Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                          

Þriðjudaginn 16. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 30/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með bréfi, dags. 5. maí 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð í febrúar og mars 2014.

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá því í október 2012. Í febrúar og mars 2014 fékk kærandi greidda skerta fjárhagsaðstoð þar sem hann hafi hafnað boði um að taka þátt í atvinnuátaksverkefni á vegum Vinnumálastofnunar og Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar. Kærandi áfrýjaði afgreiðslu Fjölskylduþjónustunnar til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar með bréfi, dags. 20. febrúar 2014. Fjölskylduráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 12. mars 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um óskerta fjárhagsaðstoð. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Skv. 2. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð er þeim sem sækir um fjárhagsaðstoð skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem býðst nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrir gildar ástæður hamli því og skv. 2. mgr. 3. gr. sömu reglna er heimilt að greiða umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni allt að hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar skv. 11. gr. reglnanna. Með vísan til þessa og þar sem umsækjandi hafnaði boði um að taka þátt í atvinnuátaksverkefni á vegum Vinnumálastofnunar og Fjölskylduþjónustunnar sem miðar að því að styrkja umsækjendur í atvinnuleit og auka starfshæfni þeirra, án þess að hafa til þess gildar ástæður að mati fjölskylduráðs, er umsókn um óskerta fjárhagsaðstoð synjað.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. mars 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 5. maí 2014. Með bréfi, dags. 7. maí 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 20. júní 2014, var beiðni úrskurðarnefndarinnar ítrekuð. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 25. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. júlí 2014, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 14. júlí 2014, og voru þær sendar Hafnarfjarðarbæ með bréfi, dags. 18. júlí 2014. Athugasemdir bárust frá Hafnarfjarðarbæ með bréfi, dags. 30. júlí 2014, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. ágúst 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi verið ófær um að taka þátt í atvinnuúrræði á vegum Hafnarfjarðarbæjar þar sem hann hafi verið húsnæðislaus og að bíða eftir niðurstöðu geðlæknis á hæfni hans til að stunda atvinnu. Fjölskylduhjálp Hafnarfjarðarbæjar hafi verið vel kunnugt um aðstæður hans. Nú liggi fyrir vottorð frá geðlækni sem staðfesti að hann sé óvinnufær og hafi líklega verið það frá árinu 2010.

Í athugasemdum kæranda greinir hann frá því að hann hafi ekki tjáð félagsráðgjafa sínum að hann væri vinnufær. Hann hafi tekið skýrt fram að hann hafi leitað bæði til heimilislæknis og geðlæknis frá október 2013 meðal annars til að fá úr því skorið hvort hann væri vinnufær eða ekki. Hann hafi svarað spurningu félagsráðgjafans á þann hátt að hann vildi bíða niðurstöðu læknis. Þá greinir kærandi frá því að félagsþjónustan setji það sem skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð að skila minnisblaði atvinnuleitanda.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð frá því í október 2012 og hafi jafnframt verið í atvinnuleit. Í janúar 2014 hafi starfsmaður Fjölskylduþjónustunnar haft samband við kæranda vegna átaksverkefnis á vegum Vinnumálastofnunar og Fjölskylduþjónustunnar. Þar sem kærandi hafi talið sig vinnufæran og skilað upplýsingum um hver mánaðamót um atvinnuleit hafi verið talið að hann gæti tekið atvinnu í gegnum átaksverkefnið. Kærandi hafi ekki undirritað tilvísun í átaksverkefnið eins og gert hafi verið ráð fyrir og hann hafi verið hvattur til að gera og því hafi fjárhagsaðstoð til hans verið skert í febrúar og mars 2014 í samræmi við þágildandi 2. mgr. 3. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð.

Í athugasemdum sveitarfélagsins kemur fram að í samtali starfsmanns Fjölskylduþjónustunnar við kæranda um miðjan janúar 2014 hafi komið fram að hann teldi sig vinnufæran enda hafi hann skilað atvinnuleitarblöðum um hver mánaðamót. Þar komi fram hvar hann hafi sótt um vinnu og verði að gera ráð fyrir því að alvara hafi legið að baki umsóknunum. Ekki hafi legið fyrir læknisvottorð um óvinnufærni hans og því hafi ekki verið ástæða til að ætla annað en að hann væri fær um að taka þátt í átaksverkefninu. Í vottorði geðlæknis, dags. 2. maí 2014, komi ekkert fram um óvinnufærni kæranda í febrúar og mars 2014.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 1. janúar 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð í febrúar og mars 2014.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að þeim sem sækir um fjárhagsaðstoð sé skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem býðst nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því. Í 1. mgr. 3. gr. reglnanna kemur fram að heimilt sé greiða umsækjanda allt að hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar hafi hann hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa þann mánuð og mánuðinn þar á eftir. Sama eigi við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi minnisblaði atvinnuleitanda án viðhlítandi skýringa og umsækjanda sem hætt hafi þátttöku í átaksverkefni nema veigamiklar ástæður sem fram komi við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglnanna.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýstur um átaksverkefni á vegum Vinnumálastofnunar og Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðarbæjar í janúar 2014. Kæranda var tvívegis tjáð að hann þyrfti að skrifa undir tilvísun vegna verkefnisins ella myndi fjárhagsaðstoð til hans verða skert í tvo mánuði. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi verið ófær um að taka þátt í átaksverkefninu þar sem hann hafi verið húsnæðislaus og að bíða eftir niðurstöðu geðlæknis á hæfni hans til að stunda atvinnu. Í gögnum málsins liggur ekki fyrir staðfesting þess efnis að kærandi hafi verið óvinnufær, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ, á þeim tíma sem um ræðir. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð í febrúar og mars 2014, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest. 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að greiða A skerta fjárhagsaðstoð í febrúar og mars 2014 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta