Mál nr. 373/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 373/2020
Fimmtudaginn 10. september 2020
A og B
gegn
Barnaverndarnefnd C
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 4. ágúst 2020, kærðu A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B í formi bókunar á fundi nefndarinnar sem barst kærendum í tölvupósti 13. maí 2020, varðandi umgengni fósturbarns þeirra, D, við kynmóður sína.
Með tölvupósti, dags. 27. ágúst 2020, skilaði E lögmaður inn umboði til úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem fram kemur að hún gætir hagsmuna kærenda í máli þessu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan, E, er X ára gömul. Kærendur eru fósturforeldrar stúlkunnar.
Með hinni kærðu ákvörðun samþykkti Barnaverndarnefnd B að umgengni stúlkunnar við kynmóður yrði einu sinni á ári. Ákvörðunin var tilkynnt kærendum með tölvupósti 13. maí 2020.
Í kæru kemur fram að mál stúlkunnar hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi í október 2019 og þá hafi verið lagt til að kynmóðir hefði ekki umgengni við stúlkuna í eitt ár. Ekki hafi náðst samkomulag við kynmóður um umgengni og því hafi málið verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar þar sem samþykkt hafi verið umgengni kynmóður við stúlkuna einu sinni á ári.
Fyrir nefndinni lá greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 28. janúar 2020, þar sem fram kemur tillaga starfsmanna að kynmóðir fái enga umgengni við stúlkuna í að minnsta kosti 12 mánuði.
Í kæru fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar eru gerðar athugasemdir við meðferð málsins hjá Barnaverndarnefnd B þess efnis að nefndin hafi ekki tekið nokkurt mark á öllum gögnum málsins þar sem greint er frá erfiðum aðstæðum stúlkunnar.
Með tölvupósti Barnaverndar B, dags. 6. júlí 2020, var kærendum tilkynnt að kynmóðir hefði fallist á bókun nefndarinnar um umgengni einu sinni á ári og því kæmi ekki til úrskurðar um málið og gerður yrði samningur um umgengni. Voru fósturforeldrar jafnframt upplýstir um að hægt væri að kæra niðurstöðuna til úrskurðarnefndar velferðarmála.
II. Niðurstaða
D er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærendur eru fósturforeldrar stúlkunnar. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B, sem var tilkynnt kærendum með tölvupósti 13. maí 2020, var ákveðið að kynmóðir hefði umgengni við stúlkuna einu sinni á ári. Með tölvupósti 6. júlí 2020 voru kærendur upplýstir um að hægt væri að kæra niðurstöðu málsins til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Samkvæmt 5. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) geta þeir sem umgengni eiga að rækja óskað breytinga á ákvæðum samnings um umgengnisrétt. Náist ekki samkomulag um slíka breytingu tekur barnaverndarnefnd ákvörðun með úrskurði.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. a. laganna, sem fjallar um réttarstöðu fósturforeldra við ákvörðun um umgengni, skal ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri séu aðilar að máli um umgengni samkvæmt 74. gr. Fósturforeldrar taka þannig þátt í gerð samnings um umgengni, geta óskað breytinga á áður ákvarðaðri umgengni, eru aðilar að úrskurðarmáli og geta skotið úrskurði um umgengni til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í máli þessu liggur fyrir að Barnaverndarnefnd B tók ákvörðun um umgengni kynmóður við stúlkuna með bókun þann 13. maí 2020. Verður ráðið af bókun nefndarinnar að fósturforeldrar hafi ekki verið aðilar að því máli líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 74. gr. a. laganna. Auk þess hefur Barnaverndarnefnd B ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um umgengni kynmóður við stúlkuna eins og áskilið er í skýru ákvæði 5. mgr. 74. gr. bvl. og liggur því fyrir að hin kærða ákvörðun var ekki tekin með þeim hætti sem bvl. gera kröfu um.
Að þessu gættu er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til löglegrar málsmeðferðar og úrskurðar Barnaverndarnefndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Barnaverndarnefndar B um umgengni D við F, er felld úr gildi og vísað til löglegrar málsmeðferðar og úrskurðar barnaverndarnefndarinnar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson