Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 194/2024 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 194/2024

Miðvikudaginn 29. maí 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, sem barst 29. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála fyrirkomulag á sölu á heyrnartækjum á Íslandi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. apríl 2024.

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru að kærandi óski eftir endurskoðun á fyrirkomulagi á sölu á heyrnartækjum á Íslandi.

Í kæru segir að málið varði verð á heyrnartækjum á Íslandi. Samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar sé hægt að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála. Málið varði verðsamráð og einkennilegt fyrirkomulag á sölu á heyrnartækjum á Íslandi.

Staðan sé þannig að samkvæmt 4. gr. laga um sjúkratryggingar sé það undir ráherra komið hvaða hjálpartæki og að hve miklu leyti Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði vegna þeirra. Sjúkratryggingum Íslands sé falið það verkefni að greiða út styrki samkvæmt reglugerð nr. 969/2015 um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð með síðari breytingum, sem sett sé af heilbrigðisráðherra.

Það sem sé áhugavert hér sé að einungis sé möguleiki á að fá þessa endurgreiðslu sé verslað við fjögur ákveðin fyrirtæki. Niðurstaðan sé því sú að slík tæki séu mörg hundruð þúsund krónum dýrari en til að mynda á Norðurlöndunum. Þetta sé að skilningi kæranda ákveðin tálmun á viðskiptafrelsi. Þrjú stærstu fyrirtækin á þessu sviði, Odicon, ReSound og Philips, séu með höfuðstöðvar sínar í Danmörku. Því megi segja að þarna eimi eftir af einokunarlögunum, þegar örfáir handhafar verslunarréttar við Danmörk hafi einir mátt selja íslenskum almenningi heyrnartæki.

Kærandi megi ekki kaupa sama tæki beint frá Danmörku á minna en hálfvirði, ætli hann að njóta stuðnings sjúkratrygginga. Ekki einu sinni þó að um nákvæmlega sama tækið sé að ræða. Það sé því bjargföst skoðun hans að svona viðskiptatálmun standist illa lög. Kærandi telji langt gengið í túlkun þessara laga með þessari reglugerð og gangi það þvert á alþjóðlegar skuldbindingar. Einokunarverslun Dana hafi runnið út árið 1777.

Kærandi hafi þegar sent línu á Sjúkratryggingar Íslands sem hafi bent á ráðuneytið. Þar hafi þessari málaleitan verið hafnað. Næsta skref hafi verið umboðsmaður Alþingis, sem hafi tekið málið til skoðunar, en hann taki ekki ákvörðun þar sem kærandi hafi átt að fá álit útskurðarnefndar velferðarmála fyrst.

III. Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Ljóst er að ekki liggur fyrir í gögnum málsins ákvörðun frá Sjúkratryggingum Íslands um synjun á umsókn um styrk til kaupa á heyrnartækjum. Kæran lýtur að almennu fyrirkomulagi á sölu á heyrnartækjum á Íslandi.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli þessu er kærunni vísað frá  úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta