Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 92/2012

Miðvikudaginn 13. mars 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 92/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 17. nóvember 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 24. ágúst 2012, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi er 23 ára námsmaður og sótti um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 31. maí 2012. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 11. júní 2012, með þeim rökum að hún samræmdist ekki 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 29. júní 2012. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 22. ágúst 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. júní 2012 til 30. júní 2012 sbr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.“

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 24. ágúst 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 17. nóvember 2012. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 6. desember 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 11. desember 2012, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst hafa sótt um þriggja mánaða framfærslustyrk hjá þjónustumiðstöð og starfsmenn þá óskað eftir aðgangi að skattskrá hans svo hægt væri að afgreiða málið. Í framhaldinu hafi umsókn hans verið synjað vegna eigna á bankareikningi hans. Kæranda hafi verið tjáð að hann gæti tekið lán eða fengið yfirdrátt hjá bönkunum til að framfleyta sér í stað fjárhagsaðstoðar. Eftir að hann hafi reynt að fullvissa starfsmenn þjónustumiðstöðvar um að hann hefði hvorki efni á að skuldsetja sig né gæti innleyst fermingar- og blaðburðarpeninga af bundnum reikningi hafi þeir óskað eftir skriflegri staðfestingu bankanna því til sönnunar. Útibússtjórar Landsbanka Íslands, Íslandsbanka og Arion banka hafi hafnað lánum og lánafyrirgreiðslu. Kærandi hafi fengið undirritaðar yfirlýsingar þeirra um það ásamt tilgreindri ástæðu. Þrátt fyrir framangreind gögn hafi umsókn hans verið synjað. Kærandi gerir athugasemd við málshraða við afgreiðslu umsóknar hans um fjárhagsaðstoð. Þá áréttar kærandi að hann hafi sótt um fjárhagsaðstoð til þriggja mánaða en ekki til eins mánaðar líkt og Reykjavíkurborg hafi byggt á.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011 og samþykktar í velferðarráði þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010. Rakin eru ákvæði 12. gr. framangreindra reglna. Við afgreiðslu umsóknar kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júní 2012 hafi komið í ljós að samkvæmt rafrænum gögnum ríkisskattstjóra ætti kærandi innlendar innistæður og verðbréf að fjárhæð 6.779.637 kr. Í kjölfar þess hafi starfsmenn þjónustumiðstöðvar óskað eftir nánari skýringum frá kæranda varðandi þessar inneignir. Kærandi hafi þá framvísað yfirliti þar sem fram hafi komið að hann ætti 5.486.263 kr. á þremur bundnum reikningum og 62.470 kr. á óbundnum reikningum. Þá hafi kærandi framvísað yfirlýsingum um að bankabók hans í Íslandsbanka væri bundin til 13. ágúst 2012 og að reikningur hans í Landsbanka væri verðtryggður og hvert innlegg væri bundið í 60 mánuði. Kærandi hafi ekki framvísað yfirlýsingu vegna bankabókar í Arion banka. Samkvæmt 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg skuli vísa umsækjanda á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó tekjur hans væru lægri en grunnfjárhæð, ef umsækjandi eigi eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi býr í og eina fjölskyldubifreið. Velferðarráð hafi talið ljóst að kærandi ætti eignir umfram það sem kveðið sé á um í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kæranda beri að nýta umræddar eignir sér til framfærslu áður en leitað væri eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi en fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé neyðaraðstoð. Um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur, meðal annars af eignum sínum. Umrædd meginregla eigi stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Ljóst sé að kærandi eigi verulegar fjárhæðir í banka og það hafi verið val hans að leggja fjármunina inn á umrædda reikninga.

 

Með hliðsjón af framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og staðfest synjun starfsmanna á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1.–30. júní 2012. Í kæru komi fram að hún varði framfærslustyrk fyrir mánuðina maí, júní og júlí 2012. Kærandi hafi aðeins undirritað umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1.–30. júní 2012 og eigi því ekki umsóknir er varði maí og júlí 2012. Reykjavíkurborg tekur því fram að málið taki aðeins til fjárhagsaðstoðar fyrir tímabilið 1.–30. júní 2012. Telja verði ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð né ákvæðum laga nr. 40/1991.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2011 með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 31. maí 2012, um fjárhagsaðstoð. Kærandi kveðst hafa sótt um fjárhagsaðstoð fyrir þrjá mánuði og gerir athugasemd við að ákvörðun Reykjavíkurborgar lúti eingöngu að 1.–30. júní 2012. Úrskurðarnefndin tekur fram að í málinu liggur fyrir umsókn kæranda og kemur þar fram að sótt er um framfærslu fyrir tímabilið 1.–30. júní 2012. Ekki er öðrum gögnum að dreifa sem sýna fram á að umsókn kæranda hafi verið fyrir annað og lengra tímabil. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að mál þetta snúist um synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1.–30. júní 2012.

 

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Í 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram sú meginregla að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð, og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Skal aðstoð og þjónusta jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Reykjavíkurborg hefur sett sér sérstakar reglur um fjárhagsaðstoð.

 

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð vegna framfærslu fyrir tímabilið 1.–30. júní 2012 en umsókn hans var synjað á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Í 5. mgr. 12. gr. reglnanna kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans býr í og eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þótt tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Í málum er varða framangreint ákvæði hefur úrskurðarnefndin litið þannig á að fjárhagsaðstoð sé neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að lausum fjármunum til framfærslu. Aðrar eignir en íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið sé eðlilegt að nota sem neyðarúrræði við framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vegna tekna kæranda árið 2011 átti kærandi innlendar innistæður og verðbréf að fjárhæð 6.779.637 kr. Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki getað notað bankainnistæður sínar þar sem þær hafi verið á bundnum reikningum. Í málinu liggur fyrir skjal sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg þar sem sjá má útlistun á innstæðum hans í þremur bönkum sem kærandi kveður bundnar til fimm ára. Á reikningi hans í Arion banka hafi verið 219.728 kr., í Íslandsbanka 3.913.549 kr. og í Landsbankanum 1.352.986 kr. Þá kemur fram í samantekt kæranda að á opnum reikningum hans hafi verið alls 62.470 kr. Í málinu liggur fyrir staðfesting útibússtjóra Landsbankans að kærandi eigi innlánsreikning hjá bankanum og hvert innlegg sé bundið í 60 mánuði. Þá liggur fyrir staðfesting viðskiptastjóra einstaklinga hjá Íslandsbanka að bankabók kæranda sé bundin til 13. ágúst 2012 vegna skilmála um verðtryggða bundna 60 mánaða bók. Ekki liggur fyrir sambærileg staðfesting vegna reiknings kæranda í Arion banka. Í máli þessu liggur ljóst fyrir að kærandi átti töluverða fjármuni á bankareikningum. Hann hefur hins vegar lagt fram gögn sem styðja það að hann gat ekki tekið út af framangreindum reikningum í Íslandsbanka og Landsbanka.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að skylt er hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Reykjavíkurborg veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Ákvæði 5. mgr. 12. gr. reglnanna byggist á þeim grundvelli að eigi umsækjandi um fjárhagsaðstoð eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið skuli hann nota þær eignir til framfærslu eða til tryggingar fyrir láni frá banka eða sparisjóði. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að í máli þessu verði ekki hjá því litið að kærandi átti ótvírætt eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið, sbr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Honum bar því að nýta þær sér til framfærslu ellegar til tryggingar fyrir láni. Úrskurðarnefndin telur því að Reykjavíkurborg hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborgar.

 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 24. ágúst 2012, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir 1.–30. júní 2012 er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta