Nr. 706/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 18. júlí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 706/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24050170
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 28. maí 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2024, um að vísa frá umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom til landsins og sótti um alþjóðlega vernd 19. október 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. apríl 2023, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með ákvörðuninni var honum jafnframt gert að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 227/2024, dags. 2. apríl 2024, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Fram kom í úrskurði kærunefndar að endurkomubann kæranda yrði fellt úr gildi yfirgæfi hann landið innan 15 daga.
Samkvæmt fyrirliggjandi hjónavígsluvottorði gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara 29. febrúar 2024. Á grundvelli hjúskaparins lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi 7. mars 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2024, var umsókn kæranda um dvalarleyfi vísað frá, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga en ákvæðið mælir fyrir um að við endanlega ákvörðun um brottvísun skuli óafgreiddum dvalarleyfisumsóknum vísað frá. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin 17. maí 2024 og kærð til kærunefndar 28. maí 2024. Hinn 14. júní 2024 lagði kærandi fram greinargerð og frekari fylgigögn vegna málsins.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til úrlausna stjórnvalda vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi gifst maka sínum 29. febrúar 2024 og lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna hjúskaparins 7. mars 2024. Kærandi gerir margvíslegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, einkum m.t.t. meðalhófs-, rannsóknar-, andmæla-, og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi sé ekki fyrsti umsækjandinn um alþjóðlega vernd sem finni ástina hérlendis og leggi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, ýmist fyrir eða eftir uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar vegna verndarumsóknar. Við slíkar aðstæður hafi Útlendingastofnun almennt sent svokölluð andmælabréf til þess að kanna hvort að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Það hafi ekki verið gert í máli kæranda heldur hafi umsókn hans verið vísað frá sem kærandi telji brjóta gegn meðalhófs-, rannsóknar- og andmælareglum stjórnsýsluréttar. Þar að auki hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þar sem umsókn hans hafi sætt annarri meðferð en önnur mál og vísar kærandi til máls nr. [...], sem sé til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála, í því samhengi. Kæranda hafi ekki verið gefið tækifæri til að tjá sig, málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti og ekki hafi farið fram skyldubundið mat samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.
Þá vísar kærandi til þess að hjónavígsla hans og framlagning umsóknar um dvalarleyfi hafi átt sér stað fyrir uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar um verndarumsókn hans, en þá hafi hann verið í lögmætri dvöl. Hin kærða ákvörðun hafi ekki tekið tillit til þess að stjórnsýslukæra vegna verndarumsóknar kæranda hafi frestað réttaráhrifum hennar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Því hafi ákvörðun um brottvísun og endurkomubann ekki verið endanleg fyrr en eftir framlagningu dvalarleyfisumsóknar kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki vikið að hagsmunum kæranda og maka hans sem njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og hvers vegna ekkert mat hafi farið fram með tilliti til 3. mgr. 51. gr. og 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi rýmkað verndarsvið 8. gr. sáttmálans, m.a. vegna fjölskyldulífs í málefnum innflytjenda. Kærandi vísar til nokkurra úrlausna mannréttindadómstólsins, þ.m.t. Boultif gegn Sviss sem varði jafnvægi á milli fjölskyldueiningar og allsherjarreglu.
Kærandi byggir á því að rannsóknarskylda Útlendingastofnunar sé ekki uppfyllt í málinu enda sé látið duga að vísa í ákvæði laga um útlendinga án þess að stofnunin legði sérstakt mat á þá hagsmuni kæranda. Ekki megi finna umfjöllun um það óhagræði sem kærandi og maki hans verði fyrir við brottvísun kæranda auk þess sem óvíst sé hvort kærandi eigi afturkvæmt til Íslands. Þá sé ekkert fjallað um hagsmuni maka kæranda af því að halda samvistum við kæranda. Þessi annmarki sé sérlega alvarlegur þar sem maki kæranda hafi einnig hagsmuna að gæta, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Hin kærða ákvörðun fjalli ekkert um úrskurðarframkvæmd kærunefndar í sambærilegum málum. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 418/2021, dags. 14. október 2021, sem hann telji sambærilegt sínu máli. Þar hafi verið fjallað um umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þrátt fyrir að umsækjandi hafi verið í ólögmætri dvöl. Niðurstaða málsins hafi verið sú að umsóknin skyldi fá efnislega meðferð hjá stjórnvöldum með hliðsjón af 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði nefndarinnar nr. 643/2021, dags. 2. desember 2021, hafi nefndin komist að sambærilegri niðurstöðu í sambærilegu máli. Máli sínu til stuðnings reifar kærandi fleiri úrskurði kærunefndar þar sem fjallað er um 51. gr. laga um útlendinga, þ.m.t. úrskurð nr. 27/2022, dags. 23. febrúar 2022. Kærandi reifar málavexti sem fjallað er um í síðastnefndum úrskurði og ber saman við málavexti og tímalínu í sínu tilviki.
Í athugasemdum við 51. gr. laga um útlendinga komi fram að í 3. mgr. 51. gr. laganna felist almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi. Kærandi telur slíkar aðstæður vera fyrir hendi í máli sínu, m.a. með hliðsjón af hagsmunum kæranda, maka hans, fjölskyldu og vina. Að mati kæranda vegi þeir hagsmunir þyngra en hagsmunir ríkisins af brottvísun hans. Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru bréf og umsagnir frá maka kæranda og sameiginlegum vinum þeirra ásamt ljósmyndum og skjáskotum af samskiptum á samfélagsmiðlum. Þá vísar kærandi til þess að maki hans hafi orðið [...] í fyrra en [...].
Framangreindu til viðbótar telur kærandi að takmarkanir á brottvísun, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga eigi við í málinu, m.t.t. hjúskapar kæranda og umsóknar um dvalarleyfi. Þá telur kærandi að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann hafi brotið gegn meðalhófsreglu og telur regluna leiða til þess að taka eigi umsókn hans um dvalarleyfi til efnislegrar meðferðar.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga kemur fram að við endanlega ákvörðun um brottvísun fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi og ótímabundið dvalarleyfi útlendings úr gildi. Óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi skal þá vísað frá. Síðastnefnd málsgrein kom inn í ákvæðið með breytingarlögum nr. 149/2018, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að áðurnefndum breytingalögum segir m.a. að í framkvæmd hafi reynt á það hvað verði um dvalarleyfisumsóknir sem útlendingur hefur lagt fram áður en honum er vísað brott, eftir að honum er tilkynnt um hugsanlega brottvísun eða jafnvel eftir að ákvörðun um brottvísun hafi verið tilkynnt honum en hafi ekki verið framfylgt. Með ákvæðinu sé tekinn af vafi um áhrif brottvísana á óafgreiddar umsóknir um dvalarleyfi og tiltekið sérstaklega að þeim skuli vísað frá. Þegar ákvörðun hafi verið framfylgt geti útlendingur sótt um dvalarleyfi að nýju erlendis frá.
Líkt og fram kemur í málsatvikalýsingu hefur kærunefnd fjallað um brottvísun og endurkomubann kæranda, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 227/2024, dags. 2. apríl 2024. Niðurstaða nefndarinnar var að gera kæranda að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni með vísan til 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt veittur 15 daga frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur en innan þess frests yrði endurkomubann hans fellt úr gildi. Úrskurður kærunefndar mælir fyrir um endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga ber að vísa dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 7. mars 2024, frá. Málatilbúnaður kæranda grundvallast einkum á ríkum sanngirnisástæðum, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og verndarhagsmunum gagnvart brottvísun, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Framangreind lagaákvæði koma ekki til skoðunar í tilviki kæranda enda eru þau óviðkomandi lagagrundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Lokamálsliður 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er afdráttarlaus og er ekki mælt fyrir um undanþágur frá ákvæðinu í lögum um útlendinga eða öðrum lögum.
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares