Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 9/2002:

A

gegn

Reykjavíkurborg vegna Foldaskóla

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 4. apríl 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 15. október 2002, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort launagreiðslur til hans sem leiðbeinanda, sem eru lægri en til kennara með fullgild réttindi feli í sér mismunun sem brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Reykjavíkurborg með bréfi dags. 14. nóvember 2002. Óskað var eftir afstöðu borgarinnar til þess hvort launagreiðslur vegna starfa kæranda hjá Foldaskóla brjóti gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með bréfi B hdl. f.h. Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2002, bárust svör við framangreindu bréfi.

Með bréfi, dags. 16. desember 2002, var kæranda kynnt umsögn Reykjavíkurborgar og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með ódagsettu bréfi, sem barst kærunefnd jafnréttismála 6. janúar 2003.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi hefur starfað um nokkra hríð sem leiðbeinandi við Foldaskóla í Reykjavík. Þegar erindi hans barst kærunefnd jafnréttismála starfaði hann enn hjá skólanum. Starf hans hefur aðallega verið fólgið í forfallakennslu svo og að vera umsjónarkennari. Hann hefur sem leiðbeinandi fengið launagreiðslur sem slíkur. Samkvæmt kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga fyrir grunnskóla sem gildir frá 1. janúar 2001 er gerður greinarmunur annars vegar á störfum grunnskólakennara og svonefndra leiðbeinenda og þessum aðilum raðað í mismunandi launaflokka svo sem nánar greinir í kjarasamningi. Svo sem greinir í lið I hér að framan er að hálfu kæranda óskað álits á því hvort mismunandi launagreiðslur samkvæmt umræddum kjarasamningi feli í sér brot gegn 23. gr. laga nr. 96/2000, sbr. 14. gr. sömu laga.

 

III

Sjónarmið kæranda

Í bréfi kæranda, dags. 15. október 2002, kemur fram að hann telji það mismunun að hann skuli fá greiðslu sem leiðbeinandi við Foldaskóla, þar sem hann sé að inna af hendi sama starf og kennarar.

Kærandi telur framangreinda mismunun í launagreiðslum fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf í skilningi 1., 2., og 4. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, brjóta gegn 23. gr. laganna. Hann telur sig inna af hendi sama starf og þeir kennarar sem hann leysi af, en þeir fái greidd hærri laun en hann. Hann kveðst gera sér grein fyrir því að kjarasamningar séu í gildi við Kennarasamband Íslands, en þessir kjarasamningar séu ekki rétthærri en lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi telur að Reykjavíkurborg eigi ekki að hagnast á því að ekki fáist nægilegur fjöldi réttindakennara til að manna allar stöður í skólum borgarinnar.

Kærandi telur að fyrst hann geti kennt þessum nemendum og staðist þær lágmarkskröfur sem lögin geri ráð fyrir, þá sjái hann ekki rökin fyrir því að hann fái lægri laun en aðrir. Hann greinir frá því að séu hans störf og annarra leiðbeinenda ekki fullnægjandi og lakari en almennra kennara, þá telji hann brotið á rétti nemenda um að fá lögboðna menntun.

Kærandi greinir frá því að rök vinnuveitanda síns gegn kröfu sinni séu þau að ef hann fengi sömu laun sem leiðbeinandi verði það til þess að færri leggi það á sig að stunda nám í Kennaraháskólanum. Hann telur þó að fólk fari í kennaranám, þrátt fyrir að hann fái að vera aðnjótandi réttlætis sem felist í því að honum séu greidd sömu laun fyrir sömu vinnu. Þeir sem séu menntaðir kennarar muni áfram vera þeir einu sem hafi rétt til starfsins og séu réttindi leiðbeinandans engin hvað það varðar. Kærandi telur það næga ástæðu til að sækjast eftir þessari menntun og til að öðlast starfsöryggi.

Kærandi greinir frá því að þeir kennarar sem hann hafi leyst af hafi verið konur og skírskotar hann í lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hvað varðar mismunandi laun og önnur réttindi. Hann kveðst hafa verið að sinna sömu störfum og þær og þar af leiðandi eigi hann að fá sömu laun. Hann vísar í athugasemdir með frumvarpi til jafnréttislaga, þar sem skýrt sé kveðið á um það í 1. mgr. 14. gr. laganna að ætlunin sé að tryggja að konur og karlar njóti sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf. Kærandi telur að ef löggjafinn hefði haft í huga að undanskilja einhver störf frá þessum lögum, hefði það verið gert sérstaklega.

 

IV

Sjónarmið kærða

Í bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2002, er á því byggt að af 14. gr. laga nr. 96/2000 verði augljóslega ráðið að ákvæðið fjalli um launajafnrétti milli kvenna og karla og sé ætlað að koma í veg fyrir aðstöðumun milli kvenna og karla með tilliti til launakjara fyrir sömu störf. Er vísað til athugasemda með frumvarpi að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og greint frá því að ákvæði 1. mgr. 14. gr. sé ætlað að tryggja að konur og karlar njóti sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf og fyrir ólík störf sem metin séu jafnverðmæt og sambærileg.

Reykjavíkurborg telur fyrirliggjandi kæru ekki grundvallast á þeim lagasjónarmiðum sem búi að baki 14. gr. laga nr. 96/2000 enda fjalli kæran ekki um meint launamisrétti milli kvenna og karla. Í kærunni séu borin saman launakjör ólíkra starfsstétta án tillits til kynferðis. Einnig telur Reykjavíkurborg kröfu kæranda grundvallast á því að leiðbeinendum beri að fá sömu laun og kennarar, en sú krafa eigi sér enga skírskotun til meints launamisréttis milli kvenna og karla, hvorki innan starfsstétta leiðbeinenda né kennara. Hér sé verið að fjalla um launamun milli tveggja starfsstétta en ekki launamun milli kvenna og karla sem vinni jafnverðmæt og sambærileg störf eins og áskilið sé í 14. gr. laga nr. 96/2000. Reykjavíkurborg telur þannig málatilbúnað kæranda ekki vera byggðan á meintum brotum á 14. gr. laga nr. 96/2000. Af þeim sökum telur Reykjavíkurborg að vísa beri kæru þessari frá kærunefnd jafnréttismála.

 

V

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Jafnframt er kveðið á um að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku óháð kynferði.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 96/2000 skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Af ákvæðinu má ráða að störf þau sem um ræðir þurfa að teljast vera jafnverðmæt og sambærileg. Fyrir liggur í máli þessu að kærandi leitar álits á því hvort undir ákvæði þetta falli samanburður á störfum kennara með fullgild kennararéttindi annars vegar og svokölluðum leiðbeinendum hins vegar.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála, að þó svo að umrædd störf séu sambærileg að því leyti að þau lúta að uppfræðslu skólabarna, teljist ekki vera um að ræða jafnverðmæt og sambærileg störf í skilningi 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000. Með vísan til þess munar sem er á menntun kennara með réttindi annars vegar og leiðbeinenda hins vegar verður almennt ekki talið að störf leiðbeinenda hafi sama gildi og störf kennara, þar sem á skortir að leiðbeinendur hafi þá menntun sem áskilin er til kennarastarfa. Störf kennara með réttindi eru því verðmætari fyrir vinnuveitanda og fyrir þá sem kennslu njóta enda er ráðning leiðbeinenda úrræði sem gripið er til þegar ekki er unnt að manna stöður með kennurum sem hafa fullgild réttindi.

Með vísan til framangreinds þykir Reykjavíkurborg ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

 

Andri Árnason

Erla S. Árnadóttir

Stefán Ólafsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta