Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 1/2003:

 

A

gegn

Hrafnistu í Hafnarfirði.

 

--------------------------------------------------------------

           

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 16. maí 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru dags. 3. febrúar 2003 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn hennar úr starfi hjá Hrafnistu í Hafnarfirði bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Hrafnistu í Hafnarfirði með bréfi dags. 4. febrúar 2003. Var þar, með vísan til laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, óskað eftir því að tekin yrði afstaða til þeirra athugasemda sem fram komu í erindi kæranda. Með bréfi dags. 11. mars 2003, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum við erindi kæranda.

Með bréfi dags. 24. mars 2003, var kæranda kynnt umsögn kærða og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Engar frekari athugasemdir hafa borist.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála, var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi starfaði við aðhlynningu hjá Hrafnistu í Hafnarfirði frá því 21. febrúar 2000. Kæranda var sagt upp störfum með bréfi dags. 31. júlí 2002, þar sem greint er frá því að síðasti vinnudagur hennar yrði 15. september 2002.

Eftir að uppsögnin hafði átt sér stað tilkynnti kærandi vinnuveitanda sínum um að hún væri barnshafandi. Hún bað um endurskoðun á uppsögninni en því var hafnað.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Hrafnista í Hafnarfirði hafi brotið lög nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að segja henni upp starfi hjá Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar hafi hún starfað í u.þ.b. þrjú ár og sé eftirsótt í vinnu.

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið komin sex vikur á leið þegar henni var sagt upp starfinu. Hún skýrir einnig frá því að hún hafi þá ekki verið búin að segja vinnuveitanda sínum frá þungun sinni. Hún telur það siðferðislega rangt að segja sér upp starfi vegna veikinda sem komu til vegna aðgerða sem hún þurfti að gangast undir. Kærandi kveðst hafa fengið utanlegsfóstur á árinu 2002 og það hafi ekki uppgötvast fyrr en 18. mars sama ár, en þá hafi hún verið komin þrjá mánuði á leið og farið í aðgerð þann 20. mars. Hún kveðst hafa verið frá vinnu í sex vikur og komið aftur til starfa 3. maí 2002. Síðan hafi hún fengið mikil verkjaköst vegna kviðslits, í framhaldi af því hafi hún farið í aðgerð 20. júní 2002 og verið frá vinnu í fjórar vikur. Hún greinir frá því að hún hafi komið aftur til starfa 15. júlí og unnið til 24. júlí 2002, en þá hafi hún ákveðið að fara til læknis vegna veikinda og hann ráðlagt henni að vera heima. Hún kveðst hafa hringt á vinnustað sinn 25. júlí 2002 og þá hafi deildarstjórinn sagt henni upp störfum. Í framhaldi af því kveðst kærandi hafa greint frá því að hún væri barnshafandi og óskað eftir því að ákvörðunin yrði endurskoðuð, en því hafi verið hafnað.

Kærandi kveður kynferði sitt hafa þýðingu í máli þessu, þar sem öll hennar veikindi hafi verið í kjölfar utanlegsfósturs sem sé afleiðing af kynferði hennar. Hún telur ákvæði 22. gr. og 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin.

 

IV

Sjónarmið kærða

Með bréfi dags. 11. mars 2003 kom Hrafnista í Hafnarfirði sjónarmiðum sínum á framfæri. Var á því byggt að ítrekaðar fjarvistir kæranda á þeim tíma sem hún hafði starfað hjá stofnuninni hafi haft áhrif á uppsögnina, enda hafi skort talsvert á að hún tilkynnti atvinnuveitanda um veikindi svo og að svarað hafi verið í síma þegar leitað var eftir slíkum upplýsingum. Greint var frá því að hún hafi verið fjarverandi í samtals 64 daga á því tímabili sem hún starfaði hjá stofnuninni eða fram að þeim tíma er hún missti rétt til launa í veikindaforföllum.

Hrafnista í Hafnarfirði greinir frá því að þegar ljóst hafi verið að kærandi hafi í byrjun júlí 2002 verið að falla út af launaskrá þar sem veikindaréttur hennar hafi verið fullnýttur, þá hafi ítrekað verið reynt að ná í hana til þess að upplýsa hana um málið, en það hafi ekki tekist. Þegar starfsmaður stofnunarinnar hafi náð sambandi við kæranda hafi hann tilkynnt henni að hún mætti eiga von á uppsögn um mánaðarmótin júlí-ágúst 2002. Hrafnista í Hafnarfirði taldi slíka aðvörun eðlilega þar sem ekki hafi verið hægt að ná í kæranda símleiðis á þeim tíma sem hún var fjarverandi.

Hrafnista í Hafnarfirði telur að löglega hafi verið staðið að uppsögninni, hún hafi ekki byggst á kynferði, heldur hafi atvinnurekandi nýtt sér rétt til uppsagnar samkvæmt kjarasamningi, sá réttur sé gagnkvæmur og ekki þurfi að greina ástæðu uppsagnarinnar. Stofnuninni hafi því engin skylda borið til að rökstyðja uppsögnina.

Hrafnista í Hafnarfirði greinir frá því að hjá stofnuninni séu 77 stöðugildi við aðhlynningu, þar af séu karlar í 2,2 stöðugildum, á þeirri deild sem kærandi starfi séu eingöngu konur starfandi við aðhlynningu. Hjá stofnuninni séu því starfsmenn í miklum meirihluta konur. Þrátt fyrir viðleitni til þess að jafnvægi sé milli karla og kvenna í störfum hjá Hrafnistu í Hafnarfirði hafi það ekki gengið eftir sem skyldi.

Hrafnista telur uppsögnina ekki vera brot á 22. og 24. gr. jafnréttislaga þar sem stofnunin hafi eingöngu verið að nýta sér kjarasamningsbundinn rétt til uppsagnar og ekki vitað af þunguninni þegar uppsögnin átti sér stað og telur hún því fráleitt að tengja hana við framangreind ákvæði jafnréttislaga.

 

V

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Jafnframt er kveðið á um að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku óháð kynferði.

Atvinnurekendur gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra, meðal annars við uppsagnir starfsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. jafnréttislaga er hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga er óheimilt að mismuna starfsfólki á grundvelli kynferðis þar með talið hvað varðar uppsagnir. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. jafnréttislaga.

Fyrir liggur í máli þessu að kæranda var sagt upp störfum með þeim uppsagnarfresti sem kveðið var á um í gildandi kjarasamningi. Jafnframt liggur fyrir að þegar ákvörðun var tekin um uppsögnina var atvinnurekanda ekki kunnugt um að kærandi væri þunguð. Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ákvörðun atvinnurekanda um uppsögn verði ekki rakin til þessarar þungunar kæranda.

Upplýst er í málinu að kærandi hafði um nokkurt skeið verið frá vegna veikinda. Kærandi upplýsti að þau veikindi hafi að hluta til verið vegna utanlegsfósturs og hafi hún af þeim sökum verið frá vinnu um sex vikna skeið, frá mars og fram í maí 2002. Á hinn bóginn er á það að líta að samkvæmt vinnuskýrslum atvinnurekanda er það að einhverju leyti umdeilt hvernig veikindaleyfi kæranda var háttað á umræddu tímabili. Þá er á því byggt af hálfu atvinnurekanda að kærandi hafi, þegar að uppsögn kom, verið búin að fullnýta veikindarétt sinn, alls 55 daga á árinu 2001 og 2002. Af fyrirliggjandi gögnum, sem ekki hafa sætt andmælum af hálfu kæranda, verður ráðið að kærandi hafi ekki nýtt veikindarétt sinn nema að litlu leyti vegna þessara tilgreindu veikinda sem rekja mátti til utanlegsfóstursins. Af þessum ástæðum verður ekki ráðið að uppsögnin hafi byggst á þeim ástæðum sem kærandi byggir kæru sína á.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan greinir telst uppsögn kæranda frá 31. júlí 2002 ekki fela í sér brot gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

 

Andri Árnason

Erla S. Árnadóttir

Stefán Ólafsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta