Hoppa yfir valmynd

Mál 25/2011. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 18. október 2012

í máli nr. 25/2011:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum

 

Með bréfi, dags. 2. september 2011, kærði Logaland ehf. samkeppnisviðræður Ríkiskaupa nr. 14981 „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að kærunefndin stöðvi þegar í stað innkaupaferli/gerð samnings á grundvelli útboðsins þar til til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

2. Að kærunefndin leggi fyrir Ríkiskaup að auglýsa útboðið á nýjan leik.

 

3. Að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda.

 

4. Að nefndin ákveði að kaupandi og/eða Ríkiskaup greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.“            

 

Kærandi lagði fram frekari greinargerð, dags. 12. september 2011. Kærða var kynnt kæran og önnur gögn kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir innkaupaferlinu. Með bréfum, dags. 13. og 20. september 2011, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.

 Með ákvörðun, dags. 23. september 2011, hafnaði kærunefnd útboðsmála að stöðva innkaupaferli kærða nr. 14981 „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

Hinn 6. júlí 2012 kærði kærandi að nýju samkeppnisviðræður kærða nr. 14981 „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.  Þar sem seinni kæran er vegna sama innkaupaferils, milli sömu aðila og með sömu kröfur ákvað kærunefnd útboðsmála að bíða með úrlausn þessa máls og úrskurða í málunum samhliða.                                                                          

I.

Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir kærða að bjóða út á nýjan leik innkaupin „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

            Með úrskurði í dag í máli nr. 19/2012 hefur kærunefnd útboðsmála lagt fyrir kærða að auglýsa að nýju innkaupin „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu verða innkaupin boðin út að nýju og þannig er óljóst hvort skilyrði verða til skaðabótaskyldu kærða. Verður að svo búnu að hafna kröfu kæranda um að kærunefnd útboðsmála gefi álit sitt á skaðabótaskyldu.

            Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins og umfangi þess er rétt að kærði greiði kæranda kr. 200.000 vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

            Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Með hliðsjón af úrslitum málsins er kröfunni hafnað.

 

Úrskurðararorð:

Lagt er fyrir kærða, Ríkiskaup, að auglýsa að nýju innkaupin „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

 

Kröfu kæranda, Logalands ehf., um að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða, Ríkiskaupa, er hafnað.

 

Kærði greiði kæranda kr. 200.000 í málskostnað.

 

Kröfu kærða, um að kærandi greiði málskostnað í ríkissjóð, er hafnað.

 

 

Reykjavík, 18. október 2011.

Páll Sigurðsson

Auður Finnbogadóttir

Stanley Pálsson

                                                            

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                október 2012.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta