Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 37/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 10. nóvember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 37/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 14. janúar 2015, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tekna fyrir tímabilið frá 1. apríl 2012 til 31. maí 2012. Skuldin nemi 97.168 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 14.575 kr. eða samtals 111.743 kr.  Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags 8. apríl 2015. Hann óskar endurskoðunar. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 14. september 2011 og reiknaðist með 100% bótarétt. Með tilkynningum á heimasvæðinu „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun þann 31. maí 2012, 28. júní 2012 og 16. ágúst 2012 var kæranda tilkynnt um skuldamyndun sína hjá stofnuninni. Með tölvupósti frá Vinnumálastofnun til kæranda þann 16. ágúst 2012 var skuldamyndun kæranda útskýrð. Þá segir að það eigi eftir að reikna eina greiðslu á kæranda og eitthvað af henni muni verða tekið upp í eftirstöðvar skuldarinnar. Enn fremur er kæranda ráðlagt að greiða afganginn sem fyrst svo ekki komi til innheimtuaðgerða. Með innheimtubréfi, dags. 14. janúar 2015, er kærandi krafinn um eftirstöðvar skuldarinnar.

Í kæru segir að vorið 2012 hafi kærandi verið á atvinnuleysisskrá en verið að vinna dag og dag og sífellt fleiri þegar nær hafi liðið sumri. Um þessa daga og laun fyrir þá hafi hann tilkynnt starfsmönnum Vinnumálastofnunar samviskusamlega og jafnóðum en svo virðist sem þeir hafi hundsað upplýsingarnar. Vinnumálastofnun hafi greitt honum bætur eins og hann hafi ekkert verið að vinna. Um sumarið hafi stofnunin tilkynnt honum að hann hafi fengið ofgreitt og að hann skuldaði stofnuninni þessar ofgreiddu bætur. Hann hafi beðið um skýringar en svörin sem hann hafi fengið hafi ekki útskýrt mikið og ekki hafi verið beðist afsökunar á klúðrinu. Hins vegar hafi komið fram að hann ætti eftir að fá eina úthlutun á bótum og að hluti þeirrar upphæðar yrði notaður upp í skuldina. Samkvæmt þeim upplýsingum hafi verið ljóst að það yrði ekki fyrr en síðar sem í ljós kæmi hver staðan væri.

Honum hafi aldrei borist nein tilkynning um skuld við stofnunina þannig að hann hafi litið svo á að síðasta úthlutun hefði dugað fyrir skuldinni. Þegar komið hafi verið hálft þriðja ár frá því að þetta hafi gerst hafi honum borist bréf þar sem fjallað hafi verið kunnulega um þessa skuld og hann krafinn greiðslu á henni ásamt álagi, væntanlega vegna dráttar á greiðslu. Fyrir það fyrsta megi rekja þessa vitleysu til þess að starfsmenn Vinnumálastofnunar hafi gert mistök. Til þess að leiðrétta þau hafi þau sent honum upplýsingar um að hann skuldi ofgreiddar bætur en ekki sé ljóst að það sé rétt. Þegar hann biðji um upplýsingar séu þær af mjög skornum skammti og í rauninni allsendis óboðlegar. Allt og sumt sem liggi fyrir sé hugsanleg skuld sem enn sé óútreiknuð. Hálfu þriðja ári seinna komi rukkun vegna þessarar skuldar sem þó hafi aldrei verið tilgreind eða tilkynnt um og aldrei verið reynt að innheimta. Í allan þennan tíma hafi starfsmönnum Vinnumálastofnunar ekki dottið í hug að hafa samband við hann og upplýsa um málið. Úr því að þeir hafi haft samband við hann vegna hugsanlegrar skuldar hljóti hann að áætla að þeir láti hann vita verði skuldin raunveruleg. Í hálft þriðja ár hafi hann verið látinn standa í þeirri trú að hann eigi meiri peninga en raun beri vitni.

Hann hafi engar forsendur til að meta þá upphæð sem hann sé sagður skulda. Í kæru er spurt hvernig höfuðstóllinn hafi verið fundinn út og hvort þetta sé upphaflegur höfuðstóll eða seinni tíma uppfinning. Þá er spurt á hvaða forsendum hann eigi að borga álag á skuldina.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. maí 2015, segir að samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta hafi kærandi verið í tilfallandi vinnu hjá B C og D. Kærandi hafi tilkynnt til Vinnumálastofnunar þegar honum hafi boðist tilfallandi vinna en ekki hafi legið fyrir upplýsingar um laun hans fyrr en eftir að greiðsla þeirra hafi farið fram. Af þeim sökum hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til hans verið leiðréttar afturvirkt í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum hafi verið skuldajafnað í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laganna þann tíma sem kærandi hafi verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni og fengið greiðslur atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi verið afskráður af greiðsluskrá þann 31. maí 2015 [sic] og þá hafi útistandandi skuld hans við stofnunina numið 111.743 kr. að meðtöldu 15% álagi.

Í janúar 2015 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og með bréfi, dags. 14. janúar 2015, hafi kæranda verið tilkynnt um að hann skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem innheimtar yrðu samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum þeim tilvikum sem kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Vinnumálastofnun bendi á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011 og 43/2012.

Tekjur umfram frítekjumark skuli koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sökum þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið leiðréttar afturvirkt í samræmi við 36. gr. laganna hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og því hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. maí 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins frá 1. apríl 2012 til 31. maí 2012. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að kærandi var í tilfallandi vinnu hjá B C, E og D í apríl og maí 2012 en ekki lágu fyrir upplýsingar um laun hans fyrr en eftir að greiðsla þeirra fór fram.

Um frádrátt vegna tekna er fjallað í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna segir svo:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru.“ 

Tekjur kæranda fyrir apríl og maí 2012 voru mun hærri en tekjuáætlun kæranda gerði ráð fyrir. Kærandi fékk því greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á þessa tvo mánuði samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þess vegna voru greiðslur til kæranda leiðréttar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laganna og skuld myndaðist í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur yfirfarið útreikninga Vinnumálastofnunar á höfuðstól skuldar kæranda, sem var 97.168 kr. þann 14. janúar 2015, og gerir ekki athugasemdir við þá.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða höfuðstól skuldar sinnar við Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er álag lagt á skuld kæranda vegna þess að hann gerði ekki grein fyrir tekjum sínum hjá D. Hins vegar liggur fyrir að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu sína hjá B, C og E. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er ekki heimilt að leggja álag á alla skuld kæranda vegna þess að honum láðist einungis að tilkynna um atvinnu á einum stað. Úrskurðarnefndin telur að fella skuli niður álag á skuld kæranda að undanskildum þeim hluta skuldarinnar sem rekja má til tekna kæranda vegna atvinnu hjá D. 

Með hliðsjón af framangreindu er staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða stofnuninni höfuðstól skuldar sinnar. Ákvörðun stofnunarinnar um að leggja 15% álag á skuldina er hrundið og þeim hluta málsins vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 14. janúar 2015, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni höfuðstól skuldar sinnar að fjárhæð 97.168 kr., er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar, samkvæmt sama innheimtubréfi, þess efnis að hann greiði 15% álag á höfuðstólinn, er hrundið og þeim hluta málsins vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta