Mál nr. 6/2010. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. mars 2010
í máli nr. 6/2010:
Securitas hf.
gegn
Ríkiskaupum
Hinn 10. mars 2010 kærði Securitas hf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboðum í útboðinu „14773: IP neyðarsímkerfi fyrir Vegagerðina“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
„1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð Ríkiskaupa og Smith & Norland hf. / Norphonic VoIP system samkvæmt útboðinu 14773, IP neyðarsímar fyrir Vegagerðina þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari.
2. Að felld verði úr gildi sú ákvörðun Ríkiskaupa 12. febrúar 2010 að velja tilboð Smith & Norland hf. / Norphonic VoIP system í útboði 14773, IP neyðarsímar fyrir Vegagerðina.
3. Að kærunefnd útboðsmála viðurkenni bótaskyldu Ríkiskaupa gagnvart kæranda vegna útboðsins.
4. Þá er krafist kærumálskostnaðar úr hendi Ríkiskaupa samkvæmt mati nefndarinnar.
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi, dags. 15. mars 2010, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.
I.
Í október 2009 auglýsti kærði útboð „14773: IP neyðarsímkerfi fyrir Vegagerðina“. Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og hinn 12. febrúar 2010 tilkynnti kærði val á tilboði Smith & Norland hf. / Norphonic VoIP system. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir vali á tilboðum og í rökstuðningi kærða kom m.a. fram að tilboð kæranda hefði verið skilyrt tilboð og þar með ógilt.
II.
Kærandi telur að kærði hafi ekki tekið lægsta tilboði sem barst í hinu kærða útboði og telur að tilboð sitt hafi ekki verið ógilt heldur fyllilega í samræmi við útboðsskilmála.
III.
Kærði segir að endanlegt samþykki tilboðs í samræmi ið 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, hafi komist á hinn 25. febrúar 2010.
IV.
Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, segir að þegar innkaupaferli ljúki með vali kaupanda á tilboði skuli líða a.m.k. tíu dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. laganna er kominn á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.
Frá því að ákvörðun um val tilboða í hinu kærða útboði var tilkynnt og þangað til tilboð voru endanlega samþykkt liðu tíu dagar. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 og þegar af þeirri ástæðu er kærunefnd útboðsmála ekki heimilt, lögum samkvæmt, að stöðva samningsgerðina.
Ákvörðunarorð:
Kröfu kæranda um að stöðvuð verði samningsgerð Ríkiskaupa og Smith & Norland hf. / Norphonic VoIP system í kjölfar útboðsins „14773: IP neyðarsímkerfi fyrir Vegagerðina“, er hafnað.
Reykjavík, 18. mars 2010.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 2010.