Hoppa yfir valmynd

Nr. 268/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 268/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050032

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. maí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Úganda (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. maí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 23. október 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 30. janúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 12. maí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. maí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 4. júní 2020 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn 10. og 14. júlí 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 10. júlí 2020 ásamt talsmanni sínum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og að honum sé lögregluvernd útilokuð af þeim sökum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra skuli fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til frásagnar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þar sem kærandi hafi greint frá því að hann hafi alist upp í þorpinu [...] í [...] héraði í Úganda. Kærandi hafi greint frá því að hann væri samkynhneigður og að hann hafi m.a. tekið þátt í störfum á vegum samtakanna [...] sem beiti sér fyrir réttindum LGBTQ+ einstaklinga í Úganda. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi neyðst til að flýja heimaþorp sitt í febrúar 2017 eftir að upp hafi komist um kynhneigð hans. Sveitastjórn í heimaþorpi kæranda hafi ákveðið að hann skyldi gerður brottrækur úr þorpinu og fjölskylda hans hafi afneitað honum í kjölfarið. Kærandi hafi flúið til Kampala þar sem hann hafi dvalið hjá vini sínum. Honum hafi svo tekist að flýja heimaríki sitt í október 2019. Kærandi hafi greint frá því að samkynhneigðir einstaklingar séu réttindalausir í Úganda og eigi á hættu að vera fangelsaðir eða teknir af lífi. Þá vísar kærandi til viðtals síns hjá Útlendingastofnun í tengslum við kynhneigð hans og upplifun.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður maður frá Úganda, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Samkynhneigð sé refsiverð í heimaríki hans og hann geti því ekki leitað verndar hjá yfirvöldum. Telur kærandi að framangreint bendi til þess að ótti hans sé ástæðuríkur og að skilyrðum 1. mgr. 37. gr. laganna sé fullnægt. Til stuðnings kröfu sinni gerir kærandi grein fyrir aðstæðum LGBTQ+ einstaklinga í Úganda með vísan til alþjóðlegra skýrslna, þar sem fram komi að kynferðislegar athafnir milli einstaklinga af sama kyni séu refsiverðar samkvæmt hegningarlögum ríkisins. Þá verði LGBTQ+ einstaklingar fyrir ofbeldi, mismunun og annarri misnotkun á grundvelli kynhneigðar sinnar í Úganda á ýmsum sviðum samfélagsins.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulment, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að verða fyrir pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimaríki verði honum gert að snúa þangað. Með hliðsjón af framangreindu er þess krafist til þrautavara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þá einkum við hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað hjá stofnuninni. Kærandi gerir athugasemd við niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kæranda hafi ekki tekist að leiða líkur að því að hann sé samkynhneigður né að hann eigi í sérstakri hættu á að sæta ofsóknum í heimaríki sínu og telur röksemdir fyrir henni ekki byggðar á nægilega traustum grunni. Kærandi telur að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til menningarlegs bakgrunns hans og ólíkra menningarlegra viðhorfa. Vísar kærandi til atriða sem komi fram í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um trúverðugleikamat máli sínu til stuðnings. Kærandi telur að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga trúverðugleika hans í efa eða benda til þess að atburðarás sú sem hann hafi lýst hafi ekki verið með þeim hætti sem kærandi hafi kveðið á um. Loks vísar kærandi til þess að í samræmi við meginreglur flóttamannaréttar skuli túlka allan vafa í máli kæranda honum í hag.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.AuðkenniÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað úgöndsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé úgandskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úganda m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Uganda (United States Department of State, 11. mars 2020);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Uganda (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note: Uganda: Sexual orientation and gender identity and expression (U.K. Home Office, apríl 2019);
  • Freedom in the World 2020 – Uganda (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Freedom on the Net 2019 – Uganda (Freedom House, 4. nóvember 2020);
  • Uganda 2019 Crime & Safety Report (Overseas Security Advisory Council (OSAC), 22. mars 2019);
  • Uganda 2019 (Amnesty International, skoðað 29. júní 2020);
  • World Report 2020 – Uganda (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • The World Factbook (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 29. júní 2020);
  • „Letting the Big Fish Swim“: Failures to Prosecute High-Level Corruption in Uganda (Human Rights Watch, október 2013);
  • Uganda: Update to UGA105482 of 17 May 2016 on requirements and procedures for obtaining police reports, such as criminal complaints, from within the country as well as from abroad; fees; format, including appearance, signatures and letterhead; whether there is a standard format across the country (April 2016-June 2016) (Immigration and Refugee Board of Canada, 20. júní 2016);
  • Uganda: Requirements and procedures for obtaining police reports, such as criminal complaints, from within the country as well as from abroad; fees; format, including appearance, signatures and letterhead; whether there is a standard format across the country (2014-March 2016) (Immigration and Refugee Board of Canada, 17. maí 2016);
  • Uganda: Information about "Release on Bond" and "Warrant of Arrest" documents, including circumstances when such documents are issued and whether a summons is issued before an arrest warrant; appearance, including whether the corresponding section of the Criminal Procedure Code is indicated; whether persons who are wanted for arrest receive an "exit stamp" when leaving the country (2014-December 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 12. janúar 2016);
  • Úgöndsku hegningarlögin (Uganda: The Penal code act) https://wipolex.wipo.int/en/text/170005;
  • Upplýsingar af vefsíðum Transparency International og úgöndsku lögreglunnar: https://www.transparency.org/news/feature/corruption_perceptions_index_2017 og https://www.upf.go.ug/complaints/.

Úganda er lýðveldi með rúmlega 43 milljónir íbúa. Úganda gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum þann 25. október 1962. Árið 1986 gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1987, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1995 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004.

Í ofangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, um ástand mannréttindamála í Úganda, og nýjustu ársskýrslum mannréttindasamtakanna Amnesty International og Human Rights Watch kemur m.a. fram að meðal helstu mannréttindabrota þar í landi séu morð og pyndingar af hálfu öryggissveita, slæmar fangelsisaðstæður, geðþóttahandtökur og -varðhald, takmarkanir á prent-, tjáningar-, funda- og félagafrelsi og pólitískri þátttöku, opinber spilling, refsivæðing samkynhneigðar og áreitni gegn hinsegin fólki. Þá séu heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi vandamál í Úganda, svo og mismunun gegn fólki með fötlun, þvingaðir brottflutningar og skortur á aðgangi að húsnæði og viðhlítandi heilbrigðisþjónustu. Þá kemur fram að grafið sé undan tjáningarfrelsi íbúa landsins með lögum og reglum sem kveði á um aðgangstakmarkanir að netinu gagnvart notendum samfélagsmiðla, vefsíðueigendum og pistlahöfundum.

Í ofangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur jafnframt fram að spilling, fjárdráttur og refsileysi grafi undan mannréttindum í landinu, þ. á m. fjárdráttur úr sjóðum sem eigi með réttu að renna inn í t.d. mennta-, heilbrigðis- og refsivörslukerfið. Aðgangur að sjálfstæðu dómsvaldi og réttlátri málsmeðferð sé ekki fyllilega tryggður m.a. vegna undirmönnunar og fjármögnunar, spillingar og mútuþægni. Lög landsins kveði á um allt að 12 ára fangelsisrefsingu við spillingu innan hins opinbera en yfirvöld hafi ekki framfylgt lögunum með skilvirkum hætti og hafi slík mál sem embættismenn hafi verið viðriðnir oft á tíðum endað með refsileysi eða verið í vinnslu innan kerfisins til margra ára. Í skýrslu Human Rights Watch frá 2013, um spillingu í Úganda, kemur m.a. fram að í kjölfar krafna úgandsks almennings um sérhæfðan dómstól til að dæma í umfangsmiklum spillingarmálum hafi verið stofnaður dómstóll gegn spillingu (e. Anti-Corruption Division of the High Court) árið 2008. Þá hafi eftirlitsskrifstofa ríkisstjórnarinnar (e. The Office of the Inspectorate of Government) heimild til að sækja opinbera embættismenn til saka vegna spillingar en ríkissaksóknari geti saksótt bæði einkaaðila og embættismenn. Þá geti einstaklingar lagt fram kvörtun vegna starfa lögreglu á þar til gerðu eyðublaði á heimasíðu úgöndsku lögreglunnar. Nokkuð skorti á eftirfylgni með framangreindu eftirlitskerfi og erfitt sé að sækja æðstu embættismenn til saka. Hins vegar hafi einstaklingar á lægri stigum verið saksóttir og í sumum tilvikum hlotið fangelsisrefsingu.

Samkvæmt hegningarlögum landsins séu kynferðislegar athafnir meðal einstaklinga af sama kyni refsiverðar og geta varðað allt að lífstíðarfangelsi. Í upplýsinga- og leiðbeiningarskýrslu U.K. Home office um kyn og kynhneigð í Úganda kemur fram að í framkvæmd hafi einstaklingar ekki verið ákærðir fyrir þær athafnir þrátt fyrir að hafa verið handteknir á þeim grundvelli. LGBTQ+ einstaklingar hafi orðið fyrir mannréttindabrotum bæði af hálfu lögregluyfirvalda í Úganda og annarra ríkisstofnana. Þá hafi borið á kvörtunum LGBTQ+ einstaklinga vegna illrar og vanvirðandi meðferðar auk líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis, auk þess sem þeim hafi verið gert að sæta endaþarmsskoðun hjá heilbrigðisstarfsfólki í þágu rannsóknar hjá lögreglu. Þá rannsaki lögreglan í Úganda almennt ekki meint brot gagnvart LGBTQ+ einstaklingum. Einnig geti LGBTQ+ einstaklingar sætt mismunun hjá öðrum innviðum samfélagsins, t.a.m. þegar þeir sæki sér heilbrigðisþjónustu eða reyni að verða sér úti um atvinnu og húsnæði. Fram kemur í mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að yfirvöld hafi staðið fyrir ofbeldi gagnvart LGBTQ+ einstaklingum og stöðvað samkomur sem hafi verið skipulagðar af samtökum á vegum þeirra. Þá kemur fram í skýrslu ráðgjafaráðs erlendra öryggismála frá árinu 2019 um aðstæður í Úganda að samkynhneigð sé almennt ekki félagslega samþykkt í landinu og að ofbeldi og mismunun gegn LGBTQ+ einstaklingum sé útbreidd þar.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður maður. Samkynhneigð sé refsiverð í heimaríki kæranda og sé það honum óraunhæft að leita verndar yfirvalda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun og hjá kærunefnd kvaðst kærandi hafa átt í ástarsambandi við tiltekinn mann sem hafi staðið yfir frá árinu 2008 til ársins 2017. Uppljóstrað hafi verið um ástarsamband hans þann 25. febrúar 2017 og í kjölfarið hafi kærandi flúið heimaþorp sitt eftir að hafa móttekið yfirlýsingu um brottrekstur hans frá þorpinu. Kærandi hafi þá farið til borgarinnar Kampala þar sem hann hafi dvalið hjá vini sínum og m.a. annars starfað sem sjálfboðaliði hjá samtökunum [...], sem berjist fyrir réttindum LGBTQ+ einstaklinga í Úganda. Kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt þann 14. október 2019 og komið hingað til lands á vegum samtakanna UVP (e. Uganda Volunteers for Peace).

Við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram félagsskírteini frá samtökunum [...] með gildistíma frá 2. janúar 2018 til 31. desember 2019, félagsskírteini frá Samtökunum ´78 útgefið árið 2019 og bréf útgefið af formanni samtakanna, dags. 28. maí 2020. Einnig lagði kærandi fram bréf, dags. 7. júlí 2020 frá sálfræðingi hjá Samtökunum ´78. Þá lagði kærandi fram skjal, dags. 25. febrúar 2017, sem kærandi bar við að væri frumrit yfirlýsingar af hálfu sveitastjórnar í heimaþorpi kæranda, um brottrekstur hans úr þorpinu vegna samkynhneigðar. Við meðferð málsins aflaði kærunefnd staðfestingar hjá samtökunum [...] í Úganda á því að kærandi hafi starfað sem sjálfboðaliði fyrir samtökin. Kærunefnd barst svar þann 14. júlí sl. frá formanni samtakanna þar sem kemur m.a. fram að kærandi hafi starfað hjá samtökunum og var einnig staðfest að skírteini, sem kærandi lagði fram við meðferð málsins, sé útgefið af [...].

Mat á trúverðugleika frásagnar er byggt á endurritum af viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 10. júlí 2020, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 23. október 2019 hefur hann haldið því fram að hann sé samkynhneigður og hafi af þeim sökum flúið heimaríki sitt. Framburður kæranda í viðtali hjá kærunefnd var trúverðugur, stöðugur og í samræmi við fyrri framburð hans hjá Útlendingastofnun. Þá var framburður kæranda um aðstæður samkynhneigðra í Úganda í samræmi við þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður samkynhneigðra einstaklinga þar í landi.

Kærandi lagði fram skjal sem hann kveður stafa frá bæjaryfirvöldum heimaþorps síns. Skjalið, sem virðist vera undirritað af fimm einstaklingum, er haldið tilteknum göllum sem styðja ekki við trúverðugleika þess. Engu að síður, í ljósi almenns trúverðugleika frásagnar kæranda og þess stuðnings sem frásögn hans fékk frá þeim samtökum sem hann starfaði fyrir í Úganda, telur kærunefnd að ekki sé hægt að útiloka að skjalið kveði í raun á um brottrekstur kæranda frá heimaþorpi hans og sé útgefið af bæjaryfirvöldum í heimaþorpi hans. Þá hefur kærunefnd litið til ósamræmis á milli umsóknar hans um dvalarleyfi hér á landi og framburðar hans fyrir kærunefnd. Umrætt skjal ber með sér að kærandi hafi starfað fyrir tvö mannúðarsamtök í heimaríki en kærandi kvað það ekki vera rétt. Til þess að fá dvalarleyfið kveðst kærandi hafa þurft að segjast hafa starfsreynslu af því tagi sem hann rakti. Kærunefnd telur að kærandi hafi útskýrt ósamræmið á fullnægjandi hátt og að nefnt ósamræmi leiði ekki til þess að frásögn hans um samkynhneigð sína verði að öðru leyti metin ótrúverðug.

Með tilliti til mats á trúverðugleika kæranda og framlagðra gagna, sem kærunefnd telur að renni stoðum undir trúverðugleika frásagnar kæranda, verður framburður kæranda lagður til grundvallar í málinu og byggt á því að kærandi sé samkynhneigður.

Af framangreindum gögnum um aðstæður samkynhneigðra einstaklinga í Úganda er ljóst að LGBTQ+ einstaklingar eru litnir á hornauga í úgöndsku samfélagi og sæti þeir mismunun á flestum sviðum þjóðfélagsins, t.a.m. í tengslum við heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Samkvæmt hegningarlögum landsins er samkynhneigð refsiverð og varða kynferðislegar athafnir á meðal fólks af sama kyni allt að lífstíðarfangelsi. Framangreind gögn bera með sér að mannréttindabrot gagnvart LGBTQ+ einstaklingum eru útbreidd, m.a. af hálfu lögregluyfirvalda og annarra stjórnvalda og rannsaki lögreglan í Úganda ekki meint brot gagnvart þeim. Þá verði LGBTQ+ einstaklingar fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu lögregluyfirvalda og skipulagðar samkomur á vegum LGBTQ+ einstaklinga séu stöðvaðar af lögreglunni. Samkynhneigðir einstaklingar geti ekki leitað til lögregluyfirvalda í Úganda telji þeir á sér brotið og geti því ekki reitt sig á vernd yfirvalda óttist þeir ofsóknir eða illa meðferð á grundvelli kynhneigðar sinnar.

Að mati kærunefndar gaf kærandi með ítarlegum og trúverðugum hætti grein fyrir þeim ástæðum sem leitt hafi til umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Þá er ljóst af framangreindum gögnum að kærandi geti ekki leitað verndar hjá yfirvöldum í heimaríki sínu. Kærunefnd telur að ástæða sé til að ætla að samkynhneigðir einstaklingar í Úganda eigi á hættu ofsóknir á grundvelli kynhneigðar sinnar sem nái því alvarleikastigi að teljast ofsóknir, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og b-lið 2. mgr. 38. laganna. Er því fallist á að kærandi hafi með nægilega rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna kynhneigðar, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi þess að ofsóknir á hendur kæranda í heimaríki felast í lagasetningu og aðgerðum yfirvalda og gilda á öllu landssvæði heimaríkis kæranda er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að annarsstaðar í heimaríki sínu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta