Mál nr. 26/2009. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 16. mars 2010
í máli nr. 26/2009:
Vátryggingafélag Íslands hf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 15. júlí 2009, kærir Vátryggingafélag Íslands hf. þá ákvörðun Ríkiskaupa og Fjallabyggðar, dags. 9. júlí 2009, að velja tilboð frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. í útboði nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð og ákvörðun um að heimila breytingu á fyrrgreindu tilboði eftir opnun tilboða. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:
1. Að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli kærða með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari.
2. Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að leyfa Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að breyta tilboðsfjárhæð sinni.
3. Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að velja tilboð frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
4. Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.
5. Þá er gerð krafa um að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi samkvæmt mati kærunefndar útboðsmála.
Kærði, Ríkiskaup, skilaði athugasemdum vegna kröfu kæranda, dags. 24. júlí 2009, þar sem hann krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst hann að kæranda verði gert að greiða málskostnað með tilvísun til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
Með ákvörðun 29. júlí 2009 tók kærunefnd útboðsmála afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis kærða og var henni hafnað.
Kærandi gerði kröfu um aðgang að nánar tilgreindum gögnum málsins með tölvubréfi, dags. 7. september 2009, og síðar með bréfi, dags. 5. október 2009. Með bréfi, dags. 2. október 2009, krafðist kærði þess að trúnaðar yrði gætt um umrædd gögn.
Með ákvörðun 29. október 2009 var kæranda veittur aðgangur að hluta þeirra gagna sem hann hafði óskað eftir.
Kærandi skilaði endanlegum athugasemdum, dags. 19. nóvember 2009. Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir því að kærði upplýsti nánar ákveðin atriði og skilaði hann endanlegri greinargerð, dags. 11. janúar 2010.
I.
Kærði, fyrir hönd Fjallabyggðar, óskaði eftir tilboðum í tryggingar fyrir Fjallabyggð og stofnanir á vegum sveitarfélagsins. Um var að ræða ábyrgðartryggingar vegna atvinnurekstrar, ökutækjatryggingar, tryggingar vegna fasteigna og fleira. Stefnt var að því að semja við einn aðila um þessi viðskipti.
Tilboð voru opnuð 22. júní 2009 og bárust tilboð frá fjórum aðilum. Við opnun voru lesin upp nöfn bjóðenda og heildarársiðgjald. Reyndust Sjóvá-Almennar tryggingar hf. eiga lægsta tilboðið og kom tilboð kæranda næst á eftir. Á opnunarfundinum lét fulltrúi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. bóka að í tilboðinu fælust öll opinber gjöld og fulltrúi kæranda að upphæð sem lesin hafði verið upp væri nettó iðgjald og opinber gjöld sem tilgreind væru á tilboðsblaði bættust við. Engin bókun eða athugasemd var gerð af hálfu Sjóvá-Almennra trygginga hf.
Sama dag og tilboð voru opnuð sendi kærandi bréf til Fjármálaeftirlitsins, þar sem vakin var athygli á því að tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. hefði verið óeðlilega lágt. Jafnframt sendi kærandi kærða bréf, þar sem vakin var athygli á sömu atriðum. Var meðal annars bent á að tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. væri óeðlilega lágt með vísan til upplýsinga um tjónakostnað sem lágu fyrir við útboðið. Þá var einnig bent á að kærandi teldi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. ekki uppfylla kröfur um fjárhagslegt hæfi. Var þess krafist að tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. yrði ógilt. Ekkert svar barst frá kærða við þessu erindi.
Þann 24. júní 2009 barst leiðrétt fundargerð vegna opnunarfundar útboðs nr. 14660 – Tryggingar fyrir Fjallabyggð. Þar hafði tilboði Sjóvá-Almennra trygginga hf. verið breytt og bætt við það 2.783.444 krónum. Kærði tilkynnti með tölvubréfi 9. júlí 2009 að ákveðið hefði verið að velja tilboð frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Fjallabyggð og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. undirrituðu samning á grundvelli útboðsins 14. október 2009.
II.
Kærandi gerir þá kröfu að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að heimila Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að breyta tilboðsfjárhæð þeirri sem lesin var upp á opnunarfundi 22. júní 2009 og engar athugasemdir voru gerðar við af hálfu fulltrúa fyrirtækisins.
Kærandi byggir á því að samkvæmt 69. gr. laga nr. 84/2007 og 8. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða skuli við opnun tilboða meðal annars lesa heildarpphæð tilboðs. Þá skuli gæta að því að lesa alltaf samsvarandi tölur frá öllum bjóðendum og að lokum skuli kaupandi og allir viðstaddir bjóðendur eða fulltrúar þeirra undirrita fundargerð. Kærandi byggir á því að heildartilboðsupphæð Sjóvá-Almennra trygginga hf. hafi verið 4.732.914 krónur en ekki 7.513.692 krónur eins og kom fram í leiðréttri fundargerð, enda hafi sú tala verið lesin upp á fundinum og engar athugasemdir verið gerðar við af hálfu Sjóvá-Almennra trygginga hf. Kærandi byggir á því að samkvæmt almennum útboðsreglum séu bjóðendur bundnir af tilboðum sínum og megi ekki breyta tilboðum sínum eftir að tilboð hafi verið opnuð, enda sé slíka heimild hvorki að finna í útboðsgögnum né lögum og reglum. Slíkum tilboðum beri að hafna og líta skuli svo á að um nýtt tilboð sé að ræða, sem berst eftir að frestur til að skila inn tilboðum sé liðinn, sbr. 7. gr. laga nr. 65/1993. Kærandi vísar einnig til þess að kærði hafi brotið almennar reglur útboðsréttar með því að heimila Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að hækka tilboð sitt tveimur dögum eftir að tilboð voru opnuð en slíkt sé meðal annars brot á 14. gr. laga nr. 84/2007.
Þá hafnar kærandi öllum staðhæfingum um að mistök hafi átt sér stað við opnun tilboða. Fulltrúi Sjóvá-Almennra trygginga hf. hafi ekki gert neinar athugasemdir við þá fjárhæð sem lesin var upp og beri því að túlka það svo að opinber gjöld hafi verið hluti af tilboðsfjárhæð enda sé það meginregla að öll gjöld séu innifalin í tilboðsfjárhæð nema þau séu sérstaklega undanþegin. Vísar hann ennfremur til greina 1.2.4 og 7. í útboðsgögnum, sem styðji þennan skilning. Loks telur kærandi að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi eftir að tilboð voru opnuð leitað leiða til að hækka tilboð sitt þar sem það hafi verið óeðlilega lágt.
Kærandi gerir kröfu um að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að velja tilboð frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Hann byggir þá kröfu á því að tilboðið hafi verið ógilt þar sem tilboðsfjárhæð hafi verið breytt eftir að tilboð voru opnuð. Beri að hafna því þar sem líta skuli svo á að það hafi borist eftir að frestur til að skila inn tilboðum var liðinn. Kærandi telur ennfremur að tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. sé ógilt þar sem félagið fullnægi ekki kröfum um fjárhagslega stöðu, sbr. ákvæði 1.2.1.2 í útboðslýsingu um fjárhagsstöðu bjóðanda. Fjárhagsstaða félagsins sé ekki nægilega trygg í skilningi laga nr. 84/2007. Samkvæmt 71. gr. laga nr. 84/2007 sé eingöngu heimilt að líta til gildra tilboða. Vísar hann til frétta sem birst hafi í fjölmiðlum um að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu í lögum um fjárhagslega getu vátryggingafélaga og þar með þær kröfur sem gerðar séu í útboðsgögnum og í 49. gr. laga nr. 84/2007.
Kærandi bendir jafnframt á að kærði hafi beðið með að velja tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. þangað til ríkissjóður hafði tekið ákvörðun um að taka þátt í endurskipulagningu félagsins. Með vísan til þessa sé ljóst að kærði hafi verið meðvitaður um að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. uppfyllti ekki kröfur útboðsins um fjárhagsstöðu og því hafi kærði ákveðið að bíða þangað til félagið gerði það. Kærandi leggur áherslu á að enga heimild sé að finna í lögum eða útboðsgögnum um að kærði megi bíða eftir því að bjóðandi uppfylli kröfur um fjárhagsstöðu bjóðanda. Það sé skýrt brot á 14. gr. laga nr. 84/2007.
Þá byggir kærandi á því að kærða sé óheimilt að gera samning við Sjóvá-Almennar tryggingar hf., sbr. 1. mgr. 47. gr. laga nr. 84/2007 og grein 1.2.1.1 „Persónulegar aðstæður bjóðanda“ í útboðsgögnum. Samkvæmt fréttum sem birst hafi í fjölmiðlum hafi Fjármálaeftirlitið vísað málum er varða Sjóvá-Almennar tryggingar hf. til sérstaks saksóknara. Kærandi byggir á því að fyrrgreint ákvæði laga nr. 84/2007 standi því í vegi að kærði gangi frá bindandi samningi við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Þá telur hann ennfremur að óheimilt sé að semja við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vegna ákvæðis 50. gr. laga nr. 84/2007 og greinar 1.2.1.3 „Tæknileg geta“ í útboðsgögnum. Stofnað hafi verið nýtt félag undir merkjum Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem taki yfir vátryggingastarfsemi félagsins. Ekkert liggi fyrir um að það félag fái öll leyfi og réttindi vátryggjenda.
Loks byggir kærandi á því að tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. hafi verið óeðlilega lágt og því hafi kærða borið með vísan til 73. gr. laga nr. 84/2007 að hafna tilboði félagsins. Byggir hann á því að ástæða þess að tilboðið hafi verið óeðlilega lágt sé meðal annars sú að félagið sé ríkisstyrkt.
Að lokum fer kærandi fram á að kærunefnd útboðsmála tjái sig um bótaskyldu kærða og grundvöll skaðabóta, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Samkvæmt því sem fram hafi komið séu hinar kærðu ákvarðanir kærða andstæðar lögum og þar af leiðandi ógildar. Ljóst sé að ef ekki hefði komið til þessara ólögmætu ákvarðana hefði kærandi verið lægstbjóðandi. Telur kærandi að kærða beri því að ganga til samninga við hann sem lægstbjóðanda eða að öðrum kosti greiða skaðabætur.
Í síðari athugasemdum kæranda mótmælir hann því að tilboð hans og Sjóvá-Almennra trygginga hf. hafi verið sett fram á nákvæmlega sama hátt. Leggur hann áherslu á að hann hafi tekið það skýrt fram á tilboðsblaði að til viðbótar bættust opinber gjöld og hann hafi gert athugasemd við það um leið og lesin hafi verið upp röng tilboðsfjárhæð á opnunarfundi. Á tilboðsblaði Sjóvá-Almennra trygginga hf. hafi hins vegar ekkert verið kveðið á um opinber gjöld heldur einungis staðið ein heildartala. Það sé því ljóst að opinberum gjöldum hafi verið bætt við eftir opnun tilboða í tilviki Sjóvá-Almennra trygginga hf.
III.
Kærði telur að kæra þessi sé á misskilningi byggð og því eigi ekki að taka hana til greina. Telur hann að af kröfu kæranda megi ráða að hann telji að tilboðsverðum hafi verið breytt eftir á. Bendir hann á að kærandi og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. setji tilboð sín fram á nákvæmlega sama hátt, tilboðsupphæðir án opinberra gjalda séu settar inn í viðkomandi línu á tilboðsblaði. Kærandi breyti síðan tilboðsblaði, skrifað sé inn á tilboðsblað undir tilboðsupphæð „opinber gjöld til viðbótar“ án frekari skýringa. Í fylgiskjölum með tilboði Sjóvá-Almennra trygginga hf. komi hins vegar fram sundurliðun á þeim gjöldum sem séu til viðbótar iðgjaldi af vátryggingafjárhæð. Telur kærði að sami skilningur hafi verið hjá báðum aðilum, kæranda og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., um hvernig ætti að fylla út tilboðsblöðin. Sú staðreynd að fulltrúi kæranda hafi gert athugasemd á opnunarfundi tilboða um að þessi gjöld bætist við en fulltrúi Sjóvá-Almennra trygginga hf. ekki breyti engu um tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. Tilboð þeirra séu samanburðarhæf miðað við framsetningu á tilboðsblöðum og jafnræði bjóðenda hafi ekki verið skert. Báðir bjóðendur hafi sett tilboðsupphæð á þar tilgreindar línur, kærandi hafi bætt áðurgreindum gjöldum í línu sem hann útbúi sjálfur á tilboðsblaði en Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi tilgreint þau á fylgiblaði með tilboði. Þá greinir kærði frá því að í grein 2.1. í útboðsgögnum „Þarfalýsing“ hafi ekki verið óskað eftir að tilgreind yrðu ákveðin gjöld sem tryggingarfélög innheimti fyrir ríkissjóð. Hann lítur ekki svo á að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi verið leyft að breyta tilboðsupphæð sinni heldur sé hér aðeins um skýringu að ræða vegna athugasemda sem komu fram eftir að tilboð höfðu verið opnuð.
Kærði bendir á að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi viðeigandi leyfi frá Fjármálaeftirlitinu og hafi þau fylgt með tilboðinu ásamt tölvupósti frá 23. júní 2009, þar sem staðfest sé að félagið hafi gilt rekstrarleyfi til að stunda vátryggingarstarfsemi hér á landi.
Kærði leggur áherslu á að mat tilboða hafi eingöngu byggst á verði. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi boðið hagstæðasta tilboðið og því hefði það ekki talist samrýmast lögum nr. 84/2007 að velja tilboð kæranda. Þá mótmælir kærði fullyrðingum kæranda um að tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. uppfylli ekki kröfur um fjárhagsstöðu bjóðenda. Það sé fráleitt. Kærandi vísi eingöngu til fréttaflutnings um félagið en sé ekki kunnugt um hvaða gögn hafi verið lögð fram. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi lagt fram endurskoðaða áritaða ársreikninga fyrir árin 2006-2008. Það sé mat kaupanda að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi uppfyllt þær fjárhagskröfur sem gerð hafi verið krafa um í útboðsgögnum. Þá bendir kærði á að það sé málinu óviðkomandi að hann hafi beðið eftir að velja tilboðið þar til ríkissjóður hafi ákveðið að taka þátt í endurskipulagningu félagsins. Það hafi ekkert haft með framgang málsins að gera heldur hafi þetta snúist um ákvarðanatöku hjá kaupanda, Fjallabyggð.
Kærði leggur áherslu á að ekkert liggi fyrir um að tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. hafi verið óeðlilega lágt heldur megi frekar líta svo á að það sé sérlega hagstætt fyrir kaupanda. Þegar tilboð voru opnuð hafi ekkert legið fyrir um að ríkið myndi koma að endurfjármögnun félagsins. Mat tilboða byggi ekki á þeim upplýsingum komi fram í fjölmiðlum eftir opnun þeirra enda samrýmist það ekki lögum nr. 84/2007 að meta tilboð á öðrum forsendum en fram koma í tilboðum og öðrum gögnum, sem talin séu upp í útboðsgögnum og kærði áskilji sér að óska eftir á síðari stigum. Bendir hann á að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi lagt fram þau gögn sem óskað var eftir. Þá hafi einnig verið leitað eftir staðfestingu frá Fjármálaeftirlitinu um leyfi Sjóvá-Almennra trygginga hf. til að stunda vátryggingastarfsemi eins og áður hefur verið rakið.
Kærði bendir ennfremur á að á opnunarfundinum hafi viðkomandi verkstjóri tilkynnt viðstöddum aðilum að hann myndi fara yfir öll tilboðin til að kanna hvort umrædd innheimtugjöld fyrir ríkissjóð væru innifalin í tilboðum og myndi þá gera leiðréttingu sem yrði send til allra. Sú leiðrétting hafi síðan verið send öllum bjóðendum eins og fram hafi komið.
Kærði telur að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að um brot sé að ræða og því beri að hafna öllum kröfum hans.
Í síðari athugasemdum kærða bendir hann á að í heildarársiðgjaldið á tilboðsblaði 1 af 2 hafi vantað opinber gjöld hjá tveimur bjóðendum vegna mistaka við gerð tilboðsblaðsins. Því hafi opinber gjöld komið til viðbótar bæði við tilboð kæranda og tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. Þá leggur kærði áherslu á að kærandi hafi ekki aðgang að tilboði Sjóvá-Almennra trygginga hf. og geti því ekki fullyrt að opinber gjöld vanti í tilboðið, en tölur um opinber gjöld komi fram annars staðar í tilboðinu. Kærði bendir á að tilgangur opnunarfundar sé að lesa upp það sem fram komi í tilboðum og sé skilgreint í grein 1.1.11 í útboðsgögnum. Viðstöddum sé boðið að láta bóka athugasemd við framkvæmd fundarins og hafi tveir af fjórum bjóðendum kosið að gera það. Þá áréttar kærði að eins og vinnuregla segi til um hafi verkefnastjóri tilkynnt að farið yrði yfir fram komin tilboð til að kanna hvort heildarársiðgjald sem lesið hafi verið upp væri með eða án opinberra gjalda og að send yrði út leiðrétt opnunarfundargerð í kjölfarið. Engin hafi mótmælt því á fundinum.
Kærði bætir því einnig við að hann hafi óskað eftir frekari upplýsingum um Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hjá Fjármálaeftirlitinu. Fram hafi komið að vátryggingarekstur félagsins hefði verið með ágætum síðastliðin ár og að sá vandi sem félagið hefði ratað í og væri verið að leysa úr stafaði ekki af slælegum vátryggingarekstri.
IV.
Í máli þessu reynir einkum á það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 84/2007 með því að hafa gefið út leiðrétta fundargerð tveimur dögum eftir að tilboð voru opnuð, en kærandi telur að með því hafi kærði heimilað Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að breyta tilboði sínu eftir á, og hins vegar hvort kærða hafi verið óheimilt að velja tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf., þar sem það hafi verið ógilt, sbr. 71. gr. laga nr. 84/2007.
Við mat á því hvort kærði hafi heimilað Sjóvá að breyta tilboði sínu eftir opnun tilboða ber að líta til greinar 1.2.4 í útboðsskilmálum. Þar segir: „Tilboð skulu innihalda allan kostnað og gjöld sem hljótast af verkinu, hverju nafni sem þau nefnast.“ Þá segir ennfremur í 69. gr. laga nr. 84/2007 að við opnun tilboða eigi bjóðendur rétt á að lesnar séu upp meðal annars upplýsingar um heildartilboðsupphæð.
Í útboðsgögnum eru yfirleitt gerðar kröfur um tiltekið form tilboða. Þannig eiga bjóðendur almennt að setja tilboð sín fram á sérstökum tilboðsblöðum, þar sem fram eiga að koma tilteknar upplýsingar. Engu að síður hefur jafnan verið litið svo á að heimilt sé að taka tilboð til skoðunar þótt framsetningu hafi verið ábótavant ef allar nauðsynlegar upplýsingar koma fram í tilboði og augljóst er að jafnræði bjóðenda sé ekki raskað.
Í grein 1.1.5 í útboðsskilmálum segir: „Ef reiknivillur eða ósamræmi er í tilboði, ræður það einingaverð sem fram kemur á tilboðsblöðum og skal tilboð leiðrétt með tilliti til þess.“ Telur nefndin að hafa beri mið af þessu við mat á framangreindu úrlausnarefni.
Ljóst er að á tilboðsblaði Sjóvá-Almennra trygginga hf. voru opinber gjöld ekki tilgreind. Þessi gjöld var hins vegar að finna með skýrum hætti annars staðar í tilboðinu og verður því að meta þær upplýsingar sem gildar. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. var því ekki gefinn kostur á að breyta tilboði sínu eftir opnun heldur lágu öll verð fyrir í upphafi. Því verður ekki talið að um brot á lögum nr. 84/2007 hafi verið að ræða.
Tilboðsblaði, eins og það var upphaflega framsett af hálfu kærða, var verulega áfátt sökum óskýrleika og gat gefið tilefni til misskilnings líkt og raunin varð á. Þannig var beðið um árlega tilboðsfjárhæð með virðisaukaskatti en ekki árlega tilboðsfjárhæð með opinberum gjöldum líkt og hefði átt að koma fram. Lögum samkvæmt eru vátryggingafélög ekki virðisaukaskattskyld og var því villandi að nefna virðisaukaskatt sérstaklega í tilboðsblaði.
Fram er komið að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. skilaði öllum umbeðnum gögnum, þar með talið ársreikningum fyrir árin 2006-2008, svo hægt væri að meta fjárhagslega stöðu félagsins. Þá var aflað sérstaklega upplýsinga frá Fjármálaeftirlitinu um heimildir félagsins til vátryggingastarfsemi. Í ljósi alls þessa telur kærunefnd útboðsmála að kærði hafi ekki haft ástæðu til annars en að meta tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. gilt á grundvelli 71. gr. laga nr. 84/2007.
Kærandi krefst þess að kærunefnd felli annars vegar úr gildi ákvörðun kærða að leyfa Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að breyta tilboðsfjárhæð sinni og hins vegar ákvörðun kærða að velja tilboð Sjóvá-Almennra trygginga hf. Samningur kaupanda og Sjóvá-Almennra trygginga hf. var undirritaður 14. október 2009. Kominn er á bindandi samningur í samræmi við 76. gr. laga nr. 84/2007 og verður hann því ekki ógiltur, sbr. 100. gr. sömu laga. Verður því að hafna kröfum kæranda um að fella framangreindar ákvarðanir kærða úr gildi.
Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á því hvort kærði sé skaðabótaskyldur, sbr. 1. gr. 101. gr. laga nr. 84/2007. Í ákvæðinu er mælt fyrir um skaðabótaskyldu vegna tjóns sem hlotist hefur vegna brota kaupanda á lögum og reglum um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu eru sett tvenns konar skilyrði fyrir skaðabótaskyldu. Annars vegar þarf að vera um að ræða brot á lögum eða reglum um opinber innkaup. Hins vegar þarf bjóðandi að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brotið. Kærandi þarf ekki að sýna fram á að tilboð hans hefði verið valið, aðeins að hann hafi átt raunhæfa möguleika. Eins og að framan er rakið verður ekki talið að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 84/2007, þrátt fyrir að framsetningu útboðsgagna hafi verið ábótavant. Eru þannig skilyrði 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 ekki fyrir hendi.
Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins verður kærða ekki gert að greiða kæranda kostnað.
Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt seinni málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Ekki verður talið að efni séu til að beita ákvæðinu í máli þessu.
Úrskurður kærunefndar í máli þessu hefur dregist nokkuð af óviðráðanlegum ástæðum.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda, Vátryggingafélags Íslands hf., um að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, að leyfa Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að breyta tilboðsfjárhæð sinni er hafnað.
Kröfu kæranda, Vátryggingafélags Íslands hf., um að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, að velja tilboð frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er hafnað.
Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Ríkiskaup, sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Vátryggingafélagi Íslands hf.
Kröfu kæranda, Vátryggingafélags Íslands hf., um að kærði, Ríkiskaup, greiði honum kostnað við að hafa kæruna uppi er hafnað.
Kröfu kærða, Ríkiskaupa, um að kæranda, Vátryggingafélagi Íslands hf., verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs, er hafnað.
Reykjavík, 16. mars 2010.
Páll Sigurðsson,
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 16. mars 2010.