Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 7. apríl 2009

í máli nr. 11/2009:

Inter ehf.

gegn

Ríkiskaupum           

Með bréfi, dags. 31. mars 2009, kærði Inter ehf. ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um að taka tilboði Icepharma hf. í ­útboði 14486 – Lease of video Endoscopy Systems for gastrointestinal and respiratory applications. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Kærandi krefst þess að:

1.      að kærunefndin stöðvi gerð samnings við Icepharma þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir í máli þessu.

2.      að kærunefndin felli úr gildi ákvörðun kærða um að velja tilboð frá Icepharma og hafna tilboði kæranda.

3.      að kærunefnd ógildi útboðsferlið og leggi fyrir kærða að bjóða innkaupin út að nýju í ljós þeirra annmarka sem eru á útboðsferlinu og/eða útboðsskilmálum.

4.      Hafi kærði allt að einu og þrátt fyrir framlagningu þessarar kæru til nefndarinnar þegar gengið til samninga við Icepharma, fer kærandi þess á leit við nefndina að hún láti í ljós álit sitt á því hvort kærandi eigi rétt á skaðabótum frá kærða vegna framkvæmdar útboðsins, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

5.      Að kærunefndin geri kærða að leggja fram, sbr. 5. mgr. 95. gr. laga nr. 84/2007 öll gögn er málið varðar, einkum niðurstöðu varðandi mat á tilboðum, nákvæmari sundurliðun einkunna um mat á gæðum tilboða kæranda og Icepharma, upplýsingar þær sem Icepharma var gert að leggja fram um notkun tæknibúnaðar skv. grein 2.3 í útboðsskilmálum sem og gögn er varða skipan matshóps og þá ítarlegu skoðun hópsins sem vísað er til í rökstuðningi.

6.      Að kærunefndin úrskurði að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi kærða, dags. 6. apríl 2009, bárust athugasemdir kærða vegna kröfu um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í september 2008 auglýsti kærði útboðið „14486 – Lease of video Endoscopy Systems for gastrointestinal and respiratory applications”. Kærandi var einn bjóðenda í útboðinu. Með tölvupósti, dags. 4. mars 2009, tilkynnti kærði „að ákveðið [hefði] verið að velja tilboð frá Icepharma í ofangreindu útboði, enda tilboðið metið hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt matslíkani útboðslýsingar“. Með tölvupósti, dags. 17. mars 2009, tilkynnt kærði að framangreint tilboð hefði verið endanlega samþykkt.

 

II.

Kærandi telur að tilboð Icepharma sé ekki í samræmi við útboðsskilmála, nánar til tekið tæknilegar kröfur, og kærða hafi því borið að hafna tilboðinu sem ógildu. Kærandi telur m.a. að reikniformúla útboðsskilmála sé gölluð og hafi ekki verið beitt með sama hætti gagnvart öllum bjóðendum. Þá telur kærandi að einkunnagjöf fyrir verð og fleiri matsliði sé röng.

 

III.

Kærði lýsir því yfir að tilboð hafi verið endanlega samþykkt innan gildistíma þeirra og þar með sé kominn á bindandi samningur. Gögn málsins staðfesta þetta.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. laganna er kominn á verður hann þó ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna. Frá því að ákvörðun um val tilboða var tilkynnt og þangað til tilboð voru endanlega samþykkt liðu tíu dagar. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 og þegar af þeirri ástæður er ekki heimilt, lögum samkvæmt, að stöðva samningsgerðina.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Inter ehf., um að samningsgerð við Icepharma hf. verði stöðvuð á meðan leyst er úr kæru vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14486, er hafnað.

 

 

                                                                     Reykjavík, 7. apríl 2009.

                                                                     Páll Sigurðsson

                                                                     Sigfús Jónsson

                                                                     Stanley Pálsson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,           . apríl 2009.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta