Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 96/2012.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 11. september 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 96/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 30. október 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 24. október 2012 á beiðni hennar um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu. Synjunin byggðist á því aðstæður kæranda féllu ekki að skilyrðum 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kærandi gerir kröfu um að henni verði veittur styrkur að fjárhæð 570.000 kr. vegna fyrirframgreiddrar húsaleigu.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi er 75% öryrki og heldur heimili með þremur börnum sínum á aldrinum 9-17 ára. Kærandi er í óvígðri sambúð en hún og sambúðarmaki hennar eiga ekki sama lögheimili. Kærandi glímir við margþætt veikindi og hefur átt við langvarandi félagslegan vanda að stríða. Þá hefur kærandi átt við húsnæðisvanda að etja en kærandi og sambúðarmaki hennar voru borin út úr félagslegu leiguhúsnæði í Hafnarfirði árið 2005. Í framhaldi af því fengu þau úthlutað félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík árið 2005 og milliflutning í annað húsnæði árið 2008. Um sumarið 2011 var kærandi borin út úr húsnæðinu. Þann 2. nóvember 2011 fékk kærandi samþykktan styrk að fjárhæð 600.000 kr. til fyrirframgreiðslu húsaleigu skv. 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Þann 31. október 2012 missti kærandi það húsnæði.

 


 

Kærandi sótti um styrk að fjárhæð 570.000 kr. vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu með umsókn, dags. 21. september 2012. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 27. september 2012, með þeim rökum að umsókn kæranda samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 28. september 2012. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum, þann 24. október 2012, og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 570.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk til fyrirfram-greiðslu / tryggingu húsaleigu.

 

Niðurstaða velferðarráðs Reykjavíkurborgar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. október 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 30. október 2012. Með bréfi, dags. 18. desember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 7. janúar 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 9. janúar 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með tölvupósti, dags. 28. ágúst 2013, var óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda sem lágu til grundvallar ákvörðunar hjá þjónustumiðstöð. Með tölvupósti, dags. 30. ágúst 2013, barst nefndinni útprentun úr staðgreiðsluskrá vegna tekna kæranda árið 2012, frá þjónustumiðstöð.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Í kæru kemur fram að kærandi geti ekki sætt sig við úrskurð félagsþjónustunnar um neitun á aðstoð vegna fyrirframgreiðslu á húsaleigu. Hún sé öryrki með þrjú langveik börn sem hún fái enga aðstoð með. Dóttir hennar, 17 ára, sé greind með gigt og ónæmiskerfið hennar sé allt í ójafnvægi. Sonur hennar, 16 ára, sé með átröskun og vegi yfir 150 kg. Dóttir hennar, 9 ára, sé með gigt og ADHD og hún fái engar umönnunarbætur greiddar með henni. Að sögn kæranda búa þau í allt of litlu húsnæði, þriggja herbergja íbúð, sem þau hefðu sætt sig við, hefði þeim ekki verið sagt upp húsaleigunni og ættu að flytja út 1. nóvember 2012. Þau hafi þó fengið frest til 15. nóvember 2012. Kærandi kveður elsta son sinn vera með geðraskanir og hvíli mikið á hennar herðum. Að sögn kæranda sé álagið á henni mjög mikið og finnst henni hún hafa versnað af þunglyndi og gigt sem hún hafi verið greind með. Læknirinn hennar hafi helst viljað að hún legðist inn á geðdeild um tíma til að hvíla sig, en það hafi ekki verið í boði fyrir hana eins og staðan hafi verið. Kærandi kveðst hafa verið með áhyggjur af því að lenda á götunni með börnin sín og að hún sjái ekki fram á að það gangi upp því þau hafi engan til að flytja inn á, og engin hjálp sé í boði frá fjölskyldu sinni eða föður barnanna. Kærandi kveðst hafa fengið húsnæði í Breiðholti en hafi ekki geta tekið það þar sem það hafi ekki verið komið svar frá félagsþjónustunni um aðstoð. Nú standi málin þannig að hún geti fengið leigt húsnæði sem henti þeim vel þar sem það sé stutt fyrir börn hennar í skóla.

 

 


 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum vegna kærunnar kemur fram að Reykjavíkurborg hafi byggt synjun sína á 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, með síðari breytingum, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011 og voru samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og borgarráði þann 25. nóvember 2010. Samkvæmt 23. gr. reglnanna sé Reykjavíkurborg heimilt að veita þeim sem fengið hafi fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan, lán eða styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Þinglýstur leigusamningur skuli liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast. Miða skuli við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði. Þá komi fram að aðstoð á grundvelli þessarar greinar sé að hámarki veitt einu sinni á ári. Að mati velferðarráðs hafi skilyrði 23. gr. reglnanna ekki verið uppfyllt þar sem kærandi hafi hvorki þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu mánuðinn sem hún sótti um styrk til fyrirframgreiðslu né mánuðinn þar á undan. Í rökstuðningi vísar sveitarfélagið til þess að kærandi sé 75% öryrki og fái greiddar örorkubætur ásamt greiðslum úr lífeyrissjóði. Tekjur kæranda séu því hærri en fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þá hafi einnig verið litið til þess að fjárhagsaðstoð skv. 23. gr. reglnanna skuli að hámarki veitt einu sinni á ári og í leiðbeiningum með reglum um fjárhagsaðstoð segi að miða skuli við að aðstoð samkvæmt greininni skuli ekki veitt oftar en á tólf mánaða fresti. Þann 2. nóvember 2011 hafi velferðarráð, með hliðsjón af erfiðum aðstæðum kæranda, samþykkt að veita kæranda styrk að fjárhæð 600.000 kr. til fyrirframgreiðslu húsaleigu skv. 23. gr. reglnanna. Velferðarráð hafi því talið ljóst að ekki hafi verið liðnir tólf mánuðir síðan kærandi hafi fengið styrk til fyrirframgreiðslu eða tryggingu húsaleigu þar til hún óskaði eftir því að nýju. Að mati velferðarráðs hefði kæranda átt að vera unnt að fá fyrri tryggingu húsaleigu endurgreidda frá leigusala og nýta hana til fyrirframgreiðslu/tryggingu á næsta leiguhúsnæði. Með vísan til framangreinds hafi velferðarráð synjað kæranda um styrk til fyrirframgreiðslu eða tryggingar húsnæðis að fjárhæð 570.000 kr.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 21. september 2012, um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu.

 

Í IV. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Í VI. kafla laganna er fjallað um fjárhagsaðstoð til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára. Þar segir í 21. gr. að sveitarstjórn skuli setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum samþykktum í velferðarráði 15. desember 2011 og í borgarráði 22. desember 2011. Í 23. gr. reglnanna er fjallað um styrk eða lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu og til tryggingar húsaleigu. Samkvæmt ákvæðinu er Reykjavíkurborg heimilt að veita þeim sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan lán eða styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Er aðstoðin á grundvelli þessarar greinar að hámarki veitt einu sinni á ári. Samkvæmt 11. gr. reglnanna getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili, numið allt að 163.635 kr. á mánuði. Þegar kærandi óskaði eftir styrk til að greiða tryggingu vegna húsaleigu fékk hún mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Naut kærandi því ekki fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg eins og gert er að skilyrði í ákvæðinu. Samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir árið 2012 voru tekjur kæranda í ágúst 2012, 291.213 kr. og í september 2012, 274.763 kr. Tekjur kæranda voru því töluvert yfir þeim viðmiðunarmörkum sem ákvæði 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagstoð áskilur, sbr. 11. gr. sömu reglna. Í leiðbeiningum sem fylgja reglum um fjárhagsaðstoð segir að miða skuli við að styrkur/lán vegna fyrirframgreiðslu eða tryggingar húsaleigu sé ekki afgreiddur oftar en á tólf mánaða fresti. Jafnframt segir þar að meginmarkmiðið sé þó að tryggingagjald sé einungis veitt einu sinni og að gert sé ráð fyrir að það megi nýta þegar annað húsnæði sé tekið á leigu. Reykjavíkurborg veitti kæranda styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu að fjárhæð 600.000 kr. þann 2. nóvember 2011. Kærandi sótti á ný um styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu með umsókn, dags. 21. september 2012, og var umsókninni synjað með bréfum Reykjavíkurborgar, dags. 27. september og 25. október 2012. Var því ekki liðið ár frá því að kæranda hafði verið veittur fyrri styrkur eins og gert er að skilyrði í 23. gr. reglnanna. Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 23. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt í málinu og kærandi hafi því ekki átt rétt á styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu.

 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 24. október 2012, um synjun á umsókn A, um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta