Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 174.2023 Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 174/2023

Fimmtudaginn 11. maí 2023

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar frá 9. janúar 2023 um að synja umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Í september 2022 endurnýjaði kærandi umsókn sína um félagslegt leiguhúsnæði hjá Kópavogsbæ en hún hafði verið á biðlista eftir húsnæði frá mars 2021. Umsókn kæranda var synjað af velferðarsviði Kópavogsbæjar þann 7. nóvember 2022 með þeim rökum að lágmarksstigafjölda væri ekki náð. Velferðarráð Kópavogsbæjar staðfesti þá ákvörðun á fundi 9. janúar 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. mars 2023. Með bréfi, dags. 30. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð sveitarfélagsins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 14. apríl 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er greint frá bakgrunni kæranda og núverandi stöðu. Tekið er fram að kærandi sé búsett í leiguhúsnæði í Kópavogi og hafi verið með sama lögheimili í sex ár. Kærandi hafi ávallt staðið í skilum með afborgun á leigu en núverandi húsnæðisaðstæður hennar séu hins vegar afar óöruggar þar sem húsnæðið hafi verið selt og keypt fjórum sinnum á þessu tímabili. Slíkar breytingar reynist kæranda mjög erfiðar  og valdi henni miklu álagi sökum veikinda. Þar að auki sé sterkur grunur um myglu í húsnæðinu en gæludýr kæranda séu farin að æla blóði og hún sjálf sé með mikið af líkamlegum einkennum sem bendi til þess. Búsetuaðstæður kæranda séu því að hafa neikvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu hennar ásamt því að hamla bata.

Kærandi hafi ekki tök á því að sinna húsnæðisleit sjálf sökum veikinda sinna en fjölskylda hennar hafi reynt að aðstoða hvað það varðar. Kærandi eigi erfitt með að halda utan um sín fjármál sjálf og hafi almennt lítið ráðstöfunarfé. Kærandi nái sjaldan endum saman og þarfnist mikils fjárhagslegs stuðnings frá foreldrum sínum í hverjum mánuði. Sökum fjárhagslegra erfiðleika kæranda hafi ekki fundist húsnæði á almennum leigumarkaði sem henti þörfum hennar og hún ráði við að greiða af.

Húsnæðisvandi kæranda sé brýnn en samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga beri sveitarfélögum að veita þjónustu sem sé til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Ljóst sé að vandi kæranda sé mjög flókinn og öryggi á húsnæðismarkaði sé grunnforsenda þess að hún geti tekist á við andlegan og líkamlegan heilsubrest sinn og geti ráðið fram úr sínum málum sjálf með viðeigandi stuðningi.

Bent sé á að lítið hafi breyst í félagslegum aðstæðum kæranda frá því að umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið samþykkt hjá Kópavogsbæ árið 2020 og endurnýjun umsóknar um félagslegt húsnæði árið 2021. Kærandi fái greidda aldurstengda örorkuuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Það sé nú mat sveitarfélagsins að sökum þess hafi kærandi of háar tekjur til þess að ná viðmiðunarmörkum stigafjölda til þess að geta sótt um félagslegt leiguhúsnæði. Ráðstöfunartekjur kæranda dugi þó skammt og ekki sé fyrirséð að hún geti fundið húsnæði á almennum leigumarkaði. Ekki sé nægilega horft til erfiðra félagslegra aðstæðna kæranda við mat Kópavogsbæjar á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði. Því sé óskað eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála meti málefni kæranda í samhengi við 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði hjá sveitarfélaginu 22. mars 2021. Samkvæmt 2. gr. reglna um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogsbæjar séu félagslegar leiguíbúðir ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra erfiðleika. Réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar sé bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk og félagslegum aðstæðum sem séu metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sbr. meðfylgjandi matsblað.

Kærandi hafi við upphaflega umsókn sína í mars 2021 verið metin með 18 stig af 24 mögulegum og því verið sett á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Kærandi hafi endurnýjað umsókn sína í september 2022. Á umsóknareyðublaði sem kærandi hafi fyllt út komi fram að umsókn með 17 stig eða fleiri sé sett á biðlista en umsókn með færri stig teljist ekki gild og því endursend. Við vinnslu umsóknarinnar hafi verið farið yfir fylgiskjöl með umsókn og svokallað matsblað verið fyllt út. Þá hafi komið í ljós að umsækjandi hafi hlotið 13 stig og því hafi umsóknin ekki uppfyllt lágmarksviðmið um að komast á biðlista. Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi ráðgjafar- og íbúðadeildar Kópavogsbæjar, dags. 7. nóvember 2022, að umsókn um félagslega leiguíbúð væri synjað þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um stigafjölda. Kærandi hafi áfrýjað synjuninni til velferðarráðs Kópavogsbæjar sem hafi tekið áfrýjunina fyrir á fundi þann 9. janúar 2023. Velferðarráð hafi staðfest ákvörðun ráðgjafar- og íbúðadeildar.

Að öllu framangreindu virtu telji velferðarsvið Kópavogsbæjar að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda þar sem umsóknin uppfylli ekki skilyrði um lágmarksstigafjölda til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að lágmarksstigafjölda væri ekki náð samkvæmt reglum sveitarfélagsins um félagslegt leiguhúsnæði.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogsbæjar er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 1. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra erfiðleika. Undir reglurnar falli almennar félagslegar leiguíbúðir, íbúðir sérstaklega ætlaðar öldruðum og sértæk búsetuúrræði, sbr. 2. mgr. 1. gr. Í 2. gr. reglnanna segir að réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar sé bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk og félagslegum aðstæðum sem séu metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sbr. matsreglur í viðauka við reglurnar. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. reglnanna að um tekju- og eignamörk leigjenda fari eftir ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 183/2020 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir.

Kópavogsbær hefur vísað til þess að á umsóknareyðublaði sem kærandi hafi fyllt út komi fram að umsókn með 17 stig eða fleiri sé sett á biðlista en umsókn með færri stig teljist ekki gild og sé því endursend. Kærandi hafi hlotið 13 stig og hafi því ekki uppfyllt lágmarksviðmið um að komast á biðlista.

Í þeim þætti matsins er varðar árstekjur umsækjanda fékk kærandi réttilega metin níu stig en samkvæmt fyrirliggjandi greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins vegna ársins 2022 voru árstekjur hennar áætlaðar 4.751.517 kr. Fyrir húsnæðisaðstæður fékk kærandi tvö stig vegna yfirvofandi missis húsnæðis og að engu að hverfa, óöruggt húsnæði, sem úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við, enda verður ekki séð að húsnæðisaðstæður kæranda geti verið metnar til þriggja stiga. Staða kæranda var réttilega metin til eins stigs þar sem hún er 75% öryrki. Kærandi fékk réttilega metið eitt stig fyrir aldur umsóknar þar sem upphafleg umsókn hennar er frá mars 2021 og var endurnýjuð í september 2022. Kærandi fékk ekkert stig fyrir félagslegar aðstæður en gögn málsins benda þó til þess að C-liður gæti átt við um hennar aðstæður. Þar kemur fram að eitt stig sé gefið vegna stuðnings, ef viðkomandi sé í endurhæfingu vegna geðsjúkdóma eða fíknivanda eða búi við fötlun sem krefjist stuðningsþjónustu. Ef fallist yrði á að kæranda bæri eitt stig fyrir félagslegar aðstæður er þrátt fyrir það ljóst að það stig nægir ekki til að ná lágmarksviðmiðinu, 17 stigum, og myndi ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera aðrar athugasemdir við mat Kópavogsbæjar. Samkvæmt framangreindu var umsókn kæranda metin til 13 stiga, en hefði að hámarki getað verið metin til 14 stiga, og uppfyllti hún því ekki skilyrði 2. gr. reglna Kópavogsbæjar um útleigu á félagslegum leiguíbúðum. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Kópavogsbæjar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar frá 9. janúar 2023 um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta