Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2011

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 30. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. mars 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögum er hafnað.

Með bréfi, dags. 30. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 14. mars 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 19. apríl 2011, og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum í bréfi, dags. 6. maí 2011.

Þann 8. september 2011 var umboðsmanni skuldara ritað bréf þar sem óskað var nánari skýringa á nokkrum atriðum og barst svar embættisins 3. október 2011.

Þann 8. september 2011 var kærendum jafnframt sent bréf þar sem þeim var leiðbeint um að fá leiðrétta áætlun sína hjá skattyfirvöldum vegna ógreidds virðisauka og var kærendum veittur frestur til 15. september til að skila leiðréttri áætlun. Þann 14. september var kærendum veittur viðbótarfrestur til 29. september og þann 28. september var þeim veittur frestur til 5. október. Ekki bárust frekari gögn frá kærendum og er því málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

I.

Málsatvik

Kærendur lýsa aðstæðum sínum þannig að þau hafi sótt um greiðsluaðlögun í kjölfar þess að fjárhagsstaða þeirra fór versnandi í kjölfar hrunsins. Búa þau í 100 fm íbúð að C-götu nr. 2,í sveitarfélaginu D, en þau festu kaup á henni árið 2006. Árið 2007 og fyrri hluta árs 2008 hafi þau staðið ágætlega og ákveðið að ljúka framkvæmdum við húseign sína með svokölluðu brúarláni hjá Kaupþingi. Seinni hluta þess árs hafi farið að halla undan fæti þegar B lækkaði í launum, verðlag hafi hækkað og greiðslubyrði lána hækkaði. Á sama tíma hafi A byrjað í námi við Háskóla Íslands og hefur því aðeins fengið greiðslur frá LÍN frá þeim tíma.

Hafi þau velt á undan sér skuldunum með því að greiða það sem mest lá á og geyma annað en það hafi leitt til þess að þau lentu í vanskilum með allar sínar skuldbindingar. Þau hafi því ekki ráðið við stöðuna þrátt fyrir að vera með ágætis tekjur og hafi þau sótt um greiðsluaðlögun 21. október 2010.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að mánaðarlegar tekjur kærenda eftir skatt hafi verið 425.620 krónur árið 2006. Sama ár hafi þau skuldað 20.953.853 krónur. Árið 2007 voru tekjur þeirra 369.997 krónur og skuldir 21.190.914 krónur og árið 2008 voru mánaðarlegar tekjur þeirra eftir skatta 450.889 krónur og skuldir 22.515.203 krónur. Árið 2009 voru mánaðarlegar tekjur þeirra eftir skatta 408.148 krónur og skuldir samkvæmt skattframtölum orðnar 43.792.375 krónur.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur jafnframt fram að heildarskuldbindingar kærenda þegar þau lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið 63.971.263 krónur. Þar af séu kröfur vegna ógreiddra opinberra gjalda og dómsektir að fjárhæð 5.338.956 krónur eða 8,35% af heildarkröfum. Um sé að ræða vangoldinn virðisaukaskatt, dómsektir, endurkröfur vegna greiddra bóta og sakarkostnað. Skýrist hækkun á skuldum þeirra frá árslokum 2009 fram til þess að þau sækja um greiðsluaðlögun meðal annars á hækkunum á lánum, ýmsum minni skuldbindingum og vanskilum sem ekki voru talin á skattframtölum auk þess sem framangreidd skuld vegna opinberra gjalda kom ekki fram á skattframtali kærenda.

Eignir kærenda nema samtals 14.244.000 krónum, en þær eru, samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara, fasteign þeirra að C-götu nr. 2, vélsleði, bifhjól og bifreið. Á skattframtali 2010 er taldar í eigu kærenda sjö aðrar bifreiðar en ekki liggur fyrir hvort þær séu allar í eigu þeirra ennþá en ljóst er af skattframtölum undanfarinna ára að kærendur hafa stundað talsverð viðskipti með kaupum og sölu bifreiða.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 15. mars 2011, var kærendum synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þótti að veita hana og vísað þar til 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, (lge.), og þá sérstaklega til d-liðar sömu málsgreinar sem segir að synja megi um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu

 

II.

Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að mál verði tekið upp að nýju hjá umboðsmanni skuldara.

Telja þau að ástæður synjunar umboðsmanns ekki vera á rökum reistar og vísa í því samhengi til vangoldins virðisaukaskatts sem umboðsmaður telur til. Í bréfi sem fylgdi með umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi komið fram að B hafi verið í eigin rekstri til ársins 2005 en þessi vangoldni virðisaukaskattur sé áætlanir sem gerðar hafi verið á þann rekstur eftir að honum lauk. Erfiðlega hafi gengið að fá þær áætlanir felldar niður.

Síðan B hafi hætt rekstri sínum hafi hann starfað hjá X og ávallt greitt sína skatta. Rökstuðningur umboðsmanns fyrir synjun á heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggi að mestu á þessum vangoldna virðisauka sem sé í raun bara áætlanir. Aðrar skuldir kærenda megi rekja beint til hrunsins.

Til vara krefjast kærendur þess að nafn B verði afmáð af umsókn þeirra og að A verði ein skráð fyrir umsókninni þar sem helstu ástæður fyrir synjuninni séu kröfur á hendur B.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 15. mars sl. kemur fram að kærendum sé synjað um greiðsluaðlögun með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Er það mat umboðsmanns að skuldir þeirra sem rekja megi til ástæðna sem greinir í d-lið 2. mgr. 6. gr. séu ekki smávægilegar miðað við fjárhag þeirra í dag.

Virðisaukaskattskuldir kærenda hafi stofnast árin 2005, 2006, 2008 og 2009. Alls séu kröfur á hendur kærendum 43 talsins og þar af séu 40 í vanskilum. Tvær kröfur hafi farið í vanskil í janúarmánuði 2004 og standa þær núna samtals í 822.079 krónum. Önnur krafa hafi farið í vanskil í september 2009 og stendur sú krafa í 7.235.569 krónum í dag. Þá hafi fjórar kröfur farið í vanskil árið 2005 sem nema samtals 2.768.168 krónum og þrjár árið 2006 sem nema 1.760.662 krónum. Árið 2007 fóru sex kröfur til viðbótar í vanskil og nema þær samtals 1.853.669 krónum, árið 2008 fóru aðrar sex kröfur í vanskil sem nema samtals 12.658.679 krónum og árið 2009 níu kröfur, samtals að fjárhæð 24.963.201 króna. Árið 2010 fóru sjö kröfur í vanskil sem nema samanlagt 2.835.717 krónum og sé bifreiðagjald fyrir árið 2011 einnig í vanskilum sem nemur 22.174 krónum.

Í greinargerð sinni, dags. 14. apríl sl., vísar umboðsmaður meðal annars til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, en þar var niðurstaða dómsins sú að synja hefði átt skuldara um greiðsluaðlögun í öndverðu þar sem hann hefði, með því að standa ekki skil á virðisaukaskatti, bakað sér skuldbindingu með háttsemi sem varðaði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í því samhengi var litið til þess að fjárhæðin var allhá eða 8,3% af heildarskuldum hans. Þá var litið til tekna og eigna og þótti skuldin ekki smávægileg í ljósi þess að skuldari var tekjulaus á þeim tíma.

Í máli þessu mótmæli kærendur forsendum ákvörðunar umboðsmanns varðandi virðisaukaskattinn og telji hann byggðan á áætlunum sem ekki eigi við rök að styðjast en þau hafi þó ekki lagt fram frekari gögn til að styðja málstað sinn og því verði að styðjast við þau yfirlit sem umboðsmaður fékk frá tollstjóra hvað það varðar.

Að teknu tilliti til fordæmis Hæstaréttar er það mat umboðsmanns skuldara að hlutfall hinna vangreiddu opinberu gjalda sé umtalsvert miðað við fjárhag þeirra, að teknu tilliti til eigna og tekna á umræddum tíma. Því sé það mat umboðsmanns að synja beri um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 2. mgr. 6. gr. lge. og þá sérstaklega með vísan til d-liðar þeirrar greinar.

 

IV.

Niðurstaða

Umboðsmaður skuldar byggir synjun sína á því að kærendur hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum og dómsektum en synja má um heimild til greiðsluaðlögunar vegna slíkra skulda á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr lge., þar sem fjallað er um skuldir sem rekja má til háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu, að fjárhæð sem einhverju nemi miðað við fjárhag skuldara.

Þau opinberu gjöld sem um ræðir nema samtals 5.338.956 krónum samkvæmt yfirliti frá tollstjóranum í Reykjavík frá 14. febrúar 2011, þar af er vangoldinn virðisaukaskattur 4.708.497 krónur, dómsektir að fjárhæð 702.673 krónur og endurkrafa vegna greiddra bóta 380.697 krónur.

Í yfirliti tollstjóra kemur enn fremur fram að krafan um virðisaukaskattsskuldina sé nánast öll byggð á áætlunum.

Kærendur mótmæla því að álagður virðisaukaskattur endurspegli í raun rétta skattskyldu þeirra og segja að reynst hafi erfitt að fá fram leiðréttingu þeirra fyrir skattyfirvöldum, án þess að útskýra nánar í hverju þeir erfiðleikar séu fólgnir. Með bréfi kærunefndar til umboðsmanns skuldara frá 8. september sl. var óskað eftir upplýsingum um meðferð málsins hvað þetta atriði varðar. Spurt var hvort umboðsmaður hafi skorað á kærendur að afla upplýsinga um raunverulega stöðu skattskuldar og hvaða leiðbeiningar þeim hafi verið veittar og hvort þeim hafi verið gert ljóst hverjar afleiðingar það kynni að hafa ef þau létu undir höfuð leggjast að afla þessara gagna. Óskaði kærunefndin í þessu sambandi eftir afriti bréfaskipta, tölvupóstsamskipa og fundargerða af fundum ef þeim væri til að dreifa. Í svari umboðsmanns, sem barst kærunefndinni 5. október sl., segir að í málinu liggi engar frekar upplýsingar eða gögn fyrir til viðbótar við þau gögn sem þegar hafi verið send kærunefndinni. Í gögnum málsins liggja engar upplýsingar fyrir um stöðu virðisaukaskattskuldar aðrar en yfirlit yfir áætlanir skattstjóra og yfirlýsingar skuldara um að þessar áætlanir séu rangar. Af þessu svari umboðsmanns og öðrum gögnum verður ekki önnur ályktun dregin en sú að skuldurum hafi ekki verið veittar leiðbeiningar um skyldu sínar til framlagningar gagna og hvaða afleiðingar það kynni að hafa fyrir meðferð málsins. Það er álit kærunefndar að umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni sem skyldi í þessu máli. Það er ótvíræð skylda umboðsmanns í tilvikum sem þessum að hlutast til um að réttar upplýsingar liggi fyrir um raunverulega skuldastöðu skuldara. Þegar skattskylda hvílir á áætlunum skattstjóra sem skuldari fullyrðir að endurspegli ekki raunverulega skattskyldu er það ekki á færi annarra en hans sjálfs að afla þeirra gagna. Hins vegar ber umboðsmanni skuldara í slíkum tilvikum að skora á skuldara með skýrum hætti að leggja fram umræddar upplýsingar og leiðbeina honum um það hvernig hann gæti gert það og hvaða afleiðingar það geti haft, láti hann það ógert.

Þessi niðurstaða leiðir bæði af almennri leiðbeiningarskyldu stjórnvalda á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaganna og 3. mgr. 4. gr. lge. Jafnframt leiðir það af rannsóknarskyldu umboðsmanns, sem kveðið er á um í 5. gr. lge., að umboðsmaður getur ekki tekið ákvörðun í máli fyrr en allar upplýsingar sem máli skipta liggja fyrir. Þessi skylda endurspeglast einnig í ákvæði 6. gr. laganna, b-lið 1. mgr., þar sem kemur fram að umboðsmaður skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrrliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynda af fjárhag skuldara.

Með bréfi kærunefndar, dags. 6. september sl., var kærendum gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn í málinu til að sýna fram á að raunveruleg skattskuld væri önnur og lægri en áætlanir skattstjóra gefa til kynna og þeim veittar leiðbeiningar um hvernig það mætti gera. Kærendum var veittur frestur til 15. september til að leggja fram gögn eða skýringar í málinu og sá frestur síðan framlengdur tvisvar til 6. október sl. Þrátt fyrir þetta hefur nefndinni ekki borist frekari gögn frá kærendum. Á kærendum hvílir sú skylda að afla nauðsynlegra gagna, sérstaklega þeirra sem ekki er á færi annarra en þeirra sjálfra að afla. Það verður einnig að gera þá kröfu til kærenda að þau bregðist eins fljótt við og kostur er í ljósi þess að þau njóta sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar er til meðferðar, á grundvelli tímabundins ákvæðis í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga um svokallað greiðsluskjól, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um greiðsluaðlögun, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010

Eftir stendur að skattskuld B stendur óhögguð sem álagning á grundvelli áætlunar og kærendur hafa engar skýringar gefið um það hvers vegna það hefur ekki fengist leiðrétt. Það er mikilvægt að ekki sé óvissa um fjárhæð skulda sem geta leitt til synjunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Verður því niðurstaðan í máli þessu ekki byggð á því að fyrir liggi með ótvíræðum hætti að kærendur hafi bakað sér skuldbindingu með háttsemi sem varðar við refsingu eða skaðabótaskyldu. Á hinn bóginn er til þess að líta að skuldasöfnun kærenda er með þeim hætti að ekki verður séð að þau hafi staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt á síðastliðnum fjórum árum. Þær skuldbindingar sem stofnað var til vegna fasteigna- og bifreiðakaupa eru ekki nema lítill hluti heildarskulda þeirra eða tæplega 23 milljónir króna ef ekki er tekið tillit til vanskilakostnaðar. Á sama tíma eru heildarskuldir kærenda tæplega 64 milljónir króna. Það fær ekki staðist að meginvanda þeirra megi rekja til lækkandi tekna síðari hluta árs 2008, þar sem tekjur þeirra það ár voru talsvert hærri en árið á undan, og lækkuðu ekki árið 2009 í því mæli að skýrt geti skuldastöðu þeirra nú. Það fær heldur ekki staðist að kærendur hafi staðið í skilum fram til ársins 2008, eins og þau halda fram. Í skuldayfirliti umboðsmanns skuldara má sjá að vanskil þeirra hefjast árið 2004 og aukast jafnt og þétt frá þeim tíma. Hvað sem líður réttmæti álagningar skattstjóra vegna virðisaukaskatts, verður ekki hjá því litið að fjöldi krafna er þess eðlis að líta verður til sjónarmiða að baki ákvæða g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem segir að synja megi um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra og jafnframt til f-liðar sömu málsgreinar þar sem fjallað er um þau tilvik þegar skuldari hefur ekki staðið í skilum eftir því sem honum framast var unnt. Þessar kröfur eru ýmist opinber gjöld eða greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar eða sektir og endurkrafa ríkisins vegna bóta sem greiddar eru vegna refsiverðrar háttsemi annars kæranda. Á meðal skulda af þessu tagi sem kærendur hafa ekki staðið skil á um árabil má nefna vangreidd iðgjöld í lífeyrissjóð vegna áranna 2003 og 2004, ógreidd bifreiðagjöld frá árunum 2005 til 2007 og 2010, auk ógreiddra dómsekta og sakarkostnaðar í refsimáli frá árinu 2004 og öðru máli frá 2009. Þessar kröfur að viðbættum ógreiddum reikningum vegna bifreiðatrygginga og nokkurra annarra smærri reikninga nema nú rúmlega 5 milljónum króna og skýrist stór hluti fjárhæðarinnar af því hve lengi þær hafa verið í vanskilum. Ekki verður annað séð en meginhluti þessara krafna hafi stofnast á tímabili þegar þau voru fær um að standa við skuldbindingar sínar eða eftir atvikum að forðast að stofna til þeirra.

Með framangreindum rökstuðningi er fallist á það með umboðsmanni skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta