Úrskurður nr. 183/2015
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 6. október 2015 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 183/2015
í stjórnsýslumáli nr. KNU15030017
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru, dags. 19. mars 2015, kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. mars 2015, um að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd sbr. 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 13. desember 2014 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun 27. febrúar 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. mars s.á., synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli jafnframt því sem honum var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 19. mars 2015.
Með tölvupósti, dags. 23. mars 2015, var löglærðum talsmanni kæranda veittur frestur til að leggja fram greinargerð í tilefni kærumálsins. Þann 5. maí 2015 barst kærunefnd útlendingamála greinargerð kæranda.
Þann 16. september 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála, ásamt talsmanni sínum og að viðstöddum túlki, og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggir kröfu sína um hæli á Íslandi á því að hann hafi verið meðlimur […]. Hann hafi tekið þátt í kosningabaráttu flokksins og hafi þess vegna verið beittur ofbeldi og fengið hótanir. Kærandi kveðst óttast að verða settur í fangelsi eða drepinn, snúi hann til baka.
Útlendingastofnun fjallaði um stjórnarskiptin sem áttu sér stað í […] og þær aðgerðir stjórnvalda sem hafa átt sér stað í kjölfar þeirra. Þessar aðgerðir fólust m.a. í því að fyrrum stjórnmála- og embættismenn voru handteknir og ákærðir vegna gruns um spillingu, valdníðslu og önnur brot í starfi. Í umfjöllun Útlendingastofnunar kom fram að helstu áhyggjur mannréttindasamtaka í […] lúti að afskiptaleysi […] yfirvalda á áreiti og ofbeldi gagnvart stjórnmálamönnum stjórnarandstöðunnar. Þá væru dæmi um að ofbeldi hafi verið beitt gegn meðlimum […] í kosningabaráttunni og ráðist á fyrrverandi ráðherra án þess að árásarmennirnir væru látnir svara til saka. Þó verði ekki séð af heimildum að aðstæður væru með þeim hætti að ætla mætti að almennir borgarar séu í hættu vegna aðildar sinnar að stjórnmálaflokkum eða þátttöku þeirra í kosningabaráttu. Var það mat Útlendingastofnunar að í ljósi þeirra gagna sem stofnunin hafði yfirfarið að frásögn kæranda væri um flest trúverðug.
Útlendingastofnun féllst ekki á að hótanir þær og ofbeldi sem kærandi kvaðst hafa orðið fyrir féllu undir ofsóknir í skilningi 1. og 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga þar sem stofnunin taldi kæranda ekki hafa tekist að færa sannfærandi rök fyrir því að ofsóknirnar stöfuðu af tengslum hans við stjórnmálaflokk eða þátttöku í kosningabaráttu hans. Var það mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda gæfi ekki tilefni til þess að ætla að aðstæður hans og að aðstæður í […] væru með þeim hætti að kærandi gæti átt á hættu ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð þar. Því var það mat stofnunarinnar að aðstæður kæranda væru hvorki með þeim hætti sem greinir í 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga né að þær falli undir 1. mgr. 45. gr. sömu laga.
Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f greinir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði talið að kærandi sé í þeirri aðstöðu í heimalandi að hún réttlæti veitingu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga, hvorki með vísan til mannúðarsjónarmiða né sérstakra tengsla kæranda við Ísland.
Að lokum var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga. Útlendingastofnun ákvað að kæra myndi fresta framkvæmd ákvörðunar sinnar með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fyrrum meðlimur og yfirlýstur stuðningsmaður fyrrum […]. Kveðst hann hafa orðið fyrir ofsóknum af hálfu núverandi ríkisstjórnar auk annarra aðila vegna stjórnmálaskoðana sinna allt frá því flokkur hans tapaði þingkosningum í landinu árið […]. Kveðst kærandi hafa verið handtekinn í kjölfar mótmæla árið […] og hafi honum ásamt fleiri stjórnarandstæðingum verið haldið í varðhaldi allan daginn en öðrum hafi verið sleppt. Einnig kveður kærandi að ráðist hafi verið á hann í tvígang með ofbeldi og hótunum m.a. um að […]. Telur kærandi árásarmennina hafa verið á vegum stjórnvalda þar sem að í síðara skiptið sem þeir hafi komið hafi þeir hótað honum og skipað honum að […] vegna þess að það væri stefna stjórnvalda að allir stuðningsmenn fyrri ríkisstjórnar yfirgæfu landið, en í fyrra skiptið hafi þeir haft þá átyllu að […]. Kveðst kærandi ekki þekkja til mannanna né vita hvernig þeir hefðu upplýsingar um […]. Ennfremur kveðst kærandi óttast að verði hann sendur aftur til heimalands síns verði komið á hann sök til þess eins að hægt verði að handtaka hann vegna stjórnmálaskoðana hans.
Í greinargerð segir að Útlendingastofnun hafi byggt niðurstöðu sína fyrst og fremst á því að ofbeldi og hótanir þær sem kærandi hafi þurft að sæta teljist ekki til ofsókna í skilningi flóttamannahugtaksins þó virðist stofnunin ekki vefengja það að sú mismunun, ofbeldi og hótanir sem kærandi hafi þurft að þola hafi verið grundvölluð á stjórnmálaskoðunum hans. Það liggi fyrir að brotið hafi verið á ófrávíkjanlegum mannréttindum kæranda, þar á meðal banni við pyndingum og ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð, auk þess sem kærandi hafi sætt ólögmætri mismunun á grundvelli stjórnmálaskoðana sinna. Því sé það skýrt að kærandi hafi sætt ofsóknum í skilningi Flóttamannasamningsins og 44. gr. a útlendingalaga.
Varðandi aðstæður í […] segir í greinargerð kæranda að fallast megi á það með Útlendingastofnun að heimildir sýni að miklar umbætur hafi orðið í […] á síðustu árum. Þrátt fyrir umbæturnar hafi þó alþjóðlegar eftirlitsstofnanir og mannréttindasamtök sett skýran fyrirvara við þær og gert alvarlegar athugasemdir við tiltekin atriði. Einkum lúti athugasemdirnar að pólitískum ofsóknum í garð andstæðinga núverandi ríkisstjórnar. Ennfremur segir að stjórnvöld í […] hafi verið ásökuð um handahófskenndar rannsóknir, handtökur og varðhald auk óhóflegrar valdbeitingar og jafnvel ofbeldis af hálfu lögreglu. Einnig komi fram í heimildum að iðulega sé brotið á réttindum fólks í haldi, svo sem rétti þeirra til aðstoðar lögmanns og að það þurfi að sæta löngum yfirheyrslum án viðveru talsmanns. Segir í greinargerð að hinar pólitísku ofsóknir einskorðist ekki við háttsetta embættismenn fyrrum ríkisstjórnar eða fólk sem gegnt hafi formlegum trúnaðarstörfum fyrir […], heldur beinist ofsóknir einnig að óbreyttum stuðningsmönnum flokksins og fjölskyldumeðlimum forsvarsmanna hans.
Í greinargerð kæranda segir að þar sem að hann sé að flýja ofsóknir af hálfu stjórnvalda og öðrum aðilum sem umbornar eru af ríkinu sjálfu megi telja augljóst að hann geti hvorki né vilji, vegna ótta síns, fært sér í nyt vernd ríkisins sjálfs.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagarammi
Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.
Landaupplýsingar
[…] er lýðræðisríki með um […] milljónir íbúa. […] gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1999 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu það sama ár. Stjórnarskrá […] kveður á um jafnrétti allra fyrir lögum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, etnis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu er refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. […] gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna þann […] 1999, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann […] 1994 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu […] 2005.
Kærunefndin hefur yfirfarið ýmsar skýrslur um […] 2013 Human Rights Report (United States Department of State, 27. febrúar 2014), Country Summary – […] (Human Rights Watch, janúar 2015), […], Amnesty International Report 2014/15, […] (Amnesty International, 25. febrúar 2015), […].
Í ofangreindum skýrslum kemur fram að löggæslustofnanir í […] hafi verið gagnrýndar í gegnum tíðina vegna skorts á gagnsæi og ábyrgð, rannsóknaraðferðum og frelsissviptingum sem stríddu gegn málsmeðferðarreglum svo og illri meðferð á einstaklingum í haldi. En síðustu ár hafi átt sér stað miklar framfarir og nánast hefur tekist að uppræta spillingu innan almennu lögreglunnar og traust til hennar hefur aukist mikið. Heimildir bera með sér að einskonar uppgjör hafi átt sér stað í landinu við þing-, forseta- og sveitarstjórnarkosningar á árunum […]. Þá hafi fjölmargir aðilar sem hafi gegnt stöðum hjá fyrri ríkisstjórn landsins, opinberir starfsmenn og virkir flokksmenn í […] verið handteknir. Einkum hafi fyrrum ráðamenn þurft að sæta rannsóknum og lægra settir opinberir starfsmenn verið beittir þrýstingi til að láta af störfum. Fátt bendi þó til þess að einstaklingar sem ekki voru opinberir starfsmenn eða hátt settir innan […] hafi sætt ofbeldi eða þvingunum.
a. Aðalkrafa kæranda
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga.
Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að honum sé ekki vært í heimalandi vegna áreitis og ofsókna yfirvalda og almennings þar. Kærandi segir […] stjórnvöld hvorki vilja né geta veitt honum fullnægjandi vernd.
Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.
Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.
Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:
Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins, sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að góðar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).
Kærandi kveður að þar sem hann sé talinn hafa verið virkur meðlimur […] verði hann fyrir ofsóknum og eigi á hættu að verða handtekinn að ósekju eða jafnvel myrtur af stuðningsmönnum núverandi ríkisstjórnar. Nokkuð misræmi hefur verið í framburði kæranda hjá lögreglu, Útlendingastofnun og fyrir kærunefndinni. Misræmið lýtur einkum að tímalínu þeirra atburða sem kærandi kveður vera ástæðu þess að hann flúði heimaland sitt. Einnig er misræmi um það af hvaða ástæðum kærandi kveður að ráðist hafi verið á sig og hvort um hafi verið að ræða líkamlegt ofbeldi eða ekki. Ennfremur hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn sem styðja við frásögn hans af þeirri atburðarás sem hann hefur lýst.
Ekkert í þeim gögnum sem kærunefndin hefur yfirfarið þykir renna stoðum undir að ástand í heimalandi kæranda sé þannig að hann eigi í hættu ofsóknir í skilningi útlendingalaga eða að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur verði hann sendur aftur til […]. Heimildir bera það með sér að dregið hafi úr ólgu í landinu og að lögregla hafi m.a. veitt stuðningsmönnum […] vernd á samkomum þeirra fyrir sveitastjórnarkosningarnar […]. Í ljósi upplýsinga um almennt ástand í […] og um þær breytingar sem orðið hafa þar í landi eftir stjórnarskiptin […] telur kærunefndin að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita sér ásjár stjórnvalda þar telji hann þess þörf. Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.
b. Varakrafa kæranda
Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.
Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt lögunum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd sem kom inn í útlendingalögin með lögum nr. 115/2010 um breytingu á útlendingalögum. Þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða.
Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt hæli hér á landi hafnað.
c. Þrautavarakrafa kæranda
Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga og að engin sérstök mannúðarsjónarmið standi til þess að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í […] séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna skv. 12. gr. f útlendingalaga.
Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælisbeiðni sína og aðeins í skamman tíma.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar frá 6. mars 2015.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. útlendingalaga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The Directorate of Immigration‘s decisionis affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Oddný Mjöll Arnardóttir