Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 12. desember 2019
í máli nr. 18/2019:
Tyrfingsson ehf.
gegn
Strætó bs.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 25. júní 2019 kærði Tyrfingsson ehf. útboð Reykjavíkurborgar f.h. Strætó bs. (hér eftir vísað til sameiginlega sem varnaraðila) nr. 14403 auðkennt „Purchase of Hydrogen Buses.“ Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila 5. júní 2019 um að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði. Til vara er þess krafist að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Jafnframt er krafist málskostnaðar.
Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerðum 2. júlí og 15. ágúst 2019 krafðist hann þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Kærandi skilaði andsvörum 16. september 2019. Vegna aðkomu innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar að hinu kærða útboði gaf nefndin Reykjavíkurborg kost á að koma að athugasemdum vegna málsins og bárust þær 2. desember 2019.
Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. júlí 2019 var hafnað þeirri kröfu kæranda að stöðva hið kærða innkaupaferli um stundarsakir.

I

Í febrúar 2019 óskuðu varnaraðili eftir tilboðum í fimm vetnisstrætisvagna og viðhald þeirra á tilgreindum ábyrgðartíma. Í grein 1.1.16 í útboðsgögnum kom fram að kaupandi áskildi sér rétt til að hafna öllum tilboðum sem væru umfram kostnaðaráætlun, sem var 625.000 evrur á hvern vagn. Samkvæmt grein 1.1.18 skyldi við mat tilboða líta til líftímakostnaðar hvers vagns, sem skyldi gilda 70% af heildareinkunn, gæða vagna, sem skyldi gilda 25% og gæða þjónustu, sem skyldi gilda 5%. Nánari fyrirmæli um mat á tilboðum komu fram í greininni en meðal annars skyldu bjóðendur upplýsa í tilboði sínu um kaupverð hvers vagns að meðtöldum sendingarkostnaði og öllum gjöldum og sköttum miðað við afhendingu á starfsstöð Strætó bs. Í grein 1.2.2 kom fram að tilboð skyldi sett fram í íslenskum krónum og innihalda virðisaukaskatt, aðflutningagjöld og öll önnur gjöld. Jafnframt kom fram að viðmiðunargengi evru gagnvart krónu væri skráð gengi Seðlabanka Íslands á opnunardegi tilboða. Á opnunarfundi 11. apríl 2019 kom í ljós að aðeins barst tilboð frá kæranda í útboðinu. Í tilboði kæranda var tilgreint að „Capital cost“ hvers vagns í evrum væri 590.000 en „Capital cost“ í íslenskum krónum að meðtöldum virðisaukaskatti væri 99.200.000 krónur. Með tölvubréfi 5. júní 2019 var kæranda tilkynnt að Strætó bs. hefði hafnað tilboðinu þar sem það væri yfir kostnaðaráætlun fyrirtækisins, sem væri 625.000 evrur fyrir hvern vagn samkvæmt grein 1.1.16 í útboðsgögnum.

II

Kærandi byggir á því að af útboðsgögnum verði ráðið að kostnaðaráætlun varnaraðila hafi verið án virðisaukaskatts. Í öðrum ákvæðum útboðsgagna hafi hvergi verið minnst á virðisaukaskatt. Þá hafi bjóðendum verið gert á tilboðsblaði B að gera grein fyrir „capital cost“ með og án virðisaukaskatti sem kærandi hafi talið vera til marks um að í kostnaðaráætlun varnaraðila væri slíkur skattur ekki meðtalinn. Þá hefði varnaraðila verið í lófa lagið að tilgreina skýrt í útboðsgögnum ef kostnaðaráætlun væri að meðtöldum virðisaukaskatti. Tilboð kæranda hafi því verið undir kostnaðaráætlun varnaraðila og því hafi verið óheimilt að hafna tilboði kæranda á þeim grundvelli að það væri umfram kostnaðaráætlun.

III

Varnaraðili byggir á því að kostnaðaráætlun útboðsgagna hafi verið með virðisaukaskatti enda komi þar afdráttarlaust fram að tilboðum skuli skilað með virðisaukaskatti. Í tilboði kæranda hafi kostnaður í evrum verið tilgreindur án virðisaukaskatts en kostnaður í íslenskum krónum með virðisaukaskatti. Tilboðsfjárhæð kæranda í íslenskum krónum með virðisaukaskatti hafi verið 99.200.000 krónur sem sé 731.671 evrur miðað við viðmiðunargengi evru gagnvart krónu samkvæmt skráðu gengi Seðlabanka Íslands á opnunardegi tilboða. Því hafi tilboð kæranda verið umfram kostnaðaráætlun útboðsgagna og varnaraðila hafi verið heimilt að hafna því.
Að hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að borgin eigi ekki aðild að máli þessu. Þrátt fyrir að innkaupaskrifstofa borgarinnar hafi veitt varnaraðila ýmsa aðstoð við útboðið teljist hún ekki miðlæg innkaupastofnun í skilningi 10. tl. 2. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og geti því ekki átt aðild á grundvelli 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Þá er tekið undir kröfugerð og málatilbúnað varnaraðila að öðru leyti.

IV

Samkvæmt 11. tl. 2. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er miðlæg innkaupastofnun opinber aðili samkvæmt 3. gr. sem aðstoðar aðra opinbera aðila við innkaup, aflar vöru eða þjónustu fyrir aðra kaupendur eða gerir verksamninga eða rammasamninga um verk, vörur eða þjónustu ætlaða öðrum kaupendum. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup kom meðal annars fram að miðlægar innkaupastofnanir verði að vera hæfar til að bera réttindi og skyldur að lögum og þjóna fleiri en einum opinberum aðilum. Innkaupadeildir stofnana eða innkaupastofnanir einstakra sveitarfélaga geti af þessari ástæðu ekki talist til miðlægra innkaupastofnana í skilningi frumvarpsins. Í máli þessu liggur fyrir að innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar hafði umsjón með útboðinu. Með hliðsjón af framangreindu verður lagt til grundvallar að innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar teljist ekki miðlæg innkaupastofnun í skilningi laga um opinber innkaup og hún eigi því ekki aðild að máli þessu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laganna.

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér útboðsgögn hins kærða útboðs og tilboð kæranda eins og það kemur fram á tilboðsblöðum A og B. Fyrir liggur að grein 1.1.16 í útboðsgögnum tiltekur kostnaðaráætlun fyrir hvern vagn í evrum, en ekki kemur fram hvort sú fjárhæð sé með eða án virðisaukaskatts. Þá kveður grein 1.2.2 á um að tilboðum skuli skilað í íslenskum krónum að meðtöldum virðisaukaskatti, en ekki er vikið að tilgreiningu á kostnaði í evrum. Af tilboðsblaði B verður hins vegar ráðið að bjóðendur skyldu tilgreina stofnkostnað, eða „Capital cost“, fyrir hvern boðinn vagn undir lið sem bar heitið „Capital cost (incl. VAT)“. Undir þessum lið voru tveir undirliðir sem báru heitið „Capital cost (€)“ og „Capital cost (ISK incl. VAT)“. Að mati nefndarinnar máttu bjóðendur skilja tilboðsblaðið með þeim hætti að þeir skyldu annars vegar tilgreina kostnað vegna hvers vagns í evrum án virðisaukaskatts og hins vegar kostnað fyrir hvern vagn í íslenskum krónum, miðað við viðmiðunargengi evru gagnvart krónu á skráðu gengi Seðlabanka Íslands á opnunardegi tilboða, með virðisaukaskatti í samræmi við grein 1.2.2. í útboðsgögnum. Tilboð kæranda virðist enda gert með þessum hætti, en í tilboði hans er kostnaður undir liðunum „Capital cost (€)“ tilgreindur „590.000 (€)“ og kostnaður undir liðunum „Capital cost (ISK incl. VAT)“ tilgreindur „99.200.000 Kr“. Að mati kærunefndar útboðsmála verður ekki ráðið með skýrum hætti af ákvæðum útboðsgagna að virðisaukaskatti yrði bætt við þá fjárhæð kostnaðaráætlunar varnaraðila sem var tilgreind í evrum í grein 1.1.16 í útboðsgögnum. Varnaraðili verður að bera hallann af óskýrleika útboðsgagna að þessu leyti. Verður því að leggja til grundvallar að tilboð kæranda hafi ekki verið umfram kostnaðaráætlun og að varnaraðila hafi því verið óheimilt að hafna því.

Varnaraðili hefur lýst því yfir að hinu kærða útboði sé lokið í kjölfar höfnunar tilboðs kæranda og að ekki standi til að gera samning á grundvelli þess. Eru því ekki efni til að fallast á þá kröfu kæranda að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans. Hins vegar liggur fyrir að í útboðinu barst einungis tilboð frá kæranda og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að það hafi fullnægt kröfum útboðsgagna. Verður því að miða við að kærandi hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn í hinu kærða útboði hefði ekki komið til réttarbrots varnaraðila og að möguleikar hans hafi skerst við brotið. Það er því álit kærunefndar útboðsmála að varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboðinu, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga um opinber innkaup.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður varnaraðila gert að greiða kæranda málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, Strætó bs., er skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Tyrfingssyni ehf., vegna útboðs nr. 14403, auðkennt „Purchase of Hydrogen Buses.“

Öðrum kröfum kæranda er hafnað.

Varnaraðili greiði kæranda 600.000 krónur í málskostnað.

Reykjavík, 12. desember 2019.

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta