Mál nr. 96/2021 Úrskurður 11. ágúst 2021
Mál nr. 96/2021 Millinafn: Welding
Hinn 11. ágúst 2021 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 96/2021, en erindið barst nefndinni 4. ágúst.
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt millinafn þurfa öll skilyrði 6. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa áunnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.
- Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.
- Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Auk þess má nafnið ekki vera ættarnafn í skilningi 7. gr. mannanafnalaga.
Millinafnið Welding uppfyllir ekki skilyrði laganna. Nafnið er ekki dregið af íslenskum orðstofnum og er auk þess ættarnafn. Þess vegna er ekki hægt að samþykkja það á mannanafnaskrá.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Welding er hafnað.