af heimildum um ofangreind átök […].

Að þessu virtu var það mat Útlendingastofnunar að synja bæri kæranda um hæli skv. 1. og 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og að 45. gr. sömu laga ætti ekki við.

Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f greinir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði talið að kærandi sé í þeirri aðstöðu í heimalandi að hún réttlæti veitingu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga, hvorki með vísan til mannúðarsjónarmiða, heilsufarsástæðna, né sérstakra tengsla kæranda við Ísland.

Að lokum var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga. Útlendingastofnun ákvað að kæra frestaði réttaráhrifum með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.


IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kvaðst kærandi vera ríkisborgari […] og vera fæddur í þorpinu [..] sem sé höfuðborg […]. Kærandi kvaðst tilheyra […]. Kærandi kvaðst eiga tvær alsystur á lífi og nokkur hálfsystkini en móðir hans hafi látist skömmu eftir að hann flúði til Íslands og faðir hans hafi verið myrtur […] áður en kærandi flúði heimaland sitt.

Í greinargerð er farið yfir þær aðstæður og menningarheim sem kærandi var uppalinn við. […].

Þá segir að þrátt fyrir að […] sé stórt þá sé samfélagið lítið og að faðir kæranda hafi verið þekktur þar. […]. Eftir að faðir kæranda hafi verið myrtur hafi kærandi óttast um eigið líf og ákveðið að flýja úr […]. […]. Fyrir kærunefnd kvað kærandi hins vegar að hann hafi ekki orðið fyrir ofsóknum í […] en lífið þar hafi verið erfitt þar sem að hann þekkti engan.

Kærandi kveður ástandið í […] enn vera mjög eldfimt og því verði lífi hans og frelsi stefnt í hættu geri íslensk stjórnvöld honum skylt að snúa þangað aftur. Kærandi búi við ástæðuríkan ótta enda hafi faðir hans verið myrtur á grundvelli pólitískrar afstöðu sinnar. Því sé ljóst að hann eigi á hættu að verða fyrir pyndingum og/eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur til baka. Íslenska ríkinu beri að veita kæranda vernd skv. skilgreiningu 1. mgr. 44. gr. a. laga um útlendinga og e. liðar 2. mgr. sömu greinar og fái sú skylda aukið vægi með tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands og þá einkum flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Í greinargerð segir að það að kærandi hafi flúið strax í kjölfar morðsins á föður sínum eigi ekki að gera réttarstöðu hans veikari. Kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir ofsóknum verði hann sendur aftur til […] og með endursendingu hans þangað verði því brotið gegn 45. gr. laga um útlendinga.

[…]

Í greinargerð er þeirri ályktun Útlendingastofnunar að engin hætta skapist fyrir kæranda verði hann endursendur til […] mótmælt. Þá er því misræmi sem Útlendingastofnun segir vera á milli frásagnar kæranda og greinargerðar mótmælt.

Krafa um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga, er byggð á öllu ofangreindu og lögð sérstök áhersla á slíkt leyfi og þá einkum á grundvelli þess að kærandi hafi nú verið hér á landi í meira en tvö ár í meðferð stjórnvalda og hafi myndað sérstök tengsl við landið. Kærandi eigi hér vini og […]. Voru bréf frá nokkrum þessara einstaklinga fylgiskjöl með greinargerð kæranda.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Kærandi kvaðst aldrei hafa átt vegabréf og hafði engin skilríki meðferðis við komuna til landsins. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni barst afrit af vegabréfi kæranda sem hann hafði fengið útgefið 1. september 2015, telur kærunefnd því fulljóst að kærandi sé ríkisborgari […].

Landaupplýsingar

[…].

[…] gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna […] 1963, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu […] 2009.

Kærunefndin hefur yfirfarið gögn og upplýsingar um […], m.a. Operational Guidance Note […] (UK Border Agency, janúar 2013); Country Reports on Human Rights Practices for 2014 – […] (United States Department of State, júní 2014); […]; Freedom in the World 2015 – […] (Freedom House, 19. júní 2015) og Amnesty International Report 2014/15 – […] (Amnesty International, 25 February 2015).

Í ofangreindum skýrslum kemur fram að í stjórnarskrá landsins og landslögum er kveðið á um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum. Almennt séð er þessi réttur virkur í landinu en vegna álags er skilvirkni dómstólanna takmörkuð auk þess sem spilling er ríkjandi. […].

a. Aðalkrafa kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að hann fái viðurkennda stöðu sem flóttamaður, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að honum sé ekki vært í heimalandi […].

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að góðar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Kærandi byggir kröfu sína um hæli á Íslandi á því að hann sæti ofsóknum og sé jafnvel í lífshættu í heimalandi þar sem að hann neiti að […].

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða áreiti af hendi yfirvalda í […]. Ferðafrelsi er tryggt í stjórnarskrá landsins og stjórnvöld virða almennt þann rétt. (Country Reports on Human Rights Practices for 2014 – […] (United States Department of State, júní 2014)). Ekkert í þeim gögnum sem kærunefndin hefur yfirfarið þykir renna stoðum undir að ástand í heimalandi kæranda sé þannig að hann eigi á hættu ofsóknir í skilningi útlendingalaga eða að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur verði hann sendur aftur þangað.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kæranda hafi verið ómögulegt að flytja sig til innan heimalands síns en fyrir kærunefnd kvað hann hins vegar að hann hafi ekki orðið fyrir ofsóknum í […] heldur hafi lífið verið erfitt sökum þess að hann þekkti engan sem hafi getað aðstoðað hann við framfærslu og að fá vinnu. Kærandi hefur því sjálfur ekki haldið því fram að honum hafi verið ómögulegt að dvelja annars staðar í heimalandi en í […] vegna ofsókna. Ennfremur hefur fjölskylda kæranda, móðir og systkini, dvalist í […] án þess að hafa orðið fyrir hótunum eða ofbeldi. Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í heimalandi og að flytja sig til innanlands telji hann þess þörf. Styðja heimildir ekki þá staðhæfingu kæranda að […] stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda fullnægjandi vernd óski hann eftir henni við þau.

Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd sem kom inn í útlendingalögin með lögum nr. 115/2010 um breytingu á lögum um útlendinga. Þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt hæli hér á landi hafnað.

c. Varakrafa kæranda

Til vara krefst kærandi að sér verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 115/2010, greinir að fara skuli fram heildarmat á öllum þáttum málsins áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er veitt.

Í 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga er kveðið á um að unnt sé að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða vegna sérstakra tengsla við landið ef útlendingur hefur dvalið hér á landi í tvö ár vegna málsmeðferðar stjórnvalda, og sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Viðkomandi þarf þó að uppfylla skilyrði a-e liðar 1. mgr. 12. gr. g.

Ljóst er að kærandi hefur dvalið hér á landi frá 9. júní 2012, eða í rúmlega þrjú ár. Kærandi lagði fram hælisumsókn um mánuði eftir komuna til landsins og hefur mál hans verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum síðan. Tafir á málsmeðferð verða ekki raktar til atvika er varða kæranda.

Kærandi hefur, samkvæmt framburði hans fyrir kærunefndinni og greinargerð talsmanns hans, myndað nokkur tengsl við landið á þessum tíma. Hann hefur eignast vini og stundað nám í íslensku. Kærandi hefur einnig verið í atvinnuleit.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a-e-liðar 1. mgr. 12. gr. g laga um útlendinga. Ennfremur telur kærunefndin að engar sérstakar ástæður mæli gegn því að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 12. gr. f. Er það því niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 4. mgr. 12. gr. f útlendingalaga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. maí 2014, staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli hér á landi. Hins vegar telur kærunefndin að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. og 4. mgr. 12. gr. f útlendingalaga.

 

 Úrskurðarorð

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, er staðfest hvað varðar umsókn kæranda um hæli. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 4. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

 The Directorate of Immigration's decision is affirmed with regard to his application for asylum. The Directorate of Immigration is instructed to issue the applicant a residence permit based on Article 12 f, paragraph 4, of the Act on Foreigners no. 96/2002.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður


  Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                               Oddný Mjöll Arnardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta