Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 70/2002

Mál nr. 70/2002

Þriðjudaginn, 1. apríl 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 24 október 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 17. október 2002. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 10. október 2002, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. 

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Rökstuðningur minn fyrir þessari kæru er sá að mér finnst ég eiga jafnmikinn rétt og hver annar til að fá fæðingarorlof greitt því ég var í vinnu í fiskvinnslunni á B fyrir áramót og í skóla eftir áramót. Í byrjun júní (3. júní) byrjaði ég svo að vinna í D á E. Ég tók reyndar ekki próf í skólanum vegna þess að ég treysti mér ekki til þess vegna þess að ég var búin að vera svo veik. Það stendur að maður þurfi að vera búinn að vera í skóla í 6 mánuði eða í samfelldri vinnu í 6 mánuði en málið er það að skólinn eftir áramót er ekki nema í 5 mánuði og ég gat ekki unnið nema frá júní til miðs september og það eru ekki einu sinni fjórir mánuðir. Það er alveg eins hægt að segja við fólk eins og mig, „sorry, þú átt að fæða í október, þitt vandamál að geta ekki unnið lengur til að fá fæðingarorlof.“ Það er heldur ekki hægt að ætlast til að 18 og 19 ára gamalt par geti séð fyrir ungabarni fyrir svona lítinn pening á mánuði og ekki fer ég út að vinna strax frá litlu barni.“

Með bréfi, dags. 14. nóvember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. desember 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreining á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er ef a.m.k. einnar annar námi er lokið og foreldri hefur verið samfellt á vinnumarkaði eftir það og fram að fæðingu, samtals í 6 mánuði, að greiða fæðingarstyrk námsmanna. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er Tryggingastofnun ríkisins heimilað að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur. Í ffl. og reglugerðinni er ekki að finna heimild til að gera undanþágu frá skilyrðinu um samfellt 75-100% nám í a.m.k. sex mánuði vegna veikinda námsmanns.

Með umsókn dags. 26. ágúst 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 14. október 2002. Með fylgdi tilkynning um fæðingarorlof dags. sama dag þar sem fram kom að hún hefði verið í 96% starfi 4. mánuð, 100% starfi 3. og 2. mánuð og 50% starfi 1. mánuð fyrir upphaf fæðingarorlofs/áætlaðan fæðingardag og vottorð frá Menntaskólanum á E um að hún hefði stundað nám við skólann á haustönn 2000, vorönn 2001 og vorönn 2002.

23. september var henni sent bréf þar sem gert var grein fyrir því að samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK uppfyllti hún ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki komi fram neinar tekjur fyrir árið 2002 og einnig að vottorð um áætlaðan fæðingardag barns vantaði. Gefinn var 15 daga frestur til að senda staðfestar upplýsingar um launatekjur og tekið fram að ef gögn frá henni bærust ekki yrði umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað.

25. september hafði kærandi samband og mun þá hafa orðið ljóst að ekki væri réttur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna þess að hún uppfyllti ekki það skilyrði fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði fyrir upphaf fæðingarorlofs. Henni mun hafa verið bent á að hugsanlega ætti hún rétt á fæðingarstyrk námsmanna en að skólavottorð sem hefði borist með umsókninni væri ekki fullnægjandi þar sem þar kæmi ekki fram hvað mikið nám hún hefði stundað.

8. október barst vottorð um áætlaða fæðingu barns 14. október 2002 og námsferilsáætlun frá skólanum þar sem fram kom að á vorönn 2002 hefði kærandi verið skráð í 17 einingar en fallið í öllum fögum og að á haustönn 2002 væri hún skráð í 7 einingar.

Með bréfi dags. 10 október 2002 var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám þar sem námsframvinda hjá henni síðastliðið ár væri ekki fullnægjandi.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. janúar 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkur m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúnings­menntunar og nám á háskólastigi.

Kærandi ól barn 28. október 2002. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 28. október 2001 til fæðingardags barns. 

Kærandi var skráð í Menntaskólann á E, á vorönn 2002. Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi ekki próf við lok þeirrar annar. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur. Með hliðsjón af því verður ekki talið að skráning í nám geti ein sér talist nægjanleg til þess að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanns í fæðingarorlofi óháð framvindu náms. Við mat á því hvort kærandi hafi verið í fullu námi og eigi rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður er því ekki unnt að líta framhjá námsárangri hennar á viðmiðunartímabilinu. Með hliðsjón af því sem fram kemur um námsframvindu í gögnum málsins verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins. 

Kemur þá til skoðunar hvort kærandi á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki það skilyrði og með hliðsjón af því hefur kærandi ekki öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta