Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 15. desember 1979

Ár 1979, laugardaginn 15. desember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  Hjalta Sigurbjörnssyni f.h. eigenda
                  Kiðafells, Kjósarhreppi, Kjósarsýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 24. júní 1976 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga og l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, farið þess á leit, að metnar verði lögboðnar bætur vegna hugsanlegs tjóns af fyrirhugaðri vegalagningu um land jarðarinnar Kiðafells, Kjósarhreppi, Kjósarsýslu, en Hjalti Sigurbjörnsson ábúandi á jörðinni hefur gætt réttar eignarnámsþola í málinu.

Leitað hafi verið samkomulags við Hjalta um bætur og samkomulag virst geta orðið um bætur fyrir land undir vegsvæði og jarðefni til vegagerðarinnar. Hins vegar setji Hjalti það skilyrði fyrir leyfi til lagningar vegarins að hann "geti eftir sem áður farið óhindrað með vélar, verkfæri og skepnur yfir hinn nýja veg, hvar sem er og hvenær sem er, nema fullnægjandi ráðstafanir verði gerðar til þess að opna sérstakar hindrunarlausar leiðir."

Að þessu skilyrði hafi Vegagerðin ekki getað gengið enda ekki verið í ráði að skerða möguleika ábúanda Kiðafells til umferðar um hinn nýja veg frá því sem verið hafði, þó ekki sé viðurkennt að um jafn víðtæka yfirferðarmöguleika sé eða hafi verið að ræða og fram komi í bréfi Hjalta til Vegagerðar ríkisins dags. 14. júní 1976.

Eignarnemi gerir þá kröfu, að til grundvallar mati sínu hafi Matsnefndin orðsendingu nr. 3/1979 um landbætur, en til frádráttar bótum komi þær hagsbætur, bæði almennar og sérgreindar, sem eignarnámsþola hlotnist við vegagerðina.

Eignarnemi skýrir svo frá, að á árinu 1976 hafi verið hafist handa við endurlagningu Vesturlandsvegar frá Útkoti inn fyrir Kiðafell að svonefndum Eiríkshól. Lokið hafi verið við undirbyggingu kaflans það ár og sett á hann malarslitlag en frágangi vegfláa hafi lokið á árinu 1977. Á árinu 1978 hafi vegurinn verið jafnaður og hann lagður olíumöl.

Eignarnemi bendir á, að Vesturlandsvegur um land jarðarinnar Kiðafells frá Kiðafellsá að fyrrnefndum Eiríkshól liggi nokkuð neðar en gamli vegurinn. Stærð þess lands, sem undir vegsvæðið hafi farið hafi numið 65.140 m². Stærð þess hluta gamla vegarins sem falli aftur til landeiganda sé 5.700 m². Efnismagn sem tekið hafi verið úr námu neðan gamla vegarins hafi numið 14.971 rúmm.
Eignarnemi tekur fram, að Hjalta Sigurbjörnssyni hafi þann 21. des. 1976 verið greiddar kr. 200.000.- vegna endurlagningar Vesturlandsvegar um land jarðarinnar Kiðafells. Miðað við verðlag í dag samsvari greiðsla þessi ca. kr. 475.000.-. Segir eignarnemi að að sjálfsögðu beri að draga þá fjárhæð frá hugsanlega hærra metnum fébótum.

Eignarnemi tekur fram, að fram á síðustu ár hafi Vegagerðin ekki greitt landeigendum bætur vegna vegagerðar utan þéttbýlis nema ræktuðu landi væri spillt. Samgöngubæturnar hafi verið til hagsbóta fyrir landeigendur og því bótakröfur sjaldan komið fram.

Nú hafi orðið breyting á í þessu efni og landeigendum í vaxandi mæli greitt fyrir land, sem nota megi til ræktunar eða beitar. Til þess að geta mætt þessum kröfum hafi verið leitað álits sérfróðra aðila um hvað teldust hæfilegar bætur í þessum tilvikum. Leitað hafi verið m.a. til Búnaðarfélags Íslands, Landnáms ríkisins, Yfirfasteignamats, fyrrv. landnámsstjóra og Yngva Þorsteinssonar, magisters. Að fengnu áliti þessara aðila hafi verið gefin út orðsending um landbætur í byrjun árs 1972, en síðan hafi orðsending þessi verið endurskoðuð árlega með hliðsjón af hækkandi verðlagi og verðmæti lands og ætíð hafi verið haft samráð við stjórn Búnaðarfélags Íslands við ákvörðun verðgrundvallar. Síðasta endurskoðun þessa verðgrundvallar hafi farið fram í maí 1979 og við endurskoðun grundvallarins hafi verið miðað við áætlaða vísitölu þess árs sem var að líða, þegar endurskoðunin fór fram. Inn í verðgrundvellinum séu því allar hækkanir á árinu. Eignarnemi tekur fram að við ákvörðun bóta í þessu máli sé eingöngu um að ræða skerta búskaparmöguleika og bætur því miðaðar við landbúnaðarland. Eignarnemi geri þá kröfu, að til grundvallar mati sínu leggi Matsnefndin orðsendingu nr. 3/1979. Um sé að ræða 4760 m² af túni, 41260 m² af ræktunarhæfu grónu landi og 19120 m² af grónu óræktunarhæfu landi. Þá krefst eignarnemi þess, að til frádráttar komi sá hluti vegsvæðis gamla vegarins, sem falli til landeigenda samtals 5.700 m². Til rökstuðnings kröfu sinni um frádráttinn bendir eignarnemi á 4. mgr. 61. gr. vegalaga, nokkra dóma Hæstaréttar, dóm bæjarþings Reykjavíkur dags. 8. mars 1978 og til matsgerða Matsnefndar eignarnámsbóta í öðrum málum þar sem svipað standi á um. Ennfremur krefst eignarnemi þess að til frádráttar bótum komi þær hagsbætur, sem landeigendum hlotnist vegna vegalagningarinnar án tillits til þess hvort einhverjir aðrir hagnist einnig af hennar völdum. Samkvæmt 61. gr. vegalaga beri við mat að taka sérstaklega tillit til þess ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð. Vafalaust sé að með tilkomu bættra samgangna við höfuðborgarsvæðið, þ.e. vegar með bundnu slitlagi muni land í Kjósarhreppi koma til með að hækka í verði og séu um slíkt skýlaus fordæmi í Mosfellssveit og á Kjalarnesi.

Eignarnemi segir að nefndan frádrátt beri ekki eingöngu að miða við sérgreindan ávinning, heldur beri almennt að taka tillit til þess hagnaðar sem eignarnámsþolum hlotnist við eignarnám. Hinn almenni hagnaður í þessu tilfelli sé hækkað landverð í Kjósarhreppi vegna tilkomu vegar með bundnu slitlagi frá Reykjavíkursvæðinu. Sérgreindur hagnaður jarðarinnar Kiðafells sé m.a., að vegurinn færist fjær bænum og hávaði frá umferðinni minnki og hinn mikli óþrifnaður sem stafi af ryki frá malarvegum hverfi.

Er það álit eignarnema að hagnaður eigenda Kiðafells vegna ofangreindra atriða sé það mikill að ekki komi til álita að greiða þeim bætur umfram það sem þegar hafi verið greitt, eða ca. kr. 475.000.-.

Eignarnemi upplýsir, að jarðefni til vegagerðar er tekið hafi verið úr námu neðan gamla vegarins úr landi Kiðafells sé 14.971 rúmm. Hér hafi ekki verið um steypuefni að ræða og ósannað í málinu að svo hafi verið.

Eignarnemi segir að við ákvörðun skaðabóta vegna efnistöku til vegagerðar utan markaðssvæða, þ.e. í dreifbýli, þar sem ekki hafi komið fram eftirspurn eftir efni, t.d. til gatna og húsagerðar, hafi verið sá háttur hafður á að kanna hver afrakstur sé af landi því sem efnistakan fari fram á og verðmæti tjónsins að öðru leyti. Hafi Vegagerðin í þeim tilvikum ekki getað komið auga á að landeigandi yrði fyrir öðru tjóni en jarðraski, sem skerti nýtingu á landinu eða möguleika á nýtingu þess til beitar eða ræktunar eða þess búskapar sem á því væri stundaður, ef um nytjar af því væri að ræða á annað borð. Hafi Vegagerðin þá talið sig bæta að fullu tjón landeigandans með því að greiða fyrir hvern m² lands, sem nýttur hafi verið til efnistöku. Verðið hafi verið breytilegt og farið eftir því hve verðmætar nytjar landsins hafi verið. Þar sem sölumarkaður hafi verið fyrir hendi hafi Vegagerðin haft þann hátt á að greiða fyrir magn tekins efnis. Slíkur markaður hafi á síðari árum myndast í grennd við þéttbýlisstaði, þar sem eftirspurn hafi orðið til vegna nota jarðefnis til ýmiskonar byggingaframkvæmda. Verð efnisins hafi verið nokkuð mismunandi í þessum tilfellum en algengast sé að greitt hafi verið kr. 5-20 fyrir hvern rúmmetra.

Eignarnemi telur, að jörðin Kiðafell verði að teljast á mörkum þess sem viðurkennt hafi verið sem markaðssvæði og ekki liggi fyrir að aðrir en Vegagerð ríkisins hafi tekið efni á jörðinni. Með bættum samgöngum við Reykjavíkursvæðið vegna hins nýja vegar megi þó búast við að ásókn skapist í efnið, en að sjálfsögðu eiga slíkar hagsbætur að koma til frádráttar fjárbótum að áliti eignarnema.

Þá bendir eignarnemi á 3. mgr. 59. gr. vegalaga. Þegar efnistöku sé lokið sé það oftast svo, að Vegagerðin slétti yfir landið og sái í það. Nú sé svo komið að Vegagerðin sé annar stærsti landgræðsluaðili á landinu. Segir eignarnemi að í langflestum tilvikum muni það vera svo, að aðrir efnistökuaðilar geri þetta ekki. Þeir þurfi sjaldnast að leggja í kostnað við opnun á námum eða lokun.

Eignarnemi mótmælir algjörlega þeirri kröfu eignarnámsþola að ökufær undirgangur verði gerður undir hinn nýja Vesturlandsveg. Í því sambandi mótmælir eignarnemi að búskaparaðstaða versni á Kiðafelli vegna endurlagningar Vesturlandsvegar enda sé ósannað að svo sé. Þess beri að gæta að vegurinn liggi nú eigi fjarri gamla veginum og kljúfi ekki frekar tún jarðarinnar en sá gamli hafi gert. Það sé einnig kunnugt að svo hátti til á flestum bújörðum hér á landi, að vegir skipti þeim og hluti þær niður. Megi e.t.v. orða þetta svo, að óþægindi þessi séu venjuhelguð kvöð á bújörðum og óhjákvæmileg afleiðing vegagerðar um landið. En vegagerð sé forsenda byggðar og búskapar í landinu. Þá bendir hann á 7. gr. girðingalaga nr. 10/1965, sem leggi bótalaust skyldur og kvaðir á jarðeigendur.

Eignarnemi tekur fram, að gera megi ráð fyrir að kostnaður við gerð ökufærs undirgangs undir þjóðveg sé ekki undir kr. 20.000.000.-. Engin fordæmi séu fyrir gerð slíkra undirganga enda kostnaður við þá óhóflega mikill og stundum kannski ekki í samræmi við arðsemi landsins auk þess sem slíkur kostnaður mundi leggja stóra bagga á Vegagerðina og draga úr vegaframkvæmdum í landinu.

Þá getur eignarnemi þess, að við gerð Kiðafellsbrúar hafi því verið komið við að gera gangveg fyrir búfénað undir brúna og komist hann því án hættu frá og til þess hluta túnsins sem liggur neðan hraðbrautarinnar.

Þessi aðstaða hafi ekki verið fyrir hendi áður en nýja brúin hafi verið byggð.

Eignarnemi bendi á, að fyrir liggi að hluti af túni Kiðafells hafi farið undir vegsvæði Vesturlandsvegar og 1730 m² af túni ofan vegsvæðisins séu nú ekki nýtilegir. Hins vegar mótmælir hann því, að jarðefni hafi runnið yfir gróin tún en brögð muni hafa verið að því að efni hafi runnið úr Blautahvammi í skurði sem Vegagerðin hafi hreinsað jafnharðan. Flutningur efnis að Eiríkshól hafi verið gerður í samráði við ábúanda og með samþykki hans.

Eignarnemi tekur fram, að vegna aðstæðna á vinnustað hafi ekki verið unnt að koma upp endanlegum girðingum við upphaf verksins. Hins vegar hafi verið reynt eftir föngum að koma upp bráðabirgðagirðingum í samræmi við óskir ábúanda. Ekki sé unnt að fullyrða að ábúandi hafi ekki orðið fyrir einhverju óbeinu tjóni af völdum girðingaleysis eða af öðrum orsökum á framkvæmdatímanum, en ósannað sé að um slíkt tjón hafi verið að ræða og þurfi að liggja fyrir um það gleggri upplýsingar áður en afstaða sé tekin til þess.

Eignarnemi bendir á B lið orðsendingar um landbætur, er fjalli um bætur fyrir tímabundin spjöll á landi.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefndinni að Kiðafelli 28. júní 1976 og var þá fært til bókar eftirfarandi:

"Matsmenn gengu á vettvang ásamt aðilum og skoðuðu allar aðstæður. Umboðsmaður eignarnámsþola kveður ekkert því til fyrirstöðu að Vegagerðin hefji þær vegaframkvæmdir, sem fyrirhugaðar séu um Kiðafellsland."

II.

F.h. eiganda og ábúanda Kiðafells hefur flutt mál þetta Guðmundur Pétursson, hrl. Gerir hann eftirfarandi kröfur í málinu:

1.   Að umbjóðendum hans verði dæmdar fyllstu eignarnámsbætur fyrir land það er fari undir hinn nýja Vesturlandsveg.

2.   Að umbj. hans verði metnar fyllstu bætur fyrir jarðrask, óþægindi, átroðning og spjöll þ.m.t. tjón af völdum þess, að ekki var hægt að koma áburði á tún nægilega snemma vegna aðgerða Vegagerðarinnar, ýmiskonar skemmda á túnum af völdum Vegagerðarinnar, mjög aukinnar fyrirhafnar við búsmala vegna niðurrifs girðinga og dráttar Vegagerðarinnar á því að setja þær upp aftur, svo og fyrir spjöll á fiskiræktartilraunum jarðeigenda.

3.   Að sérstaklega verði metinn kostnaður við að gera ökufær undirgöng undir hina nýju hraðbraut, þar sem hún kljúfi tún jarðarinnar og geri ábúanda illfært að nýta land sitt neðan hraðbrautarinnar.

4.   Að metnar verði bætur fyrir efnistöku úr landi jarðarinnar til ofaníburðar í hinn nýja veg með sérstöku tilliti til þess, að um steypumöl hafi verið að ræða að verulegu leyti.

5.   Að umbj. hans verði metnar fullar bætur fyrir tímabundin afnot Vegagerðarinnar af landi jarðarinnar.

6.   Að umbj. hans verði metnar fullar bætur fyrir heildarverðrýrnun lands vegna óhentugri búskaparmöguleika eftir að hraðbrautin hafi verið lögð.

Að Vegagerð ríkisins verði gert að greiða allan kostnað við matið þ.á m. hæfilega þóknun til handa lögmanni eignarnámsþola sem umboðsmanni jarðeiganda.

Lögmaðurinn tekur fram, að það sé hans álit að matsmönnum beri að leggja mat á allt það land, sem nú sé tekið eignarnámi hvort sem nýja hraðbrautin kunni að liggja á kafla á sama stað og gamli þjóðvegurinn. Segir hann að eignarréttur á því landi sem gamli þjóðvegurinn liggi á hafi aldrei horfið undan Kiðafellinu og beri því að bæta það sem annað land, sem frá jörðinni sé tekið.

Eignarnámsþoli vísar í greinargerð sinni til bréfs er hann skrifaði Vegagerðinni 14. júní 1976. Er það bréf tekið upp í greinargerð lögmanns eignarnámsþola. Segir í bréfi þessu á þá leið, að hinn nýi Vesturlandsvegur muni skera land Kiðafells að endilöngu og séu tún og bithagar beggja megin vegarins. Hann hafi hingað til getað farið með vélar og verkfæri og skepnur hindrunarlaust hvar sem var og hvenær sem var yfir gamla veginn.

Krafa hans er sú, að þetta fyrirkomulag haldist óbreytt. Að öðru leyti eru fyrrgreindar kröfur hans teknar upp í þessu bréfi.

Þá er og tekið inn í greinargerðina bréf sem Gunnar Guðbjartsson f.h. Stéttarsambands bænda skrifaði Vegamálastjóra 29. júní 1976 varðandi þetta málefni. Síðan eru skýringar og kröfur Hjalta Sveinbjörnssonar, ábúanda, teknar upp í þessu bréfi en að lokum segir svo:

"Samþykkt var að skrifa Vegagerð ríkisins og vekja athygli hennar á þeim vandræðum sem myndast af lagningu hraðbrautar sem skipta jörðum og nauðsyn á sérstökum aðgerðum til að leysa þau vandkvæði."

Í framhaldi af þessu leggur svo stjórn Stéttarsambandsins áherslu á, að Vegagerð ríkisins geri nú þegar ráðstafanir til að bæta úr þessu hjá Kiðafelli og hafi í huga aðra hliðstæða staði, þar sem hraðbrautir séu lagðar og geri viðeigandi ráðstafanir svo búskapur verði ekki fyrir stórum áföllum vegna þessara framkvæmda.

Síðan rekur lögmaðurinn í greinargerð sinni skýringar á því hvað sé fullt verð fyrir landið skv. ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar og vísar hann í því sambandi til eignarréttar Ólafs Lárussonar, bls. 31-32.

Fyrir utan bein ræktunarskilyrði og búskaparmöguleika telur lögmaðurinn að þau sjónarmið sem fyrst og fremst ber að hafa í huga séu þessi: Dýrustu lóðir landsins séu tvímælalaust í Reykjavík. Borgin byggist óðfluga í átt að Mosfellssveit og megi í því sambandi benda á þá miklu byggð sem komin sé nú þegar í Mosfellssveit svo sem við Markholt, við Álafoss og víðar. Nú sé einnig að rísa byggðarkjarni eða vísir að þorpi á Kjalarnesi (Esjugrund) en Kjalarneshreppur hafi keypt þar landspildu úr Hofslandi og hafi þegar verið reist nokkur hús á landinu. Verð þessa byggingarsvæðis sé mun hærra en núverandi eigandi jarðarinnar hafi gefið fyrir hana alla fyrir nokkrum árum, en þó sé hér aðeins um að ræða mjög lítið brot heildarlandsins. Þá upplýsir lögmaðurinn að Kjalarneshreppur hafi keypt Bergvíkina, innan við 20 ha., fyrir kr. 20.000.000.- þetta land liggi að þessu skipulagða svæði.

Nú sé ekki langt á milli Bergvíkur og Kiðafells og megi því alveg eins reikna með að þar geti stofnast byggðasvæði og þar sem land það, sem tekið var undir veginn á vissum köflum sé mjög hentugt undir slíkar byggingar beri að taka tillit til þess þegar landið sé metið.

Lögmaðurinn telur, að mikið jarðrask hafi fylgt framkvæmdum Vegagerðarinnar á jörðinni. Stórar jarðýtur hafi rutt fram af kambinum sem vegurinn var lagður á, ógrynni af jarðefni sem síðan hafi borist niður á ræktað land og valdið skemmdum á því, auk þess sem skurðir hafi stíflast og hafi framræsla þar með skemmst. Við þetta hafi Vegagerðin einnig skemmt sölu á uppfyllingarefni fyrir eignarnámsþola.

Þá er bent á að girðingar, sem Vegagerðin reif niður, hafi ekki verið settar upp það tímanlega að hægt hafi verið að sá í land til endurræktunar og ekki verið hægt að koma áburði á landið vegna þess að skurðir hafi ekki verið brúaðir. Af þessum sökum hafi ábúandinn þurft að liggja í heilt ár með áburð fyrir ca. kr. 130.000.-, kr. 140.000.- og afraksturinn af landinu þar af leiðandi mun minni en annars hefði verið auk þess sem áburðurinn hafi legið undir skemmdum. Þá hafi ábúandi vegna niðurrifs girðinga þurft að eltast við kýr og annan búsmala alla leið út á Kjalarnes vegna girðingaleysis. Þá er því haldið fram, að í Blautahvammi þar sem jarðvegsskipti hafi farið fram, hafi runnið mikið efni yfir gróið tún og beitiland og fyllt skurði og stíflað. Vegagerðin hafi hreinsað að einhverju leyti þessa skurði vorið 1977 en síðan hafi mikið runnið af jarðefni í þá aftur og enn séu skurðir stíflaðir af þessum sökum. Við Eiríkshól hafi einnig runnið mikill aur yfir gróið land og valdið stórspjöllum á gróðri. Þá segir lögmaðurinn að ábúandinn haldi því fram, að tún neðan vegar hafi hann ekki getað nýtt í tvö ár vegna framkvæmdanna. Sé þar um ca 12 ha. tún að ræða, sem hann eingöngu hafi orðið að nota til beitar og aðra 8 ha. af ræktuðu landi hafi hann orðið að nota til beitar vegna girðingarleysis.
Þá tekur lögmaðurinn fram að Vegagerðin hafi unnið spjöll á eldistjörn, sem sett hafi verið í gönguseiði 400 alls (lax). Þetta hafi verið gert vorið 1977, eftir að talið hafi verið að búið væri að laga til meðfram veginum en það hafi ekki reynst svo. Við framkvæmdir eignarnema hafi gruggast svo mikið upp í tjörninni að öll seiðin hafi horfið úr henni. Ábúandinn hafi frestað því í mörg ár að setja seiði í tjörn þessa vegna vegaframkvæmda. Þessi seiði hafi verið að verðmæti kr. 40.000.-, en auk þess beri eignarnema að greiða tjón vegna tafa á ræktun eldisfisks.

Þá er því haldið fram í greinargerð eignarnámsþola, að krafan um ökufær undirgöng sé sett fram sökum þess, að hraðbrautin kljúfi tún jarðarinnar og geri ábúanda illfært að nýta land sitt neðan hraðbrautarinnar.

Það sé brýn nauðsyn fyrir ábúandann að gerð verði undirgöng undir nýja veginn, ekki aðeins með tilliti til hættunnar sem af umferðinni stafi, heldur og vegna hins mikla óhagræðis, sem fylgja muni lengri rekstrarleið með búsmala til og frá haga.

Kröfu sína um bætur fyrir efnistöku úr landi jarðarinnar styður lögmaðurinn með vísun til 59. gr. vegalaganna, en þar segi, að fullar bætur eigi að koma fyrir efnistökuna. Heldur hann því sérstaklega fram, að verulegur hluti af þeirri efnistöku, sem notuð hafi verið til ofaníburðar í hinn nýja veg, hafi verið hrein steypumöl, sem sé verðmeiri en almenn leirborin möl.

Lögmaðurinn segir að í 58. gr. vegalaganna sé ákvæði um að greiddar skuli bætur fyrir bráðabirgðaafnot lands og fari slíkar bætur eftir 10. kafla vegalaganna.

Varðandi kröfuna um bætur fyrir heildarverðrýrnun landsins vegna óhentugri búskaparmöguleika eftir að hraðbrautin hafi verið lögð, byggir lögmaður eignarnámsþola á því að heildarverð jarðarinnar muni lækka við hugsanlega sölu sökum þess að væntanlegir kaupendur geri sér grein fyrir því, að hraðbrautin valdi auknum erfiðleikum og kostnaði við rekstur búsins.

Sérstaklega mótmælir lögmaðurinn því, að jörðin hækki í verði vegna samgöngubótanna.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang, ásamt ábúanda og umboðsmönnum aðilanna, og skoðað landið og aðstæður á þessum stað. Aðilar hafa skýrt mál sitt fyrir nefndinni bæði munnlega og skriflega. Leitað var um sættir en árangurslaust.

Eignarnámsheimild eignarnema er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 66/1975, sbr. lög nr. 6/1977.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skulu því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.
Auk þeirra gagna, sem málsaðilar hafa lagt fram hefur Matsnefndin aflað sér upplýsinga um búskap og búrekstraraðstöðu á Kiðafelli.

Þá hefur Matsnefndin undir höndum orðsendingu Vegagerðar ríkisins o.fl. nr. 3/1979 um landbætur.

Eins og áður er getið liggur hinn nýji Vesturlandsvegur um land jarðarinnar Kiðafells nokkru neðar en gamli vegurinn.

Hinn 21. desember 1976 voru ábúanda á Kiðafelli greiddar kr. 200.000.- í bætur og hinn 28/2 1977 kr. 100.000.-.

Samkvæmt því sem fyrir liggur klauf gamli þjóðvegurinn land Kiðafells eftir endilöngu á svipaðan hátt og nýji vegurinn gerir nú. Hins vegar leyfir nýi vegurinn ekki eins frjálsa umferð um búsmala og hey um veginn eins og áður var, þar sem Vegagerðin girðir beggja vegna meðfram hinum nýja vegi, og leyfir þannig aðeins yfirferð á ákveðnum stöðum. En eignarnemi hefur bætt nokkuð úr óhagræði eignarnámsþola með gerð gangvegar fyrir búfénað undir hinni nýju brú á ánni.

Matsmenn telja að undirgangur undir hinn nýja veg sé ekki raunhæf lausn og því ekki efni til að taka þá kröfu til greina. Eðli málsins samkvæmt skipta þjóðvegir flestum jörðum á landinu. Undirgöng undir þjóðvegina myndu í flestum tilfellum hafa það mikinn kostnað í för með sér að verulega myndi draga úr lagningu og enduruppbyggingar vegakerfis í landinu, og myndu í mörgum tilvikum kosta hátt í jarðarverð.

Matsnefndin getur ekki fallist á það, að lagning hins nýja vegar með bundið slitlag hafi haft í för með sér verðrýrnun á jörð eignarnámsþola. Hins vegar hefir verið talið, að á flestum stöðum hafi land hækkað í verði vegna hinna nýbyggðu vega, a.m.k. í nánd þéttbýlis.

Matsnefndin telur ekki að framlögð lögregluskýrsla um umferðarslys eigi að orka á niðurstöðu þessa mats.

Í vettvangsgöngu var lögð fram loftljósmynd af svæði því sem vegurinn liggur um. Mynd þessi er tekin áður en byrjað var á vegagerð á þessum stað, en nýja vegalínan er færð inn á myndina. Myndin gefur allgott yfirlit yfir mannvirkjagerð á landi þessu, áður en vegagerð hófst. Þar sést að ræktað land Kiðafells, sem fer undir veg, er allmikið stærra en Vegagerðin tilgreinir í útreikningum sínum.

Eftir nánari athugun á landinu, samanburði á loftmynd og uppdrætti voru aðilar ásáttir um eftirfarandi:

1.   Að heildarlandsvæði það sem til mats kæmi sé 65140 m².

2.   Að land þetta skiptist þannig: tún 14760 m² ræktunarhæft gróið land 31260 m² og gróið óræktunarhæft land 19120 m2.

3.   Stærð þess lands, sem fellur aftur til landeigenda vegna niðurlagningar gamla    vegarins á kafla, sé 5700 m².

Ekki er ágreiningur um magn þess efnis, 14971 rúmm., sem tekið hefur verið úr námu neðan gamla vegarins, en ágreiningur er hins vegar um nýtingargildi efnisins. Athuganir Rannsóknarstofnunar byggingaiðnaðarins á efninu benda til þess, að það muni ekki henta vel til notkunar sem fylliefni í steinsteypu, en gæðamat efna í steinsteypu hefur verið hert í seinni tíð. Matsmenn eru sammála um, að hér sé um nothæft efni til vegagerðar að ræða.

Nýju veglínuna telja matsmenn valda nokkurri óhagkvæmni í nýtingu landsins.

Samkvæmt spjaldskrá Búnaðarfélags Íslands er túnstærð Kiðafells talin 29.6 ha. Túnskerðingin af völdum vegalagningarinnar er því um 5%.

Athugaðar hafa verið jarðaskrár og sést þar, hvaða bústofn og heyfengur hefur verið á Kiðafelli á eftirtöldum fardagaárum:

Fardagaár   Sauðfé   Kýr   Geldneyti   Hross   Heyfengur m3

1974/75   114   20   1   20   930
1975/76   115   16   1   25   770
1976/77   119   13   4   24   760
1977/78   151   0   8   24   736
1978/79   144   0   0   26   690

Af skránni sést, að ábúandi Kiðafells hefur breytt til um búskaparhætti á ofangreindu tímabili.

Um fiskeldistilraun eignarnámsþola þykir ekki sannað að laxaseiði þau sem voru í eldistjörn hafi horfið úr henni vegna aðgerða Vegagerðarinnar.

Kiðafellsá hefur ekki verið talin mikil veiðiá, og hefur Matsnefndin kynnt sér það sérstaklega.

Kiðafell hefur takmarkað land til ræktunar og beitar og ber að taka tillit til þess við matið.

Þá ber ennfremur að taka tillit til og meta þau óþægindi sem ábúandi hefur orðið fyrir, vegna girðingarleysis á tímabili.

Með hliðsjón af gögnum málsins og öðrum upplýsingum, sem nefndin hefur aflað og með hliðsjón af verðbreytingum og öðru því, sem nefndin telur máli skipta, telur Matsnefndin rétt að meta bætur vegna framkvæmda eignarnema á Kiðafelli þannig:

1.   Bætur og afurðatjónsbætur fyrir tún
   14760 m² á kr. 63 = ..............................................   kr.   929.880.-
2.   Bætur fyrir gróið ræktunarhæft land
   31260 m² á kr. 8 = .................................................   "   250.080.-
3.   Bætur fyrir gróið óræktunarhæft land
   19120 m² á kr. 2 = ................................................   "   38.240.-
4.   Bætur fyrir efnistöku
   14971 m3 á kr. 30 = ...............................................   "   449.130.-
5.   Bætur fyrir óþægindi ............................................   "   200.000.-
      Samtals   kr.   1.867.330.-

Eignarnámsþola hefur tvívegis verið greiddar fjárhæðir upp í væntanlegar tjónbætur. Ekki verður fallist á, að bætur þessar eigi að framreiknast frá innborgunardegi til endanlegs uppgjörs með vísitölu, heldur beri að reikna matsbeiðanda venjulega bankainnlánsvexti af upphæðum þessum, eins og þeir hafa verið á hverjum tíma. Frádráttarliðir matsins verða því þessir:

1.   Bætur fyrir land undir gamla veginn sem fellur aftur til
   jarðarinnar alls 5700 m² á kr. 3 =      kr.   17.100.-
2.   Áður greiddar upphæðir ........................................   "   300.000.-
3.   Vextir af fyrirframgreiðslum ................................   "   160.175.-
      Til frádráttar samtals   kr.   477.275.-

Samkvæmt þessu verða heildarbætur til eignarnámsþola kr. 1.390.055.- og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 150.000 í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 300.000.-

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola Hjalta Sigurbjörnssyni f.h. eiganda Kiðafells kr. 1.390.055.- og kr. 150.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 300.000.-.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta