Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 23/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 23/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að þann 25. ágúst 2008 var umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur tekin til afgreiðslu hjá Vinnumálastofnun og samþykkt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kæranda var sagt upp störfum hjá X ehf. og samkvæmt vinnuveitandavottorði, dags. 1. ágúst 2008, átti kærandi inni 48 orlofsdaga við starfslok. Þar sem kærandi fyllti ekki út lið L í umsókn um atvinnu, þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og atvinnuleysistryggingum, þar sem gert er ráð fyrir upplýsingum um ráðstöfun ótekins orlofs og greiðslum vegna starfsloka, voru orlofsdagar hennar skráðir inn í upphafi bótatímabils. Engar upplýsingar lágu fyrir af hálfu kæranda um töku orlofsins sem hún virtist eiga ótekið og komu orlofsdagarnir því til framkvæmda strax í upphafi og byrjaði kærandi á því að taka út áunnið orlof. Var tímabil orlofstöku samkvæmt áunnum orlofsdögum frá 1. ágúst til 7. október 2008. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 2. október 2008. Hún krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð og að niðurstaða Vinnumálastofnunar verði leiðrétt. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið samþykkt á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar með vísan til framlagðra gagna.

Kærandi starfaði sem skrifstofumaður hjá X ehf. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi veitti starfsmanni úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða símleiðis 14. apríl sl. starfaði hún þar til 1. maí 2008 en var þá sagt upp störfum vegna samdráttar. Hún stóð í þeirri trú að hún ætti rétt á greiðslum á þriggja mánaða uppsagnarfresti og af þessum sökum er 31. júlí 2008 tilgreindur sem síðasti vinnudagur hennar í gögnum málsins. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti skattstjórans í R fyrir 2008 hafði kærandi tekjur hjá X ehf. frá janúar 2008 til og með apríl 2008.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. ágúst 2008. Í vottorði vinnuveitanda, dags. 1. ágúst 2008 kemur fram að kærandi eigi ótekna 48 daga í orlof við starfslok. Í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram að vottorð vinnuveitanda hafi verið vitlaust útfyllt þegar hún skilaði því inn og hún kveðst hafa gert viðvart um það þegar hún skráði sig atvinnulausa. Henni hafi verið sagt að hún gæti sent Vinnumálastofnun tölvupóst og yrði athugasemd hennar tekin til greina. Hafi hún gert það en það hafi ekki borið árangur, hún hafi ekki fengið atvinnuleysisbætur. Kærandi kveður launaforrit fyrirtækisins ekki hafa verið virkt þegar útfylling vottorðsins átti sér stað af hálfu vinnuveitanda og því hafi útfylling eyðublaðsins verið röng. Allt hafi verið áætlað og þar af leiðandi sé hún að reyna að sanna mál sitt. Enn fremur kemur fram af hálfu kæranda að hún hafi síðastliðinn vetur tekið 4 vikur í sumarfrí vegna undirbúnings fyrir fermingarveislu dóttur sinnar og hún hafi því ekki átt 48 daga inni í orlof.

Kærandi hefur lagt fyrir úrskurðarnefndina yfirlýsingu B vinnuveitanda, dags. 6. febrúar 2009. Þar segir að við gerð vottorðs vinnuveitanda hafi verið gerð mistök við útfyllingu vegna starfsmannsins A. Á vottorðinu sé spurt hvort um sé að ræða ótekið orlof við starfslok og hafi bréfritari hakað þar við já og tilgreint ákveðinn dagafjölda. Sé þessi misskilningur byggður á því að bréfritari sé með lesblindu og hafi lesið þessa spurningu á þá leið að spurt hafi verið hvort A hafi tekið orlof út, sem hún hafi verið búin að gera fyrr á umræddu orlofsári. Þess vegna hafi átt að haka við nei. Vonar hann að útskýringar hans leiðrétti misskilning sem hér hafi orðið vegna mistaka hans. Máli sínu til stuðnings fylgir bréfinu staðfesting C, sérkennara, á lesblindu bréfritara, dags. 26. febrúar 1992. Þar kemur fram að B eigi í miklum lestrarörðugleikum bæði mælt á mælistiku lestrarhraða og lesskilnings. Ljóst sé að allt bóklegt nám sé honum erfitt vegna þessa. Möguleikar hans til að tjá sig skriflega séu mjög takmarkaðir.

Eftir að kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. október 2008 leitaði nefndin eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til málsins. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu 4. desember 2008, kemur fram að samkvæmt vinnuveitendavottorði X ehf. hafi kærandi átt inni 48 orlofsdaga. Þar sem hún hafi ekki fyllt út lið L, upplýsingar um ráðstöfun ótekins orlofs og greiðslur vegna starfsloka, í umsókn um atvinnu og atvinnuleysisbætur hafi orlofsdagarnir verið skráðir inn í upphafi bótatímabils. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi átt ótekið orlof við starfslok sem nam nefndum 48 dögum. Ekki hafi komið fram óskir af hálfu kæranda um orlofstökuna og hafi orlofsdagarnir því komið til framkvæmda strax í upphafi. Tímabil orlofstöku samkvæmt áunnum orlofsdögum hafi verið frá 1. ágúst til 7. október 2008. Kærandi staðhæfi að vinnuveitandavottorð hafi verið ranglega útfyllt en hún hafi þó ekki skilað inn nýju vinnuveitandavottorði sem henni bæri að gera til að fylgja umsókn sinni eftir. Það sé á ábyrgð atvinnuleitanda að leggja fram gögn og að framlagðar upplýsingar séu réttar. Vinnumálastofnun geti einungis farið eftir þeim gögnum sem lögð séu fram og lagt þau til grundvallar ákvörðunum sínum.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi kveðst strax við umsókn um atvinnuleysisbætur hafa gert viðvart um villu í vinnuveitandavottorði og henni hafi þá verið leiðbeint um það með hvaða hætti hún gæti komið að athugasemdum um þá villu. Tilraunir hennar til slíkrar leiðréttingar hafi hins vegar ekki borið árangur. Af hálfu Vinnumálastofnunar er því haldið fram að stofnunin hafi aðeins getað tekið ákvörðun um greiðslu bóta til kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ljóst virðist að þegar stofnunin tók ákvörðun í málinu hafi engar upplýsingar legið fyrir um mögulega villu í vinnuveitanda­vottorði og því virðist niðurstaða stofnunarinnar hafa verið rétt miðað við fyrirliggjandi forsendur.

Við umfjöllun málsins fyrir úrskurðarnefndinni hafa komið fram frekari upplýsingar og gögn um málið sem renna stoðum undir þá fullyrðingu kæranda að villa hafi verið gerð við útfyllingu vinnuveitandavottorðs. Auk þeirra fyrirliggjandi gagna er gera slíka villu líklega hefur verið lagt fram yfirlit frá skattstjóra sem staðfestir að kærandi fékk aðeins greidd laun fyrstu fjóra mánuði síðasta árs og því verður ekki séð að hún hafi fengið greitt út ótekið orlof árið 2008. Þar sem framangreindar upplýsingar í málinu lágu ekki fyrir þegar ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin kemur til greina að málinu verði aftur vísað til umfjöllunar Vinnumálastofnunar. Þar sem afstaða stofnunarinnar hefur hins vegar komið skýrt fram við vinnslu málsins hjá úrskurðarnefndinni og málið telst vera að fullu rannsakað, og með hliðsjón af hagsmunum kæranda af því að fá niðurstöðu í málinu án frekari dráttar, telur úrskurðarnefndin rétt að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins benda til þess að kærandi hafi ekki átt ótekið orlof við starfslok hjá X ehf., um mistök þar að lútandi hafi verið að ræða við útfyllingu vottorðs vinnuveitanda og hefur kærandi lagt fram gögn því til staðfestu. Með hliðsjón af þessum upplýsingum var ekki rétt að draga frá tryggingabótum hennar sem nemur 48 orlofsdögum í upphafi bótatímabilsins frá 1. ágúst til 7. október 2008. Þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar er því hrundið.

 

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi. Kærandi, A, á rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið frá 1. ágúst til 7. október 2008.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta